7.6.2010 | 17:21
HOT HOT HOT!
Þvílík og endalaus blíða á þessum útkjálka alheimsins. Það eru þessir dagar og þessar nætur sem bæta upp tímann þegar myrkur grúfir hér yfir vikum saman og lægðirnar raða sér upp í bið eftir því að færa sig yfir landið og hrella þunglynda molbúana sem kúra sig inannadyra á milli þess sem þeir staulast í og úr vinnu, oft við illan leik og snjóugir upp fyrir haus.
En svo kemur vorið! Og hvergi í heiminum kemur annað eins vor. Og óvíða er því tekið með öðru eins þakklæti og hér. Það er sól allan sólarhringinn og maður eiginlega tímir aldrei að sofa! Verandi í fríi, sef ég framundir hádegi en vaki nóttina nánast á enda og ligg ýmist úti í glugga eða hangi úti í garði til að missa ekki af neinu. Kyrrðin, fuglarnir, fiðrildin, appelsínugulir fjallatindar, spegilsléttur sjórinn sem liggur eins og kvikasilfur uppað fjöruborðinu þar sem æðarkollurnar kúra með ungana sína, krían sem aldrei þagnar hamast í endalausri leit að einhverjum til að skeyta skapi sínu á og lognið er algjört. Þetta er mitt himnaríki. Og á þessum dögum og nóttum, rifjast það einmitt upp fyrir mér af hverju ég á heima hérna.
En ég er einmitt í sumarfríi sem er æðislegt. En ég kíki alltaf við og við á Skýlið til að kyssa og kela við fólkið mitt þar. Fá mér kaffisopa og taka púlsinn á lífinu þar. Einn vinur minn, hann Haddi gamli, hefur verið líkamlega slakur undanfarin ár en hugurinn algjörlega skýr. Þetta var maður sem stundaði sjóinn í sextíu ár. Þess vegna var það einkar viðeigandi þegar þessi gamli og virðulegi skipstjóri kvaddi sinn lúna líkama í gær, á sjómannadag, tók sér stöðu við stýrið á einhverju himinfleyi sem okkur er ennþá hulið og lagði í sína síðustu siglingu. Hér blöktu fánar við hálfa stöng í gær, ólíkt öðrum sjómannadögum hvenær flaggað er í topp. Hávarður gamli, laus við hið gamla og úrsér gengna hismi, farinn á vit ævintýra sem okkur eru ennþá ókunn. En eflaust feginn að vera laus úr prísundinni sem hver sá sem orðinn er lúinn hlýtur að upplifa.
Ég á aldrei eftir að gleyma þessum góða og gamla vini.
Það er dásamlegt að vinna mína vinnu. Kynnast þessum fallegu gömlu sálum sem glíma við að eiga heima í lélegu hulstri. Fá að þykja vænt um þau og taka þátt í að gera líf þeirra eins gott og best verður á kosið. En mikið finnst mér alltaf tómarúmið stórt sem hver og einn skilur eftir sig. Ég sakna hverrar manneskju sem kveður. Þó ég samgleðjist sálinni að vera frjáls þá sakna ég viðkomandi alltaf. Sumir segja að maður öðlist "skráp." Að maður læri að taka þessu sem hluta af vinnunni. En ég vona að ég öðlist aldrei þann skráp. Af því að þá hlýt ég líka að koma mér upp skráp gagnvart fólkinu sem ég annast. Og gerist það, finnst mér ég ekki hafa neitt að gera í svona vinnu lengur. Ef manneskjurnar eru farnar að vera verkefni fyrir mér en ekki einstaklingar sem ég læt mér þykja vænt um, þá held ég að það væri kominn tími á nýtt starf. Ég vil þá frekar sakna þeirra sem kveðja.
Nú er ég búin að kæla mig niður og ætla að fara aftur út í sólina og halda áfram að brasa við að stinga upp fíflana í garðinum hjá mér. Makalaust hvað er mikið af þessum fíflum í kringum mig.... hljóta bara að kunna svona vel við félagsskapinn!
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér enginn árstími er betri en seinni hluti maí og svo allur júní, enda tek ég alltaf hluta af sumarfríinu mínu á þessum tíma.
Er reyndar að verða komin með óþol fyrir sólinni enda komin með sólarexemið mitt (vægt að vísu) og reyni því að halda mig í skugganum.
bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 17:58
Mikið er nú gott að vita af fólki eins og þér Ylfa sem vinnur umönnunarstörf. Hugarfarið er svo 100% rétt - takk fyrir að annast gamla manninn eins og manneskju og létta honum aðeins lífið síðustu misserin með léttleika þínum og skemmtilegheitum. Ég veit fyrir víst að hann hafði lúmskt gaman af samskiptum við þig og kunni að meta tímann sem þú varðir í að spjalla við hann.
Magnús Hávarðarson (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 13:36
Takk elsku Maggi. Veistu, mín er ánægjan. Forréttindastarf. Enda unnið í sjálfboðavinnu. Bara ánægjan!
Ylfa Mist Helgadóttir, 9.6.2010 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.