Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Grobbiddígrobb

Ég er að ganga fram af sjálfri mér í dugnaði!

Í gær tók ég 800m sprett í lauginni og svo beint í leikfimi á eftir. Eitthvað var ég síðan slöpp á kvöldvaktinni og hélt mér til skelfingar að ég væri að fá flensuna. Var með verki allsstaðar og eitthvað ómöguleg. Áttaði mig svo á því í morgun að líklega myndi ég ekki synda mikið í dag... Ég er bókstaflega með verki! Handleggirnir eru eins og einhver hafi gert tilraun til að slíta þá af og ég er frekar lemstruð LoL

Svona er að láta eins og maður sé í formi! Til að bæta gráu ofan á svart snjóaði heil ósköp í morgun og leit ekki út fyrir að viðraði til gönguferðar. Ég var því farin að huga að ferð í ræktina þegar skyndilega rofaði til og himininn varð heiðblár! Sólin skein á nýfallna mjöllina og allt varð svo unaðsfagurt og dásamlegt að ég hentist í lopapeysuna, þrumaði ólinni á tíkina og öslaði út í snjóinn. Er nýkomin heim og búin að hita mér tesopa og finn hvernig harðsperrurnar eru að gera sig heimakomnar í fótnum eftir snjótroðsluna..... Held að ég neyðist til að fara í heitapottinn á eftir. Já... hreinlega NEYÐIST......

Dagatal marsmánaðar var að koma í tölvupósti frá Leikskólanum hans Baldurs og af því að hann verður fjögurra ára þann þriðja mars var mynd af honum sem ég stal og set hér inn fyrir Dagnýju gömlu frænku mína Wink

Baldur


Sunddrottningin.

22422505Eftir orkuleysið í gær dreif ég mig í sund og tók 700 metra sprett. Það tekur innan við hálftíma og mér leið dásamlega á eftir. Eyðilagði þó hluta ánægjunnar með því að fara í heimsókn og éta fríhafnarsúkkulaði í stað kvöldverðar en bætti mér það svo aftur upp með því að graðka í mig gulrótum á námskeiðinu sem ég sótti strax á eftir. Ég er stax orkumeiri í dag eftir að hafa hreyft á mér holdugan afturendann í gær og stefni á leikfimi klukkan fimm ef ég fæ pössun. Svei mér ef ég hef ekki bara gripið í tusku við og við á meðan ég þjóna sonunum Ringsted, sem eru ennþá veikir heima. Sá stóri, Pálsson, hristi af sér veikindin og dreif sig í skólann í morgun með stíflað nef og bólgin augu.

 

mynd stolin af BB.isÞað snjóar og snjóar! Veturinn hefur verið ótrúlega leiðinlegur veðurfarslega séð. Mér finnst reyndar ágætt að hafa bara vetur þegar það á að vera vetur og sumar þegar á að vera sumar. Og ekki vil ég helv... rigninguna. Ég þoli ekki vetur sem einkennast af myrkri, rigningu og roki, gulu , illa lyktandi grasi og drullu úti um allt. Nei þá vil ég nú heldur nýtt hvítt teppi yfir heiminn, daglega. Svo ég tali nú ekki um hvað það er þægilegt þegar hundaskíturinn í garðinum hverfur alveg sjálfkrafa... þangað til snjóa leysir. Úff... þá sendi ég fermingarbarnið út með skófluna.....

 

Jæja, betur má ef duga skal.. ég ætla að ryksuga hundalopann af ganginum. Tíkin hún Urta hleypur alltaf inn í svefnherbergi og treður höfðinu undir rúm þegar við ryksugum. Það er í sjálfu sér ágæt en þó, skammvinn lausn á vandamálunum. Að hlaupa í felur. Samt drjúgt stundað af okkur öllum held ég. Eigið góðan og gleðiríkan dag.

 


Dagar með vélbyssunef.

Það snörlar í nösum Baldurs þegar hann sýgur upp í horfyllt nefið. Mamma; -segir hann þá. Ég er með vélbyssunef! Hlustaðu bara!

Það koma alveg dagar sem draga úr manni allan mátt. Þessi er einn af þeim. Allir drengirnir veikir og féll í minn hlut að vera heima og gæta þeirra. Ekki það að sá elsti geti ekki passað, mér finnst bara dálítið langt gengið að láta veika drenginn minn passa hina veiku drengina :) Og ég kem engu í verk. Engu. Og það er ekki það að ég viti ekki hvar ég eigi að byrja. Það skiptir engu hvar ég byrja, allsstaðar er þörf fyrir tiltekt og þrif. Svo að ég tali nú ekki um allan páskabaksturinn sem bíður... glætan!!!

Í dag hef ég akkúrat EKKERT gert, nema hangið í tölvunni og étið. Það var svo mikið afrek fyrir mig að labba eina ferð í þvottahúsið og hengja úr vél að ég varð að verðlauna mig með nammi á eftir. Nú sit ég og ét það nammi og mér finnst það ekki einu sinni gott. Bragðast eins og saltaður appelsínubörkur sem hefur verið dýft í sykurlög. Ógeðslegt. En ég gefst ekki upp og klára úr pokanum eins og þæg stúlka. Svei mér ef ég verð ekki að skreppa í sundlaugina á eftir og synda af mér Haribo pokann. Nema að ég leggi mig og síkreti af mér s.s. tíu kíló á meðan.... kannski alveg jafn vænlegt?

Börnin horfa á Simpson og ég stari á fólk út um gluggan og hugsa: hvaðan kemur öll þessi orka? Mér finnst allir alltaf vera að gera eitthvað. Sjálf hef ég varla orku til að blikka augunum! Hvernig stendur eiginlega á þessu?

Jæja, Upp með þig Ylfa Mist. Á fætur og komdu einhverju í verk! Einn.... tveir..... ognú!

 

 


Helgin að baki.

Róleg vinnuhelgi afstaðin. Finnbogi var hjá okkur, ég var að vinna laugardag og sunnudag og strákarnir Haraldssynir voru, og eru, báðir með influensu. Unglingurinn Pálsson aftur á móti fór einn í skólann í morgunn og reyndi ítrekað að fá mig til að trúa því að hann væri með smá hita. Gekk ekki upp. Enda yrði hann líklega ekki mjög sæll fengi hann sama hitastig og bræðurnir sem damla þetta í u.þ.b. 40 gráðum, óuppstílaðir.

Við bökuðum pizzur á laugardagskvöldið og fengum Björgúlfsömmu og afa í mat og horfðum svo með þeim á Júróvísíjón. Þeim finnst það ekkert skemmtilegt en einhverra hluta vegna finn ég mig alltaf tilknúna að bjóða þeim því að ég hef svo fjarskalega gaman að því að heyra hversu óskaplega þetta fer allt saman í taugarnar á þeim! Þau eru BARA dásamleg! Kissing Ég gladdist fyrir hönd Friðriks Ómars, míns gamla leikfélaga úr leikfélagi Dalvíkur þegar úrslitin voru kunngjörð. Mér fannst þau vel að þessu komin. Ég reyndar var að heyra flest lögin í fyrsta skipti og var því ekki búin að mynda mér neina skoðun nema mér fannst viðlagið í gospellagi Guðmundar Jónssonar sem Páll Rósinkrans söng, grípandi. Ég hafði heyrt það áður í útvarpi eða sjónvarpi.

Annars eru vaktaskipti núna hjá okkur hjónum, ég er að koma heim og hann að fara í vinnuna. Mér fannst svolítið gaman í morgun þegar eldri kona í vinnunni spurði mig með undrun í rómnum hver væri heima að passa börnin mín sem væru veik. Þegar ég svarðaði því til að maðurinn minn væri heima með þeim fram að hádegi spurði hún með enn meiri undrun: Læturðu HANN passa? Þarf HANN ekki að mæta í vinnu???? Dásamlegt!

Set inn myndir af sumri og sól í Danmörku frá síðasta júní svona í tilefni af því að hér er bylur!

2286204622_065ca7ffdd

 

2285422591_220b67374a

 

2285410035_584b65df00

 

 

 


Reykur á vatni

Börnin mín spila allan liðlangan daginn á gítar. Alltaf sama lagið. Smoke on the water. Sem er í sjálfu sér frábært lag en meeeeeen hvað ég er orðin þreytt á því.. Björgúlfur bregður stundum útaf vananum og spilar Fjöllin hafa vakað í þúsund ár og Halli spilar ALLTAF Róbert bangsi. Núna er Birnir einmitt að spila á gítarinn sinn og lagið er auðvitað: smoke on the water....

Nú er blessaður friður í húsinu, enda sefur eyrnabólgusjúklingurinn vært. Hann hefur haldið mér uppi á teiknimyndum í morgun og í hvert skipti sem ég lokaði augunum og var um það bil að renna í brjóst, gólaði hann: mamma, vittu hovvra með mér! Etti sofa! Svo að nú langar mig mest til að leggjast uppí hjá honum og steinsofa þangað til bóndinn kemur heim. En hundahárin liggja eins og lopi á gólfunum og þvottur í hrúgum um allt hús. Drasl og ryk hvar sem á er litið.... úff. Best að skríða bara uppí rúm og horfa á Despó eða eitthvað......


Ég meiði mig í eyranu..

grenjar Baldur bolla. Ég sem var handviss um að kvef og eyrnaverkir heyrðu sögunni til nú þegar krakkinn væri orðinn kirtlalaus. Jæja, komi það sem koma vill. Svona er ég nú æðrulaus :) En það er nú vegna þess að ég á ekki von á öðru en kvef og eyrnabólga lagist svona nokkuð fljótlega.

Ég er á frábæru námskeiði. Það heitir "Konur eru konum bestar," og er alveg magnað. Verkefni vikunnar voru tvö. Annarsvegar að taka heilan klukkutíma í að gera eitthvað bara fyrir mig (ekki erfitt, er alltaf að því) en það sem verra er, ég MAN EKKI hitt verkefnið. Er það ekki dæmigert?

Jæja, ætla að finna stíl fyrir litla drenginn með bollukinnarnar. Set inn eina mynd af honum fyrir Dagnýju frænku mína aldraða, sem segist vera að missa af uppvexti hans. Hvað ertu líka að vilja með að búa þarna fyrir norðan, Dagný??? :oþ

Hér er Baldur reyndar á stefnumóti.....

parið


terroristinn hennar mömmu sinnar :)

Baldur er ekkert alltaf sama ljósið og bræður hans. En það er ágætt, ekki geta allir verið eins. Í dag "málaði" hann dótaskúrinn á leikskólalóðinni með drullu og skít og sjálfan sig um leið. Síðan át hann áleggið ofan af brauði allra barnanna á deildinni þegar komið var að kaffitímanum...... Þann tendens gæti hann mögulega haft frá mér... eða pabba sínum.....

Þetta með skítinn hins vegar minnir óneitanlega á Björgúlf stóra bróður hans þegar hann, tveggja ára gamall kúkaði á gólfið og faldi ummerkin með því að moka öllu inn í vídeótækið með lítilli plastreku! Ég varð ekki vör við neitt (nema smá lykt) fyrr en ég setti tækið aftur í gang. Það var bara eins og skítadreifari þegar ég ætlaði að spóla til baka!

Þetta eru nú meiri ormarnir.

Súkkulaði er einkar viðeigandi á eftir svona sögum.....

Súkkulaðiprins....


Tvær Lödur

Hvað skyldi það tákna að mæta tveimur hvítum Lödu Sport á sama klukkutímanum? Segir það eitthvað að þær voru báðar á Norðurlandi? Ég hef ekki séð Lödu Sport í mörg mörg ár og það var ótrúlegt að mæta tveimur með stuttu millibili. Halli minn var viss um að þetta væri fyrirboði :)

Við vorum að renna heim í hlað. Fengum saltfisk hjá Ömmu á Ísafirði þegar við komum svöng og slæpt á Ísafjörð, skelltum okkur svo í Samkaup og keyptum brauð og mjólk. Snjórinn er að mestu farinn NEMA úr bílastæðinu okkar......  En það er nú í góðu lagi.

Febrúar hefur verið undarlegur mánuður. Erfiður í meira lagi. Áföllin dynja yfir nánast daglega. Enn ein hörmungarfréttin kom í gær og ég votta Eddu frænku minni og hennar fjölskyldu mína innilegustu samúð.

Óshlíð, tekið í fyrrasumar


Föstudagur

Ferðin norður gekk vel, við stoppuðum og dýfðum okkur í laugina í Reykjanesi í kortér og stoppuðum svo næst bara í Staðarskála og átum jógúrt og banana. Mættum svo til Pabba um hálf tíu leytið um kvöldið, slæpt og þreytt eftir langt ferðalag og fengum ilmandi gúllassúpu sem Yrsa systir hafði eldað og komið með. Við höldum til hjá pabba og að sinni verður ekki farið í neinar heimsóknir til annarra, heldur tíminn nýttur með honum og fjölskyldunni eins og hægt er. Við förum aftur heim á mánudag að öllu óbreyttu og þá fer maður að huga að fermingu erfingjans!! Litli drengurinn hennar mömmu sinnar bara að verða svona stór!

Jæja, þetta hefur verið langur og strangur dagur með tilfinningarússíbana og öllu tilheyrandi. Halli minn er kominn undir sæng og allir sofnaðir hér í Skálagerðinu nema ég og Urtan mín en nú erum við að hugsa um að skríða uppí hjá okkar heittelskaða..... (nema hvað að tíkinni verður auðvitað snarlega sparkað frammúr ef hún ætlar eitthvað að fara að gera sig breiða... kemst sko engin tík upp á milli okkar ;o) )

Góða helgi og Guðsblessun.


Norður

Fyrir mánuði fékk ég erfiðar fréttir af nánum aðstandenda. Í gær fékk ég erfiðar fréttir af öðrum nánum aðstandenda. Og í dag brunum við norður. Við verðum á Akureyri fram á mánudag. Það er glerhált á leiðinni svo að við verðum að öllum líkindum lengi.

Guð geymi ykkur.

á góðri stundu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband