Föstudagur

Það er að verða árviss viðburður að eyða undankeppni Eurovision með Sörufrænku. Gísli, maðurinn hennar, grillaði æðislegt kjöt og Sarafrænka bjó til ferlega gott salat með. Rauðvín og hvítvín með og ég fékk að auki rosalega huggulegan borðherra. Ekki einasta sýndi hann mér fyllstu kurteisi og hló að öllum mínum bröndurum, hann var farinn að dansa hressilega við mig undir lokin. Síðan fór hann heim að sofa og heimtaði ekki einu sinni koss á munninn. Ég fékk bara að kyssa hann á handarbakið!
Hann var orðinn stjarfur af þreytu um það leyti, enda búið að vera mikið fjör í sófanum hjá okkur. Það er best að deita þá undir tveggja ára. Þessi sjarmur heitir Snorri og er frændi Gísla.

Áður hafði ég krúsast með litlabróður á Sólvallagötunni hjá R.Vilbergssyni og Tamilu, fengið rammáfengan drykk sem kúbanir blanda í byrjun meðgöngu og er látinn lagast fram yfir fæðingu, svo að ég var bara nokkuð góð!
Ók upp í Mosó og snapaði mér leikhúsferð með afasystur Björgúlfs. Við ætlum að sjá Leg í kvöld í Þjóðleikhúsinu.

Litlibróðir er bara í því að vera dásamlegur en nú þarf ég að kveðja hann og fara heim í fyrramálið því að ég mundi víst skyndilega eftir því að ég á sjálf börn sem eru í Bolungarvík. Svei mér ekki bara ef þar leynist eins og einn eiginmaður líka! Sá verður nú glaður þegar hann sér hvað konan keypti handa honum í Gallerý Kjöti áðan: Tvær heljarinnar T-bone steikur og fjórar þumlungsþykkar Prime ribbur. Allt jafn vel hangið og Halli minn sjálfur er.....

Í dag hefur verið sól og blíða í Reykjavík. Risessan heljarstóra búin að þramma um strætin og Sarafrænka fylgt henni fast á eftir ásamt stórum hópi fólks. Ég hef aftur látið minna á mér bera..? og verið úti í sólinni með vinkonu, kíkt aðeins í búðir og bölsótast í umferðarteppunum. Freknurnar framan í mér eru orðnar tröllauknar og svarbrúnar, vorið springur út og ilmurinn af nýjum blöðum trjánna loðir við fingurna ef maður snertir þau. Svo er bara að aka inn í síðveturinn vestra snemma í fyrramálið og ná heim til að kjósa rétt. Aumingja Halli þarf að fara á lögguvakt klukkan níu annað kvöld svo að ég og strákarnir verðum að sjá um kosningavökuna með Urtu. Reikna með að ölvun verði lítt áberandi á heimilinu.

Góða helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigðu góða kosningavöku og fljúgðu varlega heim Ylfa mín, YHH

Yrsa Hörn Helgadóttir (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 19:42

2 identicon

Hann Snorri sagði mér einmitt að þetta væri besta deit sem hann hefði farið á, ekkert óþarfa knús og læti!;-)

Elín Björk (og Snorri) (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 22:58

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Ég EK á mínum fjallabíl elsku stórasystir,

Elín! Ég er til í að fara með þessum á deit hvernær sem er!

Ylfa Mist Helgadóttir, 12.5.2007 kl. 01:19

4 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

elsku ylfa mín góða ferð heim, góða kosningarnótt fyrir þig og þína, er á leið í tvö afmæli og svo annað afmæli á morgun, gleymi öllu um kosningar, en er heldur ekkert inni í þeim á íslandi.

knús og ljós

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.5.2007 kl. 08:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband