Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Þar sem norðursins fegurð....

...ríkir ein ofar hverri kröfu!

Það er svo fallegt á haustin. Veðrið getur aldrei ákveðið sig, sól og rigning í sama vetfangi og fallegir regnbogar prýða himininn dag hvern. Þessi hreina og tæra haustlykt sem minnir mig alltaf á bernskuna á Dalvík þegar maður gekk í skólann og braut ísskæni af pollunum með nýju kuldastígvélunum, í nýrri úlpu og andaði gufu útí loftið. Alltaf svona einhver sérstök stemmning yfir þessari árstíð.

Ég fór í Líffæra og lífeðlisfræðipróf í morgun. Mér gekk alveg prýðilega. Nema að ég hafi bara vaðið í villu og svíma og talið mig vita öll svörin og fái svo bara þrjá! :) Held samt ekki. Mér var svo létt þegar ég sá að ég réði alveg við þetta því að í sannleika sagt svaf ég varla í nótt vegna kvíða! Allt getur maður nú gert sér að kvíðaefni!

Nú ætla ég að vaska upp, fara í gítartíma, fara með drengina mína í íþróttahúsið og leyfa þeim að svamla í lauginni á meðan ég er í sundleikfimi, henda brauði, eggjum og einhverju snarldrasli á kvöldverðarborðið og skríða svo snemma uppí með sálfræðibókina og lesa um ....viðbragðasvörun...... eða eitthvað.

Fallegt.


Prófundirbúningur

Ég á að fara í próf í Líffæra og lífeðlisfræði á mánudaginn þannig að Halli skutlaði mér yfir á Flateyri eftir hádegið og hér sit ég í eldhúsinu hjá Guðmundu skólasystur minni og við erum í smá pásu frá náminu. Við erum búnar að borða hálft kíló af nammi...ðööööööhhh.... og drekka töluvert af kaffi með. Við sjáum fram á að fá á bilinu 0 til 6 í einkunn...

Í morgun fórum við snemma á fætur, Birnir og ég. Hann fór á boltaæfingu og ég skellti mér í jóga. Það er laaaang síðan ég stundaði jógað hjá Elínbet og ég fann það svo sannarlega á skrokknum!! Lærin á mér nötra enn af álaginu! Það er svo ótrúlega margt í boði núna í Víkinni fyrir þá sem vilja hreyfa sig. Jóga, hörkupúl í ræktinni, Areroboxing, danshópar í Einarshúsi, sundleikfimin sem mér finnst svo æðisleg, stafagönguhópar...... möguleikarnir eru endalausir og það er vel sótt í þetta allt! Enda veitir ekki af. Vetur konungur er farinn að undirbúa komu sína með nöktum greinum trjánna, rauðum, gulum og appelsínulituðum fjallshlíðum, hvítum tindum og haustlægðum. Tími ullarteppanna, flóaðrar mjólkur með kamillu og hungangi er runninn upp og þá er svo nauðsynlegt að hreyfa skrokkinn sinn til að breytast nú ekki í þunglynda sófakartöflu í vetur.

Ég er á tólf-spora námskeiðinu í Holti, búin að fara í tvö skipti og sökkva mér ofan í námsefnið. Mér finnst eins og þetta sé eitt af því besta sem ég hef gert á ævi minni. Þetta verður verkefni, erfitt verkefni enda sál mín tætt og lemstruð líkt og hjá öllum öðrum. Nú er ég að æfa mig í umburðarlyndinu. Að taka það ekki sem persónulega árás þó aðrir séu á allt annarri skoðun en ég sjálf. Það er allt í lagi. Og mig langar til að verða fær um að umgangast allskonar fólk án þess að nokkur fari í taugarnar á mér. Án þess að dömpa minni eigin vanlíðan og óöryggi yfir á aðra. Að hætta að gagnrýna hegðun annarra til að breiða yfir mína eigin galla.  Þetta er verkefnið mitt akkúrat núna. Og ég gleymi því oft en man það samt stundum. :)

Nú er Guðmunda farin að gera athugasemd við hversu lengi ég hef verið í pásu.... best að fara að huga að marglaga flöguþekjum og ísótónísku-jafnseltnu....einhverju.

God bless.


einn og fimmtíu á kant.

Birnir Spiderljón Ringsted er afar lítill eftir aldri, grannvaxinn og undurfagur eins og blómálfur. Með heljarstór gráblá augu og augnhár sem væri hægt að festa undir götusóparabílinn með þeim afleiðingum að göturnar yrðu tandurhreinar. Hann er óttalegt strá, þessi elska en hann kann vel að svara skilmerkilega og á skeleggan hátt ef því er að skipta.

Eins og ég hef stundum sagt þá er ég svona sirka einn og fimmtíu á kant. En það er svosem allt í lagi og hér í Bolungarvík á ég margar "sisters in the FLESH." Eitthvað voru börnin í öðrum bekk grunnskólans að ræða mæður sínar blessaðar og ein bekkjasystir Birnis heyrist segja:

Mamma mín er alveg svooooona stór! (hún býr til ímyndaðan stóóóran framhluta á sinn litla búk með höndunum)

Iss! svarar litla prikið mitt. Mamma mín nær nú alveg útí næsta vegg!!!!

Komdu nú, Urta mín!

Góða helgi!

 


Mánudagur

Notaleg helgi að baki. Sundferðir laugardag og sunnudag eins og vant er, matur með góðu fólki og huggulegheit. Á laugardagskvöldið fór Halli á lögguvakt fram á næsta morgun en ég var svo ljónheppin að Guðmunda, vinkona mín og bekkjasystir, kom og gisti hjá mér ásamt dóttur sinni. Gaman frá því að segja, enda ekki oft sem rígfullorðnar konur hafa svona náttfata "sleepover!" Við kjöftuðum langt fram á nótt og héldum svo áfram næsta morgun. Ég var voðalega fegin að hún kom til að gista því að mér er ekkert sérlega vel við að vera ein heima heila nótt eins og staðan er akkúrat núna. Eins og mér finnst nú oftast notalegt að vera ein af og til.

Það er í hæsta máta sérkennilegt mig dreymir Valrúnu hverja einustu nótt! Þetta er líklega 5. vikan sem hún heimsækir mig í svefni? Hún vill meina að ég þurfi að ræða þetta við sálfræðinginn minn og þegar ég fari í heilasneiðmyndina í október komi bara mynd af henni!! Það er allt eins líklegt. Enda finnst mér þetta orðið ágætt hjá henni. Það sé alveg að koma tími á fyrir hana að koma aftur heim!! En það er auðvitað bara af því að ég er svo eigingjörn!

En nú er ég að fara í sundleikfimina, mér heyrist strákastrollan ætla með mér öll eins og hún leggur sig sem er ágætt nema fyrir það að mamma gamla er að koma á eftir með fimmvélinni og þá verður enginn heima nema Urta til að taka á móti henni........


Kippt niðraf háa hestinum

Heilbrigði er krafa sem manni finnst sjálfsögð. Þangað til að einhver sjúkdómskrumla læsir sér í líkamann, -nú eða sálina, um lengri eða skemmri tíma.  Þá lítur maður á það sem heilmikla árás á manns eigin prívattilveru! Svo kemur einskonar auðmýkt upp á yfirborðið. Auðmýkt gagnvart heilbrigðinu. Það kostar að halda heilsu, það fattar maður kannski þegar hún er ekki alveg eins og hún "á að vera." Svo eru það auðvitað þeir sem hafa bara ekkert um það að segja. Þeir sem fæðast heilsulausir eða slasast, fá illvíga sjúkdóma sem kannski eru arfgegnir og svo frv.

En þetta vitum við nú öll og lítið um það að segja. Þetta var bara svona örstutt upprifjun og þá meira fyrir mig en ykkur! :)

Nú er það nýjasta uppi á tengingnum flogaveiki. Að ég geti verið að fá einskonar krampalaus flog sem sendi svo þessar boðtruflanir til hjartans svona rétt í leiðinni. Það kemur líklega í ljós þann 13. okt þegar ég fer í myndatökuna og línuritið. Mér finnst bara svo helv.. langt þangað til. Sérstaklega í ljósi þess að þangað til má ég ekki keyra bíl né neitt annað sem getur sett annað fólk í hættu. Skynsamlegt? Já, vissulega. En djöfulli frelsisheftandi um leið! Það vill til að ég er umkringd dásemdar fólki sem nennir að drasla mér í Bónus, sækja fyrir mig Baldur á leikskólann þegar ég er slöpp, keyra mig heim úr skólanum og meira að segja fara með mig í sund! Já, það er nú bara þannig orðið að maður fer ekki einn í sund. Það væri laglegt að fá kast í lauginni og damla svo bara eins og hvert annað stórhveli í hálfu kafi! Það er nú ekki lengi að gerast.

Mér finnst mér hafa verið kippt úr tilverunni og eyddi gærdeginum í að vorkenna mér alveg agalega. Grenjaði eins og stunginn göltur meira en grís, og fannst sem lífið væri mér heldur ósanngjarnt! Hellti úr skálum sorgar minnar og vonbrigða yfir tengdamóður mína sem tók því með jafnaðargeði og leyfði mér að fjasa og blása góða stund. En svo í dag er ég eiginlega svo þakklát og glöð. Ég er svo glöð að eiga svona margt sem mér er annt um, svo þakklát fyrir að eiga svona góða að, glöð OG þakklát fyrir öll tækifærin sem mér bjóðast og svo mætti lengi telja. Á eftir ætla ég til dæmis í sund með vinkonu minni og svo með öðrum vinkonum í Holt í Önundarfirði. Þar fer fram Tólf spora kerfisskóli sem ég ætla að sækja í vetur.

Enda á mynd sem var tekin í sundleikfiminni í gær.....

stolið af visir.is


Stormur skekur húsið, gólfið nötrar og í dag er ég vesælt hró.

Erfinginn, þ.e. elsti sonurinn kom heim með spangirnar í gær. Það vakti furðu mína hvað mér finnst þetta lítið lýti á drengnum! Ekki svo að skilja að hann sé ekki hinn myndarlegasti piltur, -nei, það vill bara svo oft verða þannig að munnsvipur krakka afbakast þegar þau fá teinana. Hann er helaumur í munninum og þiggur verkjalyf sem hann annars gerir aldrei. En það á víst að lagast á tveim-þrem dögum.

Í morgun vaknaði ég hin hressasta í skólann, smurði nesti oní fjölskylduna og brunaði svo í siðfræðitíma. Því næst var tími í hjúkrun og þar sem ég sit alltaf fremst, (kennarasleikja) sé ég kennarann þegar hann talar, sem er mér nauðsyn. Ég skil varla fólk þegar ég sé ekki framan í það. Skyndilega verður andlit þessarar góðu konu sem mér kennir það eina sem ég sé. Allt í kring er bara flökt og ég finn hvernig röddin hennar færist alltaf fjær og fjær þangað til ég stari bara á andlitið og sé munninn hreyfast. Og ég finn að ég er alveg að detta út. Mátturinn þverr og skyndilega hverfur allt. En bara í augnablik. Smá saman kem ég til sjálfrar mín, fer fram á bað og skvetti köldu vatni í andlitið, klára tímann og hringi svo í Halla og bið hann að keyra mig heim. Ég var algjörlega máttlaus og gat ekki einu sinni borið töskuna mína útí bíl. Þegar ég kom heim, svaf ég í nokkra klukkutíma eins og grjót, sem virðist vera fylgifiskur þessara kasta. Svo fór ég ögn að hressast eftir kvöldmat og er að ná smá orku aftur.

Ég segi það satt, ég veit ekki hver andskotinn gengur að mér. Ég skil ekki þetta ótrúlega máttleysi í kjölfar þessara kasta? Og ég get ekki tengt þetta við neitt. Ég er bara orðin dálítið leið á þessu. Ekki svo að skilja að ég viti ekki að það er til fullt af fólki með erfiða sjúkdóma og auðvitað er ég ekkert nema heppin! En mér finnst svo erfitt að vita ekki hvað er að mér. Ef ég vissi það þá gæti ég a.m.k tekist á við það eftir fremsta megni. Ég fer í heilasneiðmynd, segulómun eða hvað þetta nú heitir, og línurit þann 13. október. Kannski kemur bara í ljós að það er ekkert nema marmelaði í höfðinu á mér! Það myndi útskýra ýmislegt!! LoL

Ég sit í hornherberginu og rokið skellur á veggnum. Gólfborðin nötra og rúðurnar virðast við það að springa! Ég er að vona að garðurinn hjá mér sé ekki fullur af drasli...? Held ekki. En ég á algjörlega ekki að vera að blogga, heldur gera verkefni í Líffæra og lífeðlisfræði. Svei mér ef það fjallar ekki um líffæri fruma..... eða eitthvað álíka spennandi!

