Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Hálf milljón og tapað nef.

Flotta dívunefið er aftur orðið að mínu hversdagslega og lítilfjörlega nefi. Hefði alveg verið til í að halda hinu svolítið lengur. En samt án eymslanna. En ekki er á allt kosið og ég má bara þakka fyrir að hafa nef yfirhöfuð. Sér í lagi af því að ég hygg á að syngja töluvert með mínu nefi. Ég er að plana aðra tónleika. Langar að hafa þá um miðjan febrúar og er í samningaviðræðum við tónlistarmennina sem mig langar að spili. Ég þarf ekkert að hafa mikið fyrir trommaranum, hann er alveg viðráðanlegur. En einhverja gulrót þarf ég að hafa á hina. Þeir fá auðvitað staðgóðan mat þrisvar á dag, uppbúin rúm og töluvert af knúsi og strokum meðan á dvöl þeirra stendur, ég veit bara ekki hvort þeim þyki það nóg..... Ég þarf því að hafa uppá eitthvað að bjóða. Annað en peninga alltsvo. Ég á nú ekkert af þeim.....

En ég á tvo ónýta bíla. Annar er reyndar viðgerður og bíður þess eins að verða sóttur á bílaverkstæði á Ísafirði. Það strandar einungis á því að viðgerðarreikningurinn er litlar FIMMHUNDRUÐ OG TÓLF ÞÚSUND....... og ég er að tala um nýkrónur.... Og er það fyrir utan vélarhlutann sem var ónýtur og ég keypti spes að sunnan. Tíminn á verkstæði kostar áttaþúsundkall. Og nú er bara að reikna.....

Ég ætla rétt að vona að þessi viðgerð dugi næstu tíu árin.  Bifvélavirki nokkur sagði mér að á hans verkstæði létu menn aldrei spyrjast út að þeir væru svona lengi að setja saman vél. Það væri vont fyrir orðsporið. Hann hefur nú verið ráðinn sem persónulegur bifvélavirki fjölskyldunnar. Enda veitir ekki af.

Prófin bresta á næsta þriðjudag og nú er að taka á honum stóra sínum. Jólin eru smásaman að læðast inní húsið, búin að þrífa smá, búin að skreyta smá og Halli búnað flísaleggja smá í kjallaranum. Þetta er allt að koma. Snjór úti og helst vonandi framyfir jól.


Með nýju nefi.

Mig hefur alltaf fundist svo æðislega flott að hafa svona reisulegt og mikið nef!

Kónganef, arnarnef, söðulnef og hnútunef!

Sjálf er ég bara með svona frekar kartöflulagað nef. Var alin upp í þeirri trú að það væri gríðarstórt en komst svo að því síðar að það væri hvorki stórt né merkilegt. Það líklega hefur kynnt undir ástríðu mína gagnvart stórum og miklum nefjum.

Mér áskotnaðist einmitt svona reisulegt nef í dag þegar ég lenti uppá kant við vaskbrún í vinnunni. Frí augnmálning fylgir í kjölfarið á næstu dögum svo að ég hef ótrúlega dívulegt útlit. Verst að þetta endist líklega ekkert nema nokkra daga! En á meðan nýt ég nýja útlitsins.

Ég er hrifin af þessu nýja nefi og fari ég einhverntíma í andlitslýtaaðgerð, verður það til að fá fallega bogadregið og háreist nef. Það klæðir mig. Ekki spillir smá hnútur svona alveg efst við nefrótina! það er smart!


Á einu ári

Í dag er eitt ár liðið síðan að pabbi minn kvaddi jarðarlífið eins og við þekkjum það fyrir fullt og allt. Og ég sakna hans. Ég finn alltaf meira og meira fyrir því hvað ég sakna hans. Þegar maður er orðinn fullorðinn og er ekki lengur í daglegu sambandi við foreldra sína finnur maður ekki endilega fyrir söknuðinum fyrr en hin ýmsu tímamót ber upp. Afmæli, jól, páskar, sumarleyfi.... Og svo einhvern vegin lokast hringurinn á árs dánardægri og tilfinningin um missinn verður varanleg. Mann langar í eitt tækifæri enn. Eitt tækifæri til að spjalla, eitt tækifæri til að strjúka vanga, faðma, horfa, hlæja með, deila með.... Þetta eru tilfinningar sem allir þekkja. Ekki bara mínar tilfinningar. Ykkar líka. Allra sem hafa misst og fundið fyrir söknuði.

Á einu ári hafa liðið jól, afmæli, páskar, tyllidagar, sumarfrí, hversdagslegir atburðir og þetta daglega líf sem rennur framhjá á meðan maður er oftast upptekinn við eitthvað allt annað en að gefa því verðskuldaða athygli. Og annað slagið bankar uppá þörfin fyrir að taka upp símann, hringja í pabba. Deila einhverju með honum. Segja honum eitthvað sem ég veit að hann hefði gaman af. Fréttir af strákunum. Kvarta undan einhverju... eða bara spjalla.

Ég fór aldrei að gröfinni hans í sumar þegar ég var fyrir norðan. Einhvern veginn er hún ekki hans staður í mínum huga. Ég veit að þar hvíla hans jarðnesku leifar, en ég veit að hann er ekki þar. Og því hef ég einhverra hluta vegna enga þörf fyrir að fara að leiðinu. Ég veit að sumir finna hjá sér þörf fyrir að fara að gröf ástvina sinna en ég hef aldrei haft hana. Ætli það sé eitthvað einkennilegt? Erum við ekki bara svona misjöfn? Við höfum bara mismundandi aðferðir til að finnast við vera nærri þeim sem okkur þykir vænt um og hafa kvatt þessa tilvist.

Ár getur verið svo afstæð tímastærð. Bæði einhvern veginn svo stutt og svo langt. En eins og í kvæðinu segir; allt fram streymir endalaust, og það kemur að því fyrr en varir að dagar okkar hinna hafi runnið sitt skeið. Kannski verða þá endurfundir, ég veit ekki alveg hvað ég held um það. Það er eitt af því sem öruggt er að við fáum vitneskju um þegar hvert og eitt okkar fer sína leið.

 

 


Lady Lagðprúð og Lafði Lokkaflóð.

Fæðst hefur nýr dúett hér í Hraunbergshúsi. Drög að honum voru reyndar lögð í sumar þegar við Hjördís Þráinsdóttir, vinkona mín, lögðumst yfir fæðingu dúettsins. Nafnið var sjálfgefið; Sítt að neðan. Hríðarnar stóðu þó yfir í nokkra mánuði en Sítt að neðan tróð fyrst upp sem aukanúmer á tónleikunum sem ég hélt í október. Held meira að segja að það hafi uppskorið meiri aðdáun en ég sjálf. Enda bætum við Hjöra mín hvor aðra upp, hún sprenglærður Mezzósópraninn og ég sjálfmenntaða raddskitsóið sem hvergi getur staðsett sig. Sítt að neðan hefur hlotið geysilega umfjöllun fjölmiðla... sem er lygi. Ein lítil frétt á bb.is hefur birst um þetta tímamótaband sem hefur, eins og segir í fréttinni, það eitt að markmiði, að ganga fram af fólki.  Og það er göfugt markmið.

Giggin sópast að okkur og ætlum við að stíga á stokk í kvöld í einkasamkvæmi og svo erum við að spila á tónlistarhátíðinni "Þorskurinn 2009" í Einarshúsi í Bolungarvík ásamt fleiri listamönnum. En gæfa okkar er ekki jafnmikil í undirleikaramálum. Til að byrja með fengum við Baldur Ragnarsson fluttan hreppaflutningum úr Reykjavík og hingað vestur og mátti segja að hann bókstaflega "rynni inní" Sítt að neðan. Svo kröftug var samkennd okkar við hann. En Baldur býr auðvitað í Reykjavík en við hér svo að hafist var handa við að leita. Það gekk ekkert of vel þar sem skilyrðin voru þau að maðurinn gæti spilað svo að segja allt, gæti risið undir okkur stöllum (sem er nú ekkert létt verk) og væri óviðurjafnanlega kynþokkafullur.

200426403-004

Einn rak á fjörur okkar, ókunnan mann einhversstaðar frá og við negldum hann. Hann kom á æfingu í Hraunbergshús og við vissum ekki betur en það væri bullandi kemestrí í gangi. Næsta dag sást reykurinn á eftir honum útúr bænum. Maðurinn hafði flúið fjórðunginn svo að undir iljar hans sá, og er ekki væntanlegur aftur í bráð. Nú voru góð ráð dýr og rétt í þann mund sem Hjördís var að skrá sig á hraðvirkt gítarnámskeið í tónlistarskóla Lýðveldisins í fjarnám, tókst okkur að þrykkja öngli í Guðmund Hjaltason. Hann er lausráðinn í bili.

Lengi lifi Sítt að neðan!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband