Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

frækileg björgun í ársbyrjun?

Djöfull er ég orðin glataður bloggari. Tel mér trú um að ég eyði tímanum í aðra uppbyggilega hluti en þúst... það er bara rugl. Tíminn sem fór í að blogga fer bara í feisbúkk eða eitthvað.

Annars erum við að skríða undan jólum, þau voru góð. Við borðuðum of mikið. Auðvitað, það gerðu allir. Ég var að vinna um jólin en átti frí í staðin um áramót. Sem var bara fínt.  Palli Björgúlfspabbi og hans ofurkrúttlega eiginkona voru hér um áramótin með sín börn svo að þetta passaði allt saman bara ágætlega. Eyddum gamlárskvöldi með þeim heima hjá Ellu og Einari, foreldrum Palla og jólunum hérna heima með mömmu sem kom frá Dalvík. Allt bara stórfínt. Nema ógeðslega magapestin sem herjaði á yfir jólin. Hún var hreinn viðbjóður. En annað var gott.

Í gær, nýjársdag, þótti okkur Birni spæderljóni tilhlýðilegt að fara í göngutúr. Við ákváðum að ganga niðrað bryggju og fylgja svo fjörukambinum innað gamla flugvelli, hvar taka átti púlsinn á áramótabrennunni. Athuga hvort enn lifði í glæðum og sprengja nokkra kínverja í leiðinni. Urta var auðvitað með í ferð og hljóp alsæl af sér jólaspikið í kringum okkur. Og viti menn, frúin fékk líka sinn skerf af megrandi hlaupum!

Þannig var að þegar við erum komin framhjá síldarbræðslunni og erum að rölta í rólegheitum og skoða brimið, brotajárnið og rekaviðinn sé ég skyndilega mann í fjarska ganga frá gamla flugvellinum og niður í fjöru. Oh.... hugsaði ég með mér. -nú þarf ég að tjóðra hundinn. Þetta er ábyggilega einhver dæmigerður Bolvíkingur, en eins og alkunna er, fyrirfinnst ekki skepnuhræddara fólk í öllum heiminum en hér í Bolungarvík. Sérstaklega ef skepnan geltir. Ég hef aldrei fyrr kynnst jafnmiklum fjölda fullorðinna sem eru hræddir við hunda og hér. Aldrei. Ég hef verið bókstaflega úthrópuð af virðulegri, eldri konu, kölluð öllum illum nöfnum og hótað, vegna þess að tveggja mánaða smáhvolpur sem ég var með, flaðraði uppum hana. Hún varð svo skelfingu lostin að hún missti greinilega alla skynsemi!  Sennilega hefði hún tekið mér betur ef ég hefði verið með risavaxinn ísbjörn í taumi en þennan smáhvolp. Furðulegt.

 En þetta var útúrdúr.

Ég mátti brátt fá áhyggjur að allt öðru. Ég sé manninn spígspora um í fjörunni og þar sem hann var í góðri fjarlægð, lét ég vera að kalla Urtu mína strax inn í taum. heldur fylgdist bara með því hvert för mannsins  væri heitið. Og mér til ómældrar skelfingar tók hann skyndilega á rás, beint útí brimið! Hann gekk eins og fjandinn væri á hælum hans og skeytti engu um öldurnar sem skullu á honum. Guð minn góður, hugsaði ég. -Það er nýjársdagur. Svartasta skammdegið. Maðurinn eflaust timbraður og örvæntingafullur þunglyndissjúklingur og ætlar að ganga í sjóinn.

Ég byrjaði að hlaupa með spæderljónið á hælunum sem skildi hvorki upp né niður í því hvað manneskjan væri að gera útí sjó? Enda blessunarlega laust við það að vita hversu grimm þessi veröld getur verið og ómeðvitað um sálarkvalirnar sem rekur fólk sjálfviljugt útí dauðann. Sérstaklega á tímamótum. 

Nú verð ég að gera hlé á frásögninni og minna lesendur á, að ég er ekki hlaupamanneskja. Ég hleyp ekki. Það er svo einfalt. Nema það sé geitungur á eftir mér. En nú hljóp ég eftir grýttum fjörukambinum og hefði eflaust unnið mér inn veðrðlaun, væri einhver tímataka í gangi.

Í gegnum hugann fóru undarlegar og sundurlausar hugsanir. T.a.m. "það stundar engin sjósund í Bolungarvík!" Og "hnoða þrjátíu sinnum, blása tvisvar, hnoða þrjátíu, blása tvisvar." og á meðan sá ég mér til takmarkalausrar skelfingar að maðurinn var farinn að veltast um í öldurótinu í bægslagangi. Ég fór að leita að símanum í vasanum á meðan ég hljóp og reyndi að hringja í Halla. Hugsaði með mér að hann yrði sneggstur að koma á vettvang, og að auki bæði góður sundmaður og vel að sér í fyrstu hjálp. Það þarf líka töluverðan líkamsstyrk til að draga fullorðna manneskju á þurrt?! Djöfull! Hann svaraði ekki! Þá er það bara 112! Sjitt, þeir verða aldrei komnir í tæka tíð! Sveitt og móð reyndi ég að velja einn einn tveir. Það gekk bara andskotann ekkert af því að ég er með svo asnalegan síma með snertiskjá og gerði ekki annað en að byrja að hringja í einhver númer sem spruttu fram á skjáinn hjá mér. Þegar þarna var komið við sögu sé ég að maðurinn heldur sér á floti. Hann hálf liggur fram á eitthvað sem sýndist vera drumbur. GUÐI SÉ LOF!! Hann er hættur við! -hgusaði ég á hlaupunum! Hann vill LIFA!!!

Ég gafst upp á 112 og var nú farin að nálgast nóg til að ég gæti hrópað hvatningarorð til þessa ógæfumanns sem greinilega hefði fyrir andartaki síðan ekkert séð úr augunum en þá hræðilegu leið að ganga í sjóinn! ÉG ER AÐ KOMA! BÍDDU! HALTU ÞÉR FAST! ÉG ER AÐ KOMA! Í huganum var ég farin að forgangsraða: ok Ylfa, fyrst þarftu að henda af þér úlpunni, láta spæderljónið (sem hljóp rétt á eftir mér, létt sem vindurinn) fá símann og segja því að hringja í 112. Mundu Ylfa að druknandi fólk berst á móti! Hvað þá ef það hefur ákveðið druknun sína sjálft! Ég fálma uppí hálsmálið á úlpunni og byrja að renna niður og finn að ég er kófsveitt. Nú voru bara um 100 m eftir og ég fer að fikra mig af kambinum og niður í sjálfa fjöruna. Skyndilega sé ég að risastór alda kemur og ætlar að hremma hinn aðframkomna mann! ÓNEI! Ég herti hlaupin...

Mannfjandinn stendur skyndilega uppi á öldunni!!! Hann líður glæsilega áfram á drifhvítum öldufaldinum. Á FOKKING BRIMBRETTI!  Á NÝJÁRSDAG. Í JANÚAR. Í BOLUNGARVÍK. Á ÍSLANDI!!!

HVernig í andskotanum átti mér að svo mikið sem DETTA slíkt í hug??

Við Spæderljón fylgdumst sneypt og pínulítið ÖSKUREIÐ með þessum brimbrettagæja í smástund. Hann veifaði okkur en við veifuðum ekki á móti. Tveir selir stungu upp kolli sitthvoru megin við hann. Spæderljónið, sem á til kaldhæðinn húmor, þrátt fyrir að vera einungis níu ára, hreytti út úr sér milli samanbitinna og risastórra framtannanna; huh, hann ætti frekar skilið að vera með tvo ljóta steinbíta þarna sitthvoru megin við sig.

sport sem hæfir við Islandsstrendur?

Svo röltum við uppað áramótabrennunni.

Ef grannst er skoðað á þessari mynd, má sjá þúst í briminu. Það er semsagt Beach Boy að bíða eftir annarri stórri....

Þess má geta að við græddum reyndar á þessari ferð. Við fundum tvö forláta fishersvigskíði sem einhver hafði kastað. Við auglýsum hér með eftir bindingum á þessi skíði sem smellpassa spæderljóninu. Líklega laun frá almættinu fyrir að hafa þó verið öll af vilja gerð......

Gleðilegt ár!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband