Af-fötlum umhverfið!

 Hvað gerir mannesku fatlaða? Hvað er það sem segir að hún sé fötluð? Hvað er fötlun? -Fötlun felst í því að lifa við einhverskonar takmarkanir í daglegu lífi.

 Í raun erum við öll fötluð á einhvern hátt. Við getum td. ómögulega málað þakið á húsunum okkar án hjálpartækja. Það mætti líta á það sem fötlun. Við getum ekki skipt um ljósaperu í götuljósum án stiga eða annars útbúnaðar. Er það ekki líka fötlun? Að vera fatlaður er í raun ekki stærsta vandamál okkar, það er umhverfið. Hvernig það tekur á fötlun okkar. Ergo: hversu fatlað er umhverfi okkar?

Ef manneskja er í hjólastól eða með göngugrind, þá eru stigar mikil fötlun. Ef manneskja er sjónskert þá er löskuð gangstétt fötlun. Ef manneskja er heilabiluð þá er umhverfi sem ekki miðar að þörfum þess hennar, mikil fötlun. Ef manneskja er einhverf, þá er óreiðukennt umhverfi alveg hrein súperfötlun fyrir viðkomandi. Og það má jafnvel ganga enn lengra. Fyrir manneskju eins og mig, er há eldhúsinnrétting agalega fötluð.  Pínulitlar buxnastærðir eru gífurlega fatlaðar!

 Ég held að við getum flest verið sammála um að fyrir þá, sem teljast „fatlaðir,“ er það umhverfið sem er í raun fatlað.  Hindranir hins „fatlaða“ eru í umhverfinu.  Til að hnykkja á því, set ég hér eftir gæsalappir um orðið „fatlaður.“

Nú eru málefni „fatlaðra“ að færast yfir á sveitarfélög frá ríkinu. Í því eru falin mikil tækifæri fyrir okkur til að efla og bæta þjónustu við „fatlaða“ og ekki síst fjölskyldur þeirra. Tækifærin eru aðalega fólgin í því að „af-fatla“ umhverfi þeirra einstaklinga sem einhverra hluta vegna búa við fatlað umhverfi.  Að tryggja að „fatlaðir“ og fjölskyldur þeirra búi við sömu lífsgæði og við sem teljum okkur ófötluð,  gerum.  tryggja að við öll búum við sjálfsögð lífsgæði. Eins og þau að geta farið ferða okkar. Að geta notið frístunda okkar. Að tekjur okkar dugi fyrir öllum lífsnauðsynjum. Að við höfum trygga búsetu. Að við höfum einstaklingsmiðaða þjónustu.  Það er hægt að halda endalaust áfram en ég læt upptalningunni lokið hér, á þessu sjálfsögðu mannréttindum.

Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Vestfjörðum hefur unnið sérstaklega vandað starf á undanförnum árum og hefur mjög gott hlutfall starfsfólks sem hefur menntað sig á einhvern hátt í þessum þjónustugeira. Það þýðir að við höfum hér marga starfsmenn á þessu sérsviði sem nauðsynlegt er að halda í. Þekkingin og reynslan má ekki glatast okkur. Það verðum við að tryggja til að stuðla áfram að „af-fötlun“ umhverfisins.

Hætt er við því að við tilfærsluna skapist óreiðukennt ástand sem rýrir þjónustuna að einhverju marki til að byrja með. Það er í okkar höndum hversu mikil eða lítil þessi rýrnun verður. Því betur sem við erum undirbúin,  þess minni hætta skapast. Þjónusta við fatlaða er góð hér, en hún má samt aldrei við því að versna. Ekki um millimeter! Hún á alltaf að batna. Markmiðin á að setja hátt. Og hækka stöðugt!

 Mannauður. ( þetta er merkilegt nýyrði, sem skyndilega er allsráðandi í tungumáli okkar og mörg okkar kannski tæpast vitum hvað merkir? ) -er dýrmætastur af öllu.  Mannauður er að mínu viti eitt af fallegustu orðunum á íslenskri tungu. Í því felst nefnilega bæði fegurð, þekking og viska, fjölbreytni og sérstaða hvers einstaklings sem er hluti af órofa heild.

Menn mega hreykja sér á hverju sem er og öllu fögru má lofa. En aðeins þeir sem eru trúir félagshyggjunni,  skilja mikilvægi hvers einstaklings, hvort sem umhverfi hans er fatlað eða ófatlað, sama hversu gamall hann er, óháð því hverrar þjóðar hann er, aðeins þeir skilja hvað felst í hugtakinu mannauður. Veit hve mikilvægt það hugtak er og vinnur í þágu þess.Aðeins á þann hátt sýnum við ábyrgð. Samfélagslega ábyrgð.

Ylfa Mist Helgadóttir.

 Höfundur skipar 3. Sæti á lista Bæjarmálafélagsins í Bolungarvík. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín

Mér þykir þú taka djúpt í árinni að fullyrða að aðeins þeir sem falla ínnan sérstakrar skilgreiningar þinnar á félagshyggju séu þess bærir að skilja hvað flest í hugtakinu mannauður.   Stundum, þegar menn ætla að vanda sig sérstaklega, verður þeim á....og hrokinn laumar sér í skrifin.  Trúi ekki að óreyndu að þetta sé nú þín trú Ylfa mín ..getum við ekki verið sammála um að allar góðar manneskjur skilji hvað felist í hugtakinu mannauður

Katrín, 20.5.2010 kl. 18:04

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Athugaðu það Kata að ég skilgreini hvergi hugtakið "félagshyggja." Mín skilgreining á henni er ekki í þessari grein.

Tak fyrir að taka eftir því hvað ég vandaði mig mikið. :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 20.5.2010 kl. 20:22

3 Smámynd: Katrín

rétt Ylfa, mín mistök.....en hins vegar staðhæfing engu að síður sem mér finnst nú ekki standast...svipað og að segja að þeir einu sem trúa á Guð skilji hugtakið mannúð....if you get my meaning:)

Og ekkert að þakka..greinin er vel skrifuð  að öðru  leyti:)

Katrín, 20.5.2010 kl. 21:46

4 identicon

Ylfa þetta er vel skrifað og einmitt ekkert hrokafullt við það sem þú segir, aðeins staðreindir. Okkur mannfólkinu hættir til að greina allt út frá flokkspólitískum línum en þú fellur einmitt ekki í þá gryfju. Þetta er þörf áminning og flott pæling. Við, félagshyggjufólkið erum allsstaðar, í öllum flokkum eða jafnvel landlaus í flokkap. og þurfum að tala máli þeirra sem hafa til þess færri tækifæri en við hin. Við tvær höfum rætt þetta með skilgreininguna á fötlun áður og það verður gaman að fylgjast með þér í þessari baráttu. Áfram Ylfa félagshyggjukona!

yrsa horn helgadottir (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 11:23

5 Smámynd: Katrín

Hrokinn,kæru systur, birtist í þeirri fullyrðingu/staðhæfingu að aðeins þeir sem eru trúir félagshyggjunni ( skilgreining óþekkt) skilji hvað felst í hugtakinu mannauður.   Það er mín trú að það muni reynast ykkur erfiður róður að sýna fram á með óyggjandi hætti að slík fullyrðing standi.  Og nú er að bíða og sjá hvor ykkur takist það..þangað til verður fullyrðing ykkar ekkert annað en tilgáta. 

Katrín, 21.5.2010 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband