4.1.2012 | 21:28
Lúkasarguðspjallið skrifaði...
Ég er aðdáandi upplýstrar umræðu. Ég nýt þess að lesa fleiri en eitt sjónarmið og hef gaman að því þegar maður lendir í hressilegu orðaskaki við fólk um menn og málefni, svo lengi sem það er í mesta bróðerni.
Netið er mín himnasending. Ég var pennaletingi og sendibréfin sem ég hef komið á pósthús yfir æfina ná örugglega ekki að fylla tuginn. Samt ólst ég upp fyrir daga netsinis. Í dag þarf ég ekki á pósthúsið, ég bara skrifa og ýti á send. Tek þátt í heilmiklum skoðanaskiptum svo að segja daglega og les skemmtilegan og minna skemmtilegan fróðleik um vinina, ættingjana, ókunnuga fólkið, fræga fólkið og svo videre. En það er ákveðin tegund umræðu sem ég hef algjöra viðurstyggð á. Það er ákveðið net-heilkenni, sem dregur fram það versta fram í mannskepnunni (hér er orðið "skepna" einkar viðeigandi) og fróar hennar lægstu hvötum. Það er ákveðinn hópur fólks sem lifir með þessu heilkenni sínu. Og í huga mínum hef ég gefið þessum hópi nafn;
Lúkasarlýðurinn!
Hver man ekki eftir Lúkasi? Hundræflinum sem týndist á Akureyri og fólk bókstaflega bilaðist í ásökunum og blóðugum lýsingum á því hvað gera ætti við misyndismenn hans. Það er nefnilega eins og Ármann vinur minn segir: merkilegt með þessa sem kalla sig dýravini. Þeir eru svo einstaklega blóðþyrstir þegar kemur að því að slátra fólki! En síðan Lúkas fannst og hinir bardagaglöðu rétttrúnaðarmenn gátu hvílt dýravinsemdina um stund (því ekki dettur mér í hug að kalla svona fólk mannvini og tel því ólíklegt að þeir hafi verið að eyða pásu sinni í að hlynna að náunganum) þangað til næstu mál fóru að leka á netið. Og nú nýverið var það hunda"morðið" á Þingeyri. Síðast þegar ég gáði voru dýr ekki myrt. Þau dóu ekki heldur drápust. Og þau voru drepin, þeim slátrað eða lógað. En í dag, í samfélagi þeirra sem elska dýrin til jafns við menn -og jafnvel enn meira, miðað við hatursfull viðbrögðin, -eru hundar myrtir. Og við því liggja þyngstu hugsanlegu viðurlög sem hugsast getur. En það skal athugast að slíkur dómstóll er dómstóll internetsins. Og götunnar. Og í birtum dómum almennings, í bloggheimum, á Facebook og í kommentakerfi dagblaðanna á netinu, er enga miskun að finna. Dýravinirnir eru blóðþyrstir og vilja hefnd. Og helst án dóms og laga! Það er sama hvort ísbjörn er felldur eða hundi lógað, fólkið algjörlega fer hamförum. Og sparar ekki við sig í djúsí stóryrðum og drullukasti. Merkilegt þykir mér þó að þeir sem hvað hæst hafa og stærstu orðin nota, eru ekki endilega þeir sömu og beita sér fyrir góðri meðferð td.sláturdýra, eða láta sig varða þá tugi lamba eða kinda sem eru skilin eftir í vegakantinum sumar hvert, til að drepast hægt og rólega vegna þess að sá sem ók á þær tímir ekki að borga sekt eða nennir ekki að gera hlé á ferðum sínum.
En nóg af þessu röfli, hræsni er löstur. Og eiginlega óþolandi löstur. Í mínum huga er málið einfalt: maðurinn lifir á skepnum. Og við notum þær bæði okkur til ánægju og dægrastyttingar sem og til átu og efnagerðar. Þau eru nauðsynlegur þáttur í lyfjaþróun, eða er einhver af dýravinunum sem býður fram börnin sín til tilraunastarfsemi á nýju insúlíni eða hjartapillum? En að fara illa með dýr og kvelja þau að ástæðulausu er hinn mesti óþarfi og fæstir gera það að gamni sínu. Sem betur fer. Ég er stundum að spá í það hvað dýravinirnir vilja td. að sé gert við litla stráka sem fara niður á bryggju að veiða fisk? Fiskurinn kvelst auðvitað við það að fá í sig öngulinn og svo ýmist kafnar hann á bryggjusporðinum, nú eða honum er sleppt með sárið eftir öngulinn. Ætti að beita þá Lúkasarviðurlögum? Eða Þingeyrarviðurlögum? Hvað með mig sem hef drepið mýs í hundraðatali, bæði með kvalafullu eitri, í gildrum og á límmottum? Vill einhver bjóða sig fram til að taka mig af lífi án dóms og laga?
Ég lít á mig sem dýravin. En ég er eiginlega farin að skammast mín fyrir það að segjast vera dýravinur því að það er orðið samasem merki á milli þessa orðs, og að vera illa upplýstur, blóðþyrstur hausaveiðari sem drullar yfir nafngreint fólk á netinu, gjörsamlega án ábyrgðar eða minnstu hugmyndar um það hvað er á bak við "meintan" glæp. Að vera dýravinur er semsagt eiginlega orðið það sama og að vera mannhatari. Eða þannig skil ég það í ljósi glænýrra atburða sem áttu sér stað í gær og fyrradag. Og ég er loksins komin að kjarna málsins.
LOKSINS! (það vita allir sem mig þekkja að ég er ekki þekkt fyrir að vera fáorð)
Erna Björk Hallbera (flott og laaaaangt nafn) er stúlka/kona sem ég þekki. Hún er kennari. Lítil og grannvaxin, snoppufríð og með eindæmum skemmtileg og indæl manneskja. Hún á mjög stóran vinahóp, eins og margir sem eru skemmtilegir (vinsældir fylgja gjarnan skemmtilegu fólki) og svo er hún bara svona manneskja sem fólk á auðvelt með að leita til. Hún er mannvinur. Erna er líka afskaplega góður sögumaður og hefur gaman að því að lýsa hversdeginum á ævintýralegan máta. Og, það allra besta; hún hefur sérlega kaldhæðinn húmor.
Í fyrrakvöld birti Erna status á sínum FB vegg sem virðist hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum "vini" hennar sem tók hann of bókstaflega. Kattareigandinn Erna, hafði sumsé átt í baráttu við kattarræksni nokkurt undanfarið, sem gerir sig heimakomið í húsi hennar og endaði leikurinn á því að kisi mé fúlu pissi yfir íþróttatöskuna hennar. Sagðist Erna hafa sparkað "helvítis kettinum vælandi út á Guð og gaddinn."
Nú þekki ég Ernu, sem fram hefur komið. Ég veit því fullvel að þarna hefur hún kryddað söguna af útrekstri kattafjandans með safaríkum lýsingum. Og ég hló. Einmitt af því að þetta var svo fyndið í mótsögn sinni.
En það var sko ekki öllum hlátur í hug. Alls ekki. Fljótlega fór Erna að fá pósta frá "dýravinunum." Einhverjir bentu henni á að nú væri kalt úti og því bæri að sýna smælingjunum miskun og réttast væri að hún hringdi í kattholt og tilkynnti um heimilislausan kött. Eða hvort hún væri búin að hringja í 112? (ég ætla persónulega að vona að 112 sé ekki önnum kafið við að handsama flækingsketti næst þegar mikið liggur við) Aðrir sáu sig knúna til að senda Ernu afskaplega dónalega og ljóta pósta. Það gerðu þeir í nafni þess að þeir væru "dýravinir" og því fannst þeim þeir hafa heimild til að óska henni þess að hún frysi í hel úti í kuldanum og enginn hefði brjóst í sér til að hleypa henni inn. Nú veit ég að Erna dygði sjálfsagt ekki jafn lengi úti í frosti og t.a.m ég, sem er öllu holdugri en hún, svo að þarna virðist sem fólk sé hreinlega að óska henni dauða. En það er allt í lagi, því að það er allt í nafni "dýraverndunnar."
Kemur nú til sögunnar maður nokkur. Lærður og að mér skilst, lögfræðimenntaður og gefur sig út fyrir að vera dýravinur. Hann sendi, ásamt fleirum, póst til Ernu, alls ekki svo ópenann reyndar, en síðan birtir hann bæði ummæli hennar, póstinn sinn og hvað honum nú finnist, á FB síðunni sinni. Og þar með mátti sláturtíðin hefjast! Hann hvatti fólk til að deila þessu áfram og það gerði fólk eins og t.d. Anna nokkur Kristine útvarpsmaður og kattavinur sérlegur. Hún kallar Ernu "vonda manneskju," á sínum status. Ég tek fram að bæði lögmaðurinn Árni Stefán Árnason og Anna kristine, eru með opinn FBprófíl og því var þetta aðgengilegt öllum sem á annað borð höfðu áhuga. Ég var því ekki að brjóta nein lög þegar ég linkaði inná síðu Árna og skrifaði hjá honum komment að auki. Það var langt og ítarlegt og lýsti gremju minni á þessari tegund "dýravina." það komu allmörg "læk" á þetta komment mitt og á sama tíma var minn FB veggur með fjörugasta móti. Öll höfum við jú skoðun!
Skyndilega fór Árni að tína út komment úr umræðunni. Síðan blockaði hann mig og mér skilst á fróðum, að á endanum hafi hann tekið allt út. Hafi hann skammast sín (sem ég eiginlega er að vona) þá hefði hann átt að leyfa þessu að standa og síðan að biðjast afsökunar á því að eiga þátt í að rífa niður mannorð konu, -kennara, sem hefur varla gerst sek um svo mikið sem geitungadráp! En nei. Hann felur sig bara. Og mér finnst það ekki í lagi! Það ER EKKI Í LAGI AÐ GERA SVONA!
Fólk þarf einfaldlega að læra að það sem sett er á netið, það er hreinlega ekki hægt að þurrka út! Og öll ógeðlsegu kommentin sem "dýravinir" leyfðu sér að setja þarna undir hjá honum, fannst honum engin ástæða til að hreyfa. Ekki fyrr en fullt af fólki var farið að gera athugasemdir, Ernu í hag.
það er óþolandi að þessi fíni samskiptamáti sé notaður á þennan hátt. Múgæsing, skrílslæti, upphrópanir og endalaus mannorðsmorð eru daglegt brauð á FB, twitter, í kommentakerfum og á bloggum. Það er eins og það sé alltí lagi að skrifa hluti sem maður myndi aldrei, aldrei nokkru sinni segja við viðkomandi augliti til auglitis. Jafnvel um fólk sem maður þekkir ekki neitt. Um hluti sem eru teknir úr fullkomu samhengi!
Annað hvort verður maður sumsé að skera vinalistann niður í 10 vini, eða skrifa eingöngu veðurlýsingar og hversu duglegur maður var við húsverkin þann og hinn daginn (án þess þó að minnast á dýrin sín, hvað þá annarra) annars á maður á hættu að lenda í Ernumeðferðinni!
Ég ætla að láta lesendur vita að fólki er fullkomlega frjálst að segja það sem það vill um mig á netinu. en það verður um leið að átta sig á því að ALLT sem skrifað er, má kalla fram aftur. Líkt og eftirfarandi dæmi sannar. það sem maður skrifar, því skal maður gangast við!
Ennþá er fólk ekkert að missa sig, en það er um það bil að fara að breytast og Árni Stefán hvetur til deilinga:
þarna var Erna búin að eyða þessum "meiðandi" ummælum af FB síðunni sinni og því kölluð skræfa. Dæs.. erfitt er að gera dýravinum til geðs. en höldum áfram að skoða...
jæja, nú var mér farið að ofbjóða! Bæði er fólk farið að auglýsa nafn og símanúmer, heimilisfang Ernu (hvað ætlaðist þessi sæta Tóta til að fólk gerði með þessar upplýsingar?) sem og kalla hana helvítis kerlingu! (Unnur Birna Bassadóttir þarf endilega að sjá Ernu. Kerling er nú það síðasta sem manni dettur í hug. En mér dettur hins vegar strax í hug að Unnur B.Bassad. sé að hóta einhverju? Skyldi lögreglan rannsaka það líka?)
OK, ok. Hér er fólk farið að alhæfa um hvað er fyndið og hvað ekki. Einnig farið að benda á að tilfinningar kisu verði sárar þegar talað sé svona um hana..... Og nú fer undirrituð að blanda sér í umræðuna.
eðlilega er þetta hér með farið að snúast upp í rugl, enda ekki tilefni til annars. Pressan og aðrir "vandaðir" miðlar voru farnir að birta ekkifréttir um þetta mál og allt orðið ótrúlega fáránlegt!
síðasta skjáskotið sem ég fékk sent frá góðu fólki sem hafði greinilega óljósan grun um að Árni þessi myndi reyna að fela umræðuna, er þó ekki það síðasta. Fleiri lögðu orð í belg og verst þykir auðvitað minni særðu hégómagirnd að þessi skjáskot sýna alls ekki hversu gríðalega mörg læk athugasemdin mín hlaut! :D
Bottomlænið er: Góða fólk! Andiði með nefninu. Það er ekki sniðugt fyrir einhvern að segja brandara og enda svo sem pressuslúður hvar blóðþyrstir netverjar ausa mann skít og skömmum. Og slakið í leiðinni á hræsninni. Ef við skoðum okkur ofaní kjölinn höfum við sjaldnast efni á að kalla hvort annað dýraníðinga (sem reyndar í minni sveit þýddi að e-r hefði kynferðislegt samneyti við dýr) eða saka aðra um að vera réttdræpur. Hafir þú lesandi góður ekki sjálfur aflífað dýr, þá hefur pottþétt einhver annar gert það fyrir þig og þú notið af því góðs. Og ef við á annað borð erum dýravinir, þá hljótum við að vera vinir allra dýra? Hvort sem það er fluga, mús, þrautpíndur kjúllinn á KFC, minkar, rottur, gullfiskar og ýsur! Og síðast en ekki síst, mannskepnan.
Ljóð eftir Ernu er viðeigandi í lokin:
Ábúðarfullur almúginn afskræmdur af æði,
Rýtandi og rúnkandi sínu pressu-sæði.
Níðandi nornin nöguð inn að beini,
... Innyfli hennar skulu brenna á teini.
Seint skal hún fá að svara til saka,
Tortímum henni, af nógu er að taka.
Eldurinn brakar, snarkar og hvæsir,
Fnykurinn mannfjöldann óðan æsir.
Álitamál varð hennar dauði.
Nafn hennar ómerkt af gömlum sauði.
Athugasemdir
Þessi færsla á heima í hall-of-fame yfir bestu bloggfærslur sögunnar. Frábær lesning um hve lítlar sálir mennirnir eru stundum.
Kristinn (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 21:53
Snilldar pistill Ylfa, tek undir hver einast orð
Bessa (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 21:54
Þakka þér fyrir þessi skrif Ylfa! Frábær úttekt á súrrealísku máli. Ég er svo óendanlega sammála hverju orði.
Elskum dýr og menn og beitum skynseminni áður en við aflífum (hvoru tveggja)!
Huld (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 22:05
Þetta er hátíð miðað við á Englandi sem hefur staðið í að rækta lágstéttina í mörghundruð ár, að vísu er hástéttin þar eins úrkynjuð líka.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.1.2012 kl. 22:07
Mjahá! Dýr eru vond en maðurinn er verri.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 4.1.2012 kl. 22:39
Allveg 'brill' hjá þér.
Steingrímur Helgason, 4.1.2012 kl. 22:44
Mjög flottur pistill :o)
Sandra (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 22:46
Vel gert Ylfa!
Árný Leifsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 23:03
Mjög góður pistill og þarfur! Er algjörlega sammála þér með þessa "dýravini" sem þykjast ekki skilja grínið í innlegginu eða kaldhæðnina. Þetta eru oft einhverjir sem hreinlega vilja búa til vesen! Sjálf verð ég arfabrjáluð ef dýr af einhverju tagi (og á ég þó sjálf hund) dirfist inn fyrir mínar dyr óboðið. Sérstaklega kettir. Efast um að mín viðbrögð við kattarhlandi á mínar eigur hefði verið neitt fegurri.
Ég hef aðeins eitt út á þetta að setja... af því þú hneykslast mikið á að umræddur Árni eyði út sínum innleggjum og kommentum, af hverju er þá skárra að Erna geri það? Auðvitað er ekkert nema sjálfsagt að eyða dónalegum og meiðandi athugasemdum, en ef hún fjarlægði innleggið sjálft finnst mér það alveg á sama plani og Árni að eyða út sínu skömmustuinnleggi. Þá er eins og hún skammist sín fyrir að hafa sett það inn fyrir það fyrsta.
Bestu kveðjur, kem pottþétt aftur hingað fyrir góða lesningu :)
Hildur (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 23:18
Árni tók sitt út, ritskoðaði það þannig að það var algjörlega einhliða, og setti það aftur inn.
María (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 23:22
Erna Björk tók statusinn út skv.beiðni því það fór fyrir brjóstið á dýravinum. En athugaðu, Erna var ekki að níða neinn niður eða draga nokkurn mann út í forað. Hennar status var settur inn til að kæta okkur vinina en virtist fara svo illa fyrir brjóstið á einhverjum. Að auki er Erna með lokaðan prófíl en ekki Árni
Takka annars fyrir viðbrögðin gott fólk. Gaman að einhver skuli nenna að hlusta á rausið í mér...
Ylfa Mist Helgadóttir, 4.1.2012 kl. 23:32
Árni er e.t.v. bara ekki hrifinn af skoðanaskiptum, María. Hann vill augljóslega að mál hafi einungis eina hlið. ;-) Hans. Þeir sem ekki aðhyllast lýðræði hafa þennan tendens.
Ylfa Mist Helgadóttir, 4.1.2012 kl. 23:36
Hef ekki séð þig í 20 ár Ylfa mín, aðeins fylgst með þér núna á facinu en ég er að ,,focking" fíla þig, skynsöm stelpa og vinur vina þinna. Ég er fædd og uppalin í sveit og þoli ekki þessa ímyndunarveiku órökréttu dýravini, eitthvað lið sem á fullt af peningum til að eyða í snargeðveik gæludýr og gerir sér enga grein fyrir raunverulegum þörfum og gleði dýra, dubbar hundana sína í fáranleg föt og töltir um með þessa aumingja til að fá útrás fyrir eigin sýndarþörf !
kv. Friðbjörg Jóhanna
Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 23:53
Heyr heyr..........!!!!!
Dana Ýr Antonsdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 07:55
Þú ert náttúrulega bara snillingur Ylfa
Sigurvin "Fíllinn" (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 08:18
Virkilega flottur pistill.... rausið í þér meikar svo skemmtilega sens...hef annars fylgst með þessu og var gjörsamlega ofboðið þessi nornaherferð Árna gagnvart henni Ernu Björk
Harpa Hall (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 08:20
Snilldarskrif hjá þér. Sammála hverju orði, nema kanski helst því að kalla þetta Lúkasarlýðinn. Komandi frá Akureyri og hafandi fylgst með því máli nokkuð mikið, bæði viljandi og ekki, ja þá erum við nú flest hér búin að fá yfir okkur nóg af þeirri umræðu. En skil að þú notir það orð til að allir fatt nú strax hvað þú ert að meina.
Gangi þér vel.
Anna Guðný , 5.1.2012 kl. 09:03
Þú ert flottur penni stelpa...
Katrín Lilja (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 09:08
Góður og þarfur pistill :)
Anna Einars (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 09:41
Frábær færsla!
Sunna Björk (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 10:03
Ágætur pistill og þarfur að mörgu leyti. Sjálf er ég mikill dýravinur og misbauð raunar færsla vinkonu þinnar. Hins vegar eru miklar og heitar tilfinningar sjaldnast til þess fallnar að koma af stað vitrænni umræðu eins og þessi færsla sýnir ágætlega fram á. Löstur færslunnar er hins vegar að þú fellur í sömu gildru og þeir sem þú gagnrýnir - notar gífuryrði og frekar niðrandi nálgun, þegar hófsamari nálgun hefði dugað (less is more ;-)) og þú ert að biðja fólk um að temja sér. Svo já, öndum ÖLL með nefinu.
Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 10:22
Frábær pistill hjá þér
Linda Björk (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 10:22
Skil ég innganginn rétt?
Ertu að leggja samasem merki á milli viðbragða fólks við slátrun siðblindingum til skemmtunar og slátrun til manneldis?
Það er á gráu svæði í mínum bókum. En ég er þó einn af þeim sem fylgi geitungum til dyra og kóngullóm líka.
En ég er alveg sammála því að svona viðbrögð eru engum til sóma.
Ég meina... hver sparkar í kött?
Gústi (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 10:43
Það sagði við mig kona sem var vistmaður um stund á vinnustað þínu Ylfa " hún Ylfa er yndisleg manneskja og er bæði góð við dýr og menn". Gott hjá þer að verja vinkonu þína, það er sumum svo gott að sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann hjá sér sjálfum .
Takk fyrir að lofa okkur að verjast fordómum í garð annara með skrifum þínum.
guja (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 11:18
Þetta er vel skrifað hjá þér og ég vona að sem flestir sjái fáránleikann sem þú bendir svo réttilega á. Áfram þú!
Drífa Þöll (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 11:56
Ágæt grein, en tek samt undir með Önnu Sigrúnu Baldursdóttur að þú notar of mikil gífuryrði og verðfellir skrif þín með því.
Sæmundur Bjarnason, 5.1.2012 kl. 12:24
VIRKILEGA GÓÐUR PISTILL!! Og vá hvað þú ert góður vinur! Erna er heppin að eiga þig að!
Elísabeth Lind (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 13:01
Ylfa - þetta er snilld! Ég er verulega ánægð með þig.
Magga Ásg. (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 13:17
Frábær pistill hjá þér og þörf lesning æði mörgum.
Guðmundur Örn (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 13:36
Flottur pistill Ylfa. Vonandi að Lúkasarlýðurinn hafi vit á að taka mark á þér.
Laufey B Waage, 5.1.2012 kl. 13:51
Þetta er áhugavert “blogg” og vekur mann vissulega til umhugsunar um hve stutt er í refsigleðina og sakfellingarnar hjá “dómstóli götunnar”. Það gleymist oft að skoða þarf öll mál frá fleiri en einni hlið þó manni þyki oft sökin auðsæ og refsilöngunin setur fólk oft niður á anzi lágt plan. Það er ekki að ástæðulausu að menn skulu taldir saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.
Hins vegar vona ég að þetta mál, sem og mörg fleiri, verði til þess að fólk, sem tjáir sig reglulega á netsíðum, fari að gera sér grein fyrir því að internetið er vandmeðfarinn vettvangur og allt sem maður segir þar jafngildir því að tala upphátt í stórum hópi fólks sem maður oft þekkir lítið og jafnvel ekkert. Það sem ekki þolir umfjöllun á ekki erindi á vefvettvang eins og “feisbúkk” og “bloggið”.
Emil Örn Kristjánsson, 5.1.2012 kl. 14:12
Gífuryrðanlega skemmtilegt (og þarft) blogg!!!
Árni Friðriksson (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 14:13
... og meðan ég man: Mér þykir kveðskapur Ernu reyndar ekki merkilegur.
Emil Örn Kristjánsson, 5.1.2012 kl. 14:15
Að þú skulir leifa þér að gera upp á milli fjöldaframleiðlukjúkling og "venjulegum" kjúkling finnst mér hræsni !!!!!!!
Gunnar Hall Kjúklingaunnandi (hann er bara svo bragðgóður) (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 15:14
Mjög áhugaverð samantekt. Lýsandi fyrir ofstækisumræðuna sem hér tröllríður öllu. Siðapredikarar í hverju horni sem sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin auga!
Ingibjörg Hinriksdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 15:25
Þú ert ótrúleg Ylfa. Lífið væri ekki nærri eins skemmtilegt án þín;o)
Auður Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 16:33
heyr heyr, frábær skrif sem gaman var að lesa ;)
Nanna (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 18:41
Flott grein og góð áminning fyrir okkur öll um að taka því sem við lesum með (miklum) fyrirvara og um að vera róleg á dómhörkunni.
Einhverjir voru að tala um hér fyrir ofan að Erna hefði sjálf eytt út sínum ummælum og það væri það sama og Árni gerði. Að baki því liggja þó ólíkar ástæður. Ef ég skil þetta rétt þá tekur Árni sín ummæli út þegar hann fær gagnrýni á skrif sín og aðfarir gegn Ernu. Erna tekur sín ummæli út þar sem þau eru rifin úr samhengi og notuð gegn henni á mjög ljótan hátt. Hún áttar sig einnig líklega á því að ummæli hennar gætu valdið þeim misskilningi að hún ætti það til að fara illa með ketti, sem gæti ekki verið fjær þeirri manneskju sem hún hefur að geyma, og því vill hún líklega koma í veg fyrir þann misskilning.
Árni meinar það sem hann skrifar, það gerir Erna ekki og á því er mikill munur.
Sigrún Hauksdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 21:32
mjög flott hjá þér og algjörlega þörf á þessu, spurning hvort fólki fari ekki að læra af þessu þar sem nýlega var svipuð múgæsing í mæðrahóp á Akureyri... gott að benda fólki á að Ísland býr yfir löggæslu sem á að sjá um að lögum sé fylgt og það getur tilkynnt þangað... svo ætti fólk að forðast meinyrði á netinu þar sem það verður öruglega ekki hamingjusamt við það að borga þeim sem það rakkar niður ef út í málaferli fer en Helgi Rafn (minnir að hann hafi heitið það)sannaði að það er hægt!
Guðrún ásta (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 22:33
Mjög flottur pistill hjá þér. Það hefðu allir gott af því að lesa hann.
Halldóra Hallgrímsdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2012 kl. 23:37
Enn og aftur segi ég það og skrifa; þú ert einn af betri pennum landsins og með hausinn á réttum stað í þokkabót. Djöfull væri Ísland á leið til fjandans hefðum við ekki svona réttsýnt fólk eins og þig Ylfa. Ég er svo hjartanlega innilega ofboðslega sammála þér að það nær ekki nokkurri átt.
Ilmur Dögg Níelsdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2012 kl. 00:01
Dýravinir. Mjög vafsamt fólk hvert sem farið er. Hérna er dæmi. http://youtu.be/inFtOMx8nDU
Jón Frímann Jónsson, 6.1.2012 kl. 00:45
Ég þekki engan sem ekki reynir með öllum tiltækum ráðum að koma óvelkomnum ketti/villiketti jafnvel, út úr sínum híbýlum. Sjálfur á ég kött. Eftir hrun hafa öfgar heltekið þjóðarsálina blessaða. :-)
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 6.1.2012 kl. 21:00
FRÁBÆR skrif hjá þér Ylfa mín! Væri til í að lesa skrif þín í fjölmiðlum í stað bullsins sem er þar! ÞAÐ fengi vonandi fólk til að hugsa og læra :)
Margrét Árnadóttir a.k.a Margrét systir ;) (IP-tala skráð) 8.1.2012 kl. 03:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.