Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Daglegt líf og örlítið amstur líka...

Ég hélt í bjartsýniskasti að vorið væri komið. Kanínan var farin að gæða sér á fíflablöðum og strigaskórnir voru æ oftar teknir til handargagns þegar við Urta gengum út í heilsubótarskyni. En hvað nú? Snjór uppí miðja kálfa, skafrenningur og allt eitthvað ægilega vetrarlegt. En huggun harmi gegn er sú, að það má alltaf gera sér vonir um að fljótlega vori aftur. Ég þakka þó fyrir að hafa ekki látið undan andartaksbrjálseminni um daginn þegar ég ólm vildi setja trampólínið útí garð.

Við fengum samt svolítin vorfiðring í gær þegar við renndum á rándýrum olíudropunum yfir í Dýrafjörð og kíktum á hænuunga vorsins og fyrstu kálfana. Engin sauðburður byrjaður ennþá en kannski verður komið lamb eða tvö næstu helgi þegar við kíkjum aftur í sveitina.

Vígsla hins nýuppgerða félagsheimilis fór fram um helgina og var glæsileg dagskrá í fulla fjóra daga! Vígsluhátíðin sjálf var á fimmtudagskvöldið og þar opnuðu dagskrána tónlistarskólastjórahjónin og spiluðu dýrðlega tónlist á klarinett og flygil. Þarna ræðir um tónlistarfólk á heimsmælikvarða og ég áttaði mig á því hvar ég sat í andtagt, hversu mikið lán það er að fá svona fólk í bæinn. Ræðuhöldum var stillt í hóf og glöddust held ég allir yfir því. Það sem sagt var, var þó mjög við hæfi og skemmtilegt að auki. Síðan lokuðum við Hjördís Þráinsdóttir dagskránni með nokkrum léttum lögum með undirspili Samma rakara. Eftir það tók hin eiginlega skemmtun við. Það var þegar fólk fékk sér snittur og drykk í glas og blandaði geði. Það er svo gaman þegar fólk kemur svona saman og þarna var svo margt fólk sem maður sér kannski ekkert alltof oft.

Á föstudaginn fóru svo litlu drengirnir mínir á barnaskemmtun í Félagsheimilinu og skemmtu sér prýðilega. Svo á laugardagskvöldið var dinner og dans með skemmtidagskrá og hef ég ekki heyrt annað en að það hafi farið dásamlega fram. Svo enduðu þessi hátíðarhöld öll með því að á sunnudaginn var slegið upp harmónikuballi. Þar hleraði ég að afi VilliValli hefði dregið og þanið sína nikku á víxl ásamt fleiri höfðingjum. Og allir dönsuðu sem engin væri morgundagurinn. Svona eiga helgarnar að vera!

Ég held að allir hafi skemmt sér fjarskalega vel og Félagsheimilið er svo glæsilegt að maður bókstaflega fellur í stafi þegar maður kemur þar inn. Ég held ég geti fullyrt að þetta er eitt það fallegasta félagsheimili á landinu. (fyrir utan Hörpuna og Hof kannski- ef hægt er á annað borð að kalla þær byggingar félagsheimili... Devil )

Eftir helgina sit ég þó uppi með eina ósvaraða spurningu. Hvenær er maður Bolvíkingur? Reykvíkingur? Svarfdælingur? Ég frétti af illum tungum (eða kannski bara tungu) sem hneyksluðust yfir því að engir BOLVÍKINGAR (með hástöfum) kæmu að dagskrá vígsluhátíðarinnar. Og þó að svona löguðu sé auðvitað hent fram í fullkominni heimótt og fávisku, fékk þetta mig til að hugsa, enn og aftur, hvenær fólk virkilega YRÐI "einhversstað-ingur."

 Þegar maður lifir og starfar í bæjarfélagi í áratug, er maður þá ekki búinn að ávinna sér þau réttindi að geta kennt sig við þann bæ? Hvað þá með börnin mín? Eru þau ekki Bolvíkingar? Teljast þeir frekar til Bolvíkinga sem fæddust hér en vilja svo ekkert með það að búa hérna? Eru ÞAÐ Bolvíkingarnir? Aldrei í lífinu liti ég á mig sem meiri Dalvíking en fólkið sem einmitt býr þar og starfar einmitt núna. Það fólk sem vinnur æskustöðvum mínum gagn á meðan ég bý sjálf víðs fjarri. Mér leiðist þessi eilífa remba.  Er fólkið sem hér greiðir skatta og skyldur ekki einmitt fólkið sem á hér virkilega heima?

Að maður skuli ergja sig á svona smámunum segir manni náttúrulega að æðruleysið er of langt undan og nú sé mál að dusta rykið af umburðarlyndinu gagnvart þeim sem hreinlega fengu ekki betri gjafir frá Guði en þetta..... ;) Halo 

Enda er þessi skilgreiningarárátta ofar mínum skilningi. Það er fínt að vera ánægður með hvaðan maður kemur, það vantar ekki.  Alveg er mér hjartanlega sama hvaðan fólk kemur eða hvert það fer. Bolvíkingar, Sandgerðingar, Íslendingar, Danir, Frakkar, Afríkanir, Ástralir, Grænlendingar..... við erum þegar upp er staðið öll nákvæmlega sama súpukjötið. Mannsbörn. Það er það sem við erum.

Páskarnir á næsta leiti og páskaeggin eru komin á vísa staði fjarri litlum krumlum. Ég verð að vinna um páskana eins og venja er en ætla samt að njóta þeirra með gestum og heimilisfólki.

Og svo, eftir páska...... ÞÁ MUN UPPRÍSA LEIKFÉLAG BOLUNGARVÍKUR!

(það getur nefnilega ýmislegt, þetta  "aðkomufólk.." W00t )

Set hér inn að lokum vídjó frá Sísí Línberg af okkur Hjördísi flytja Næturljóð úr Fjörðum á Vígslunni. S


Uppsagnir, hagræðing...

Öllu ófaglærðu starfsfólki í vinnunni minni hefur verið sagt upp. Uppsagnir áttu að taka gildi þann 1.mars, og uppsagnafresturinn að renna út 31.maí. Þar sem ég (og fleiri) fengum uppsagnarbréfin ekki í hendur fyrr en 2. mars, gildir þó náttúrulega sú regla að uppsagnarfresturinn framlengist um mánuð. Þ.e.a.s. að því gefnu að lögum og reglum sé framfylgt. Uppsagnabréfin lágu á kaffistofunni í vinnunni minni og áttum við að kvitta við móttöku þeirra. Sem betur fer hafði ég rænu á að skrifa einnig dagsetningu móttöku míns bréfs, eftir ábendingu lögfróðrar konu.

Í bréfinu stóð að uppsagnirnar væru í hagræðingarskyni. Það ætti að breyta fyrirkomulaginu á hjúkrunardeildinni og síðan gætum við sótt um þær stöður sem í boði yrðu. Það er auðvitað allstaðar verið að reyna að skera við nögl og við vitum öll að ríkið hefur saumað að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Reyndar ekki jafn harkalega og til stóð, en samt eitthvað. Það vakti þó undrun mína að á kaffiborðinu lá annað plagg. Það voru útreikningar síðasta árs og kom þar fram að Sjúkraskýlið í Bolungarvík (sem er hjúkrunardeild og heyrir núna undir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða) var rekið einni og hálfri milljón UNDIR ÁÆTLUN. Það má því gera að því skóna að uppsögnunum og hagræðingunni sé ætlað að greiða niður öllu dýrari pósta innan stofnunarinnar. Sjálfsagt er það nauðsynlegt.....

En hvað um það. Ekki ætla ég að fara að þykjast hafa vit á einhverjum flóknum útreikningum.

 Það sem mig snertir og mér finnst óþægilegt, er það að ennþá vitum við,-starfsfólkið, ekkert um það í hverju þessi hagræðing verður fólgin. Við vitum ekki ennþá hvaða störf verða áfram. Hvernig þeim verður háttað. Hversu mörg þau verða. Við höfum ekki fengið neinar uppslýsingar um það ennþá. Þannig að faktískt erum við; eins og í Fóstbræðrasketsinum góða "drekinn!" Okkur hefur verið sagt upp, framhaldið er okkur alveg hulið. Maður er jafnvel að verða atvinnulaus. Sem er alveg helvískt. Ég sem þarf að borga Icesafe! Og aðrar skuldir óráðsíumanna!

AAAAAAAAAAAAAAAAAAARG!!!!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband