Kosher kvöld í kvöld.

Gyðingabókin góða var dregin fram í gærkvöld og tvær uppskriftir valdar til að hafa í kvöld. Það var "kjúklinga Snitzel" og sítrónu og kapers-salsa. Að auki hafði ég aðra "sölsu" sem var einfaldlega avocado, agúrka og tómatar, allt skorið í litla teninga, olífuolía og limesafi, smá salt og pipar og beint á borðið!

Hraunbergs-salsa

Ég reyndar vil alltaf hafa eitthvað stökkt með svo að ég setti nokkrar brotnar kasjúhnetur með á toppinn.

 Jæja, snúum okkur að kjúklingnum. Í upprunalegu uppskriftinni eru kjúklingabringur sem velt er úr hveiti og eggi og loks raspi. Þar sem ég er iðulega í hveitiuppreisn (á milli þess sem ég dett í kökur) þá notaði ég soja í staðinn. Þeir sem eru með glúteinóþol eða vilja einhverra hluta vegna ekki borða hveiti, geta auðveldlega borðað raspaðan mat með því að nota soja í staðinn. Mikið sem ykkur hlýtur að létta! Það er ekki hægt að lifa lengi án þess að fá t.a.m. kótelettur í raspi. Nema maður sé Dr.Tóta vinkona mín sem skefur raspið af. Enda hefur hún ekki bragðlauka né hundsvit á matargerð almennt... W00t

Ég notaði kjúklingalundir og setti í plastpoka. Þetta var einn bakki af lundum og með í pokann smellti ég þremur hvítlauksrifjum, krömdum en ekki afhýddum. Það er óþarfi að vera með vesen! Við viljum bara fá keiminn. Þetta er látið vera á eldhúsbekknum í tvo þrjá tíma. Síðan tók ég bolla af sojamjöli og  hristi saman við lundirnar ásamt salti og pipar. Síðan tíndi ég lundirnar uppúr pokanum, eina í einu, dýfði í samanslegin egg og síðan ofan í sojahakk. Sojahakk er auðveldlega hægt að nota í staðinn fyrir rasp og það smakkast ekkert síður. "Raspið" þarf að krydda svolítið vel með salti og pipar, papriku og/eða sítrónupipar, eða bara hvaða kryddi sem þið viljið. Þetta steikti ég svo í mikilli olíu á vel heitri pönnu, þar til gullið og gordjöss. Þá fóru þessar elskur inn í heitan ofninn til að steikjast í gegn.

Jæja. Ofan á kjúklingasnitzelið, átti að setja eina teskeið eða svo af sítrónu og kapers-salsa. Það fór nú svo að við hljónin tvö átum það allt saman og það gott betur en eina teskeið á hverja lund! Við bókstaflega hrúguðum því ofaná. Þetta er ekki fyrir þá sem finnst súrt bragð óviðkunnalegt. Kapers hefur mjög afgerandi bragð og það er heil sítróna í þessu salsa.

Það sem þarf í salsað er:

1 sítróna

2 msk kapers, skolað, kreistið umfram vatnið úr, og grófsaxið það.

smá salt

cayenna á hnífsoddi

græn olífuolía, tvær til þrjár msk.

ca hálf tsk þurrkað oregano, mulið útí

tvær msk af saxaðri steinselju.

Sko. Sítrónan er afhýdd með beittum, litlum hnífi. Það er mikilvægt að skera allt hvítt af henni. Best er að gera þetta yfir skál því að safann sem rennur frá þessu er hægt að nota í salsað. Þegar allt hýði er komið af, skal skera ofan í hólfin á milli hvítu skilanna, til að fá kjötið úr í litlum bátum, alveg án alls hýðis og himnu. Tínið steinana úr ef einhverjir eru og saxið sítrónukjötið smátt á litlu bretti. Skafið það ásamt safanum ofan í skál. Kapersi, kryddi og olíu er hrært saman við og rétt áður en þetta er borið fram, er steinseljunni blandað saman við. Þetta passar ótrúlega vel saman með svona brösuðum mat eins og kjúklingi, steiktum í raspi. Þetta er pottþétt líka æðislegt með fiski.

rapsaður kjúlli með súúúru salsa!

Að lokum ætla ég að deila með ykkur eldamennskuslysi (þau gerast æði oft á þessu heimili, trúið mér! en verða gjarnan til þess að eitthvað sniðugt verður til) sem varð hjá mér í gær.

Ég átti eftir áramótajólaþrettánda-ofgnóttartímann, tvær hálfar fernur af rjóma sem var orðinn súr. Þegar það gerist er bara eitt í stöðunni: að steikja kleinur. Það er eiginlega ekki hægt að gera neitt annað gagnlegt með fúlann rjóma en að nota hann í kleinubakstur því að bragðið kemur ekkert fram.

Ég steikti þessar líka dýrðarinnar kleinur og fjölskyldan lá á slefunni þar til þær komu út pottinum. Æ.... ég hafði víst mælt sykurinn eitthvað vitlaust. Þær voru sykurlausar, eða amk svo sykurlitlar að þær voru eiginlega óætar sem kleinur. En þær hefði eflaust mátt borða með áleggi, líkt og soðið brauð, ef ekki hefði verið fyrir það að þær eru þannig í laginu að erfitt er að smyrja þær.

Nú voru góð ráð dýr. En ég hef nú lesið nógu mörg dönsk blöð og norsk, til að vita að þar ytra nota frændur okkar allt öðruvísi kleinuuppskrift en við og dýfa þeim svo í sykur! Mér hefur nú yfirleitt þótt tilhugsunin frekar óaðlaðandi en í gær tók ég flórsykur og sigtaði duglega yfir hverja porsjón sem upp úr pottinum kom. Þetta var svo fallegt! Kleinur með snjó! Svo sýnist mér þetta hreint ekki ganga verr ofan í liðið en þessar hefðbundnu. Flórsykurinn lítur nú ekki alveg jafn vel út og á degi eitt, en hvað... þetta endar allt á sama stað, ekki satt?
Lærdómur: matur er aldrei ónýtur þó að maður hafi klikkað á einhverju. Það þarf bara að "laga" hann með einhverjum ráðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er líka gott að nota spelt í stað hveitis þegar maður stelst til að elda snitsel. Besta snitsel sem ég veit um er ættað úr smiðju Ragnars Freys Ingvarssonar, matglaða læknisins. Mæli með því nema maður sé gyðingur...

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband