Óhófsdagar á enda hvað?

Ég ætlaði svoleiðis að taka mér tak og rífa mig upp á rassgatinu strax eftir jólin. Það er ekki til mikils að skafa af sér tíu kíló til þess eins að hlaða þeim á sig aftur með ógnarhraða! En það er nú eiginlega þannig að jólaspikið er að verða (verða! Hvern er ég að blekkja?) veruleiki og dagurinn í dag var sko ekki undantekning á óhófinu!

Ég var að vinna til miðnættis í gærkvöld og var andvaka. Klukkan þrjú var tilvalið að kíkja á kökuna sem var frammi, þessa með hunangskreminu og skola niður tveimur dúnmjúkum og dásamlegum sneiðum með jafnmörgum nýmjólkurglösum. Aftur upp í rúm. Hjartslátturinn fór upp í 150 slög í algjörri legu, sennilega hafa a.m.k 40 þeirra per.mín. verið vond samviska! Restin líkaminn í angist yfir þessu áti þegar hann átti að vera sofandi! Aumingja kroppurinn minn.

Ég mætti í vinnu klukkan átta í morgun, grútsyfjuð eftir tveggja tíma svefn og skellti mér flatri í konfektskálarnar með líter af kaffi svona til "að halda dampi." Ég hefði sennilega getað knúið lítið iðjuver með eldsneytinu sem ég var búin að setja ofan í mig bara fyrir hádegi sko!

Saltaðar kinnar í hádeginu og.... jú. MÖRFLOT með.

Síðan átti hún Gunna Sveina 93 ára afmæli svo það voru auðvitað pönnukökur í kaffinu. Bæði með rjóma og upprúllaðar með sykri. Ekki halda að ég hafi verið svikin um minn skammt! Ég skreið heim um fjögurleytið, henti mér í hálftíma og hafði mig svo til. Eiginmaðurinn bauð mér og litlu drengjunum út að borða og svo á Hobbitann. Bjöggi tók kvöldvaktina eftir að ég skilaði morgunvaktinni svo hann komst ekki með.

Ég fékk mér ógurlegan hamborgara og núna gæti ég eiginlega rist mig á hol! Það er verst að mér liði örugglega bara betur!

Hvern djöfulinn ætti ég nú að elda úr þessari blessuðu Kosherbók?

Júbb, ég kom heim úr bíóinu (þar sem ég át lakkríspoka) og henti mér í sófann og fór að lesa uppskriftir. Áskorininni þýðir ekki að undanskorast!

Ég hygg á grænmetisát mikið næstu daga svo að viðeigandi ídýfa/dressing er við hæfi. Ætlar maður ekki annars alltaf að borða meira grænmeti á morgun?

Ég valdi Tahini Dip, eða Tahini dýfu.

Hún er einföld og helsti gallinn er að það er heill bolli af tahini í henni svo að þetta er fyrir heilann her! En þar sem ég er neyslugrönn Blush þá ákvað ég að minnka uppskriftina. Og hún er ótrúlega góð! Ég hlakka eiginlega til að fá lystina aftur og fá mér grammó með þessari hollu og góðu ídýfu.

Tahini Ídýfa:

2 kúfaðar msk Tahini (ég notaði frá Sollu)

2 msk vatn

örlítið salt á hnífsoddi

1-2 msk sítrónusafi (eða bara eins og ég gerði, kreisti hálfa sítrónu útí. En ég er sítrónumanneskja. Kannski finnst einhverjum það svo súrt að munnurinn hverfur ofan í kok...)

2 hvítlauksgeirar, pressaðir. (og alls ekki sleppa honum, þið fáið ekkert kvef ef þið borðið hann!)

nokkur korn af cummin (má sleppa en mér finnst það gott)

Cayenna pipar eða paprikuduft

extra virgin olífuolía ef vill- ekki nauðsynlegt en hún er góð... og holl.

Steinselja, söxuð og magnið fer eftir smekk.

Öllu nema steinseljunni er blandað saman og sett í krukku. Geymist nokkra daga í ísskápnum og er hægt að grípa til þegar maður nær í sellerístilkana, gulræturnar og allt það sem maður ætlar að borða í staðinn fyrir súkkulaðið...

Steinseljunni er síðan bara drussað yfir þegar nota á ídýfuna. Ef þið eigið ekki steinselju, farið ekki að gráta. Hún bætir alltaf bragð og útlit en hún er ekki ómissandi.

Og hér er myndin af þessari hollustu sem smakkast svona líka bara vel! Þessi fer í reglulega "to do" rúntinn!

tahiniídýfa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband