Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

mjó, mjómjó, eða mjómjómjó??

Ég er í stuði!

Ég er næstum eins og segir í textanum "í stuðinu í!"

Það er komið sumar. Með hita og sól. Og ég er búin að vera með fallega gesti. Gunnsa frænka mín Birnisdóttir kom og var í nokkra dýrðardaga ásamt Birni IV, syni sínum og Rakel dóttur sinni. Þau eru skemmtilegt fólk og það var æðislegt að hafa þau. Svo óku þau á braut í morgun og ég skellti sænguverunum í vél, hengdi þau upp og þar sem þau þornuðu í heitum sólskinsvindinum, hringdi tengdó og sagði; ég kem á morgun! Þannig er það. Og það verður æði!

Ég verð reyndar alla næstu viku að kenna íslenska brauðgerð í Norrænum handverksbúðum í Dýrafirði. Þangað renna, -eins og allir vita, öll vötn og ég hyggst fljóta með og kenna dönum, nojurum og svíum að baka flatbrauð, steikja laufabrauð og gera soðið brauð og ég veit ekki hvað og hvað. Fór einmitt í Bónus í dag og keypti inn jafnmörg kíló af fitu og hafa runnið af mér sl.mánuði í "nýtt líf nr. 147." Nei, ég lýg. Ég keypti víst töluvert meira en hefur runnið af mér. En ég hef nú samt runnið! Ég er að verða alveg vaaaaandræðalega mjó. Svo mjó, að ég fór í kvöld og hljóp á Óshlíðinni í kvöldsólinni. Og það EFTIR að vera búin að synda í hálftíma í dag. Já.. líf hinna mjóu er sko ekkert letilíf! Það megið þið vita!

Markaðsdagurinn var haldinn hér í gær. Í fyrrakvöld var ógnarinnar skrúðganga, hvar bærinn, sem skipti sér uppí rauða hverfið og bláa hverfið, stormaði uppí Hreggnasagryfju og söng við varðeld, á meðan börnin stunduðu lúpínumorð.  Gunnsa frænka og börnin tóku fullan þátt. Við vorum í bláa hverfinu og ætluðum reyndar að láta okkur nægja að horfa bara á eina bláa til að taka þátt í stemmningunni en það féll í grýttan jarðveg. Veðrið var yndislegt og sömuleiðis í gær á sjálfum markaðsdeginum. 

Nú neyðist ég til að fara að sofa svo ég sofni ekki ofan í kraumandi tólgina í Dýrafirðinum á morgun. Ég þarf að sækja helling af kellum og kelling af hellum, eldsnemma svo að það tjóir ekki að vera dragúldin og geðvond í býtið. Ónei.

Frú Ringsted býður góða nótt inní eldrautt sólarlagið.....


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband