10.1.2013 | 22:42
Flottur og djúsí diskur
það er það sem mann dreymir um daglega. A.m.k mig. Góða nærandi máltíð sem er hryllilega bragðgóð en þarf samt ekki að sitja á vinstra lærinu ævilangt eins og alltof margar af mínum máltíðum gera.
Ég þurfti óvænt að taka næturvakt næstu nótt svo að þegar þetta er ritað um hálf ellefu, hef ég sofið af mér kvöldmatinn en það kemur ekki að sök. Minn kvöldverður er bara núna!
Hann samanstendur af súpukjöti sem ég setti inn í ofninn klukkan fjögur í dag, á hundrað og fimmtíu gráðu hita og svo var það tekið úr ofninum á milli sjö og átta. Fitan runnin af og það litla sem eftir var orðið að djúsí skorpu. Súpukjötspokinn kostar bara 2000 kall og dugar í tvær máltíðir og ykkur að segja finnst mér það miiiiiklu betra en td. læri sem er magurt og oft svolítið þurrt næsta dag ef maður vill hita upp. En þar sem mér finnst kalt kjöt sko ekki verra en heitt þá ákvað ég bara að gera mér heitar franskar.
Já, ég sagði franskar. En þetta eru ekki alveg þessar hefðbundnu heldur eru þessar úr sellerýrót, sem er eitt af mínu eftirlætisgrænmeti.
Sellerýrót er oftast til í Bónus og lítur út eins og virkilega gömul og vansköpuð rófa. En undir niðri er hún dásamleg með æðislegum kryddkeim og hentar til margra góðra uppskrifta.´
Ég tek sellerýrót og afhýði hana sem er eiginlega mesta mojið við þetta. Ræturnar sem eru neðaná eru oft kræklóttar og leiðinlegar, og stundum þarf maður að skera sneið af botninum. Þegar búið er að afhýða rótina er hún skorin í þunnar sneiðar (ca 5-10 mm) og svo skorin þvert á sneiðarnar svo við séum með "franskar" í höndunum. Þeim er velt uppúr olíu eða bara settar á plötu og olíuspreyi spreyað undir og svo yfir þær, síðan er þetta saltað, kryddað með frönskukartöflukryddi eða hverju sem þið viljið, ég nota bara salt. Svo skutlum við þessu inn í 200 gráðu heitan ofn á blástur ef hann er til, annars bara undir og yfir hita.
Það dugði fyrir mig að fara í góða sturtu og klæða mig. Þegar ég kom fram voru frönskurnar mínar tilbúnar. Þá raðaði ég klettasalati, fjallaspínati, veislusalatsblöndu og síðan góðu rifrildi af fjallasteinselju á diskinn í sæmilegasta haug, hellti örlitlu af tahinidressingunni minni (sjá neðar á síðunni undir óhófsdagar hvað? )yfir salatið, svo kalt kjöt, svo franskar og að lokum 30 grömm af bearnaisesósu frá Íslandsnauti. Hún er æðisleg og ég nota hana mjög mikið sem "fituskammt."
Endilega prófið þessar bráðhollu frönsku "kartöflur" og segið mér hvernig til tókst. Mér finnst þær betri en venjulegar og er ég nú miiiikil frönskukona!
Athugasemdir
Sammála þessu með súpukjötið, það er ljúffengt
ef það er steikt svona í ofninum. En lambabógur er líka ljúffengur, hægsteiktur í ofninum... nammi, namm.
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.