Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Talía, ég er að koma!

Á morgun fer ég að Húnavöllum á leiklistarskóla Bandalags Íslenskra leikfélaga. Ég er reyndar ekki að fara á námskeið heldur er í ár boðið uppá nýbreytnina "Höfundar í heimsókn." Það er nú samt eins og mig minni að fyrsta árið sem BÍL skólinn var starfandi í Svarfaðardal, hafi verið viðlíka í boði fyrir þá sem vildu koma og skrifa. Ég hugsa að það séu þrettán ár síðan ég fór fyrst í þennan Bandalagsskóla. Og í kjölfarið flutti ég suður, gekk í Hugleik og það var líka í þessum skóla sem ég fór að skrifa leikrit fyrir nokkuð mörgum árum. Sennilega svona.. átta árum eða svo. Karl Ágúst Úlfsson kenndi mér í tvö sumur í leikritasmíð. Og svo lá þetta nú eiginlega að mestu niðri hjá mér.

En á morgun ætla ég að taka upp þráðinn og byrja að skrifa meira. Kannski verður það bók, kannski leikrit, kannski bara innkaupamiðar og matseðill fyrir framtíðina.... :)

Ég kem aftur heim þann tuttugasta og þá verður Dr. Tóta með í för. Svo heldur bara sumarið áfram og vonandi verður það jafn yndislegt og það hefur verið hingað til. Fyrsti rigningardagurinn í margar vikur í dag og manni bara bregður við enda orðinn steiktur af langvarandi sólskini og útiveru.

En nú, vinir mínir, hverf ég á vit Talíu í tíu daga eða svo.

Love to all.


HOT HOT HOT!

Þvílík og endalaus blíða á þessum útkjálka alheimsins. Það eru þessir dagar og þessar nætur sem bæta upp tímann þegar myrkur grúfir hér yfir vikum saman og lægðirnar raða sér upp í bið eftir því að færa sig yfir landið og hrella þunglynda molbúana sem kúra sig inannadyra á milli þess sem þeir staulast í og úr vinnu, oft við illan leik og snjóugir upp fyrir haus.

En svo kemur vorið! Og hvergi í heiminum kemur annað eins vor. Og óvíða er því tekið með öðru eins þakklæti og hér. Það er sól allan sólarhringinn og maður eiginlega tímir aldrei að sofa! Verandi í fríi, sef ég framundir hádegi en vaki nóttina nánast á enda og ligg ýmist úti í glugga eða hangi úti í garði til að missa ekki af neinu. Kyrrðin, fuglarnir, fiðrildin, appelsínugulir fjallatindar, spegilsléttur sjórinn sem liggur eins og kvikasilfur uppað fjöruborðinu þar sem æðarkollurnar kúra með ungana sína, krían sem aldrei þagnar hamast í endalausri leit að einhverjum til að skeyta skapi sínu á og lognið er algjört. Þetta er mitt himnaríki. Og á þessum dögum og nóttum, rifjast það einmitt upp fyrir mér af hverju ég á heima hérna.InLove

En ég er einmitt í sumarfríi sem er æðislegt. En ég kíki alltaf við og við á Skýlið til að kyssa og kela við fólkið mitt þar. Fá mér kaffisopa og taka púlsinn á lífinu þar. Einn vinur minn, hann Haddi gamli, hefur verið líkamlega slakur undanfarin ár en hugurinn algjörlega skýr. Þetta var maður sem stundaði sjóinn í sextíu ár. Þess vegna var það einkar viðeigandi þegar þessi gamli og virðulegi skipstjóri kvaddi sinn lúna líkama í gær, á sjómannadag, tók sér stöðu við stýrið á einhverju himinfleyi sem okkur er ennþá hulið og lagði í sína síðustu siglingu. Hér blöktu fánar við hálfa stöng í gær, ólíkt öðrum sjómannadögum hvenær flaggað er í topp. Hávarður gamli, laus við hið gamla og úrsér gengna hismi, farinn á vit ævintýra sem okkur eru ennþá ókunn. En eflaust feginn að vera laus úr prísundinni sem hver sá sem orðinn er lúinn hlýtur að upplifa.

Ég á aldrei eftir að gleyma þessum góða og gamla vini.

 Það er dásamlegt að vinna mína vinnu. Kynnast þessum fallegu gömlu sálum sem glíma við að eiga heima í lélegu hulstri. Fá að þykja vænt um þau og taka þátt í að gera líf þeirra eins gott og best verður á kosið. En mikið finnst mér alltaf tómarúmið stórt sem hver og einn skilur eftir sig. Ég sakna hverrar manneskju sem kveður. Þó ég samgleðjist sálinni að vera frjáls þá sakna ég viðkomandi alltaf. Sumir segja að maður öðlist "skráp." Að maður læri að taka þessu sem hluta af vinnunni. En ég vona að ég öðlist aldrei þann skráp. Af því að þá hlýt ég líka að koma mér upp skráp gagnvart fólkinu sem ég annast. Og gerist það, finnst mér ég ekki hafa neitt að gera í svona vinnu lengur. Ef manneskjurnar eru farnar að vera verkefni fyrir mér en ekki einstaklingar sem ég læt mér þykja vænt um, þá held ég að það væri kominn tími á nýtt starf. Ég vil þá frekar sakna þeirra sem kveðja.

Nú er ég búin að kæla mig niður og ætla að fara aftur út í sólina og halda áfram að brasa við að stinga upp fíflana í garðinum hjá mér. Makalaust hvað er mikið af þessum fíflum í kringum mig.... hljóta bara að kunna svona vel við félagsskapinn! LoL

 


Merkilegir dagar.

Þegar ég skifa "merkilegir dagar" í fyrirsögnina, þá er ég ekki að tala um upphæðina sem ég fékk greidda út í morgun. Hún var verulega lítið merkileg. Jafn merkilegt og mér þykir starf mitt vera, jafn illa meta ráðamenn þjóðarinnar vinnu mína.

Nei, merkilegu viðburðirnir eru þeir, að í dag útskrifast litli/stóri sonur minn, Björgúlfur Egill, úr Grunnskóla Bolungarvíkur. Í gær eða fyrradag, fór hann í Vesturbæjarskóla með nýju skólatöskuna sína, sex ára gamall og hóf þennan hluta ævi sinnar. Hann var með skarð í neðri góm því að þar vantaði tvær tennur. Alla hans skólagöngu hefur hann verið (eftir því sem ég best veit) prúður og stilltur drengur, -það dró reyndar ögn úr því síðasta árið, en einhverntíma verður maður líka að fá að vera unglingur í uppreisn!

Elsti sonurinn

Birnir,- spiderljónið mitt litla, er að klára 3. bekk. Hann er kílói léttari en litlibróðir, lítill og nettur eins og blómálfur á laufi. Honum er alveg sama því að móðir hans hefur sannfært hann um að það geri ekkert til. Hann hafi nefnilega þau fegurstu augu sem til eru í heiminum. Augnhárin kolsvört, löng og þétt, augun risastór og blá með þeim stærstu sjáöldrum sem ég hef séð í barni. Hann er kominn með fullorðinstennur sem hæfa stórvöxnu heljarmenni. Hann er því varla neitt nema tennurnar. :) En einn dag á hann eftir að stækka uppí þær.

miðju drengur

Baldur Hrafn er útskrifaður úr leikskólanum. Hann er með skarð í neðri góm því að í gær datt seinni framtönnin þar. Það ljær honum svolítið sérstakan svip, því að Baldur Hrafn er með andlit tveggja ára barns að öðru leyti. Hann er ennþá með "gerber" lúkkið. Hvíta hárið, -sem er nú reyndar aðeins að dökkna, bollukinnarnar sem nánast lafa, og bláu augun undir hvítum toppnum. Hann er ægilegt krútt, en hann er líka um leið "quite a handful" svo maður orði það pent. Og það virðist loða við allan hans árgang sem nú mun ryðjast í haust inní grunnskólann. Þetta eru allt miklir víkingar og kvensvarkar. Öll frekar mikil fyrir sér og það er vægt til orða tekið. Það verður því fjör í skólanum næstu tíu árin!

IMG_0706

Það er komið sumar. Bæði á dagatalinu og veðrinu. Skólaútskriftin í dag. Góðir tímar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband