Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

farin

Ég hef fylgst með þessari fallegu konu og hennar ótrúlegu baráttu við þennan illa sjúkdóm, krabbameinið. Nú er þessari baráttu lokið og börnin hennar þrjú kveðja móður sína. Guð blessi minningu hennar og gefi börnum hennar styrk í sorginni. Það eru nokkrar hetjur eins og hún sem ég fylgist með í gegn um heimasíður þeirra. Það er gott að láta þetta hugrakka fólk kenna sér um hvað lífið virkilega snýst, hversu mikilvægt það er að vera góð manneskja og hlúa vel að því mikilvægasta í lífinu.

 


mbl.is Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveðja.

Þegar ég vann á Skýlinu í Bolungarvík í vetur, eignaðist ég "kærasta." Hann var hávaxið glæsimenni, kominn yfir áttrætt og með kímnigáfu sem mér var að skapi. Hann orti mikið og ég hugsa að eftir hann liggi mikið af kveðskap. Og af því að ég eldaði handa honum matinn komst ég ekki hjá því að taka eftir að þar fór einn mesti sætindagrís sem ég hef kynnst. Sætsúpur og búðingar, molasykur og hunang. Þetta þótti Gunnari mínum það besta! Og borðaði óspart af sætindum. Eins og gefur að skilja þótti mér ekki leiðinlegt að baka handa honum.

Það kom fyrir að hann var slappur og koma seinna í mat en hinir. Þá sat ég með honum að spjalla og alltaf leit hann á mig þegar ég var skellihlæjandi af einhverju gullkorninu hans og sagði: ja, einhverntíma hefði ég getað látið þig hlæja!

Ég hef alltaf kíkt við hjá honum síðan ég vann á Skýlinu. Bæði af því að ég veit að félagsskapur kvenfólks var honum mjög að skapi og líka til að heyra nýja vísu eða bara til að kyssa þennan hvíthærða, fallega mann á kinnina. Un daginn þegar ég kom var hann hress, hélt að sumarið ætlaði að fara vel í sig jafnvel. Í gær hafði blaðið snúist við. Ég sat hjá honum litla stund, hélt í hönd hans og kyssti hann svo bless. Kortéri eftir að ég fór, var hann dáinn.

Ég rétt náði til að kveðja þennan nýja vin minn sem varð mér svo kær þennan stutta tíma. Hann hafði lengi verið fangi í lösnum líkama. Nú er hann frjáls. Hvar hann er veit ég ekki, og ekkert okkar. En ef himnaríki er til, þá er hann þar. Kannski fær maður nýtt vísukorn, hitti maður hann á ný.

 


Annar í hvítasunnu...

Við vorum í ferðalagi um helgina. Reyndar bara á Ísafirði. Valrún fékk húsið lánað fyrir gesti sem voru að koma í ferminguna hennar Ingibjargar, elstu dóttur Völlu. Við kúrðum á meðan hjá Ellu og Einari Björgúlfsömmu og - afa. Fermingarveislur með tilheyrandi ofáti í gær og í dag finnur maður glöggt að maður er jú ekkert annað en risavaxin meltingarfæri.

Það styttist í sumarfríið okkar. Förum út til Danmerkur eftir eina og hálfa viku. Ég hef hlakkað gríðarlega til og núna á meðan skaflarnir bráðna í garðinum mínum hugsa ég um hversu gott það verður að vera að dóla sér með fjölskyldunni í rólegheitum í þrjár vikur. Ekkert stress, engin vinna, bara notalegt.

Ég er helaum í rassinum þessa daga, það er að segja rasskinnunum, ég fæ sprautu annan hvern dag í bakhlutann með B12 vítamíni sem var víst harla lítið af í skrokknum. Mér skilst að ég verði hress eins og hross á vordegi þegar búið er að kippa þessu í liðinn. En mikið djöfulli er þetta vont! Illt skal með illu burtreka, var einhversstaðar skrifað og ég sætti mig bara við þetta möglunarlaust. Þannig séð ;)

Það er að koma fólk að skoða húsið. Það er líklega eins gott að hella á könnuna og gera svolítið huggó. Er ekki alltaf sagt að maður eigi að hafa köku og kaffiilm í húsinu þegar maður sýnir það til leigu eða kaups?


Hahahahahaha

Hann er góður þessi...

Bíllinn minn er FASTUR Í INNKEYRSLUNNI!!!!

Ja... segi nú ekki annað en það að ég er frekar fegin yfir því að ég skuli vera á leið úr landi á næstunni!


Onsdag

Það snjóar enn.

Í gær var alhvít jólajörð þegar ég vaknaði. Mig langaði til að grenja en gat þó aðeins hlegið. Til hvers að grenja yfir veðrinu? Eitt af því fáa sem ég verð jú að játa að ég hef enga stjórn á! En svífa fallegar hvítar flygsur til jarðar fyrir utna gluggann hjá mér og í huga mér hljómar lagið: yfir fannhvíta jörð leggur frið....

Ég vinn eins og sleggja í helvíti þessa daga. Vinnutíminn er níu til hálf sjö. Oft lengur. Þetta mun ég ALDREI ráða mig í lengur en mánuð í senn. Börnin mín grenja þegar ég kveð þau á morgnana og ég fer, hlaðin samviskubiti inn á Ísafjörð. Það bjargar málunum að maðurinn minn er heima. Samt er ég með samviskubit. Hvað segja feministafasistavinkonur mínar  kæru á Ísafirði um það???Happy

Ríkisstjórnin hefur raðað sér í hlutverk. Ég læt vera að fagna. Ég ætla að byrja á að sjá bara hvað hún gerir. Hér fyrir vestan er a.m.k nóg að gera og mörg horn í að líta þessa dagana og lítur út fyrir að svo verði áfram.

Nú er víst best að ég komi mér í vinnuna svo að Sigga haldi ekki að ég sé föst í skafli á Óshlíðinni! Afsakið hversu tíðindalaus færslan er að sinni, ég er bara svo obbosslega upptekin..... svo vinn ég í uggnablikinu við útvarp. Borgar sig ekki að hafa of miklar skoðanir rétt á meðan ;)


Fyrir hvað geldur fólk?

Enn einn dapur dagur á Vestfjörðum. Ég var þungstíg (ekki það að ég stigi yfirhöfuð mjög létt til jarðar :o) þegar ég þrammaði upp tröppurnar heima hjá mér klukkan hálftíu í kvöld með innkaupapokana og klósettpappírsskammt mánaðarins. Þetta var langur dagur í vinnunni. Ástæðan er enn eitt reiðarslagið sem yfir Vestfirði dynur. Kambur, langstærsti atvinnurekandinn á Flateyri búinn að leggja upp laupana. 120 manns búin að missa lífsviðurværið. Á Flateyri búa rúmlega 300. Þetta er nánast hver vinnufær maður í þessu plássi! Þetta er ömurlegt. Svo ömurlegt að ég hef verið með grátstafina í kverkunum í allan dag. Svona er ég nú harður fréttasnápur! Þarf að fjalla um erfitt mál og ekki meira gagn í mér en svo að ég sit hálf grenjandi við símann og tölvuna.

Hvernig fer fyrir þessu svæði? Þetta kemur í kjölfarið á um það bil 80 manna uppsögnum liðins árs. Fyrst var það fjallið, þar sem meðal annars minn eigin maður missti sína vinnu, síðan Marel sem sagði upp tuttugu manns, Bakkavík í Bolungarvík sem sagði upp fimmtíu og nú þetta.

Er skrítið að orðið olíuhreinsunarstöð sé ekki lengur alslæmt í huga fólks? Fólks sem ekkert sér framundan annað en atvinnuleysi og fólksflótta? Það er ekki bjart yfir í dag en vonandi tryggja stjórnvöld öllum sínum þegnum öryggi í atvinnumálum... eins og lofað var fyrir kosningar. Er bót í máli að eiga inni slík loforð frá ráðamönnum þjóðarinnar? Hlýtur að vera.

Góða helgi.


Móðurbetrungurinn Björgúlfur.

Sonur minn Björgúlfur var að vinna önnur verðlaun ásamt sínum bekk, í samkeppni tengdri reykinga-áróðurs-fasismanum Grin

Ég er að vonum stolt af mínum strák. Það má lesa allt um þetta hér: http://bb.is/Pages/26?NewsID=100649


TIL HAMINGJU ÍSLAND!

.... meðað hann fæddist hér!
mbl.is Afmælisdagur forsetans í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sunnudagur....ekki til sigurs þó!

Ég var frekar framlág þegar ég renndi inn í bæinn í gærkvöld. Það hafði hvellsprungið hjá mér á leiðinni frá Reykjavík en ég var svo ljónheppin að vera komin í Skutulsfjörðinn. Þó að ég geti skipt um dekk á "venjulegum" bíl þá sá ég að þetta var mér ofviða. Hringdi í Einar Björgúlfsafa sem kom sem frelsandi engill og skipti um dekk hjá mér. Það var sko ekkert smá vesen!!! Svona stórir bílar eiga auðvitað að vera með sjálfvirka dekkjaskiptigræju! Ég er bara þakklát fyrir að hafa verið komin í símasamband!

Vegirnir eru ekki beint ferðalgasins draumur um þessar mundir og ég er hissa á að ekki hafi sprungið hjá mér fyrr í ferðum mínum. En eins og Valrún mín benti mér á í gær eru ferðir mínar að verða tíðari en Póstbílsins. Það er ferlega leiðinlegur kafli á Ströndum núna og mér skilst að óðaþensla eigi sér stað á Borðeyri því að bílaverkstæðið hefur vart undan að gera við bíla sem koma skældir og skakkir með ónýt dekk þessa dagana af Ströndunum.

 Halli fór á lögguvakt í gærkvöld og ég fór snemma í rúmið, sátt við það að ríkisstjórin væri fallin. Og svaf lengi frammeftir.  Mér var því skiljanlega áfall að kveikja á tölvunni í morgun og sjá breytinguna sem á hafði orðið. BÖMMER!!!!!

Það var ekkert annað að gera en að fara í sund með börnin og manninn og fjargviðrast í heitapottinum yfir kosningaúrslitunum. Ég gerði svona "netnaflaskoðun" þó að seint væri en sá að minnsta kosti að ég hafði kosið rétt!W00t

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 12.5%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 100%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 18%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%
 

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs!
 Nú fer ég að vinna klukkan níu í fyrramálið á RÚV og verð allan daginn þar á næstunni. Það er ágætt. Einhver verður að vinna fyrir heimilinu. Halli er að vísu búinn að fá atvinnutilboð í Danmörku en við erum ekki enn búin að leigja húsið. Kannski er bara Danski draumurinn ekkert að rætast?

þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur...

...get bara haldið áfram að svæla.....


mbl.is Munnmök ein ástæða krabbameins í hálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband