Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Laugardagur

Þegar kemur að kommentakerfinu mínu hefur fólk gjarnan kvartað undan afskiptaleysi af minni hálfu. Þ.e. að ég svari aldrei kommentum. Ég geri það sjaldan, það er rétt. Mér til málsbóta ber að geta að ég mynda alltaf svar í huganum en hripa það sjaldnast niður....... En öll komment les ég með áfergju og af gleði svo að í Guðs bænum ekki hætta að kvitta kæru vinir!

Annars er bara prúður laugardagur hérna í fallegu Bolungarvík sem tekur við endalaust meiri snjó! Snjór er fallegur og felur blautt og rotið grasið. Vissulega. En skyndilega er kominn vorfirðingur í mig. Og ég þrái íslenska sumarið með sínu undursamlega hrossagaukshneggi, heiðlóukvaki, björtum nóttum sem nauðsynlegt er að vaka af og til, grænu, safamiklu grasi með fáránlega gulum sóleyjum og fíflum. Djúpbláum sjó með fyssandi öldum sem bera hressilega og salta hafgolu til okkar á landi. Ég sakna fjörsins á Óshlíð og í Stigahlíð þar sem sjófuglar liggja á hreiðrum, milli þess sem þeir fljúga í óðaönn á haf út að ná í síli fyrir unga sína, gönguferða fram Tungudal á algjörlega kyrrum sumarkvöldum og nestisferða inn í Djúp. Tjaldferða í Reykjanes, að sitja á pallinum mínum með tebolla og hóa í vegfarendur sem koma og spjalla, þiggja tebolla og njóta með mér sólarinnar.

Ég sakna Svarfaðardals. Félaganna úr Bandalagi Íslenskra leikfélaga sem hafa safnast í dalinn í rúman áratug og lagt kapp við að sinna sínu brennandi áhugamáli. Í þessum fallega dal þar sem ég þekki hverja þúfu og hvern stein síðan ég var barn, hafa dagar og nætur liðið í endalausri sælu, gítarspili í brekku, niðurbældum hlátrum um nætur þegar allt á að vera hljótt og ótrúlegum afrekum á daginn þegar allir leggja sál sína í kjöltu Talíu og uppskera að lokum kraftaverk. Jaðrakaninn syngur undir sitt vaddúddí vaddúddí og stelkurinn rænir menn morgunsvefninum. Og þegar sólin byrjar að verma grasið, nú.. eða bræða snjóinn, sem hefur líka skeð, má sjá svefndrukknar og úfnar manneskjur hópast saman í stóran hring úti á flöt, flestar berfættar, og allar teygja þær heldur í átt til sólar, anda djúpt og bjóða nýjan dag velkominn.

Ég hef ekki farið lengi í Svarfaðardal. Ég fer ekki í sumar en kannski það næsta.

Það eru gestir væntanlegir í kvöldmat. Hjöra mín yndislegust, þrágúst og maðurinn sem ég man aldrei hvað heitir. Hann er þó síst verri fyrir vikið. Ég ætla að gefa þeim kjúklinga og svo um miðnættið fer ég á Skýlið að hagræða svæflum við lúin bök, gefa vatn að drekka, opna glugga, loka glugga hvísla uppörvandi orð í þreytt eyru í myrkrinu. Það er oftast ró og friður á vaktinni. Fólkið sefur á meðan hvítklæddar verur ganga hljóðlega um ganga á gúmmísóluðum klossum og sinna næturverkunum. Setjast niður á milli og prjóna, líta í bók eða rýna á einhverja B-myndina í sjónvarpinu. En svo glymur bjallan og þá fara hvítklæddu verurnar af stað og hagræða svæflum við lúin bök, gefa vatn að drekka, opna glugga, loka glugga hvísla uppörvandi orð í þreytt eyru í myrkrinu.................

 


Ég hef ekkert að segja.

svo að ég set bara inn myndir í staðinn. Ég á eftir að tæma myndavélina af fermingarmyndunum svo að þær koma síðar og í staðinn koma bara gmalar af www.flickr.com/photos/ylfa

Gjöriði svo vel, bland frá því í gamladaga :)

Byrja á einni dæmigerðri vestfirskri sólseturs-sumarmynd.

Sólsetur. Tekin frá Óshólavita.

 

Næstur er Kenn Carlsen, danskur gestur sem ég tók með mér í skoðunarferð að nóttu til.

Danskur gestur við vitann.

 

Sigurborg Valrúnardóttir er næsta myndefni. Hún er orðin dani og getur því vonandi leikið sér í sólinni í allt sumar. Þessi var tekin við gamla húsið okkar í Traðarlandi.

Sigurborg hin danska í Traðarlandinu í gamladaga

 

Allir sem hafa ekið Djúpið hafa séð þennan merkilega eyðibæ. Þetta er Angerðareyri, þar var höfn hér áður fyrr og þar landaði djúpbáturinn Fagranes til margra ára. Við komum alltaf við þarna á sumrin, tökum myndir, borðum nesti og bara njótum....

 

Birnir við Arngerðareyri

 

Gamla búrið inni í húsinu Arngerðareyri. Það hvílir angurværð yfir þessum tómu búrskápum og rúðulausa glugga.

Gamla búrið á Arngerðareyri

 

Magali, sem kom með Kenn Carlsen manni sínum sleppti sólsetursferðinni en hamaðist því meira á trampólíninu í staðinn.

Fljúgandi furðuhlutur!

 Að lokum; fiskimaðurinn í Ósvör.

Fiskimaðurinn

Eins og sjá má eru allar myndirnar sumarmyndir. Það stafar líklega af því að ....... ég sé farin að þrá sumar?? Gæti það verið? Í sumar set ég inn vetrarmyndir.

 

 


Hér koma þrjár.....

Fallegi drengurinn hennar mömmu

Blessaður af Sr. Agnesi

Fylgst með


Halli fann ekki buxurnar sínar, Berglind sem gengur undir nafninu vonda stjúpan þrátt fyrir að vera hin allra prýðilegasta stjúpmóðir tók af borðinu og lagaði til, .....

Fermingin gekk vel. Drengurinn minn litli er allt í einu orðinn stór strákur með ryðgaða rödd og hýjung á efrivör. Sem faðir hans reyndar rakaði að morgni fermingardags, ásamt því að strauja af okkur fötin. Og þegar ég segi faðir hans, á ég við föður hans. Ekki eiginmann minn... :) Það er gaman að vera partur af léttklikkaðri fjölskyldu sem þykir ekkert athugavert við það þó móðir fermingabarnsins sé hvorki búin að strauja fermingarfötin né þá heldur ákveða hverju hún sjálf ætlar að skarta klukkutíma fyrir athöfn! Og á meðan móðirin æddi um húsið í örvæntingafullri tilraun til að hafa yngstu meðlimi fjölskyldunnar til, klædd sokkabuxum og brjóstahaldara einum fata straujaði Páll Björgúlfsfaðir skyrtur og skokka og söng"Hlusta á Zeppelin.. og ég ferðast aftur í tímann..." nema hvað að textinn hljómaði meira: sniffa teppalím því ég gleymdi að svara í símann.... eða eitthvað ámóta. Halli fann ekki buxurnar sínar, Berglind sem gengur undir nafninu vonda stjúpan þrátt fyrir að vera hin allra prýðilegasta stjúpmóðir tók af borðinu og lagaði til, Baldur heimtaði að fara ber að ofan í kirkjuna og Birni fannst ekki sanngjarnt að elsti bróðir fengi heilt dress en hann BARA nýja skyrtu sjálfur og gerði allþónokkuð mál úr því....

En merkilegt nokk, þessi fjölskylda var mætt FYRST í Hólskirkju að morgni skírdags! Veðrið var ógeð en það býttaði engu. Dagurinn varð bara dásamlega góður. Drengurinn gekk með öllum fjórum foreldrunum til altaris ásamt litlu systkinunum sem fengu reyndar bara blessun en ekki brauð og þótti Baldri það algjörlega óþolandi og á það ennþá til að röfla yfir því að hafa ekki fengið nammi!

Og þar sem títtnefndur Baldur Hrafn er athyglissjúkur skaphundur sem hefur það þó með sér að vera þvílíkt krútt að það vegur upp á móti geðvonskunni og stjórnseminni, hefur aldrei liðið það að vera ekki aðalnúmerið á mannamótum, varð hann sér úti um eitt stykki lungnabólgu. Hann semsagt veiktist síðla fermingardags og fór svo daginn eftir til læknis sem helst vildi senda hann á spítalann. Við foreldrarnir erum nú orðin svo sjóuð í þessum langdregnu afleiðingum RS vírussins sem hann krækti sér í sem ungabarn að við skellum bara í hann penicillini og höfum hann heima.

Þar sem ég er að ljúka næturvakt þá set ég inn myndir seinna í dag, þeas. þegar ég vakna. Ó já, ég er með veikt barn heima.....uuuu ég sef semsagt eitthvað lítið.. ef eitthvað. Langar einhvern að koma og passa á meðan ég hvíli mig???? Anyone???

Bíð SPENNT eftir viðbrögðunum frá öllum þeim sem segja: Ji já, ég myndi fegin passa fyrir þig ef e´g væri ekki einmitt stödd í Úzbekistan þessa stundina... :)


Ammliammliammliammliammliammli

Halli á afmæli í dag. Hann tilkynnti fyrr í vetur að hann ætlaði sko ekki að láta einhverja fermingu skyggja á afmælisdaginn sinn. Alvara fylgdi nú reyndar ekki máli og hann hverfur alveg í skuggann!!

En hann fær samt gott að borða í kvöld. Það er líka allt sem hann vill ;o)

Hey!!! Hvert er verið að fara!!


Stóri dagurinn

er ekki á morgun heldur hinn! Þá ætlar elsti drengurinn minn að taka Jesúm Krist í hjarta sitt og fylgja honum allt til enda. Skilst mér.

En undirbúningurinn er léttur og löðurmannlegur enda stóð ekki annað til. Gestirnir eru svona að tínast að smátt og smátt og ég er búin að fara í Bónus. Þá finnst mér þetta nú vera komið. Steina frænka frá Danmörku er hérna í Bolungarvík hjá systur sinni sem á einn fermingardreng líka svo að ég fæ að sjá hana aðeins. Yrsa systir, eiginmaður og börn eru á leiðinni með mömmu í farteskinu, R. faðir minn Vilbergsson kemur á morgun með konu og barn, Björgúlfspabbi og stjúpa komu í fyrradag og svo eru föðursystkini fermingardrengsins að koma vestur á morgun. Pabbi og Tóta koma ekki, þar sem þau fara "í gjöf" á morgun á sjúkrahúsinu á Akureyri en þau eru nú samt ábyggilega að bruna yfir Steingrímsfjarðarheiðina í huganum og verða með okkur í anda. Nú, og fleiri verða gestirnir ekki að ég held. Enda er þetta bara fínt. Held að flestir ættingjarnir hafi andað léttar yfir ákvörðun drengsins að hafa enga eiginlega veislu, enda marsmánuður ekki eftirlætis ferðatími fólks. A.m.k. ekki þegar Vestfirðir eiga í hlut!

Jæja, það er best að taka til. Yrsa systir mín kemur áræðanlega með hvíta hanskann og tekur þetta út hjá litlu systur sinni ;o)

Lifið heil.


Marsmadness....

Baldur Hrafn vill stundum fá grillaða samloku með skinku, osti, grænmeti og sósu. Einstöku sinnum eigum við hamborgarasósu, ef hamborgarar hafa verið á föstudagsmatseðlinum nýlega, annars er það tómatsósa eða sinnep. (Föstudagar eru þeir dagar sem drengirnir fá að velja máltíðina)  En núna áðan var ég að fá mér rúgbrauðssneið með osti og auðvitað vel af smjöri þegar krakkinn heimtar rúgbrauðssneið með hamborgarasósu! Þvílík viðurstyggð! Ég neitaði en hann hafði vitanlega betur. Eins og ávallt! Og nú situr hann við hlið mér og málar páskagreinar á milli þess sem hann raðar í sig þessum kræsingum sem rúgbrauð með hamborgarasósu eru! Mér er bókstaflega flöööööökurt! Nú er beðið um meira og það sem Baldur Hrafn biður um, það fær Baldur Hrafn.

Á morgun verður afmæli. Við erum þrjú sem eigum afmæli í mars, ég, Halli og Baldur Hrafn. En af því að það á að ferma erfingjann þá látum við eina vöffluveislu duga. Velunnarar og skyldmenni eru því velkomin í kaffi á morgun, laugardag um fjögurleytið. Ég nenni ekki að hringja út í alla og bjóða þannig að ef þið ekki lesið bloggið, sorrý.....ykkar tap!

Ég átti lunch date með umsjónamanni Skíðavikunnar á Ísafirði í hádeginu. Við slúðruðum í sólinni og nutum veðurblíðunnar á milli þess sem hún svaraði í símann....oft. Ég get ekki betur séð en þessi páskavika á Ísafirði sé sú glæsilegasta hingað til og veit að það er gríðarlegur fjöldi gesta væntanlegur. Hlakka til að fara á Aldrei fór ég suður og sjá veisluna sem þar verður í boði! Og ekki vantar snjóinn! Og í dag skín sólin í logninu, vona að það verði þannig áfram um páskana!

En það er vísast að fara að keyra út tupperwörurnar, fá sér svo eina stutta leggju því að í nótt verðum við R.Ása á næturvakt.... dúdúdúdúmmmmmmm...

www.skidavikan.is

Já, og hér má fá skemmtilega kynningu á IP tölu sinni.... http://www.moanmyip.com/ Góða skemmtun og góða helgi.

 


Karlar eru frá Mars, konur frá Venus.... ?

Ég hef komist að því að fyrir mér fara hugtökin feminismi og minnimáttarkennd saman. Tek enn og aftur fram að það er alfarið mín skoðun, reynsla og upplifun. Jafnrétti er eitt, feminismi er farinn að snúast um allt annað en jafnrétti. Sorrý, ég er bara alltaf að upplifa þetta hjá yfirlýstum feministum, þessa ótrúlegu minnimáttarkennd. Ég er jafnréttissinni. En ég hef aldrei upplifað það sjálf að vera í öðru sæti vegna þess eins að ég er kona. Og kannski er það heppni. Kannski er það bara vegna þess að mér þykir svo sjálfsagt að ég standi jafnfætis karlmönnum og tel þá ekki hafa neina yfirburði yfir mér, aðra en þá líkamlegu. Það er bara augljóst frá náttúrunnar hendi og hefur ekkert með styrk á öðrum sviðum að gera. Og ég er svo sannfærð að ég þarf ekkert á því að halda að ræða það fram og til baka hver kjör kvenna eru í samanburði við kjör karla. En hitt er annað að konur og karlar eru afar ólík, sbr. Venus, Mars og allt það. Og ég blæs á það að sú staðreynd skipti ekki máli.

Ég tek fram að þessar hugleiðingar eru í engu tengdar dekkjaskiptunum í færslu minni hér að framan. Að sjálfsögðu hef ég skipt um dekk á bíl, mikil ósköp, enda átt margar druslurnar og ferðast mikið ein akandi. En þegar kemur að því að skipta um dekk á smárútu viðurkenni ég mig fúslega sigraða og geri mér fulla grein fyrir því að líkamlegir burðir mínir ná hreinlega ekki svo langt.

Nei, hugleiðingar mínar eru af því sprottnar að ég hef ítrekað lent í því undanfarin ár að sjá hversu einstrengingslegar hugmyndir öfgafeminista eru þegar kemur að kvenréttindamálum. Yfirlýstir feministar hafa sagt mér að hygla eigi konum vegna þess að þær séu konur. Hæfar konur, meira að segja. Ég blæs á slíkt. Hygla á hæfum einstaklingum að mínu mati, óháð því hvers kyns þeir eru, hvert litarhaft þeirra er eða hvort þeir tilheyra einhverjum minnihlutahópum eða ekki. Ég neita að láta hygla mér fyrir það eitt að vera kona. Það er fáránlegt og beinlínis kjánalegt í mínum huga. Sjálf vil ég vera metin að verðleikum sem manneskja, ekki sem kona eða karl. Og um það hélt ég alltaf að jafnréttisbaráttan hefði gengið.

En það ískyggilegasta sem ég hef orðið vör við í fari öfgafeminista er húmorsleysi þeirra fyrir "málstaðnum." Sértu ekki á sömu skoðun ertu að svíkja kynsystur þínar! Í versta falli að ráðast persónulega á feministann sjálfan. Og ekki gera ráð fyrir því að feministinn gefi eftir um tommu! Nei! En takist henni/honum ekki að "snúa" þér á sína sveif, móðgast hann/ hún. Þess ber að sjálfsögðu að geta að ég þekki líka fullt af jafnréttissinnuðum konum og við þær er skemmtilegt að tala. En ekki þær kvenréttissinnuðu. Það nefnilega endar alltaf með því að samtalið tekur stefnuna: það þýðir ekkert að ræða þetta við þig, og: fólk eins og þú, og: það er konum eins og þér að kenna hvað kvenréttindabaráttan er skammt á veg komin! En því er ég aldeilis ósammála. Ég held að fáar jafn öflugar þjóðfélagsbreytingar hafi tekið jafn gríðarlegum stakkaskiptum, á jafn ótrúlega stuttum tíma og jafnréttisbaráttan. Og auðvitað er jafnrétti sjálfsagt! Á því er enginn vafi. En ég blæs á það að hlutföll kynjanna eigi að vera jöfn þegar kemur að tímafrekum störfum eins og þingmennsku, stjórnun fyrirtækja og þar fram eftir götum. Ekki af því að konum sé ekki treystandi fyrir ábyrgð! Síður en svo! Heldur einfaldlega vegna þess að konur eru ekki eins og karlmenn!! Mars og Venus, gott fólk. Það eru bara færri konur sem hafa áhuga á metorðum af þessu tagi. Konum er einfaldlega frekar umhugað um að hlú að fjölskyldu sinni. Ala upp börnin sín. Eyða tíma með þeim. Og það er ekkert rangt við það! Og það eru engin svik við kynskystur þær, sem vilja frekar klífa metorðastigann. Þetta er einfaldlega val. Og um það snérist jafnréttisbaráttan í upphafi, tel ég. Að hafa val! 

Við vitum vel og sjáum að heimili sem eru rekin af tveimur fullorðnum einstaklingum sem vilja "meikaða" í atvinnulífinu, bera mikla ábyrgð utan heimilisins ásamt því að sinna nefndarstörfum og tómstundum, líður fyrir það. Börnin líða fyrir það. Það er ekki tími fyrir þau. Og eins og ég hef oft sagt áður: gæðastundir eru ofmetið hugtak samviskubitinna foreldra. það kemur ekkert í staðin fyrir það öryggi sem barn finnur við það eitt að hafa ríkan aðgang að foreldrum sínum. (að því gefnu að foreldrarnir séu almennilegir!!) Jafnréttisbaráttan ætti frekar að snúast um það hversu bráð nauðsyn það er í okkar nútíma þjóðfélagi að við getum eytt meiri tíma með börnunum okkar. Og mér finnst feminismi ekki snúast um það.

Þeir öfgasinnuðu feministar sem ég hef haft kynni af í gegnum tíðina, eru ekki margir og ég ítreka: ég þekki margar jafnréttissinnaðar konur sem er allt, allt annar handleggur. En þessar sem tala hvað hæst og mest um breytingar á heiminum í þágu kvenna og tekst ávallt að koma kvenfrelsisumræðunni í gang hvar og hvenær sem er, jafnvel þó enginn viðstaddra hafi á henni áhuga, minna mig oft á garðyrkjumenn sem ráðast með klippunum á hekk nágrannans og heimta að hann hafi garðinn sinn svona en ekki hinseginn. Á meðan kafna rósabeðin í eigin garði, í arfa og illgresi og blómin sem þar vaxa vantar bæði vatn, næringu og sólarljós. Umfram allt, athygli garðyrkjumannsins.

Ég segi með stolti: ég er jafnréttissinni, ég vil sjá konur og karla hvar sem er í heiminum búa við mannsæmandi kjör og hin sjálfsögðu mannréttindi að hafa val. En feministi er ég ekki. Og ég vil ekki vera slíkur.

 

 


Þessi fallegi dagur....

Við Gunna mín af Rúv ókum vestur í gær í dýrðinni einni saman. Sól skein í heiði og landið lá undir hvítu ábreiðunni. Þvílík ævintýraveröld! Lognstilla og spegilsléttur sjór og hálkan, maður lifandi! Úff. Eins gott að dagurinn væri svona íðilfagur því að nógu vorum við lengi á leiðinni. Í Vatnsfjarðarmynni sat haförn í sólbaði á nálægum steini og glápti á okkur á móti og ég hef aldrei, aldrei blótað neinu jafn mikið og að vera ekki með myndavél þá! Hann þandi út vængi og flaug á milli steinanna svo að við fengum svo sannarlega sýningu í lagi! Bíll var á eftir okkur og við snöruðumst út og skipuðum viðkomandi að taka mynd á augabragði! Sem hann og gerði með loforði um að senda okkur hana gegnum email en ekkert bólar á henni.....

Það passaði að eftir æsispennandi keppni við olíutankinn (við unnum og náðum í Súðavík áður en honum tókst að tæma sig) sprakk á bílnum fyrir utan Bónus á Ísafirði. Halli minn var kallaður út, enda telst Starexinn, sú smárúta ekki til þess að vera konubíll. Og þar sem ég er ekki feministi þá hvarflaði ekki að mér að reyna að skipta um dekk. En það gerði Halli og vorum við Gunna sammála um að bónbetri karlmaður en hann, væri ekki til.

Svo var það bara næturvakt svo að nú er morgun hjá mér, önnur næturvakt í kvöld og svo tveggja daga frí. Vinna á helginni og svo er bara komið að FERMINGU!

Þýðir það að ég er orðin gömul??

Nú þarf ég á pósthúsið að sækja ammlisgjöf fyrir Baldur minn. Hef grun  um að hún sé frá afa Rúnari. Sem heldur brátt upp á 1 árs afmæli bróður míns :)


Söruhús!

Skyndilega hringdi síminn síðla gærdags og mér var sagt að ég gæti fengið far frá Ísafirði til Reykjavíkur ef ég yrði komin inn á Ísafjörð eftir hálftíma. Og heima sat ég, óuppdregin og úfin, bíllaus með tvö lítil stýri sem ekki var hægt að hlaupa út frá! Ég hringdi nú samt í Halla minn og spurði hann hvar hann væri. Á Óshlíðinni! Á leið heim! Viltu skutla mér á Ísafjörð? Jájá, ekkert mál

Skemmst frá því að segja að við lögðum af stað frá Útvarpinu, ég, Sigga og Gunna á Rúv, Jón Björnsson Hornstrandafari og fórum á mínum eigin bíl eftir allt saman. Sigga léði Halla sinn bíl á meðan. Færið var ekki það ákjósanlegt að við legðum upp með að fara á fólksbíl sem betur fer! Við vorum átta tíma á leiðinni með örstuttu stoppi hjá "Jóa Frænda" í Hólmavík, þar sem allt var lokað, við þyrst og þurftum á klósett. Jói frændi tók okkur opnum örmum með heitu kaffi og molasykri.

Nú er bara á áætluninni að fara í sund, svo verður lagst yfir DVD og ef einhverjar sætar vinkonur vilja hitta mig þá mega þær heimsækja mig í kvöld á milli átta og tíu þar sem Sara og Gísli eru að fara á Lions.. eitthvað og ég verð ein með kisunum í kotinu. Á morgun verður svo sama dagskrá, sund og DVD :o)
Straujað heim í bítið á mánudag.

Svona er lífið, það er séð fyrir öllu fyrir mann. Það sem á að gerast, gerist. Annars ekki...... þannig séð...

Knús í netheima.

ylfa&sara

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband