Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Fallegu Vestfirðir

Af því að fólk var svona hrifið af myndinni í síðustu færslu, held ég áfram að plögga Vestfirðina, sem auðvitað eru laaaaangfallegasti staðurinn í veröldinni.

Gjöriði svo vel:

Fyrst skal frægan telja Hestfjörð í Ísafjarðardjúpi.

Hestfjörður

 Þá kvöldmynd að haustlagi í Dýrafirðinum...þið vitið, þar sem menn vilja sjá Olíuhreinsistöð.... Það er að segja sumir.

Haustkvöld í Dýrafirði

 Sama kvöld í næsta firði. Önundarfirði.

Önundarfjörður

 Bátur í vör Að lokum,

Mjóifjörður í Ísafjarðardjúpi.  Þetta ljóð á vel við og með því kveð ég í dag.

Bátur í vör
með brostna rá
bíður þar sinna endaloka,
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um fjörðinn blá.
Aldrei mun honum, ástin mín,
áleiðis róið til þín.

(úr Næturljóði úr Fjörðum e. Böðvar Guðmundsson)


Seeeiiiinagangur!

Er það bara ég eða er moggabloggið að drepast úr hægagangi? ´´Eg fer nú að færa mig yfir á önnur mið ef þetta ætlar að vera svona áfram!

Ég er önnum kafin. Svo önnum kafin að mig vantar starfskraft. Einhvern yndislegan sem getur komið einu sinni í viku og gert hreint. Ég nenni hreint ekki að eyða mínum litla frítíma í slíkt. Þá er honum nú betur varið í sundi eða sveitinni með drengjunum! Ég borga vel. Á reyndar ekkert sérlega mikla peninga en skal fús láta það litla sem ég þó á af hendi rakna fyrir þetta þarfaverk.

Ég passaði barn í dag og drekkti því næstum í heita pottinum!!! Við vorum um það bil átta fullorðin og slatti af börnum. Öll vorum við að fylgjast með nýju sundrennibrautinni, horfðum öll uppí loft á meðan greyið litla barnið sem ég var að passa spriklaði og barðist fyrir því að ná andanum. Hann gleypti svo mikið vatn að hann ældi í pottinn....... Ég mun líklega fá martröð í nótt vegna kæruleysisins! Ég er búin að vera á tótal bömmer yfir þessu. Skreið samt á foreldafund (þar sem pabbinn var...ég játaði allt undanbragðalaust) og reyndi að vera í stuði. Frábær foreldrahópur sem stendur að krílunum í fyrsta bekk. Ég á von á að það verði skemmtilegt að vinna með því ágæta fólki. Jákvætt og glaðlynt. Ég var líka á foreldrafundi í gærkvöld. Það er önnur saga......

Ég er svo ótrúlega heppin og drengirnir mínir líka. Þeir eru með yndislega kennara sem svo skemmtilega vill til að eru hjón. Hann kennir Björgúlfi og hún kennir Birni. Þau eru frábær og strákarnir mínir himinsælir með þau. Reyndar eru þeir sælir með allt í skólunum sínum. Og þar held ég að jákvæðni okkar foreldrana spili stóra rullu. Þeir læra ekki að nöldra yfir engu og vera með einhvern sparðatíning. Sem betur fer. Ég hef svo lítið umburðarlyndi gagnvart slíku.

Jæja. Ég ætla að fara að sofa. Vinna í fyrramálið, sund seinnipartinn, kvöldganga með tíkina (sem er á lóðaríi...) og svo þvotturinn..... get ekki beðið!!!

gengið með hundinn...


Ég er í kjörþyngd!

Samkvæmt nýjum lífstíl mínum sem hlýtur lögmálum aðlöðunar, er ég í kjörþyngd. Ég er fimmtíu og sex kílógrömm með flatan maga og stinn læri. Það er ekkert bingólegt við upphandleggi mína og undirhaka heyrir sögunni til. Ég er með vellagaða kálfa og passa vel í öll upphá stígvél sem ég máta. Fatastærð mín er aftur komin niður í 34. Ég er ekki með hrukkur, nema bara þessar fallegu í kringum augun og húðslit eru öll horfin. Ör og önnur sjáanleg lýti hafa máðst af líkama mínum, algjörlega sjálfkrafa. Ég er með þykkt og ræktarlegt hár sem síkkar svo hratt að ég get haft það sítt einn mánuð og stutt þann næsta. Ég naga aldrei neglurnar, þær eru vel hirtar og passlega langar. Tennurnar eru hvítar og beinar og munnhol mitt ilmar unaðslega. Líka þegar ég er nývöknuð.

Ég er falleg og svo er ég líka vinsæl. Öllum líkar vel við mig og allt sem ég tek mér fyrir hendur heppnast á besta hátt. Velgengni minni eru engin takmörk sett en þrátt fyrir hana er ég líka hin fullkomna móðir og eiginkona. Á mínu heimili er friður og ró, regla á öllu og allt strokið, hreint og pússað. Þvottafjöll heyra sögunni til og gluggarnir virka nánast sjálfhreinsandi, svo skínandi hreinir eru þeir alltaf. Ég er skarpgreind en reyni ekki að flíka því vegna þess að mér er hæverskan í blóð borin.

Það er dásamlegt að vera ég. Ég er stálheilbrigð og í frábæru formi. Ég get synt, lyft, hlaupið og púlað svo til endalaust án þess að blása úr nös. Orku minni eru engin takmörk sett.

Og eins og ef þetta dugar ekki, þá er ég fjárhagslega vel sett. Ég skulda ekkert en á dágóða upphæð í banka. Þá peninga mun ég nota til að ferðast þegar ég verð sest í helgan stein og nýt efri áranna í vellystingum og heilbrigði allt til dauðadags en hann kemur ekki fyrr en ég hef lifað til fulls og gert allt það sem ég ætla og vil gera. Þegar ég sjálf ákveð.

Reyni einhver að halda öðru fram en ofangreindu, skal þeim hinum sama bent á að lesa bókina "The secret.!"

 

Svona líður mér: Eins og í Vesprée auglýsingu!

Tekið í fyrrasumar, dönsk vinkona okkar.


smá hugleiðing um ábyrgð mína gagnvart börnum mínum......

 Sem foreldri þá hef ég ákveðin boðorð:

Ég gagnrýni aldrei vinnustaði barnanna minna í þeirra eyrum. Það á við um skólann og leikskólann. Mér finnst ég ekki hafa rétt á því að þröngva inn á þau mínum viðhorfum og gera þeim erfitt fyrir, með því að sverta þeirra annað heimili.

Ég tala aldrei niður til þess starfs sem unnið er í skólanum/leikskólanum svo að börnin mín heyri. Það rýrir álit barnanna á starfinu og kennir þeim ákveðna óvirðingu í garð kennaranna.

Ég reyni líka að sleppa því að gagnrýna fólk yfirhöfuð svo að börnin mín heyri. Það gerir þau óörugg með mig og kennir þeim slæma siði.

Hafi ég yfir einhverju að kvarta í sambandi við skóla/leikskólastarfið, sný ég mér að fullorðna fólkinu. Ég geri mig ekki seka um að þræta við starfsmenn stofnannanna að börnunum mínum ásjáandi, né annarra manna börnum. Það gerir lítið úr mér og kennir börnunum óvirðingu. Þau hafa nefnilega ekki þroska til að mynda sér sjálfstæða skoðun sjálf.

Þetta nær bæði yfir stofnanir þær sem hafa afskipti af börnum mínum sem og aðra. Til dæmis hef ég oft, margoft orðið reið og gröm við pabba hans Björgúlfs. Við erum ólíkar manneskjur og höfum afskaplega ólík viðhorf til hlutanna. En ég hef aldrei, aldrei, sagt um hann styggðaryrði svo að sonur minn heyri. Ég ákvað að sonar míns vegna yrði mér að þykja vænt um pabba hans. Ég ákvað að barnið mitt yrði ekki alið upp í stríði á milli þeirra fullorðnu sem eiga að vernda það og kenna því rétt og rangt. Þessvegna hét ég því, að sama hvað gerðist, myndi ég aldrei láta það bitna á barninu. Kæmi einhverntíma skellur, tæki ég hann. Vegna þess að það gera foreldrar. Það var á mína ábyrgð að eignast þennan dreng, það var á mína ábyrgð að tryggja velferð hans. Og barni líður aldrei vel ef foreldrunum líkar illa við hvort annað. Barnið tekur alltaf í hjarta sínu málstað þess sem verið er að níða skóinn af. Sama hvað.

En ég er reyndar svo ákaflega heppin að pabbi hans Björgúlfs míns er frábær maður í flesta staði. Og hann á öldungis fína konu líka. Svo að vandamálið er ekki til staðar. En hefðum við ekki ákveðið að vera umburðarlynd og jákvæð, þá hefði verið afar auðvelt að þykkja andrúmsloftið og gera allt erfiðara.

Þetta snýst allt nefnilega svo mikið um viðhorf okkar sjálfra til hlutanna. Við berum alfarið ábyrgð á þessum viðhorfum okkar sjálf.

Sem foreldri verð ég að kenna barninu mínu hvernig er auðveldast að fara í gegn um lífið. Það er með jálkvæðum viðhorfum. Og umburðarlyndi.

Mér tekst það auðvitað ekkert alltaf. Ekki frekar en öðrum, en með því að ákveða það er ég komin hálfa leið, og yfir því er ég stolt. Ég er til dæmis stolt yfir því að börnin mín þurfa ekki upplifa það óöryggi sem börn upplifa þegar þau heyra foreldra sína rægja aðra. Eða gera lítið úr fólkinu sem börnin þurfa að starfa með alla daga. Eða nagast út í hluti sem litlu máli skipta.

Því að mér finnst þetta skipta mestu máli þegar allt kemur til alls.

Þó ég gleymi oft að setja aukabuxur í leikskólatöskuna. Þó ég muni ekki allltaf eftir foreldraviðtölunum eða öllum fundunum í skólanum. Þó að ég gleymi oft að þvo hendurnar á þeim eftir matinn eða klippa á þeim neglurnar einu sinni í viku.

Ég kenni þeim að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Það er held ég ein af mikilvægari lexíum þessa lífs.

Fallega Hlíðin

 

 

 


Þriðjudagur og Spiderljónið lasið.

Spiderljónið er veikt. Litla stýrið kom inn í svefnherbergi í morgun og sagði: mig langar ekki í skólann mamma. Mér er illt í höfðinu á bak við augun. Hann er með hita og hálsbólgu. Baldur Hrafn er aftur á móti bara veikur af frekju. Héldum í morgun að hann væri lasinn, hann var svo ómögulegur. Tók hvert æðiskastið á fætur öðru, en svo reyndist ekkert vera að honum. Hann fékk því að fara í leikskólann um hádegið. Við skiptum deginum. Ég fór í vinnuna í morgun svo að kostgangararnir mínir fengju sína súpu, sitt brauð og sitt salat, koma svo heim og sendi Halla í vinnuna. Skreið uppí til spiderljónsins og steinsofnaði í tvo tíma. Það var gott. Nema hvað, nú er ég í stuði. Við hjónin skelltum okkur í sund eftir kvöldmatinn sem samanstóð af núðlum og ....núðlusúpu... og ég synti töluvert. Sá mér til mikillar gleði þegar ég steig á vigtina að ég er enn að léttast aðeins, þrátt fyrir reykbindindið. Til að halda upp á það, ætla ég að fara eitthvert þar sem fólk er vakandi á þessum tíma og sníkja kaffi og súkkulaði......

Skelli inn einni gamalli af veiku spiderljóni.

halda á mér....


Leyndarmálið...

Ég á frænku. Hún er myndlistarmaður. Hún er líka aldeilis frábær vinkona mín. Og hún hefur verið að lesa "the secret." Hún hefur mikið predikað ágæti lögmála aðlöðunar fyrir mér en ég hef aldrei þóst hafa tíma til að lesa bókina. Né horfa á myndina. Svo í dag lá umslag á forstofugólfinu hjá mér, innan um allan gluggapóstinn. Brúnt og þykkt. Og ég vissi samstundis hvað væri í því. Og ég vissi samstundis frá hverjum það væri. Samt var ekkert skrifað með sendingunni. Hvorki nafn né annað. Og umslagið lá á hvolfi.......

Bókin var auðvitað The secret og sendandinn frænka mín. Takk elskan. Ég ætla að laða þig til mín. Það er kominn tími á að þú heimsækir mig.

 Listamaðurinn


Sunnudagsdrómi...

Ég fór á fætur um þrjúleytið í dag. Það er engin lygi. Ég var reyndar aðeins búin að rölta fram af og til en sannleikurinn er sá að við fjölskyldan lágum eins og hráviði í stóra rúminu vel fram eftir degi og gláptum á Jim Carrey myndir af nýja flakkaranum hans Halla. (sem hann stalst til að kaupa, en vegna blankheita á hann að vera í græjukaupabanni...hann hefur fengið sína refsingu) Síðan fórum við í sveitina og héldum upp á afmælið með henni Öllu í Dýrafirðinum, lékum við hundana fjóra og tókum upp síðasta grænmeti sumarsins þar. Semsagt, rólegur og aaaafar afslappaður dagur.

Ég var sumsé að vinna í gærkvöldi á LangaManga. Átti að vera frá sex til fjögur en þar sem ég stóð vart í fæturna vegna skurða neðan á þeim, fékk ég að stinga af klukkan tvö. Þá kom Halli og sótti mig. Hann aftur á móti var að spila með Grjóthruninu í Kjallaranum í Bolungarvík. Við fórum þangað til að sækja eitthvað af trommudótinu hans og þá rak mig í rogastans. Um staðinn flæddu formlausar, alkóhóllegnar AMÖBUR!!! Dísus kræst hvað fólkið þar var blindfullt. Og eiginlega bara sorglega .... eitthvað. Ég hef aldrei séð annað eins. Meira að segja vinkonur mínar hentu sér á mig eins og leikarar úr Ópal auglýsingunni og töluðu við mig eins og ég væri heyrnarlaus, með nákvæmlega fimm sentimetra á milli andlits míns og þeirra eigin. Frussugangurinn flóði yfir mig og ég varð hálf blaut í framan, þangað til ég tilkynnti þeim að þær væru of fullar til að hægt væri að tala við þær, kippti í Halla og dró hann heim. Jésús pétur! Fyrir utan var sama ástandið ef ekki verra. Sauðdrukknir einstaklingar rúlluðu upp og niður stigann og næsta nágrenni hússins. Ég hef aldrei sé svona mörg prómill saman komin á jafn litlu svæði. Óhuggulegt.

Kannski þarf ég bara að fara að æfa mig í að drekka aftur. Eins og mér finnst gaman að vinna á bar, þá finnst mér jafn ömurlegt að umgangast drukkið fólk í frítíma mínum. Eiginlega finnst mér það bara hræðilegt. Nema þegar Halli er fullur. Þá er gaman. Það stendur svo stutt yfir og það gerist svo margt skemmtilegt á meðan.

Ég ætla að skríða upp í rúm og horfa á meiri Jim Carrey. Góða nótt og gleðilega vinnuviku.

Mad cow í Öllusveit

 


Föstudagur og veðrið er fallegt

Forvitnin drap kýrnar...Hann Baldur Hrafn er hugaður ungur maður. Og hann stjórnar heimilinu. Á því er enginn vafi. Hann er ekki hræddur við nokkra nautgripi sem má sjá, hunda, ketti, fólk eða önnur ósköp. En hann er skíííthræddur í sundi. Og það er mjög sérstakt því við förum líklega oftar í sund en nokkur önnur bolvísk fjölskylda. Hann er algjör skræfa. Hangir í hálsmálinu á sundbolnum mínum svo að ekki er nokkur einasti maður orðinn eftir sem ekki hefur barið alla dýrðina augum.  En svo allt í einu vildi hann fá að hoppa. Og hann hoppar af bakkanum, heldur í hendurnar á mér og fer á bólakaf og svo strax uppúr. Rosalega duglegur. En um leið og settir eru kútar á barnið og honum sleppt, öskrar hann og segist vera "hrædd." Og segir svo að ég sé "ljótur" við sig að láta hann drukkna.......

Ég eldaði gúllassúpu í dag. Og með henni var ferskt salat með ólífum og nachos-bitum, heimabakað heilhveitibrauð og hummus. Eina manneskjan sem ekki borðar er ég sjálf. Mér hefur verið óglatt í nokkra daga og ef ekki væri búið að skothelda eiginmanninn og hormónavæða mitt leg, myndi mig gruna að ég væri ólétt. En ef svo væri þá væri það ekkert annað en kraftaverk. Og mikill harmleikur. Ég er nefnilega svo innilega sátt við að eignast ALDREI aftur barn. Drottinn minn hvað ég er FEGIN að sá kafli skuli vera liðinn í mínu lífi. En ég vona að ég lifi að verða amma. Það held ég að sé gaman.

Grjóthrun í Hólshreppi á að spila annað kvöld í Kjallaranum. Held að þeir komi til með að slá í gegn. Sjálf verð ég að vinna á LangaManga. En í kvöld ætla ég að liggja í rúminu og gera ekkert! Eftir að ég er búin að henda tilbúna Kjúklingnum úr Samkaup í heimilisfólkið og kokteilsósunni á eftir!


NUUUUUUUDD!!!!

Mig vantar nudd. Ragnhildur, persónulegi nuddarinn minn er í barneignafríi og það lítur út fyrir að hún verði ár í viðbót. Á meðan kræklast bak mitt og herðarnar hnúskast, geðið gránar og granirnar með.....

Halli er reyndar allur að vilja gerður en er auðvitað ekki lærður nuddari.

Býður sig einhver fram???????

Slakað á


Hávaði!!!!!!

Björgúlfur er að læra á Saxófón. Ég þarf að láta hanna svona hljóðeinangrað speis í húsinu.

Ég er búin að missa fjögur kíló. Og er samt ennþá hætt að reykja. En ég borða samt súkkulaði. Stundum. Held að ég hafi bara fitnað af sígarettunum.......


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband