Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Þjónustudeild aldraðra á Ísafirði og nágrenni.

Ég fór áðan með samnemendum mínum í skoðunarferð á Hlíf. Flott stofnun sem Hlíf er. Ég gæti alveg hugsað mér að eiga þar íbúð þegar ég fer að reskjast. Allt til alls, verslun, hægt að kaupa heitan mat, heimahjúkrun, rúllur og perm í hárið, handavinnustofa, vefstofa, smíðaverkstæði.... Bara að nefnaða. Og innangengt í allt batteríið!

En svo er það þjónustudeild aldraðra. Olnbogabarn, sem vegna skilgreiningarvandamáls fer að loka. Bærinn rekur þetta sem hjúkrunarheimili enda full þörf á slíku, ríkið hinsvegar greiðir daggjöld í samræmi við skilgreininguna "Dvalarheimili." Og flest skiljum við það nú að dvalarheimiliskostnaður er töluvert frábrugðin kostnaði við rekstur á hjúkrunarheimili. Ástæðan er sú að þetta hjúkrunarheimili uppfyllir ekki nútíma kröfur varðandi fermetrafjölda pr.vistmann, og því skilgreinir ríkið þetta á annan hátt en það er. Pólitísk ákvörðun bæjaryfirvalda Ísafjarðarbæjar er því sú, að taka ekki inn fleiri vistmenn, því er þessi þjónustudeild aðeins hálfnýtt. Og þegar síðasti vistmaðurinn kveður, verður henni lokað eftir því sem ég best fæ skilið.

Ég veit ekki hjá hverjum skömmin liggur. En skömm er það engu að síður, að sveitarfélag á stærð við Ísafjarðarbæ hafi ekkert hjúkrunarheimili í réttri skilgreiningu þess orðs. Það er öldrunarlækningadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Eða hjúkrunardeild.... ég hef ekki ennþá fengið nein afgerandi svör við því. Það er nefnilega skilgreiningaratriði! En eitt veit ég! Þó að aldraðir þurfi á hjúkrunarvistun að halda, kæra sig fæstir um að leggjast inn á spítala! Sama hvaða nafn gangurinn sem þá á að vista inná, ber! Sjúkrahús merkir yfirleitt aðeins eitt í augum þeirra eldri; þeir koma ekki aftur út!

Á Flateyri fór ég fyrir skemmstu, að skoða "elliheimilið" þar. Það heilsaði ég uppá vistmenn, þeir eru þrír, og sá strax að þetta er fólk sem á heima á hjúkrunarheimili. Þar er sama staðan, nema hvað að þar er starfsmannafjöldi miðaður við að þetta sé dvalarheimili á meðan vistmenn eru á hjúkrunarstigi. Engu að síður fékk ég þær upplýsingar hjá Skóla og fjölskylduskrifstofu að þetta væri hjúkrunarheimili samkvæmt þeirra skilgreiningu!! ??? ....ég vera ruglaður?? Einhver annar vera líka ruglaður??

Nú hefur Sjúkraskýlið í Bolungarvík verið sameinað Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar. Margir eru uggandi um framtíð þess. Hvernig kemur þessi stofnun til með að verða skilgreind? Hún uppfyllir áræðanlega ekki nútímakröfur um hjúkrunarheimili. Verður hún Elliheimili? Þurfa þá kannski aldraðir bolvíkingar að fara inná Ísafjörð og leggjast þar á öldrunarlækningadeildina til að fá að deyja? Eða hvað?

Málefni aldraðra eru í tómum ólestri hvað skilgreiningar varðar hér á norðursvæði Vestfjarða. Og áræðanlega víðar. Það hefur ekkert með starfsfólk þeirra stofnana sem hér hafa verið upptaldar að gera. Heldur skilgreiningarhlutann og peningana. Það er eins og við, þessi sem yngri erum, gleymum því að áður en við snúum okkur við, verðum við sjálf orðin öldruð,-beri okkur gæfa til langlífis, og þurfum þá á viðhlítandi þjónustu að halda. En .... svona komum við nú UNDAN GÓÐÆRINU! Hvernig fer þá kreppan með þennan málaflokk? Ætli maður dagi ekki bara uppi á klassísku fátækraheimili, sprottnu úr bókunum um Emil í kattholti? Þar sem ein forstöðukona stelur bæði mat og neftóbaki frá okkur gamla fólkinu og rennir sér í sleðaferðir á eftir einni góðri pylsu? Ein góð pylsa er alltaf ein góð pylsa.....Tounge

Ég ætla að halda áfram að kynna mér þessi mál, það er greinilega brotalöm víða. Og þó ég geti ekki mikið upp á eigin spýtur, hef ég þó munn fyrir neðan mitt eðalnef og ætti að geta vakið athygli á því sem mér finnst miður fara.

Frú Áhugamanneskjaumþjónustuviðaldraða kveður og fer að læra fyrir líffæra og lífeðlisfræði próf.

(tek það fram að það er ástæða fyrir því að þessi færsla er sett inn EFTIR kosningar ;o) )


Drukknanir

Ég er að drukkna!

Prófin voka yfir mér eins og óveðursský, verkefnin hlaðast upp sem þarf að skila og mér finnst ég vera í rassgati með þetta allt saman. Systursonur minn fermist næsta laugardag og ég kemst ekki til að vera við fermingu drengsins vegna vinnu og prófa. Það er agalegt! En ég verð með honum í anda og svo sendi ég líka erfingjann í minn stað svo að þetta verður svona "almost, but not quite!"

Kosningahelgin var eins og hjá öðrum... hún einkenndist af... kosningum. Ég er reyndar ekki alveg jafn sátt við úrslitin og vonir stóðu til, það er bara eins og það er og lífið heldur víst áfram. Við mæðgur höfum þráttað hressilega um stjórnmál undanfarið og haft gaman að. Ég var að uppgötva að mamma er búin að vera hjá mér í meira en hálft ár! Það er eiginlega ótrúlegt því að við erum nú ekki líkt skapi farnar en með tímanum hefur það slípast og mér er farið að þykja ósköp notalegt að hafa hana hérna hjá mér. Lífið er svo hverfult og tækifærin til að vera með okkar nánustu eru eiginlega of fá til að hafna þeim. Það hef ég fundið eftir að pabbi heitinn dó. Ég gæti svosem alveg lifað án hundkvikindisins hennar en hún getur það aftur á móti ekki svo að það verður víst að fylgja með í kaupunum!

Ég og héraðslæknirinn, Dóra Explóra, einsettum okkur að taka vorinu fagnandi með daglegum gönguferðum við þriðju tík, hana Urtu, og höfum nokkurn vegin staðið við það. Svei mér ef það hressir okkur ekki bara allar! Sundferðir eru nýttar ef ekki viðrar til göngu. Þriðja tíkin nýtur reyndar ekki góðs af því þar sem hundahald er bannað í lauginni. En við sjávarspendýrin, ég og héraðslæknirinn, svömlum með myndarlegum sporðaköstum og blæstri og drekkjum okkur svo smástund í bubblupottinn á eftir. Svo stöndum við upp og potturinn tæmist af vatni, þeim sem á eftir koma til mismikillar ánægju. Á góðum dögum gerum við svo okkar besta til að stífla rennibrautina!

En nú er mál að koma sér í háttinn.

 


Lyktin af vori

Páskarnir liðnir og ilmur af vori í lofti! Það jafnast á við endurnýjun lífdaga að finna þennan ilm! Hamingjan hellist yfir mig og mig langar að fara að róta í moldinni og huga að gróðri. Er strax farin að hlakka til að feta mig um fjöll, -léttfætt sem hind.... í sumar til að tína grös og svo síðar, ber. Í einu skiptin sem ég hreyfi mig af tómri ánægju er þegar ég er að afla fanga :) Ná í eitthvað að éta!

Valla mín fór til Danmerkur aftur og nú er bara að vona að ég lifi það af ... Það var dásamlegt að hafa hana og ég hlakka strax til að sjá hana aftur!

það eru að koma gestir í mat, Gummi og Fríða Birna með Markús Björgúlfsvin og Önnu Karenu, systur hans. Ég er að elda eitthvað sem heitir Dorritoskjúklingur og ákvað að taka ekki til, þrátt fyrir að vera að fá gesti. Kemur það einhverjum á óvart? Ég hef verið á næturvöktum og hlakka til að fara uppí rúm í kvöld og sofa þangað til í fyrramálið. En þá er mál að haska sér af stað til Flateyrar því að ég ætla að skoða elliheimilið þar klukkan tíu í fyrramálið með samnemendum mínum. Og þá man ég það; ég fékk 9.2 í hlutaprófi í Líffæra og Lífeðlisfræði sem ég tók fyrir páska. Einkunnin kom í gær. ég get nú þakkað Héraðslækninum fyrir stóran hluta þar sem hún sat og hlýddi mér yfir fram eftir nóttu kvöldið fyrir próf.

En nú er klukkan fimm í sjö, maturinn ekki tilbúinn og ég ekki búnað fara í sturtu! Og gestirnir að koma.... ÓMG!

 


Fegurstur allra er feigur maður sem fela kann ótta sinn.

Þessar línur hafa djöflast í höfðinu á mér í dag, föstudaginn langa. kannski útaf Kristi á krossinum, kannski bara af því að ég kvíði því að Valrún fari aftur! En reyni að fara vel með það......

Það hefur auðvitað verið dýrðin ein að hafa hana og stelpurnar. Það er eins og hún hafi aldrei farið. Ég hef bara alltof lítið fengið að hafa hana vegna óþolandi ágangs annarra sem heimta að fá hana í matarboð og heimsóknir :)

En í kvöld er hún mín. Og ekkert skal trufla. Það verður fitlað í handleggjum og holdi þangað til Halli kemur heim af lögguvaktinni í fyrramálið og hemur stemninguna! Við ætlum reyndar að skreppa á eina miðnætursýningu á Ísafirði en aðallega fer kvöldið í kelerí!

Svo þegar hún fer á morgun get ég haldið áfram í sama texta; dagarnir fæðast andvana.... dauft er í Bolungarvík, þú dansar einn í tóminu og vaknar liðið lík..... Og þó. Það er kannski ekki svo slæmt? Nei nei, ég hef nú úrvalsfólki að moða.....


Ertu á suðurleið?

Ef svo er, þá vantar mig bílfar, í dag, þar sem veðurspá er slæm og ekki útlit fyrir að flugfélagið sjái sér fært að koma og sækja mig seinnipartinn.

Endilega hringdu í síma 895 8507, ef þú "átt leið" suður í dag. Ps) fimmtudag :)


Tíu súrsæt eða sætsúr.....

Ég náði helmingunartíma fertugsaldursins í gær, þegar þrjátíu og fimm ára afmæli mitt var ekki haldið hátíðlegt með öðru en prófalestri og fjölskyldudrama. Prófið er búið og dramað var bara eitt af þessum nauðsynlegu atvikum lífsins. Eitt af þessu sem manni finnst í raun óskiljanlegt meðan á stendur en áttar sig svo á að hefur m.a. þann tilgang að sýna manni frammá hvað hefur tilgang. Og þá hefur það tilgang. Hvað eru tilgagnsgóðar hugsanir, hvað eru tilgangslausar hugsanir? Hvað eru margir tilgangar í því??? :)

En ég ætla að halda uppá afmælið mitt um helgina svo að afmælisdagurinn er faktískt eftir! Og svo er eiginlega ennþá merkilegri afmælisdagur í dag! Við hjónin erum eitt besta aprílgabb þúsaldarinnar því að gabbið heldur enn! Það eru tíu ár og einn dagur síðan ég stormaði að dyrunum að Traðarlandi 21 hér í Bolungarvík, hvar Haraldur nokkur sat og hafði það huggulegt í byl og vonskufærð, bankaði hraustlega og tilkynnti honum að ég væri komin alla leið frá Reykjavík, væri ekki með far tilbaka og hefði í ofanálag enga sæng. Hann sagði á sinn hógværa hátt; það er pláss í sófanum..... já, sæll...Glætan!!!

Ég svaf í rúminu með fyrrgreindum afleiðingum.

Við erum búin með fyrsta sporið, erum auðvitað bara byrjendur og framundan er öll sælan. Bæði hefur verið bragðað á súru og sætu á þessum tíu árum, skárra væri það nú líka, en uppúr stendur nú svona frekar sætt bragð, verð ég að segja. Því veit ég ekki hvort að orðið sætsúrt eða súrsætt á frekar við? Hvorttveggja er bragðgott!

Tvö

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband