1.6.2010 | 14:27
Merkilegir dagar.
Þegar ég skifa "merkilegir dagar" í fyrirsögnina, þá er ég ekki að tala um upphæðina sem ég fékk greidda út í morgun. Hún var verulega lítið merkileg. Jafn merkilegt og mér þykir starf mitt vera, jafn illa meta ráðamenn þjóðarinnar vinnu mína.
Nei, merkilegu viðburðirnir eru þeir, að í dag útskrifast litli/stóri sonur minn, Björgúlfur Egill, úr Grunnskóla Bolungarvíkur. Í gær eða fyrradag, fór hann í Vesturbæjarskóla með nýju skólatöskuna sína, sex ára gamall og hóf þennan hluta ævi sinnar. Hann var með skarð í neðri góm því að þar vantaði tvær tennur. Alla hans skólagöngu hefur hann verið (eftir því sem ég best veit) prúður og stilltur drengur, -það dró reyndar ögn úr því síðasta árið, en einhverntíma verður maður líka að fá að vera unglingur í uppreisn!
Birnir,- spiderljónið mitt litla, er að klára 3. bekk. Hann er kílói léttari en litlibróðir, lítill og nettur eins og blómálfur á laufi. Honum er alveg sama því að móðir hans hefur sannfært hann um að það geri ekkert til. Hann hafi nefnilega þau fegurstu augu sem til eru í heiminum. Augnhárin kolsvört, löng og þétt, augun risastór og blá með þeim stærstu sjáöldrum sem ég hef séð í barni. Hann er kominn með fullorðinstennur sem hæfa stórvöxnu heljarmenni. Hann er því varla neitt nema tennurnar. :) En einn dag á hann eftir að stækka uppí þær.
Baldur Hrafn er útskrifaður úr leikskólanum. Hann er með skarð í neðri góm því að í gær datt seinni framtönnin þar. Það ljær honum svolítið sérstakan svip, því að Baldur Hrafn er með andlit tveggja ára barns að öðru leyti. Hann er ennþá með "gerber" lúkkið. Hvíta hárið, -sem er nú reyndar aðeins að dökkna, bollukinnarnar sem nánast lafa, og bláu augun undir hvítum toppnum. Hann er ægilegt krútt, en hann er líka um leið "quite a handful" svo maður orði það pent. Og það virðist loða við allan hans árgang sem nú mun ryðjast í haust inní grunnskólann. Þetta eru allt miklir víkingar og kvensvarkar. Öll frekar mikil fyrir sér og það er vægt til orða tekið. Það verður því fjör í skólanum næstu tíu árin!
Það er komið sumar. Bæði á dagatalinu og veðrinu. Skólaútskriftin í dag. Góðir tímar.
Athugasemdir
Þetta eru mikilmenni sem þú átt
Halla Signý (IP-tala skráð) 1.6.2010 kl. 14:40
Já. Það eru þeir Halla mín. Mikilmenni. Góðir og fallegir drengir eins og þeir eiga kyn til.....
Ylfa Mist Helgadóttir, 1.6.2010 kl. 16:00
Dásamlegt litla systir, ekki vantar skrautlýsingarnar:-) Til hamingju með drengina og lífið almennt!
Kveðja frá stóru systur
yrsa horn helgadottir (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 08:34
til hamingju með þessa gaura - þeir eru auðvitað flottir ! Sumir taka akkurat sitt pláss í tilverunni en aðrir taka svolítið meira pláss en það :) Skemmtilegt þegar heill árgangur tekur upp á þessu.
Þegar ég bjó í B-vík þá vorum við nokkuð margar á fæðingarnámskeiði en öllum til mikillar undrunar þá lentum við allar í keisara - nema ein.
Það voru samantekin ráð haha
Ragnheiður , 5.6.2010 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.