Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Slátur gerir mig of æsta!

Fjúff....Haustið er tími annríkis og í mínum huga er annríki aðallega tengt matargerð J

Ég tók níu stk.slátur í gær og næst liggur fyrir að ráðast í kjötið og gera bjúgu. Sauð svið í kvöldmat í kvöld, slátur í gær og nú bíð ég bara eftir hjartaslaginu! Einum of þungur matur svona tvo daga í röð.... Enda hefur orðið brjóstsviði öðlast alveg nýja merkingu...

Það fór náttúrulega ekki framhjá neinum að göngin opnuðu með pompi og pragt á laugardaginn.

Ég mætti á ferlega flotta opnun á sýningu af því tilefni á laugardagsmorguninn á Náttúrugripasafni Vestfjarða. Þar gat að líta sögu Óshlíðarinnar, gerðar hennar og viðhalds í máli og myndum auk sögu gagnagerðarinnar. Það var búið að rigga upp svaka gangalíkneski inní salnum sem hægt var að ganga í gegnum og sjá um leið hvað Ósaflsmenn hafa unnið mikið þrekvirki með þessari smíð sem göngin eru.Það er dásamlegt að aka göngin, lóðbeinan veg beint í Hnífsdal. Innandyra. Svolítið skrýtið þó. En mér finnst ég gasalega fljót í gegn en tímasparnaðurinn er ekki nema fjórar mínútur hjá mér miðað við hámarkshraða alla leið. Ég var 14 mínútur frá Bolungarvík og til Ísafjarðar en nú er ég nákvæmlega 10 mín. En það skiptir ekki nokkru máli hversu lengi þetta er farið, heldur öryggið.

Eins og segir í lesendabréfi Ólafs Halldórssonar og Gunnars Jónssonar  á bb.is þá vildu nú allir Lilju kveðið hafa . Þær voru hér auðvitað ófáar silkihúfurnar sem heiðruðu okkur með nærveru sinni og ræðuhöldum á sjálfan opnunardaginn og eins og oftast er, töluðu þeir kannski mest sem minnst að málinu komu.  En þannig eru hlutirnir bara. Ekki heyrði ég þó minnst þennan dag í opinberum ræðuhöldum á nöfn þeirra sem þó lyftu líklegast hvað þyngstu Grettistaki, nefnilega því Grettistaki að fá Bolvíkinga flestalla til að skrifa undir þá kröfu að fá göng alla leið en ekki í bútum eins og fyrirhugað var á þeim tíma.

 Það krefst mikils dugnaðar að fá samfélagið sitt til að þjappast saman sem eina heild. Hún Pálína Vagnsdóttir í félagi við Berg Kárason hóf undirskriftasöfnun og útvegaði á annað þúsund slíkar. Valrún, vinkona mín og Danmerkurfari stóð fyrir hópakstri og messugjörð. Finnbogi Hermannsson, okkar gamli og góði fréttamaður Rúv á Ísafirði lét aldrei sitt eftir liggja til að minna á hættur Hlíðarinnar og var oft sakaður um neikvæða fréttamennsku að launum, flökkuprestur nokkur messaði á Hlíðinni í tví eða þrígang og svona mætti lengi halda áfram. Grímur Atlason, Soffía Vagnsdóttir og þeirra fylgismenn voru ötulir talsmenn ganga alla leið.( Ég hefði nú persónulega frekar viljað sjá skattpeningum mínum varið tjah.. td. undir rassinn á Pálínu hingað vestur heldur en í flugmiða undir silkihúfur að "sönnan..")

Allt þetta fólk vissi og skildi að án baráttunnar fengjum við ekkert nema stutta gangabúta. En það þarf kjark til að láta í sér heyra utan eigin eldhúss og þann kjark sýndi þetta fólk.  Og ég held að þegar við rifjum þetta upp, þá getum við horft bjartari augum til framtíðar en okkur þykja endilega efni standa til í augnablikinu vegna þess að fyrst við gátum þetta, Bolvíkingar, þá getum við áorkað öllu því sem við viljum!Leyfum svo silkihúfunum að halda sínar hátíðarræður, það er nú einu sinni þeirra starf. En gleymum aldrei afreki OKKAR. Því að það vorum við, heimamenn, sem áorkuðum svo óendanlega miklu. Og það munum við. Og við blásum á raddirnar sem segja: huh, hvað er verið að mylja undir svona andskotans útnárarassgat sem leggur upp laupana eftir kortér hvort eð er... og það á kostnað okkar skattborgara.. mímímí.. jaríjaríjarí...Og það í miðri kreppu....blabla...

Við lítum ekki á þessi göng sem einhvern bitling, rándýra vegaframkvæmd á röngum stað á landinu!

NEI! Við lítum á þessi göng sem sjálfsagða samgöngubót. Og löngu tímabæra. Og við þurfum ekki að beygja höfuð okkar í þakklæti fyrir einum eða neinum. Vegna þess að á meðan Vestfirðingar óku á ófærum fjallaslóðum með sprungið á þremur og púströrið einhversstaðar útí vegkanti í miðju Djúpinu þá voru þeir að greiða sína skatta og þá að fullu! Því að hér var uppgangurinn. Og hér sköpuðust verðmætin. Og héðan hurfu þau líka á örfárra annarra hendur í aðra landshluta . Og ennþá óku Vestfirðingar á varadekkinu á handónýtum og grýttum malardrulluvegum. Og það líka í hinu svokallaða góðæri.  Sem varð nú varla vart hér vestra, eða hvað?  Það er því löngu tímabært að fólkið hér fái að minnsta kosti að fá að ferðast að heiman og heim við sömu aðstæður öryggislega séð og aðrir landsmenn. Því að við borgum líka okkar skatta!

Og hana-andskotans-nú!

Dísus.. held ég ætti að fá mér bara salat næstu daga. Þessi kjarngóði sláturmatur gerir mér svo heitt í hamsi.

opið bréf til Þrastar Óskarssonar frkvstj FSV.

Þröstur á þessa grein:  http://bb.is/default.aspx?pageid=26&NewsID=153959

Kæri Þröstur.

Verandi starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Bolungarvík, -þinn undirmaður, verð ég nú að fagna því að búa í frjálsu landi. Annars gæti ég líklega ekki skrifað þennan pistil án þess að óttast um vinnu mína.

  Málið er nefnilega það, Þröstur, að mér brá svo heiftarlega í brún við að lesa greinina þína á bb.is í dag að mig setti hreinlega hljóða um stund. Og allir sem  mig þekkja, vita að til að svo sé, þarf gríðarlega mikið til. En vitanlega, -og sem betur fer, jafnaði ég mig fljótt og fékk málið á ný. Og þá get ég alls ekki orða bundist Þröstur!Þar, eins og ég skil skrif þín, - varar þú fólk við því að geysast fram ritvöllinn með illa ígrundað efni sem aðeins verður til þess að skapa óþarfa óróleika, og eðlilega spyr ég; hjá hverjum? Og eftir lestur greinarinnar fæ ég ekki betur séð en að meintur óróleiki sé mestur hjá yfirmönnum Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða. Hvers vegna? –kannt þú þá að spyrja? Jú, vegna þess að greinin er að mínu mati blátt áfram löðrandi í hroka.

Hroka í garð þeirra sem hafa efasemdir um ákvarðanatökur stjórnenda Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða. Og eins og þú veist Þröstur þá er hroki varnarviðbragð óttans og óöryggisins.Ég vitna í grein þína:„Að reka heilbrigðisþjónustu í núverandi umhverfi er krefjandi þar sem ýmis sjónarmið eru uppi og mis háværar raddir með einu réttu lausnirnar. Illa ígrunduð hlaup ýmissa aðila í fjölmiðla eru ekki til þess fallin að gera starfið auðveldara og því miður skapa þau óþarfa óróleika.“Nú er það svo Þröstur, að ég geri mér fulla grein fyrir því hversu krefjandi starf þitt er. En það getur ekki verið hafið yfir gagnrýni frekar en störf annarra, er það?

Og ég leyfi mér að vitna áfram í grein þína:

„Skemmst er þess að minnast að fyrrverandi læknir á Flateyri ákvað að flytja til Bolungarvíkur en þar með lagðist af föst búseta læknis á Flateyri.

Þú fyrirgefur Þröstur þó ég spyrji: hvað kemur það málinu við? Hefur hinn almenni þjónustuþegi í Bolungarvík eitthvað með það að gera? Er það á ábyrgð okkar hvar læknar annarra sveitarfélaga kjósa að búa? Ég veit að þetta hlýtur að hljóma mjög eigingjarnt Þröstur, en eins og málin standa, höfum við bara engan áhuga á búsetu annarra lækna en okkar eigin. Því skil ég alls ekki hvað þetta kemur málinu við. Þó að starfshlutfall fyrrum læknis á Flateyri hafi verið orðið það lítið að hann hafi ekki séð forsendur fyrir því að hafa þar búsetu, er það algjörlega óskylt þessu máli. Ekki satt? Eða er þetta einhverskonar aðdróttun? Og gegn hverjum þá

Og áfram gerist ég svo djörf að grípa niður í greinina þína:

„Hugmyndin er sú að læknisþjónusta í Bolungarvík sé veitt með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og því geti sá tími sem læknir er þar verið breytilegur eftir eftirspurn hverju sinni.“

Þetta er nú gott og blessað. Og vil ég byrja á að spyrja þig Þröstur, getur þú mögulega gefið mér upp hver þörfin fyrir lækni verður í Bolungarvík, tjah... segjum bara til ársloka 2011? Nei, mér finnst þetta mjög einkennileg framsetning. Ég trúi því heldur alls ekki að hagsmunir Bolvíkinga séu hafðir að sérstöku leiðarljósi í þessu máli, því miður. Til þess hefur allt þetta sameiningaferli virkað of ómarkvisst eins og það kemur mér fyrir sjónir.  En það er bara mín persónulega skoðun og upplifun. Vonandi á hún eftir að breytast.

Nú þarf ég enn og aftur að grípa niður í grein þína Þröstur:

„Hér á norðanverðum Vestfjörðum hefur þróunin verið á sama hátt. Lítil einmenningslæknishéruð hafa verið sameinuð stærra læknishéraði, í kjölfar þess að áðurstarfandi læknar létu af þjónustu. Með því hefur verið unnt að tryggja áframhaldandi læknisþjónustu á viðkomandi stöðum.“

Þegar ákveðið var að minnka viðveru læknis hér í Bolungarvík hafði starfandi læknir í Bolungarvík ekki ákveðið að flytja. Það er vitað mál.  Hvað varð um þörfina fyrir lækni i Bolungarvík og á þessum  minni stöðum ? Hvarf hún með því að einstaklingurinn í starfinu flutti? Er með þessu verið að segja að gefa í skyn að beðið sé með óþreyju eftir að læknar „einmenningslæknishéraða“ hafi sig af spenanum svo hægt sé að hefja hagræðingaraðgerðir? Er mögulegt fyrir fávísa konu sem mig sjálfa, að fá þetta útskýrt á mannamáli?

Og veistu Þröstur, nú skal ég fara að stytta mál mitt, þú ert kannski að verða leiður, en ég bið þig að fyrirgefa, ætlun mín er hreint ekki að láta þér leiðast, en ég verð samt sem áður að fá að vitna aðeins meira í greinaskrif þín:

„Ekki verður séð á gögnum Heilbrigðisstofnunarinnar í Bolungarvík né Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hver nákvæm viðvera læknis í Bolungarvík hefur verið undanfarin ár. Ekki er því hægt að fullyrða með neinni vissu um hve mikið viðvera lækna á heilsugæslustöðinni breytist nú. Hins vegar er ljóst að læknir mætir nú alla morgna virka daga á stöðina.“

Veistu, það er sama hvernig ég velti þessari málsgrein fram og tilbaka, mér finnst hún jafn spes fyrir því. Er þetta aðdróttun? Eða þýðir þetta að ekki hefur verið nógu skilvirkt viðveru-skráningarkerfi á Heilsugæslustöð Bolungarvíkur? Voru þeir læknar sem unnu í fullu starfi í Bolungarvík að „svindla?“ Ég held að ég þurfi enn og aftur að biðja um nánari útskýringu því að ég trúi því ekki að þú sért að vega að starfi lækna þeirra sem starfað hafa hér í Bolungarvík á liðnum árum. En þetta hljómar svo sannarlega þannig og því held ég að til að forðast misskilning væri fjarskalega gott fyrir okkur Bolvíkinga að fá að vita við hvað er átt, nákvæmlega!

En, þú segir að í dag sé að minnsta kosti starfandi læknir við Heilsugæslustöðina í Bolungarvík alla morgna, eins og það sé útaf fyrir sig einhver framför, eftir því sem ég kemst næst eru það fjórir læknar sem skipta því starfi með sér. (Og auðvitað upplifum við núna að þetta hljóti að vera fjarskalega óvinsælt starf, þar sem þú ýjar að því í grein þinni að enginn læknir af þó öllum þeim sem starfi á Ísafirði vilji búa hérna.) Það þýðir væntanlega að ef að ég sem móðir með veikt barn, þarf að koma á stofu daglega í mínum tæplega þúsund íbúa heimabæ,  -segjum td. bara í eina viku, þá fyrirhitti ég fjóra mismunandi lækna? Er það gæðaþjónustan sem þér finnst að þið séuð að veita? Því að þá erum við, Þröstur, svo hjartanlega ekki á eitt sátt um það, hvað eru gæði í heilbrigðisþjónustu! Og velji ég mér einn þessara lækna sem heimilislækni, segjum bara sem svo að ég kjósi þann sem er mest bókaður, það er varla neitt óeðlilegt við það? Þá get ég einungis pantað tíma hjá honum einn ákveðin dag í viku? Er það ekki svo? Enn og aftur Þröstur, fjarskalega leggjum við misjafna merkingu í þetta orðalag þitt:“ að læknisþjónusta í Bolungarvík sé veitt með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.“ Mér finnst það nefnilega slök þjónusta.

Og þá er það heimaþjónustan. Blessuð heimaþjónustan sem er svo mikilvæg. Hversu undarlegt má teljast að ekki hafi tekist að manna í stöðu sjúkraliða við heimaþjónustu í Bolungarvík? Ha? Og það á þessum síðustu og verstu tímum atvinnuleysis? Sótti enginn um? Samdist ekki við umsækjendur? Tja.. maður spyr sig? Vegna þess að ég sá jú að það var auglýst í þessar stöður. Og þetta er verulega leitt með tilliti til þess að þegar sameinað var þá fengu Bolvíkingar það loforð að stafshlutfall við heimaþjónustu yrði aukið.

Og ég vitna aftur í þig Þröstur, eins og biluð plata:

Skólahjúkrunarfræðingur skipuleggur og stjórnar skólahjúkrun á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Í Bolungarvík munu hjúkrunarfræðingur heilsugæslustöðvarinnar og skólahjúkrunarfræðingur hafa samstarf um þetta. Með þeim hætti er tryggt að skólahjúkrun í Bolungarvík verði með þeim hætti sem faglega er talið réttast hverju sinni.“

Rosalega flott og faglegt orðalag. Mjög smart. En mér þætti samt bara einfaldara að fá að vita sem móðir barna við Grunnskólann í Bolungarvík;  hver er skólahjúkrunarfræðingur Grunnskólans? Hvað heitir hún/hann?  Fer það kannski bara eftir því hvað telst „faglegast hverju sinni?“

Og má ég svo leggja fyrir þig eina spurningu, Þröstur? Hvert var starfshlutfall fastráðins hjúkrunarfræðings við Heilsugæslustöðina í Bolungarvík þegar þær stöllur þrjár, Íris Sveinsdóttir, Hulda Karlsdóttir og Sigrún Gerða skrifuðu þessa „illa ígrunduðu grein sína?“ Eftir því sem þú skrifar á bb.is núna, fylgir hjúkka þeim lækni sem kemur þann daginn til Bolungarvíkur, og ekki misskilja mig; rausnarskapurinn er ekki illa þeginn. Alls ekki! Ég bara veit ekkert hver það er! Og mig fýsir að vita, hvert var starfshlutfall hennar/hans, þegar greinin þeirra birtist? Ástæðan fyrir því að ég spyr er einföld: þú ert að draga sannleiksgildi skrifa þeirra þriggja kvenna, stórlega í efa. Og því finnst mér aðeins sanngjarnt að vita hvort forsendur séu mögulega dálítið „breyttar?“

Jæja Þröstur, nú ætla ég alveg að fara að hætta í bili. Hreinlega af því að þetta er orðið svo langt hjá mér, ekki af því að brunnur  forvitni minnar sem vaknaði við greinaskrif þín sé tæmdur, vel má vera að ég haldi áfram þegar ég hef tíma fyrir lengri og ítarlegri pistil. Af nægu er að taka!  En að lokum vil ég bæta því við að „nú þegar samdráttur og aðhald er alls ráðandi í ríkisfjármálum er brýnt að fara vel með opinbert fé,“ svo ég noti bara þín eigin orð. Það hef ég sem starfsmaður við aðhlynningu reynt samkvæmt minni bestu vitneskju. Ég get með góðri samvisku sagt að mitt starfsframlag og starfsmetnaður er alls ekki ofgreitt af stofnuninni og svo held ég að sé með marga ríkisstarfsmenn sem starfa hjá þér. Þú hlýtur að vera mér sammála með það ekki satt? Þrátt fyrir það þykir mér vænt um starfið mitt og sinni því af alúð og af metnaði. Og þess vegna þykja mér sumar „hagræðingafregnanna“ frá Ísafirði stundum hreinlega ótrúlegar. Og neita eiginlega að trúa sögusögnum á borð við þær að það hafi verið til peningar til að greiða fólki sem sagt var upp, biðlaun í ár og þar fram eftir götum á meðan starfsfólk þurfti að taka á sig ýmsar skerðingar. Fáránlegt, ekki satt? Enda líklegast um sögusagnir að ræða þar sem hvert mannsbarn sér að engin hagræðing er fólgin í svona löguðu.

Þröstur, ástæða þess að ég skrifa er sú að mér er annt um Bolungarvík og mér er annt um okkur öll sem búum hérna. Þess vegna er mér alls ekki sama um það hvernig þessum heilbrigðismálum er háttað hér. Og ég leyfi mér að birta þennan pistil þrátt fyrir að hafa lesið eftirfarandi varnaðarorð þín: „Vestfirðingar þurfa að standa saman um þá góðu þjónustu sem veitt er hér á svæðinu og ekki láta úrtölufólk og svartsýnisraus ráða för.“  

Við erum áræðinlega tilbúin að standa með hverjum þeim, Þröstur, sem lætur sig óskir okkar einhverju varða.  A.m.k ég! En ég veit ekki til þess að eftir þeim hafi verið leitað! Leiðréttu mig endilega ef ég fer með rangt mál, en ég held að allar ákvarðanir sem teknar hafa verið við þessa „sameiningu“ (fallegt er nú annars orðið sam-eining útaf fyrir sig) hafi verið teknar án minnstu hugsunar um það hverjar óskir Bolvíkinga eru. Að minnsta kosti hafa öll fundarhöld og eða kannanir þess efnis farið algjörlega framhjá undirritaðri.

Á mitt heimili hefur komið inn blaðsnepill nokkur, mig minnir að það hafi verið í vor eða snemmsumars, þar sem mér var tilkynnt um sam-eininguna og hvernig opnunartímum yrði háttað í nánustu framtíð. Án undirritunar, ef ég man rétt. Það er eina kynningin á þessum mikilvæga gjörningi sem mér hefur borist frá höfuðstöðvum HSV, Ísafirði sem almennum borgara.

Ég er hvorki úrtölufólk né með svartsýnisraus. Ég er starfsmaður FSV-Bolungarvík, bæjarfulltrúi í Bolungarvík og þjónustuþegi HSV.

Virðingarfyllst,Ylfa Mist Helgadóttir


almennar hugleiðingar sem þróast í aðra átt....

Einhvern veginn er það þannig að þegar sumarið hefur verið svona langt og yndislegt, er maður frekar í stakk búinn til að taka mót vetrinum. Amk. ég. Mér þykir ekkert svo slæmt að það skuli vera farið að snjóa í fjallstoppana eða að laufin fjúki í norðanrokinu. Sem er bæðövei, íííííískalt! Þá bara dregur maður upp DVD diskana með BBC þáttunum og leggst yfir sjónvarp. Ég horfi nánast aldrei á sjónvarp. En detti ég í þáttaraðir, þá verð ég að horfa á þær. STRAX. Ekkert eitthvað einu-sinni-í-viku-vesen fyrir mig takk. Þá er ég löngu dottin út. Ég verð að útvega mér alla seríuna og horfa á hana í striklotu, eða ekki. Og um helgina horfði ég að Bleak House, þætti frá BBC eftir sögu Charles Dickens. Og þetta var maraþon. Frá hálf níu að kveldi til fimm um morguninn. Ekki einu sinni wc-pása. Gaman!

Litli fatlaði hvolpurinn, "jazz hands," er að braggast, reyndar hefur smá afturkippur komið í hann aftur svo að ég teipaði saman á honum framfæturnar í morgun. En hann er farinn að geta reist sig upp á framfótunum en afturlappirnar eru ennþá í tómu böggli og tjóni. Greyið er samt svo mikið krútt að ég á örugglega aldrei eftir að getað látið hann frá mér. Hann fer amk ekki að heiman fyrr en hann er orðinn alveg vel gangfær og sjálfbjarga.

Næstu helgi verða Óshlíðargöngin opnuð og það eiga að vera heljarinnar hátíðarhöld. Það verður hlaupið í gegnum göngin, minnisvarði afhjúpaður, skemmtun, örugglega óhófleg ræðuhöld (þó að allir segist bara ætla að halda stutta ræðu) og svo er matur og ball í íþróttahúsinu um kvöldið. Sjálf verð ég að vinna og sé bara um að halda uppi stuðinu á Skýlinu í staðinn. Ekki verri stemning þar en annarsstaðar, svo mikið er víst. Ég get nánast svarið fyrir það að ég myndi frekar vilja eyða laugardagskvöldi í vinnu en á balli. Svona er nú skemmtanaáhuginn orðinn hjá mér!

 Mér finnst svo leiðinlegt að vera innan um drukkið fólk að ég tek alveg út fyrir það! Að fara ótilneydd á öldurhús, ball eða eitthvað djammpartý er algjörlega útúr kortinu hjá mér. Og verst af öllu er þegar fólk undir áhrifum finnur sig knúið til að leggjast í símann og hringja í mig. Þá fyrst kastar nú tólfunum í leiðindunum maður! Úff... En sem betur fer þarf ég ekki að umgangast ölvaða frekar en ég kæri mig um. Tók mig samt smá tíma að fatta það. Hálfa ævina, ef svo má segja. Enginn stórviðburður ævi minnar hefur ekki á einhvern hátt litast af hegðun drukkinna manneskja, utan fæðingu barna minna. Brúðkaup, fermingar, jarðarfarir, stórafmæli... alltaf hefur einhver sem ekki þekkir eða ræður við mörkin komið því þannig fyrir að hegðunin gleymist ekki. Og það er svo sorglegt. Og mér fannst alltaf sem ég væri fórnarlamb þessara aðstæðna, (sem maður auðvitað er upp að vissu aldursskeiði) en smátt og smátt hef ég lært að forðast þessar aðstæður. Þvílíkt frelsi þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti alls ekki að umgangast drukkið fólk.

Alkinn er vissulega sjúklingur. Það er ekki það. Ég veit vel að enginn vill eyðileggja líf sitt með brennivínsdrykkju, skandölum og vanlíðan.  Það er agalegt að sjá líf fólks, tala nú ekki um þeirra sem manni þykir vænt um, fara í súginn og verða "verðlaust." Og umhverfisáhrifin eru verst. Áhrifin sem veikindi alkans hafa á nærumhverfi hans. Allir sem þurfa að líða vegna drykkjusýkinnar. Allt ruglið sem sagt er í óminnisþoku og sjúklingurinn man jafnvel ekki eftir sjálfur, en hefur samt brennt gat á sál aðstandendans. Svikin, lygarnar, óheiðarleikinn, ístöðuleysið.... Allt þetta markar aðstandendur svo mikið að þegar yfir lýkur eru þeir sjálfir orðnir fárveikir. Þess vegna held ég að maður haf alveg fullan rétt til þess að segja; Nei, ég kæri mig ekki um þetta. Ég vil þetta ekki. Þetta er ekki, og skal ekki vera partur af minni tilveru. Og skella á.

Þetta blogg fór  í aðra átt en stefndi, eins og gerist svo oft :)


Swimmers-syndrome

Hún Margrét frænka mín -en við erum bræðradætur- er svona hundamanneskja eins og ég. Til allrar Guðs lukku þá sá hún á Facebook að ég var að tala um að ég ætlaði að láta svæfa fatlaða hvolpinn í gær. Hún benti mér snarlega á eitthvað sem heitir "swimmers syndrome" í hvolpum og er helst að komi fram hjá stórum og þungum hvolpum. Þá fletjast þeir út, brjóstkasinn verður flatur, þ.e. rifjahylkið flest út og þeir komast ekki af maganum. Þetta veldur því að þeir geta aldrei gengið og kafna á endanum þegar þyngdin fer að pressa á lungun. Eeeeeeeeen; þetta má laga!! Og það er djöfulsins vesen en samt alveg yfirstíganlegt. Nú er því búið að spelka litla fatlafólið og hanna á það strokk svo að litli skrokkurinn komist í lag. Þetta á að lagfæra rifjahlylkið og gera honum aukna hreyfigetu. Og svo er bara sjúkraþjálfun hjá "mannamóðurinni-mér." Honum hefur farið rosalega fram bara frá í gær! Er farinn að geta reist sig upp betur og er ekki sama pönnukakan og hann var í gærmorgun. Andardrátturinn er líka allur annar.

Kannski á hann líf!

Á morgun er bæjarstjórnarfundur. Ég er ennþá ferlega fúl yfir því að meirihluti bæjarstjórnar hafi samið um launahækkun við bæjarstjórann, þegar nýafstaðnar niðurskurðaraðgerðir eru ennþá að valda fólki sárindum og erfiðleikum. Mér finnst einfaldlega bæjarfélagið ekki hafa efni á að hækka laun um ca milljón á ári hjá einum starfsmanni þegar öðrum er sagt upp eða vinnuhlutfall skert. En... ég er jú í minnihluta, þetta vildu kjósendur. Annars er bæjarpólitíkin skemmtileg, so far. Fór á Fjórðungsþing og hitti annað sveitastjórnarfólk sem var bara nokkuð skemmtilegt! :)

Og nú styttist í opnun ganganna. Hér er fólk að urlast yfir því hvað þau heita, þau heita víst Bolungarvíkurgöng og ýmist finnst fólki það réttnefni eða algjör hörmung. Í daglegu tali eru þessi göng kölluð Óshlíðargöng og svo held ég að verði áfram. Mér finnst það mun skemmtilegra nafn í ljósi þess að þau liggja jú bæði TIL Bolungarvíkur og FRÁ Bolungarvík og í Hnífsdal. En ég er ekkert að missa legvatnið yfir þessu neitt. Bið fólk bara að halda ró sinni og bendi á að "vestfjarðargöngin" sem aldrei eru kölluð annað, heita "Göng undir Breiðadals og Botnsheiði." Það nafn hef ég aldrei heyrt nokkurn mann láta útúr sér. Bara lesið á skiltinu. Aðalatriðið er að við erum að fá göng og þið, landsmenn góðir, eruð líka að fá göng.

Love to all....


Haustið er komið, strýkur burt laufblað af limi...

Í gær hefði pabbi minn, Helgi Þorsteinsson, orðið 74 (breytt, sló óvart inn 75 áðan!) ára, hefði hann lifað. og þrátt fyrir að nú séu næstum tvö ár síðan hann dó og að ég hafi ekki munað fyrr en í gærkvöld að hann hefði átt afmæli, var ég mikið að hugsa um hann í gær. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar kom í hug mér að "hringja í pabba." Sennilega af því að ég er að vinna úr þessum 40 berjalítrum sem við Auður vinkona mín komum með úr berjaferðinni góðu sem við fórum í að Langadalsströnd inní Djúpi í síðustu viku. Haustverkin minna mig á pabba. Hann hringdi árlega til að spyrja mig um rabarbara, rifsber og reyniber. Yfirleitt vildi hann svör við sömu spurningum og árinu áður.  Hann var nú ekki sá minnugasti frekar en dóttirin, ég.  Ég sakna hans. 

 

helgi þorsteinsson 6 áraLífið er einhvernvegin eins og keðja. Það myndast nýir hlekkir í sífellu eftir því sem maður klífur keðjuna og um leið losnar um hlekki á henni neðan til. Og þannig á það bara að vera. Stöðug hreyfing. Auðvitað vill maður helst hafa sumt eins og það hefur alltaf verið. En þá er víst engin hreyfing í lífinu. Þegar sumir hlekkjanna losna finnur maður fyrir sársauka og vanmætti. Svo stundum brýtur maður sjálfur einhverja þeirra sem héldu óþarflega fast. Það getur verið fjári erfitt en skapað mikin létti þegar til lengri tíma er litið. En þetta eru nú bara hugleiðingar sem allir eiga í....

Haustið er komið, strýkur burt laufblað af limi, segir í góðu kvæði. Haustið hér kom í nótt. Með kulda og roki. Losaði um síðasta hlekk sumars sem maður hafði ríghaldið sér í. Núna þarf að gera pláss fyrir nýja hlekki vetrarins.

Unglingurinn í skóginum finnur sig vel í Menntó, hann er alltí einu orðinn svo mikill karlmaður. Maður bara verður feiminn við þennan unga herramann sem var bara pottormur í gær! Baldur bolla kemur öllum á óvart með því að vera iðinn og góður í skólanum, -sagðist reyndar í dag ætla að sprengja skólann og að þegar hann yrði pabbi, yrðu engar reglur í heiminum! Spæderljónið, -hið kramda miðjubarn, líður hins vegar bara áfram í friðsæld og spekt og lætur ekkert fyrir sér hafa.

IMG_2199

Húsbóndinn spilar í nýsamsettri hljómsveit um helgar á Ísafirði. Þeir leika fyrir dansi. Sennilega í fyrsta skipti sem Haraldur spilar fyrir eðlilegum dansi...

Annar hvolpurinn er með sömu fötlun og kom í ljós í gotinu hennar Urtu í fyrra og þarf að sofna hinum langa svefni.... Sem er sorglegt því að hann er agalega sætur og krúttlegur.

IMG_2202

Sjálf er ég bara að hamast við að vera húsmóðir, vinnandi stétt og söngkona sem er að fara að gera plötu. Og ÞAÐ er spennandi! Sennilega bara það mest spennandi sem ég hef gert um ævina!

 

Húrra fyrir tilverunni, haustinu og afmælinu hans Pabba heitins í gær!


í den...


Sumarið, sólin og allt það!

Veðurfarslega séð var þetta besta sumar sem ég man eftir. Ekkert lát á blíðviðrinu og þegar sólin skín, finnst manni lífið alltaf svolítið gott. Ég hef ekki fært inn síðan í vor, haldandi að allir vinir mínir væru á facebook, og hafandi bara svo margt að gera í góðviðrinu. En eftir skammir frá einhverjum örfáum féslausum og smá bloggfráhvarf, finnst mér þetta orðin bara ágæt pása og mál til komið að byrja aftur.

Af heimilislífinu er það m.a. að frétta að nú á ég bara skóladrengi. Baldur Hrafn drattaðist með formælingar á vörum í skólann, sannfærður um að viðurstyggilegri stað mætti ekki finna í þessu lífi. Hann hafði auðvitað rangt fyrir sér og er bara hinn kátasti í skólanum skilst mér. En hann er ekkert sérlega glaður með að vakna á morgnana samt. Björgúlfur Egill byrjaði í Menntaskólanum á Ísafirði og mér fannst ég gömul! Honum líkar vel, þetta er auðvitað heilmikil breyting fyrir þessa krakka og heimilið líka og við erum öll að sjatla okkur í gegnum þetta í rólegheitum.

Urta eignaðist tvo fallega hvolpa í ágústlok. Svartir blendingsrakkar eru afrakstur frjálsra ásta á Vestfjörðum. Þrátt fyrir kynið var annar hvolpurinn (sá sem Baldur Hrafn á) umsvifalaust nefndur Blondie af elsta meðlim drengjahópsins, þar sem að hundur Hitlers hét víst því nafni. Þykir elsta syninum sá yngsti stundum hafa viðlíka harðstjórnartilburði og kallar hann af og til "Adolf," þegar frekjan í örverpinu gerir útaf við heimilismeðlimi.

Birnir Spæderljón er ólíkur albróður sínum í útliti og lunderni. Hann er ljúft lítið ljós. Þægur og góður og verður eflaust kramið miðjubarn sem á eftir að segja við sálfræðinginn sinn seinna meir; ég var ósýnilega barnið....

Ekki svo að skilja að Baldur sé óalandi og óferjandi! Alls ekki. Hann er bara afar frekur. En hann er líka með skemmtilegri drengjum. Og afskaplegt krútt. Svo hefur hann frekar lítið hjarta og vill mikið knúsa móður sína sem er allltaf vel þegið! :)

Þetta er bara svona. Allir eru ólíkir en allir eru dásamlegir í sinni háttu.

Þetta voru smá morgunhugleiðingar sem áttu ekkert að fara í þessar áttir, ég ætlaði að stikla á stóru og gera sumarið upp í máli og myndum en það bíður bara betri tíma. Ég er í fríi í dag, tók daginn snemma, fór í sund og ætla svo með vinkonu inní Ísafjarðardjúp, alla leið yfir að Rauðamýri á Snæfjallaströnd, í berjamó. Við ætlum að gista og hafa það ferlega náðugt í kvöld. Grilla pylsur, (annað er of mikil fyrirhöfn) hreinsa ber og spjalla saman.

Love to all....


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband