Ekkert beikon. Nei nei...

Ég er að átta mig á þeirri ógnvekjandi staðreynd að það er ekki EIN uppskrift í Gyðingamatreiðslubókinni minni sem inniheldur beikon! Ár án beikons er svo gott sem ár án andardráttar! So to speak...

En ekki þýðir að grenja Björn bónda heldur fá sér bara beikon í síðdegiskaffinu í staðinn. Eða bara þegar ég er ekki einmitt að elda kosher máltíð!

Í dag ætla ég að prófa uppskriftina:

Whole Wheat Noodle Kugel with vegetables and Cottage cheese.

Þetta þýðir svona um það bil:

Heilhveitinúðlu-kugel með grænmeti og kotasæluosti. (ég veit ekki hvernig Kugel þýðist á Íslensku- hjálp vel þegin.)

Þetta er einskonar pottréttur. Ég átti ekki heilhveitinúðlur en ég ákvað bara að nota gömlu góðu Honig makkarónurnar í staðinn. Eflaust mikil helgispjöll en þetta er bara ekki fullkominn heimur? Er það?

Innihaldslýsingin er eftirfarandi:

3 msk olía

2 stórir laukar, saxaðir

2 stilkar sellerý, þunnt sneiddir

3 stórar gulrætur gróft rifnar

2 lítil Zucchini (kúrbítur), gróft rifin

salt og nýmalaður pipar

200 grömm (cirka) núðlur eða pasta. Heilhveiti skv. uppskrift en hér förum við beint í brakandi sterkjuna!

1/2 bolli sýrður rjómi, (skv. uppskrift á hann að vera non-fat! Er ekki bara eins gott að hella þá bara útrunninni og súrri UNDANRENNU í þetta staðinn?) Ekkert non-fat fyrir mig, takk.

3/4 bolli kotasæla

1 tsk kúmenfræ

Cayenne pipar á hnífsoddi. (er í raun bragðlaus en gefur "hita" í uppskriftir. Má sleppa ef fólk vill mildann mat.

2 stór egg, samanslegin,

hálf tsk.paprikuduft til að toppa réttinn með. Ef þið eigið reykta papriku er það pottþétt ekki verra!

Nú var það svo að ég var kölluð út í vinnu með stuttum fyrirvara og það á kvöldvakt. Það þýddi að ég varð að skilja matreiðsluna eftir í höndunum á Halla og Björgúlfi. Þeir misskildu aðeins þetta með að rífa grænmetið en skáru það í grófa bita sem breytir auðvitað svolitlu. Svo núna um miðnættið þegar ég kom heim, smakkaði ég réttinn og hann er rosalega góður. Þetta minnir svolítið á Maccaronas ´n´cheese, sem er auðvitað níðþungur réttur, ekkert nema hveiti og ostur en þetta er töluvert léttara enda eini osturinn kotasæla.

Þetta er eldað á eftirfarandi hátt:

Ofninn er hitaður í 175°C og tvær msk af olíu eru settar á stóra pönnu. Látið laukinn krauma í olíunni við hægan eld í ca fimm mínútur. Þá er sellerýi bæt útí og kraumað með þangað til þetta fer að gyllast. Fjarlægið af hitanum, bætið gulrótum og kúrbít saman við og saltið og piprið. Blandið öllu vel saman. Sjóðið pasta/núðlur samkvæmt leiðbeiningum á pakka en ekki fullsjóða alveg. Það á að vera al dente! Sigtið þær síðan yfir vaskinum og látið renna á þær vatn og skolið vel. Látið síga vel af þeim með því að hrista sigtið og skaka því til svo að þið losnið við umframvatn á þeim.

Nú er þetta allt sett í stóra skál ásamt grænmetinu, sýrða rjómanum, kúmeninu og kotasælunni. Blandið vel saman og setjið að síðustu sundurslegin eggin saman við. Það eru þau sem halda þessu saman. Piprið og saltið eftir smekk.

færið þetta í stórt eldfast mót sem búið er að olíubera, látið afganginn af olíunni (1 msk) drjúpa yfir og stráið að lokum paprikudufti ofan á allt saman. Bakið án þess að hafa lok eða álpappír í ca 40 mínútur, -fer eftir ofninum, og hendið svo á borðið.

Ég ætla núna fram að fá mér meira! Það að "lifa eins og gyðingur" á ekki við hér!

noodle kugel

 Ég verð að játa að smátt saxað og stökksteikt beikon hefði algjörlega gert þetta að unaðslegri máltíð. En beikon á auðvitað ekki við þegar eldað er "kosher..."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Okey namm!
Verð að prufa þetta.. Takk :D þú orðar þetta líka svo skemmtilega :)

Svala Sif (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 09:47

2 identicon

Þú ert ÓTRÚLEGA fyndin!!! Plís ekki gefast upp á áttunda degi! Taka gyðinginn á þetta!

lesandi (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband