2.4.2010 | 22:55
Persónulegi bloggarinn er vaknaður
Ég fékk kvartanir yfir því að vera hætt að blogga "persónulega," svo að ég bæti úr því hér.
Ég er nýkomin úr sturtu og sit í handklæðinu einu saman við tölvuna mína í borðstofunni og ber þess að geta að handklæðið er á höfðinu á mér. Er þetta kannski OF persónulegt?
Rétt í þessu brá leifturljósi fyrir utan við gluggann minn og ég sá að par stóð úti á götu og var að taka mynd af húsinu. Vonandi ekki innum gluggann í ljósi þess að kæra má fólk fyrir að vera fáklætt eða óklætt í sínum eigin húsakynnum....
Veturinn hefur verið veðurfarslega góður en innra með mér hefur verið byljótt og stormasamt. En svo koma sólardagar inná milli og nú er jafnvægi. Stundum klofar maður skafla og kýs að ganga með storminn í fangið án þess að vilja sjá að það er hægt að ganga undan vindi, eða hreinlega koma sér fyrir hlémegin í skjólið. Ég er að reyna að vera í skjólinu mínu og átta mig á því að ég þarf alls ekki að brjóstast áfram í kófinu. Þetta er auðvitað myndlíkingamál sem fæstir skilja en það skiptir líklega engu máli því að það sem ég skrifa, skrifa ég meira til að koma því frá mér en til að koma því til einhvers ákveðins staðar. Það mun þá alltént rata sína leið.
Ég hef verið miður mín síðan að ég missti fóstruna mína kæru, hana Ingu, rétt fyrir jólin. Ég var aldrei á leikskóla. Ég átti fóstru. Ég fór til hennar á morgnana, snemma, og heim frá henni seinnipartinn á daginn þegar ég var krakki. Dóttir hennar og ég vorum eins og systur. Svo fjarlægðumst við, en fullorðinsárin brúuðu bilið sem við héldum að þyrfti að vera á milli okkar vegna þess hversu ólíkar við erum. En Inga fóstra mín, var alltaf öryggið. Haldreipið. Líkt og Dísa og Birnir. Og aftur, fæst ykkar vita hver Dísa og Birnir eru en það skiptir heldur ekki máli. Þau eru bara hluti af mér.
Inga mín og ég vorum eins og móðir og dóttir, svo kom nokkurra ára gat. Gat þar sem ég var á harðahlaupum á undan sjálfri mér og öllu því sem ég átti erfitt með að sætta mig við. Og hún horfði bara á mig úr fjarlægð. Fylgdist með öllu og lét mig finna að hún vissi alltaf allt. Samt án þess nokkurntíma að dæma eða segja mér til. Svo eignaðist ég Björgúlf. Og þá lokaðist gatið. Ég varð aftur heil, -að mestu, og þá var hún á sínum stað. Eins og hún hafði alltaf verið. Og var þangað til hún dó. Hún hafði verið veik lengi. í meira en tuttugu ár hafði krabbaklóin verið að krafsa í hana. Stundum af krafti, en stundum fékk hún smá frið. En svo einn daginn, aðeins 67 ára gömul, held ég að henni hafi bara þótt þessi barátta vera orðin nógu löng. Og með sinni óbilandi skynsemi hefur hún eflaust tekið þá ákvörðun að nú væri rétt að láta sig. Og svo dó hún.
Og ég sakna hennar svo hræðilega. Ég hugsa um hana alla daga og mig dreymir hana nánast í hvert skipti sem ég sofna. ég veit ekki af hverju? Ég vissi að það myndi koma að þessu. En ég á ósköp bágt með að sætta mig við það samt. Áræðinlega af því að hún var mér jafnvel enn meira virði en ég gerði mér grein fyrir og þó vissi ég alltaf að mér þætti óumræðilega vænt um hana.
Það hlýtur að vera gott að vera engill á himnum og vita að maður hefur snert líf einhvers á svona fallegan hátt. Ég vona að hún hafi vitað hversu mikið ljós hún gaf mér. Og ég vona að hún sjái það og finni, hvar sem hún er. Hún Inga var ekkert rík af einhverjum metorðum, gráðum eða slíku tilgangslausu drasli sem við sækjumst svo mörg eftir. En hún var alvöru! Hún var mín Matrjúshka. Og allir sem þekktu hana minnast hennar með virðingu og hlýhug. Og það er ekki hægt að marka dýpri spor í jarðvist sína.
Þetta eru hugleiðingar Föstudagsins langa.
Athugasemdir
Falleg hugleiðing Ylfa mín, ég fékk bara tár í augun og felldi nokkur... Vissi ekki að hún Inga hefði verið fóstran þín þannig að ég samhryggist þér innilega fyrir þinn missi og þennan gríðarlega söknuð sem inn í þér býr.
Hún vann náttúrulega með Hákoni pabba og maður fann einmitt ALLTAF mikla hlýju og værð frá henni Ingu.
Hún á eftir að vaka vel yfir þér og styrkja...
Knús á þig Ylfa mín :*
P.s Það væri nú skondið ef þú yrðir svo tögguð á mynd á facebook á handklæðunum einum klæða:)
Margrét Árna (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 23:42
Takk fyrir þetta.
Ralph Waldo Emerson sagði að tilgangur lífsins væri að bæta líf annarra og gera þannig heiminn að betri stað en hann var þegar maður kom í hann.
Ég held þú hafir sýnt fram á það með þessari hugleiðingu að fóstra þín hefur einmitt gert nákvæmlega það. Og nú varst þú líka að gera það.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 01:31
Fallegt hjá þér Ylfa mín.
Sylvía Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 07:48
Mikið er þetta fallegt og satt sem þú skrifar um hana Ingu. Veit að fleiri en þú hugsa svona um hana þó takist ekki að skrifa það svona fallega. Held ég hafi aldrei hitt hana öðruvísi en hún hafi spurt um Þóru systir sem var þó bara næstum því fósturdóttir hennar. Held reyndar að allar vinkonur Snjólaugar hafi um leið orðið fósturdætur Ingu.
Bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 10:29
Ylfa þetta var þvílíkt einlæg og falleg lesning. Mér þykir nú gott að þú ert búin að finna lognið í hjartanu þínu. Þú hefur greinilega verið mjög lánsöm að eiga þessa góðu konu að og alveg víst að hún veit það.
Ragnhildur (IP-tala skráð) 7.4.2010 kl. 18:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.