18.5.2007 | 21:52
Fyrir hvað geldur fólk?
Enn einn dapur dagur á Vestfjörðum. Ég var þungstíg (ekki það að ég stigi yfirhöfuð mjög létt til jarðar :o) þegar ég þrammaði upp tröppurnar heima hjá mér klukkan hálftíu í kvöld með innkaupapokana og klósettpappírsskammt mánaðarins. Þetta var langur dagur í vinnunni. Ástæðan er enn eitt reiðarslagið sem yfir Vestfirði dynur. Kambur, langstærsti atvinnurekandinn á Flateyri búinn að leggja upp laupana. 120 manns búin að missa lífsviðurværið. Á Flateyri búa rúmlega 300. Þetta er nánast hver vinnufær maður í þessu plássi! Þetta er ömurlegt. Svo ömurlegt að ég hef verið með grátstafina í kverkunum í allan dag. Svona er ég nú harður fréttasnápur! Þarf að fjalla um erfitt mál og ekki meira gagn í mér en svo að ég sit hálf grenjandi við símann og tölvuna.
Hvernig fer fyrir þessu svæði? Þetta kemur í kjölfarið á um það bil 80 manna uppsögnum liðins árs. Fyrst var það fjallið, þar sem meðal annars minn eigin maður missti sína vinnu, síðan Marel sem sagði upp tuttugu manns, Bakkavík í Bolungarvík sem sagði upp fimmtíu og nú þetta.
Er skrítið að orðið olíuhreinsunarstöð sé ekki lengur alslæmt í huga fólks? Fólks sem ekkert sér framundan annað en atvinnuleysi og fólksflótta? Það er ekki bjart yfir í dag en vonandi tryggja stjórnvöld öllum sínum þegnum öryggi í atvinnumálum... eins og lofað var fyrir kosningar. Er bót í máli að eiga inni slík loforð frá ráðamönnum þjóðarinnar? Hlýtur að vera.
Góða helgi.
Athugasemdir
já þetta er svo sannarlega ömurlegt.
Nanna (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 22:05
Blessuð Ylfa mín
Þú spyrð, fyrir hvað geldur fólk. Þeir sem nota atkvæði sitt í kosningum til að kyssa á vöndinn ættu að velta þessari spurningu fyrir sér. Ekki kaus ég Framsókn og því síður Sjálfstæðisflokkinn. Ég gerði mitt besta eins og meirihluti Íslendinga gerði. Við vorum fleiri sem kusum þetta burt en þingmannfjöldinn var einum fleiri hjá þeim. EINUM FLEIRI ! Þetta kemur næst.
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 19.5.2007 kl. 08:59
þetta er voðalega sorglest, blessað fólkið hvað gerir fólk sem lendir í svona, ekki er hægt að flytja, og byrja upp á nýtt ? það þarf að geta selt eignirnar sínar, og það er sennilega engin til að kaupa.
sendi þér ljós kæra frænka, og það styttist jú óðum
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 19.5.2007 kl. 22:03
Já þetta er alveg svakalegt og það er farið að verða erfiðara fyrir Vestfirðinga að standa upp á milli áfallanna, sérstaklega þar sem það er svo stutt síðan að hér bjó buguð þjóð. Ég vona svo sannarlega að við höfum séð okkar dökkustu daga og olíuhreinsunarstöð þurfi aldrei að vera lausnin.
Vonast eftir að sjá þig í kaffi í sveitinni sem fyrst.
Annska (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.