Það er best að reyna að hella sér í það.


Síðustu dagar hinna riðluðu tanna....

Elsti sonurinn er farinn suður aftur. Nú á að víra saman á honum efri skoltinn svo að tennurnar í hinum réttist. Á næsta ári á að rétta neðri góm líka. Hann verður því annar í röðinni í þessari fjölskyldu sem styrkir tannréttingalækni. Haraldur, með sitt undurfagra bros fór í tannréttingar hér í den. Þetta er ekki gefið, það veit Guð. Djöfuls óheyrilegur kostnaður við þetta! En fallegar tennur eru eiginlega það mikilvægasta í útliti fólks, finnst mér, og rétt bit náttúrulega nauðsyn. Það þýðir því varla að grenja yfir útgjöldunum.

Ég ætla á næturvakt í nótt. Fyrsta næturvaktin síðan í júníbyrjun! Þá fór ég í frí, síðan að leysa af í eldhúsinu og hef svo verið í veikindafríi í tvær vikur! Ef það verður rólegt þá glugga ég nú í skólaskræðurnar, annars ætlum við Híramía, sem er með mér í náminu, að hittast á morgun og hún ætlar þessi elska að setja mig inn í það sem ég hef misst úr. Sem er ekki svo lítið.

Ég býð svo bara góða helgi og segi að lokum við Sörufrænku: Elsku Sara: ég get ekki svarað neinu af þessu í klukkinu frá þér, ég man ekki nokkurn skapaðan hlut! Nema jú, ég hef unnið við fiskvinnslu, matreiðslu, framreiðslu og aðhlynningu. Bíómyndanöfn man ég aldrei og þær myndir sem höfðu mest áhrif á líf mitt sá ég þegar ég var lítið barn og hefði ekki átt að horfa á! En takk fyrir að hafa þessa trú á mér...... ;o)

 


Framhaldssagan úr Gollurshúsum....

Kransæðar mínar eru eðal. Eða eins og ég myndi segja, væri ég ekki jafn pen og ég er: hæfilega víðar eins og kvenmannsklof. Engar skemmdir, engin þrengsli og bara dásamlegar. Eins gott. Hugsið ykkur bara ef ég þyrfti að hætta að borða smjör.... eða ost??? Eða nýtínd aðalbláber með rjóma!

Eftirfarandi upplýsingar eru langar og leiðinlegar og settar inn fyrir ættingja og vini sem báðu um nákvæma útlistun. Annars er hætt við að gemsareikningar verði allháir! Þeir sem ekki hafa áhuga á sjúkrahússögum og læknarómönum, hætti að lesa hér.

Næst liggur við að fara í rafmagnsstólinn. Það er einhver hryllingsskoðun eða athugun sem felst í því að framkalla með rafmagni, allskonar hjartakomplexa. Hraðslátt, stopp, og þesskonar "álag." Um leið er reynt að greina hvernig hjartað bregst við og hvaðan villuboðin mín koma. Þá er mögulegt að hægt sé að brenna fyrir leið þeirra eða eitthvað. Það er ekki eins og ég hafi náð þessu fullkomlega..... En það tekur ár að bíða eftir þessu. Minnst. Biðlistar Íslenska heilbrigðiskerfisins eru langir og Uggi Agnarson hjartalæknir sagði mér að það tæki líka ár að bíða eftir þræðingu. Ég spurði forviða hvort að fólk hreinlega dæi ekki bara á meðan það biði? - Sumir, svaraði hann.

Og ég spyr: HVAÐ ER AÐ????  Finnst fólki bara allt í lagi að velferðarkerfið Ísland sé með buxurnar niðrum sig í helbrigðiskerfinu á meðan til eru peningar í einkasjóffera og dagpeninga fyrir ráðamenn þessarar þjóðar???

En, alltsvo, á meðan við höldum bara áfram að láta taka okkur ósmurt, ætlar einhver annar læknir að athuga hvort heilinn á mér starfi eðlilega (glætan) og því á ég að fara í heilalínurit í dag. Hann Uggi blessaður, með sína óendanlegu visku, fékk þá flugu í höfuðið að yfirliðunum gæti mögulega valdið einhver heilaspassmi eða krampi sem sendi einhver trufluð boð til hjartans....... þetta verður æ meira spennandi og......flókið. Hjá höfuðsóttarlækninum var rosalega langur biðlisti en honum Ugga tókst að troða mér inn klukkan þrjú í dag. Heimferðinni seinkar því aðeins. En skítt með það.

Þá er skýrslunni lokið. Drengirnir eru orðnir hundleiðir hver á öðrum og ættu með réttu að vera í skóla og leikskóla. En þar sem ég varð að hafa eiginmanninn með, urðu blessaðir drengirnir að fylgja. Sá stóri flaug heim eftir að tekin voru mót af tönnunum í honum í fyrradag og er hjá Auði og Rúnari í góðu yfirlæti. Aumingja Halli þarf að aka konunni í allar rannsóknirnar og viðtölin því að það væri nú verra ef konan ylli miklum umferðartöfum með þessu veseni sínu. Nægar eru umferðartafirnar fyrir!!

Valrún mín, eða Vega-Valla, átti afmæli í gær. Ég man ekki hvað hún varð gömul.... fjörtíuog eitthvað, en ég vona að hún hafi notið dagsins. Mig dreymir hana á hverri einustu nóttu, gæti verið söknuðurinn bara. Held samt að það tákni frekar að hana langi heim til mín :)

Kveðjur úr Gollurshúsum.


Við sundin bláu???

Hvernig fór ég að því að búa hérna í RVK? Þó átti ég bara eitt barn megnið af tímanum og tvö rétt í restina. Púff. Tíminn sem fer í að bíða eftir því græna er ótrúlegur. Strákarnir skilja með engu móti af hverju þeim mega ekki "bara fara út að leika.?"

 Á næturnar er val: sofa með lokaðan glugga og fljóta frá úr rúminu í eigin svita, eða -hafa gluggann opinn og hlusta á andskotans umferðaróhljóð að utan. Og nota bene, við erum sko í GARÐABÆ! Og ferðin á fólkinu! Maður lifandi hvað tíminn hér er dýrmætur! Maður má bara þakka fyrir að vera ekki í vegi ábúðafullra vegfarenda sem storma framhjá manni, og maður stendur ringlaður eftir í reyknum.....

Lyktin er ekki góð. Það er engin ilmur í loftinu af þangi, blóðbergi eða ný-ábornum skít á túni. Það er þefur af bílum. Það er engin fögur fjallasýn nema af stöku stað og þá er fjallasýnin of langt í burtu til að maður nenni að fá sér göngutúr til að komast nær dýrðinni.

Mig langar bara að fara heim. Því að þó að Bolungarvík sé í augum sumra skítapláss´, þá er hún lítið og fallegt skítapláss. Ekki stórt og ógnvekjandi gímald þar sem allt hreyfist og gerist svo hratt að hillbillíjar eins og ég eru í slómói miðað við umhverfið. Mér finnst Reykjavík vera ljótt og stórt skítapláss.......

En hvað sem því líður þá fer ég á morgun til hans Ugga Agnarsonar sem mun tjá mér hvort ég sé með skemmdir á æðakerfi hjartans. Vonandi er ekki svo og þá á ég von á að hann segi mér hvað skuli gera næst. Það er svo slæmt fyrir nef- og tannheilsu mína að vera sífellt klessandi trýninu ofan í gólfin.

Já og eitt í lokin.....

Moli Lýðsson braust inn í húsið mitt fyrir viku síðan sléttri og hafði heimasætuna með sér á brott. Fóru þau til fjalla líkt og Halla og Eyvi forðum en skiluðu sér eftir þó nokkra klukkutíma. Það fá því líklega allir sem mér þykir vænst um lítin og loðin jólapakka.........

 


Stuðningsyfirlýsing

 Vissir þú að:


• Byrjunarlaun ljósmæðra eru helmingi lægri en
verkfræðinga með meistaragráðu?
• Laun ljósmæðra eru með því sem lægsta sem
gerist innan Bandalags Háskólamanna þótt nám
þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er af
ríkisstarfsmönnum?
• Að ljósmæður eru kvennastétt?


                        Ég styð kjarabaráttu
                                ljósmæðra!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband