Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Í Austurbænum

Það er dásamlegt að vera hjá Tótu vinkonu. Liggja uppí sófa og glápa á rómatískar, breskar gamanmyndir, fara í unaðslegu sturtuna hennar og fá að sofa í nýja sjúkrarúminu hennar, sem ég held að hún hafi keypt bara fyrir mig! Allt rafdrifið og gasalega hentugt. Það er yndislegt að vera ekki á spítala, geta borðað þegar manni hentar og drukkið þegar maður er þyrstur. Svo býr Tóta í Austurbænum, Holtunum, þægilega stutt frá öllum helstu lækna og rannsóknarstöðvum þeim sem ég þarf að sækja heim af og til. Einhverntíma sagði mér maður (mig minnir að hann heiti Haraldur) að hann þaulrataði um allt þetta hverfi fyrir þær sakir að í gamla daga hefði búið svo mikið af einstæðum mæðrum hér! Man að mér þótti það frekar fyndið.....En nú er ég í lækna og rannsóknarleyfi fram á mánudag. Og ef Guð lofar, fer ég heim á þriðjudag.

Sara frænka kom að heimsækja mig í dag og við skemmtum okkur ágætlega þangað til að ég fékk eitthvað bakslag seinnipartinn. Maður verður fárveikur af því að leggjast inná spítala og ég er búin að vera allan tímann með ógeðslega hálsbólgu. Þá alverstu sem ég hef fengið síðan ég var með hálskirtla! Sama tilfinning og fyrstu dagana eftir að kirtlarnir voru teknir úr mér! Þetta er ekki eðlilegt. Mér finnst bókstaflega allir vera með einhverjar fjárans pestir, flensur, magaveiki eða hvað þetta nú allt er. Er þetta árstíminn? Er þetta alltaf svona ár hvert? Er maður bara svona fljótur að gleyma á milli ára? Allavega lagðist ég undir feld og horfði á myndina Fjögur brúðkaup og jarðarför. Einhverra hluta vegna er ég eina manneskjan í heiminum sem aldrei sá þessa mynd á hennar prímatíma! Hún er alveg ágæt.

Takk fyrir allar bataóskir, góðar kveðjur og hlýjar hugsanir undanfarna daga. Lovjúall...


á meðan þjóðfélagið er skekið í pólitíkinni...

.....er ég í einangruðu og vernduðu umhverfi ríkisins.

Á deild 14 G á landspítalanum sit ég og bíð eftir að komast í aðgerð. Í nærbuxum sem hafa sennilega verið hannaðar í starfsmannapartýi saumastofunnar, klukkan fjögur um morguninn! Ég þekki í það minnsta engan sem hefur tuttugu cm breitt klof, og getur notað teygjulausar nærbuxur.

Ég er flækt í víra og snúrur, fæ hvorki vott né þurrt og er orðin svo þyrst að ég er farin að froðufella!!

kannski á að fresta aðgerðinni minni, var mér sagt rétt í þessari andránni, ég má samt ekki fá neitt að drekka.... EF ég kannski kæmist inn seinnipartinn....... 

Konan sem var við hliðina á mér í nótt var send heim "í leyfi" sem þýðir að hún mátti drífa sig heim, helst sem hraðast, án þess að hafa fengið bót meina sinna. Hún var verulega spæld.

Á ganginum eru rúm við alla veggi og þar liggur fólk í misslæmu ástandi, flestir í súrefni. Það er ekki pláss fyrir það á stofu.

Á bráðadeildinni niðri liggja sex saman á stofu. Allir þurfa að segja kennitöluna sína hvað eftir annað, starfsfólkið gefur upp nöfn viðkomandi, sjúkrasagan er sögð, mælingar eru gerðar og allt fer þetta fram í vitna viðurvist. Það er ekkert prívat.

Svona er besta heilbrigðiskerfi í heimi.....

En nettnengingin virkar!!


Innbrot!

Klukkan hálf þrjú í nótt, fór ég að heyra eitthvað hljóð niðri. Mér fannst eins og dyrnar sem snúa út í bakkgarðinn væru opnaðar. Reyndar fannst mér smátt og smátt eins og verið væri að opna allar hurðar hússins! "Halli!... Halli!! þú verður að fara fram! Það er einhver frammi!" Halli sagði að þetta væri bara vindurinn. Óþarfi að vera með læti yfir því! Áfram héldu torkennileg hljóð að berast og þegar tíkin, sem alltaf sefur fyrir framan Birni sinn í kojunni hans stökk á fætur og fór að ókyrrast og væla, var eiginmanninum hent fram úr rúminu til að hlaupa fram og hrekja gestinn á flótta. Eftir stutta leit að náttsloppnum rauk Haraldur fram og æddi niður þar sem ég heyrði stympingar, hurðarskelli og öskur! "Ónei! Kannski er þjófurinn vopnaður," hugsaði ég. "Kannski eru þeir margir saman!" Að lokum barst leikurinn upp og hér frammi á gangi tókst Halla að yfirbuga innbrotsþjófinn og reka hann út um galopnar útidyrnar sem tíkin kastaði sér á, því að sjálf ætlaði hún sér að ná tangarhaldi á innbrotsþjófnum! Hún vældi og skældi á meðan Halli hljóp um allt hús og rammlæsti öllum dyrum og gluggum. Og á meðan á þessu öllu stóð gelti raðgreiðslurottan hennar mömmu inní herbergi eins og enginn væri morgundagurinn!

Púff... nú var loks að komast ró á fólkið aftur en tíkin var ósátt og grenjaði. Fannst okkur því líklegast að skrattakollurinn væri jafnvel ennþá að sniglast fyrir utan. Jú, mikið rétt. Hann byrjaði að henda sér á kjallaradyrnar sem eru staðsettar undir svefnherberginu með ólátum og djöfulgangi. Hann var alveg orðinn brjálaður! "Halli, þú verður að hringja og láta fjarlægja hann á stundinni!" -skipaði frúin. Þreytulega tók Haraldur upp gemsann og valdi númerið. "Blessaður," sagði hann mæðulega, "heyrðu þú kannski kemur og sækir hundinn þinn?"

Tíkin er semsagt lóðandi og í bænum er hundur sem ætlaði ekki að láta bóndadagsfenginn framhjá sér fara!!

Til hamingju með daginn, bændur!


Diskarnir.

Ég er búnað gera upp við mig hvaða geisladiskar sem út komu á síðasta ári hafa staðið uppúr hjá mér. Fyrst skal telja: Hinn Íslenska Þursaflokk og Caput, í Höllinni á Þorra 2008. Diskurinn er snilld, Þetta eru nú ekki neinir aukvisar þarna í Þursaflokknum og skal þar minnst gera úr hlutverki sáðmannsins og föður míns, Rúnars Hartmanns Vilbergssonar :)

Diskur Vilbergs Vilbergssonar; Í Tímans Rás, stóð líka uppúr hjá mér. Hefur auðvitað ekkert með skyldleikann að gera, hvað þá að ég syngi eitt lag á diskinum ;o) Hvað um það, diskurinn er; (þrátt fyrir það) afbragð og hentar við öll tækifæri.

Túpílakar gáfu út disk á þessu ári. svei mér ef hann ekki bara heitir Túpílakar? Hann hefur verið spilaður allra mest í mín eyru. Heilu ferðalög sumarsins voru undirlögð af þessum snillingum, Oddi Bjarna, Margréti og Sigga Illuga. Börnin kunnu alla textanna og meira að segja Halli, textafatlaður maðurinn, var farinn að raula með einn og einn lagstúf. Þessi plata er frábær! Útsetningarnar er drullugóðar, Oddur er náttúrulega skitsófranískur söngvari og í honum búa þúsund aðrir söngvarar, Margrét er nú hreint ekkert slor, og Siggi heldur þessu svo öllu saman! Synd reyndar að heyra hann ekki syngja meira því að hann er með fallega söngrödd. Textarnir eru dýrðlegir! Línur eins og "Drullusokkar falla fyrir Dóru syst, og Dóra fellur klofveg´oná þá!" eru auðvitað algjört sælgæti!

Ekki má gleyma Galdrakarlinum í Oz! Leikhópurinn Lotta gerði þann feikilega flotta barnadisk. Hann var spilaður í hel. Það er náttúrulega frekar fyndið að einn af aðaldiskum ársins skuli vera barnadiskur, en þannig er það bara þegar maður á börn. Þá stjórna þau dálítið miklu um tónlistarval heimilisins........

Ég er alltí einu að átta mig á því að diskarnir eru allir íslenskir. Sem er bara frábært! Ég þarf greinilega ekkert að leita út fyrir landsteinana, nægar eru perlurnar hér.


Ársuppgjör án reikninga.

Gleðilegt ár!!

Loksins hef ég mig í að líta yfir árið 2oo8. Eins og sagði í bráðfyndnu áramótaskaupinu, -þetta var ömurlegt ár, -þá er ég að hluta til sammála því. En það sést týra í fallega ljósbletti inná milli. Fjárhagur heimilisins er tjah... bara í takt við fjárhag heimilanna um þessar mundir. Viðbjóður. Það er bara eitt orð yfir það, en það er nú ekki það versta sem hent getur. Ég lenti í hálfgerðu heilsutjóni og hef haft af því stærri áhyggjur en tittlingaskít eins og blankheitum.  Nú hef ég tekið þá ákvörðun að hunsa veikindi mín. Láta sem þau séu ekki til og sjá hvað gerist.

En það var margt sem við bar á árinu og hér ætla ég að gera á því stutta úttekt:

Ferming

Aldurssjokk ársins: Elsti drengurinn fermdist. Mér fannst ég skyndilega öldruð og virðuleg.

Vonbrigði ársins hin fyrri: bæjarstjórnarklúðrið í Bolungarvík í vor. Of neyðarlegt til að gera því greinilegri skil hér.

Vonbrigði ársins hin síðari: velkist einhver í vafa? Ríkisstjórnin? Útrásarmenn? Bankahrunið?  Nenni ekki að fara yfir þá sögu heldur. Hún er einnig ákaflega pínleg og allir þekkja hana. En svarið er á góðri íslensku;  Yes.

Kaldalón við Djúp

Ferðalag ársins: Tjaldútilega í Kaldalóni með fjölskyldunni í hitabylgjunni í júlí. Sandur, skeljar, fjallalækir, hornsílaveiðar, pylsur og bakaðar baunir á prímus, uppvask í fjallalæk, hljóð himbrimans á lóninu um nótt, kvöldsól, rauður himinn, busl í heitum náttúrulaugum og rústir liðinna tíma, „þar sem norðursins fegurð ríkir ein ofar hverri kröfu.“

Partýið ógurlegaGestir ársins:  Tenórarnir tveir, Eyfi og Jón Þorsteinsson ásamt Dr. Tótu. Hitabylgja sumarsins verður að teljast með gestum ársins. Klárlega. Jú, og Tengdamamma sem átti bestu meltingarfærabrandara ársins.

Breikþrú ársins: fölbleika greiphlaupið mitt sem seldist upp á markaðsdaginn.

Partý ársins: Haldið hér heima.  Mojito bladað í stórar könnur. Flestir gestir aðkomufólk sem söng mikið. Nokkrir heimamenn slæddust með, sér til undrunar og stemningsauka.  Endaði með sjúkrahúsvist og var gefið  magalyf í æð.

Og í framhaldi af því: Ákvörðun ársins:  að neyta ekki áfengis framar. Baldur í útilegu

Blaðaviðtal ársins: pottþétt viðtal Hálfdáns Hálfdánssonar fyrrverandi fréttamanns á BB, við sultudrottninguna og húsmóðurina Ylfu Mist. Þar líkti hann hlátri mínum við skoppandi læk á kyrru sumarkvöldi sem gjálfrar silfurtær í móum... og hvaðeina. Minntist ég á það að hann er fyrrverandi blaðamaður??

Undrun ársins:  einkunnir haustannarinnar.  Sá að ég gat lært. Átti ekki von á því. Hef reyndar áttað mig á því núna síðustu daga að stærðfræðin er mér jafn erfið og fyrr.

Kyntröll ársins: Haraldur! Þarf að spyrja?

Fegurð ársins: Drengirnir mínir. Þarf að spyrja?

 

Og í lokin, svona af því að öllu gríni fylgir nokkur alvara; það sem hafði mestu varanlegu breytinguna á líf mitt eins og ég þekkti það var náttúrulega þegar hann elsku pabbi minn, Helgi Þorsteinsson Von Sauðlauksdalur, eins og ég kallaði hann alltaf, lést þann 25. Nóvember. Ég er ekki ennþá alveg búnað átta mig á þeirri breytingu að pabbi sé horfinn mér fyrir fullt og allt. Mér finnst ég alltaf ætla að hringja í hann, segja honum eitthvað næst þegar ég heyri í honum, sögu, brandara eða uppskrift, en þá man ég að hann er dáinn. Það er skrítið. En gangur lífsins engu að síður.

Helgi Þorsteinsson

 

Gleðilegt ár!

Loksins!

Ég er að hamast við að "gera upp" árið í huganum. Er að setja það á blað. Set það inn fljótlega, þegar ég er búnað greiða úr flækjunni, því árið var allt í senn: dásamlegt, hörmulegt, sorglegt og gleðilegt.

Þangað til, Adjö.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband