21.4.2010 | 00:32
Ég vil vinna fyrir bæinn minn.
Maður er alltaf að taka ákvarðanir. Oft eru þær þessar litlu, ákvarðanirnar sem hafa hver mest áhrif á lífið. Og oft ekki bara manns eigið líf, heldur líka annarra í kringum mann. Oft með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Jafnvel afleiðingum sem eru slæmar þó að lagt hafi verið upp með góðan ásetning í byrjun. Og öfugt. Ég hef tekið svo margar ákvarðanir í lífinu sem ég hef seinna séð að eru rangar. En ég hef líka tekið ákvarðanir sem hafa reynst góðar. Og hafa haft góð áhrif á líf mitt.
Núna undanfarið hef ég staðið frammi fyrir einni af þessum stóru. Og hún gæti komið til með að hafa áhrif. Ekki bara á mig, heldur fjölskyldu mína og nærumhverfi. Og sú ákvörðun snýr að pólitík. Ég hef alltaf haft sterkar skoðanir á pólitík. Ég er fædd" inn í Sjálfstæðisflokkinn og fylgdi honum fyrstu árin sem ég hafði kosningarétt. En þegar frá leið, fann ég að ég átti ekki samleið með þeim flokki lengur. Ég hafði miklu sósíalískari hugsjónir en þær sem réðu ferðinni innan flokksins. Svo að ég fór að skoða aðrar hliðar á teningnum. Ekki af því að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins væri slæm, alls ekki. En að mínu mati getur flokkur aldrei verið betri eða verri en það fólk sem leiðir hann.
Smátt og smátt hef ég aðhyllst því að flokkakerfið sé í raun ekki svo gott. Mig langar ekki alltaf að þurfa að kjósa allt það fólk sem er í hverjum flokki fyrir sig, jafnvel þó að ég hafi mikið álit á einhverjum innan raða flokksins. En samkvæmt minni skilgreiningu er flokkurinn fólkið sem í honum er. Og það á sérstaklega við um sveitastjórnarkjör. Sveitastjórnarkosningar eiga að mínu mati að snúast um fólk, ekki flokka. Ég vil eins óháðar sveitastjórnarkosningar og mögulegt er.
Í Bolungarvík, bænum sem ég bý í, er eitt óháð stjórnmálafélag. Það er Bæjarmálafélag Bolungarvíkur. Þar eru manneskjur úr öllum flokkum, og að auki, fólk eins og ég, sem ekki tilheyrir neinum flokki. Óháð fólk. Og því hef ég stutt þetta félag undanfarin kjörtímabil.
Og nú hef ég ákveðið að bjóða mig fram. Að hætta að hafa skoðanir á bak við eldhúsgardínurnar mínar, þar sem þær falla í engan jarðveg, og reyna að koma því þannig fyrir að hugðarefni mín og hugsjónir falli í frjóan jarðveg og af þeim geti sprottið eitthvað sem kemur samfélaginu mínu til góða. Bæjarmálafélagið hefur þá lýðræðislegu stefnu sem ég aðhyllist svo mjög, að ekki er raðað á lista, heldur býður fólk skilyrðislaust fram sína krafta og síðan er opið prófkjör, þar sem allir bæjarbúar geta raðað í sjö efstu sæti listans. Í mínum huga er það eina leiðin í átt að lýðræði og ósk mín er sú að í framtíðinni verði einungis einn listi í bæjarfélögum af þessari smæð, þar sem allir bæjarbúar sem kjörgengir eru, geta raðað því fólki eftir því sem það treystir best.
Ég býð fram vinnu mína og starfsþrek í þágu Bolungarvíkur og mun taka það sæti sem íbúarnir telja mér treystandi fyrir. Hvert sem það sæti verður.
Í mínum draumum er bæjarfélagið samheldið, og stjórnmálum þannig til hagað að það fólk sem býður fram krafta sína, geri það falslaust í þágu bæjarfélagsins og fólksins sem hér býr, án skilyrða um ákveðin sæti, heldur af þörf fyrir að vinna fyrir samfélag sitt. Ekki sem frambjóðendur einhverra lista, heldur sem frambjóðendur fyrir hönd bæjarins síns. Og vonandi rætist sá draumur minn fljótt.
Ég tilheyri engum flokki, ég á engra hagsmuna að gæta hér í bænum, pólitískt séð. Mínir einu hagsmunir eru að Bolungarvík, mín heimabyggð og heimabyggð barnanna minna, blómgist og dafni, verði ákjósanlegur búsetustaður þar sem samheldni og virðing er í fyrirrúmi og fjölbreyttir atvinnumöguleikar þar sem allir hafa sömu tækifæri til atvinnusköpunar. Að hér geti allir í fjölskyldum bæjarins, sama á hvaða aldri þeir eru, smábörn, unglingar, hin vinnandi stétt, fatlaðir, ófatlaðir, aldnir og ungir, fundið sinn farveg í heimabænum sínum sem hefur fjölbreytta valkosti og er rekinn af metnaði og áhuga.
Mitt helsta hugðarefni er, að Bolungarvík horfi til framtíðar, læri af fortíðinni en dvelji ekki í henni.
Og þá er það spurningin óumflýjanlega; hef ég eitthvað í þetta að gera? Ég er ekki viðskiptafræðingur, hagfræðingur, ég er ekki einu sinni búin að ljúka stúdentsprófi! Ég er ekki sú sem veit hvað mest um innviði stjórnsýslunnar. Ég er ekki heldur sú sem þekki hér alla og sögu allra Bolvíkinga og nærsveitunga. Þessar spurningar og hundrað aðrar hafa nagað mig í bak og fyrir eins og termítar deigan trjábol!
En lokaniðurstaðan er samt sú að ég hef trú á því að ég geti þetta. Viljinn er fyrir hendi og ég er fljót að læra. Hér í bæ skortir ekki leiðbeinendur né kunnáttumenn. Og ég hef alltaf verið ófeimin að spyrja spurninga við því sem ég ekki veit. Svo að ég hlakka bara til. Ég á hér þrjú börn og því ætti það að vera mér kappsmál að taka þátt í að gera bæinn minn og þeirra að þeim stað sem þau vilja síðar sjálf byggja.
Athugasemdir
GO GIRL.....
valrun (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 07:21
Aprílrós, 21.4.2010 kl. 07:42
Gangi þér vel og hvenær verður svo prófkjörið ?
Guðrún (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 09:45
Afram Ylfa !!!!
Ella Rosa (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 10:41
Það held ég að þú eigir fullt erindi í pólitíkina Ylfa mín, fáum myndi ég treysta betur til starfa í sveitastjórnarmálum.
Nanna (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 11:21
Ylfa mín,
ég óska þér og bæjarbúum, ungum sem öldnum til hamingju með þessa ákvörðun þína. Ég sé á því sem þú setur hér fram og sömuleiðis horfi ég til þess hvernig ég hef kynnst þér, að sú hugmyndafræði sem Bæjarmálafélagið hefur byggt á, stemmir við þínar hugmyndir. Ég er líka afskaplega glöð að sjá unga konu sem lýsir yfir vilja sínum til að starfa í stjórnmálum í þágu samfélagins hér. Margir hafa sagt að þeir geti ekki hugsað sér þátttöku í pólitísku starfi því það sé bæði rætið og óvægið. Ég er að vona að sá tími sé liðinn eftir allan þann harmleik sem átt hefur í sér stað í íslensku samfélagi, öll þau óheilindi, lygar og pretti sem hafa viðgengist í skjóli hugmyndafræði Sjálfstæðisflokks og ofurtrúar á fullfrjálsan markað. Sú hugmyndafræði er HRUNIN.
Ég er að vona að okkur muni auðnast að byggja nýtt samfélag byggt á hugmyndafræði jöfnuðar, heiðarleika og réttlætis þar sem almenningur er upplýstur um stöðu mála eins mikið og mögulegt er. Þannig virkar grunnur lýðræðisins. Þannig þurfum við að hafa bæjarstjórn Bolungarvíkur, - bæjarstjórn sem byggir á jöfnuði, heiðarleika, réttlæti, ábyrgð og lífsgleði.
Gangi þér vel elsku Ylfa mín og ef það er eitthvað sem ég get miðlað þér af minni reynslu þá er það miklu meira en sjálfsagt.
Gakktu óhrædd til verksins og farðu nú að láta í þér heyra út um víðan völl í ræðu og riti.
Bæjarmálafélagið þarf að vinna hreinan meirihluta í Bolungarvík að þessu sinni. Það þarf að tryggja að það verk sem hófst fyrir 8 árum með stofnun afls sem ekki var bundið við pólitíska stjórnmálaflokka heldur opið ÖLLUM, - að það afl nái hreinum meirihluta og þurfi ekki á "vafasömum" samstarfsaðilum að halda til þess eins og síðast og reyndist rammur biti.
Soffía Vagnsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 17:18
Til hamingju með þessa ákvörðun þína Ylfa mín.
Það að sitja í bæjarstjórn eru engin geimvísindi, heldur byggir það á áhuga á samfélagi sínu og óstöðvandi þrá til að láta gott af sér leiða. Menntun hefur ekkert með það að gera, gæti jafnvel á stundum þvælst fyrir, eins og dæmin sanna.
Framboð Bæjarmálafélasins hefur einmitt haft það að leiðarljósi að hvetja og virkja einstaklinginn til málefnalegrar þátttöku í hópi fólks sem finnur hjá sér hvöt til að breyta, sækja fram með trú á sérhverjum íbúa bæjarins , efla mátt samfélagsvitndar og virkja samtakamátt íbúanna.
Þeir sem bjóða fram krafta sína og segja ÉG VIL líkt og þú gerir með þessari ákvörðun þinni, þeir munu gera gagn í bæjarstjórninni enda eru það málefni samféagsins sem eru þá í fokus til umræðu og úrlausnar.
Ég tek undir hvatningu Sossu hér að ofan það þarf að koma inn annari og málefnalegri hugsun inn í bæjarstjórn Bolungarvíkur. Úrlausn mála sem byggir á persónudýrkun eða hatri getur aldrei leitt til að niðurstöðu sem tekur mið af heildinni.
Áfram svo Ylfa mín þú hefur margt til mála að leggja sem sannarlega eiga erindi út fyrir gardínuna þína .
"Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig".
Gunnar Hallsson (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 09:38
Mikið lýst mér vel á þessa ákvörðun þína og gangi þér sem allra best.
Arna Lára Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 10:46
Frábært! Ég tek undir það sem sagt hefur verið hér að ofan. Bakvið ýmsar gardínur býr mikill kraftur og skoðanir sem þurfa að heyrast. Gangi þér sem best, vinkona. Verst að ég get ekki kosið þig. Ekki nema ég færi lögheimilið ;-) (sem væri fyndin hugmynd ef hún hefði ekki þegar verið notuð í alvöru við hin ýmsu undirförulu valdatöfl í pólitíkinni).
Berglind (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 18:15
Ferlega held ég að þú verðir góð í þessu!
Gerðu bara ekki út úr þér, þetta er þrælslítandi fjári, og mundu að hætta þegar þér finnst komið nóg.
Rokk on!
Sigga Lára (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.