Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Valrún og upphandleggurinn!

Það er svo ótrúlegt að það eru að verða tvö heil ár síðan Valrún mín flutti sig yfir til Aarhus. Mér finnst eins og hún sé búnað vera í burtu forever! Ég veit ekki alveg hvernig ég hef farið að án hennar hérna hjá mér. Enda hef ég varla meira en skrimt, svei mér þá!Smile Það er nú samt svo ótrúlegt að um leið og í harðbakkann slær, hringi ég grenjandi í hana, þessa elsku og þá er næstum eins og hún sé hérna. það eina sem mig sárlega vantar á slíkum stundum er að fitla og strjúka við mjúku, dásamlegu húðina á neðanverðum upphandleggjunum hennar. Oh... þvílík sæla!! Mér leið eins og ungabarni, öruggu og sælu með snuðið sitt í mömmufanginu, þegar ég lá  klesst upp við hana í sófanum með fingurna á kafi uppí erminni á henni, föndrandi við þessa undursamlegu mýkt!

Ég gæfi hálfan fótinn fyrir þetta akkúrat núna.

Sjáið bara þessa takmarkalausu fegurð!!

vallamin


Stórir dagar í vændum og miklar breytingar. Góðar.

Oft þarf að fara hlykkjótta og bratta leið til að yfirstíga erfiðleika. En aðeins að vel ígrunduðu máli. Hlutirnir er jafn erfiðir og við ákveðum. Með örlitlum frávikum þó. Í dag fékk ég skell sem ég ætla að nýta mér til að þroska sjálfa mig. Í gær fékk ég líka skell sem ég ætla að nota til að þroska reynsluheim minn á jákvæðan hátt.

Já, nú er sporavinnan notuð í hvívetna. Enda ekkert, a.m.k. fátt sem ég hef gert jafn gagnlegt.

Ég einset mér núna, alla daga, að vakna á morgnana og hugsa: í dag ætla ég bara að hugsa jákvætt. Ég þarf reyndar að minna mig á svona hundrað sinnum á dag, -sem er líklega algeng aukaverkun, -en þetta virkar svo dásamlega vel!!

Og í dag, hugsa ég bara jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir. Það er sunnudagur, stórir dagar í vændum. Stórir og spennandi og ég er full af hamingju.

eftir Söru Vilbergsdóttur (myndin er eftir Sörufrænku)

Luvjúall.


Næturvaktarrugl!

Úff, hvað ég verð einstaklega steikt í hausnum á svona næturvaktarhelgum.

Þegar ég skreiðist heim um hálf níu leytið á morgnana eru drengirnir að vakna, hressir og sprækir til að horfa á barnatímann, nú, eða bara til að gera móður sinni gramt í geði! Þannig fer því æði oft þessar helgar þegar ég tek þrjár vaktir í röð, að ég er að sofa í hálftíma, vakna, hálftíma, vakna, hálftíma, vakna.... og öll mín orka fer í að reyna að sofa. Og í þessum blundum, maður kallar þetta varla svefn, dreymir mig svo mikla steypu að ég er hálfu þreyttari fyrir vikið heldur en ef ég bara lægi og læsi góða bók! Í gærmorgun til dæmis, kom ég heim að ganga níu. Ég hef líklega sofnað um hálftíu leytið og vaknaði með andfælum klukkan hálf ellefu með grátstafina í kverkunum, brölti um allt rúmið að leita að símanum mínum og hringdi í gemsann hans Halla. Á meðan það hringdi út, kom ég smám saman til sjálfrar mín. Mig hafði dreymt að hann væri að fara frá mér! Og hann ók í burt með tveimur konum sem ég þekki vel og hef þekkt alla ævi, vildi alls ekki segja mér af hverju eða hvert hann ætlaði, hann bara var að fara! Og ég var að reyna að hafa uppá honum þegar ég vaknaði og var ekki alveg með á nótunum!! :)

Ég varð að fara fram og fá mér að drekka og jafna mig aðeins eftir þetta dramatíska móment, svo gat ég sofnað aftur, vitandi það að Halli hefði bara farið í ræktina og sund með Baldur. Um hádegið hófst svo truflunin, Birnir og vinkona hans komu heim og því næst Halli og Baldur. Ég barðist við að sofa fram eftir degi en vaknaði aftur upp af martröð og þá var það sama martröðin!! Nema nú ætlaði Halli að fara og búna með samkynheigðum vini sínum í Kaupmannahöfn!! Það var hræðilegt! Ég vaknaði í svo miklu sjokki að hárið á mér var blautt af svita!

Ég spyr nú bara ef einhver læknismenntaður skyldi ramba inn á þessa frásögn mína; er ekki hægt að taka eitthvað við þessu?????Shocking

En nú er síðasta næturvaktin að renna sitt skeið, klukkan er orðin fimm og rólegt. Svo tekur skólavikan við, reyndar með skrópi í dag. Svo fer ég á tvær vaktir í vikunni en verð í fríi um næstu helgi. Þá ætla ég að sofa gengdarlítið......


Eftirlætisdrykkur minn á unglingsárunum

 

 Þessum barþjóni á að drekkja í Tequila. Stinga trekt í kokið á houm og hella. Líkt og gert er við Foi Gras fuglana í Frakklandi.

Tequila er stórhættulegur drykkur! Ég man eftir því frá mínum ögn blautu unglingsárum, að þetta var aðaldrykkurinn af því að maður varð svo fljótt blekfullur af þessu. Tequila með salti og sítrónu eða bara einfaldlega "slammer" eins og það hét rann ótæpilega ofaní okkur vinkonurnar með tilheyrandi subbuhætti því eins og allir þeir sem voru "late eighties" unglingar vita, þá freyðir slammerinn alveg ferlega og sprite-ið límist við borð, stóla og veggi!

Ég man eftir að hafa drukkið hálfa flösku af tequila í eitt skipti og síðan ekki söguna meir. það var held ég síðasta ærlega fylleríið af þessum eiturdrykk. Eftir það, þoldi ég ekki einu sinni lyktina af þessu. Ég rankaði allavega við mér í einhverjum bíl sem var að keyra frá Akureyri til Dalvíkur og komst að því að ökumaðurinn hafði hirt mig upp í eymd minni í miðbæ Akureyrar, veskislausa, vinalausa og farlausa. Ég hef aldrei hitt þennan mann aftur og aldrei þakkað honum fyrir. Hann hefði vel getað verið einhver sem ekki hefði gott í hyggju og af þeim sökum hirt upp sauðdrukkin, vegalausan stelpukrakka og keyrt með hann útí buskann. Ef sá hinn sami væri svo ólíklega að lesa þetta og man eftir þessum atburði þá segi ég, -bæði sem unglingsstúlkan sauðdrukkna, og sem móðir; Takk góði maður. Takk fyrir að bjarga mér frá einhverjum hörmungum.

Svo veit fólk vart hvaðan á sig stendur veðrið þegar ég segist eiginlega aldrei smakka vín! :)

Það eru of margar svona sögur í farteski mínu, bæði af mér og öðrum, sem gera víndrykkju svo lítið sjarmerandi í mínum huga.

Próf í fyrramálið, pensillínátið heldur áfram að fyrirskipan Dr. Dóru Explóru og hálskirtlarnir eru hættir að lafa alveg jafn langt niðrí kok. Allt á uppleið!


mbl.is Lést eftir að hafa drukkið 45 tekíla skot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drengurinn hennar mömmu sinnar!

Stundum held ég að barnaverndarnefnd myndi gera stórar athugasemdir við uppeldið á elsta drengnum mínum. Hann hefur alltaf verið dálítið sér á parti hvað það varðar, þar sem hann var nú einu sinni svo lengi einn með mömmu sinni. Hann til dæmis átti ekkert rúm fyrstu fjögur árin, heldur svaf BARA uppí. Dæmi nú hver fyrir sig hversu hollt það má teljast. Hann hefur náttúrulega erft einkennilegan húmor foreldranna því að ef fólki finnst ég slæm, þá er það BARA af því að það hefur ekki hitt Pál, pabba hansWink

Mamma, sem býr hjá okkur núna, telur að það hljóti að vera óhollt fyrir fermdan drenginn að horfa á móður sína striplast heilu og hálfu dagana, hvort sem það er vegna þess að henni þyki óeðlilegt að ungir drengir sjái mæður sínar naktar eða hvort henni þyki bara svona hræðilegt fyrir hans hönd að sjá MIG nakta er ekki til frásagnar. Henni þykir þetta bara "óviðeigandi." En ég kæri mig kollótta og striplast eins og mér sýnist. Hann er vanur.......

Stundum þá er svo gaman að ganga framm af unglingum, en það er ekkert auðvelt að ganga framm af Björgúlfi mínum. Það kemur til af uppeldinu! Um daginn hélt ég yfir honum langa tölu um hversu erfitt hlutskipti það væri að vera kona. Maður ætti sæg af lötum drengjum sem drösluðu allt út, ætu það sem væri verið að spara til helgarinnar, nenntu ekki með fötin sín í vélina og gætu ekki einu sinni smurt nestið sitt sjálfir! Og til að kóróna það allt saman, þá væri enginn friður fyrir spólgr... köllunum þegar konurnar legðust örþreyttar til hvílu seint á kvöldin! Hvers konar líf héldi hann eiginlega að þetta væri?? Ég rétt væri nú að vona að mér tækist að ala hann og bræður hans upp til að verða nýtanlegir eiginmenn sem virtu svefntíma kvenna sinna og gæfu þeim stundlegan frið þó ekki væri nema eftir miðnætti á rúmhelgum dögum!

Drengurinn horfði grafalvarlegur framan í móður sína og svaraði svo:  að sjálfsögðu. Til hvers heldurðu að hjákonur hafi verið fundnar upp????

 

LOL


Þriðjudagur

Það er ekki einleikið hvað heilsan á heimilinu er bágborin. Aumingja Halli er búnað vera hundveikur, Baldur fékk einhvern viðbjóð, kossageit að nafni, og auk þess að fá sífelldar aðkenningar að andlátum hefur frúin sjálf verið með hálsbólgu, eyrnaverk og kvef. Í tvígang! Björgúlfsbarnið fékk hálsbólguna sem og Birnir, sem er með eitla á stærð við hænuegg bæði inna og utan á hálsinum. Hefur sá drengur verið svo dragfúll í andardrætti að við foreldrarnir höfum báðir gert okkar besta til að forðast nánar samræður við hann!

Þessi árstími er ekki alveg uppáhalds hvað þetta varðar, en í uppáhaldi hvað annað varðar. Ég elska litina þegar sólin er farin að gægjast upp fyrir fjallsbrúnirnar og veðrið hefur verið svo fallegt og yndislegt undanfarið. Það er farið að vera bjart lengur og lengur hvern dag, og mér finnst þessi umskipti alltaf gerast svo hratt!

Annars er bara ágætt að lifa.


Þorrablót bolvískra menningarkvinna.

Hið bolvíska hannyrða og menningarkvenfjelag mun halda sitt árlega þorrablót annað kveld.

Afar strangar reglur gilda um blót þetta sem og alla fundi HBHM-fjelagsins.

Í tilefni þessa er rétt að rifja upp reglur fjelagsins.

Kvinnur verða að hafa menningarlegan uppeldislegan bakgrunn, ýmist í formi náms, þekkingar eða þjóðfélagsstatus.

Kvinnum er forboðið að ræða ómerkilega hluti s.s. ástarlíf sitt og annarra, nágrannaslúður og tilhæfulausar kjaftasögur. Eru þungar fjársektir viðurlagðar við glæpum sem þessum og rennur ágóði þeirra í sjóð fjelagsins.

Umræður skulu uppbyggilegar, þjóðfélagsmál, bókmenntir, listir og góðgerðarmál eru tilvalin umræðuefni sem er ágætt að brydda uppá og ræða í hörgul.

Þjeringar (þéringar) eru hafðar í hávegum á fundum kvinnanna og frávik kosta fjárútlát í formi sekta.

Blátt bann er lagt við því að karlmönnum sé til blóts boðið og annarra funda, sem og nokkrum öðrum en fjelagskvinnum.

Nýir meðlimir eru vandlega handvaldir af fjelagskvinnum og er réttur áskilinn til fullkomlega Kremlískra vinnubragða.

Kvinnur mæta til blóts með sitt eigið trog.

Kvinnur skulu viðhalda þeim góða og gegna sið að hafa hannyrðir handa í millum við hvern fund.

Eru þá reglur upptaldar.

Undir ritar; háæruverðug Frú Ylfa Mist H. Ringsted.


En sú glæsta framtíð, Part II

Þau mistök urðu að ég henti hálfkaraðri færslunni inn í morgun!! Ég var alls ekki búin enda rétt farin að tæpa á stefnuræðunni!! en hér kemur hugleiðing mín í fullri lengd!

Í stefnuræðu bæjarstjóra hins nýja meirihluta í Bolungarvík, Elíasar Jónatanssonar, kennir margra grasa. Á flýtiferð yfir ræðuna sem má nálgast hér, virðist sem svo að leysa eigi fjárhagsvandann hratt og örugglega með uppsögnum og ákaflega miklum niðurskurði sem einna helst bitnar á fjölskyldufólki. Hækka á tónlistaskólagjöld um 25% ásamt því að setja þak á fjölda nemenda. Hvernig á að velja nemendur inn í skólann??? Ég hef nú þegar ekki efni á því að hafa börnin mín í tónlistarkólanum þetta misserið og sé nú að öruggt er að þeirra tónlistarnámi við Tónslistarskólann í Bolungarvík er lokið. Allavega fram að næstu kosningum.

Spara á í heilsdagsskólanum líka. Þar eru núna, eftir því sem ég best veit, tveir starfsmenn. Ekki veit ég upp á hár hversu mörg börnin eru en ég veit þó að þar eru tvö börn sem þurfa fullan stuðning. (hver ætli sjái þá um hin börnin) Ég get ómögulega séð hvernig á að spara þar! Nema þá ögulega að hækka gjöldin þar líka?

Grunnskólinn: " framboð kennslu verði skv. lögbundnu lágmarki, en sérkennsla er áætluð í samráði við skólastjórnendur. M.a. er reiknað með að forfallakennsla falli niður í 8. til 10. bekk." WHAT???? Þetta er áræðinlega löglegt en kommon!! gáfulegt er það ekki!

Sem tiltölulega lágt launuð fjölskylda sem er hætt að fara til útlanda, hætt að fara í skemmtiferðir sem kosta peninga, hætt að kaupa óþarfa eins og áfengi og vínarbrauð, hætt að fara í bíó og á leiksýningar, er okkur vissulega nokkuð áfram um að halda börnunum okkar í einhverskonar íþróttaiðkun, alveg eins og hinum efnameiri. Þar hafa frístundakort bæjarins verið himnasending. Það kostar 15.000 krónur fyrir hvert barn pr.önn, að stunda íþrótt í UMFB, sem er hið ágætasta félag. Frístundakortin giltu sem 15.000 uppígreiðsla yfir veturinn þannig að í stað þess að greiða 30.000 krónur fyrir hvert barn yfir veturinn, voru það aðeins 15.000 krónur á haus. Frístundakortin eiga að fjúka. Sem þýðir að það, að leyfa börnunum okkar að vera í íþróttum kostar 30.000 krónur yfir veturinn fyrir hvert barn. Reikni nú hver fyrir sig. Einhver systkinafsláttur er þó veittur en ég er ekki með það á hreinu hversu hár hann er. Þetta er verulega mikil skerðing fyrir okkur og eflaust flestar barnafjölskyldur.

Það má með sanni segja að íþróttamiðstöðin Árbær, hafi verið það sem við fjölskyldan botn-nýtum. Þar er öll helsta aðstaða til íþróttaiðkunnar undir hinu hripleka steypuþaki, heitir pottar og dásamleg rennibraut. Enda iðar þessi helsti samkomustaður bæjarbúa af lífi frá opnun til lokunnar. Frá því að við fluttum í bæinn hefur orðið gríðarleg aukning í nýtingu miðstöðvarinnar, eftir því sem ég fæ best séð. Við förum svo til hvern einasta dag í sund. Og það er yndislegt. Ég hef oft og mörgum sinnum sagt: ef ekki væri fyrir þessa sundlaug, þá væri þessi staður eiginlega ekki byggilegur. Það er auðvitað mitt smekksatriði. Mér hefur þó alltaf þótt opnunartíminn of stuttur. Sérstaklega á sunnudögum og mánudögum. Viti menn, það á að stytta opnunartímann. Lokað á mánudögum og styttri opnun um helgar. Að auki, og það þykir mér hið grafalvarlegasta mál;  á að fækka stöðugildum.

Mig langar að rifja upp tvö tiltölulega nýskeð óhöpp sem urðu í þessari téðu laug. Það hryllilega atvik varð fyrir nokkrum misserum að drengur drukknaði í lauginni. Bekkjarbróðir sonar míns. Fyrir kraftaverk, og ekki síst ótrúlegt snarræði og hugrekki starfsfólks var lífi drengsins bjargað, en ég veit að börnin sem voru þarna þennan dag, starfsfólk og við foreldrarnir, gleymum aldrei þessum degi. Hefði þetta lánast svona ef aðeins hefði verið einn starfsmaður?

Dæmi tvö: fyrir skemmstu var sundmót. Unglingsstúlka hné niður í sturtuklefanum og missti meðvitund. Málinu lyktaði farsællega og stúlkan er við bestu heilsu eftir því sem ég best veit. En hvað ef þetta hefði gerst, eða myndi gerast á þeim tíma hvar EINN starfsmaður sæti vaktina og fylgdist með fullri sundlaug af börnum, myndavélunum fyrir sundlaugargarðinn AUK ÞESS AÐ AFGREIÐA OG ÞURRKA UPP ENDALAUSAN LEKA ÞAKSINS???? HVAÐ ÞÁ???

ARG!! Ég held að þetta ákvæði í stefnuræðu ágæts bæjarstjóra sé það sem hleypi í mig hvað mestum skratta! Þarna erum við að tala um lágmarks öryggi, auk þess að það þykir sjálfsagt að hafa baðverði af báðum kynjum.

Að auki hef ég heyrt því fleygt að það eigi að hækka sundgjaldið upp fyrir Akureyrargjaldtökuna  (sem er með því hæsta á landinu og kostar fyrir fjölskylduna það sama í sund þar og staðgóð máltíð fyrir átta manns) sem þó réttlætist af glæsilegum laugum og risastórum garði, en ekki leku húsi og tveim sprungnum pottum! Þar að auki að það eigi einungis að vera frítt fyrir BOLVÍSK börn!!!! (því var komið hér á í veru Eiga þau að sýna nafnskírteini þegar þau koma?? Eigum við ekki líka að rukka fólk af gyðingaættum meira af því að gyðingar eru svo ríkir??? Hahahahah, ég vona að þetta sé bara djók!

Útsvarið verður einnig það hæsta á landinu. Það er ég alveg tilbúin að taka á mig. Einnig færri sorphirðudaga.  Ég er meira en lítið til í að borga hærra útsvar, fái ég áfram þá þjónustu sem mér finnst sjálfsagt að bæjarfélagið veiti mér. Og mér finnst hið besta mál að flokka mitt eigið rusl og fara með í gáma. Mín vegna mætti hirða sorpið einu sinni í mánuði!!

það er alls ekki það, að ég skilji ekki að það þurfi að spara!? Sjálf hef ég aldeilis þurft að draga saman seglin undanfarin tvö-þrjú ár og skil vel hvað það er að þurfa að "cutta niður" útgjöld. En ég reyni, -ólíkt batteríinu: Bolungarvíkurkaupstaður.is, að gera það þannig að sem minnst bitni á börnunum mínum!

Ég sé frammá tvo kosti og hvorugan góðan. Annað hvort að þreyja þorrann og vona að við fjölskyldan höfum gott af því að fara sjaldnar í sund, sleppa öllu aktiviteti. s.s. íþróttum og tónlistarnámi, vona að enginn þurfi á skertri félagsþjónustunni að halda, nota ekki undirmannaðan heilsdagsskólann og treysta því að unglingurinn læri sjálfur í forföllum kennaranna! Ef Guð lofar, færir þetta okkur saman og gerir okkur, -og ekki síður börnin að nýtari þjóðfélagsþegnum!!

Hinn kosturinn er að flytja. Sigta einfaldlega út það bæjarfélag/land sem býður uppá góða þjónustu fyrir barnafjölskyldur og reyna að koma sér þar fyrir. Sem væri synd. En maður spyr sig líka: hvað kemur börnunum til góða? Hvað er best fyrir okkur sem fjölskyldu?

ég er: Ylfa Mist Helgadóttir, íbúi í Bolungarvík, útsvarsgreiðandi, láglaunaþegn, skattgreiðandi, foreldri, og síðast en ekki síst; uggandi um framtíð bæjarfélagsins og eigin fjölskyldu. Telur að það sé vænlegra að greiða hægar niður skuldir bæjarins og halda frekar í útsvarsgreiðendur með því að halda þjónustustiginu á mannsæmandi plani. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband