24.6.2007 | 10:58
Þar lágu Danir í því!
Ég veit varla hvað ég á að segja né þá hvar ég á að byrja.
Síðustu þrjár vikur hafa verið vægast sagt sveiflukenndar. Við höfum verið í yndislegu sumarhúsi á Jótlandi með ættingjum og haft það reglulega gott. Halli hefur farið í atvinnuviðtöl og við höfum sinnt húsnæðisleit við reyndar heldur bágbornar aðstæður þar sem ekkert var netið.
Vinnan sem Halli fékk var hræðilega illa launuð. Alls ekki nóg kaup fyrir íslenskar eyðsluklær. Sú vinna sem við vonuðumst helst eftir að hann fengi, fékkst ekki okkur til undrunar og vonbrigða þar sem búið var að ýja að því við hann að hann væri nokk öruggur með hana. Þeir ákváðu að fara í samstarf við barnlausan dana. En jæja, honum var boðin vinna, en þá er það nú húsnæðið. Það er allt of dýrt í kring um vinnustaðinn. við erum, eins og aðrir íslendingar, skuldug upp fyrir haus og verðum því að hafa amk, nóg fyrir skuldunum. Okkur bauðst þó eitt æðislegt hús með riiiisastórum garði og hellingsplássi, fyrir litlar 8000 kr danskar á mánuði. Það er heldur stór biti fyrir okkur þegar launin fyrir skatta áttu að vera 23000 krónur danskar!!! Glufur opnuðust og lokuðust til skiptist og allt var í lausu lofti.
Á endanum ákváðum við að fara bara aftur heim og salta þetta ævintýri í ár eða svo. Þetta er of mikil óvissa og ringulreið, okkur langar bara heim í fallega húsið okkar og fallega garðinn... sem líklega er fullur af illgresi og vanhirtur með afbrigðum, og hitta alla góðu vinina sem maður lærir að sakna þegar maður er í burtu. Danmörk er yndislegt land, fullt af skemmtilegum hlutum og fallegum gróðri. En hér eru engin fjöll. Engir dalir. Engin villt náttura. Engir Jökulfirðir. Engar Hornastrandir. Enginn Svarfaðardalur. Engin amma og afi á Ísafirði. Engin amma Ella og enginn afi Einar. Engin Alla í sveitinni. Engin Óshlíð...... nei, nú er ég greinilega að sjá hlutina í ljósi þess að fjarlægðin gerir fjöllin blá!!!
Ég er Íslendingur. Vissulega íslendingur sem langar að prófa að búa erlendis. En þjóðernisremban er mér í blóð borin. Það hef ég fundið núna undanfarið.
Núna erum við að njóta síðustu daganna hjá hinni yndislegu Steinu frænku sem er uppi á lofti að hugleiða á meðan ég blogga. Hún hefur verið svo boðin og búin þessi elska að hjálpa okkur og gekk svo langt að bjóða okkur að búa hjá sér á meðan við værum að finna út úr þessu öllu saman! Við ætlum að eiga það inni. Það var svo skrítið að þegar við vorum búin að taka ákvörðun um að hætta við, fórum við að fá boð um aðstoð frá ótrúlegasta fólki. Gömlum vinum og kunningjum sem eru ýmist búsettir hér eða á leiðinni hingað. Meira að segja einhverjum Ísfirðingum sem við höfum aldrei hitt og fréttu af okkur hér á hrakhólum. Það er fólk sem hefur búið í Danmörku í langan, langan tíma og konan var víst í bekk með einhverjum sem er mér tengdur.... eða eitthvað....!!
En af því að tíminn var þetta knappur orðinn vegna minnar vinnu og vegna útleigunnar á húsinu heima, þá ákváðum við að halda okkar striki. Við vorum búin að segja legjandanum upp, aumingja maðurinn hafði ekki einu sinni fengið að koma inn í húsið áður en honum var sagt upp!!! En það verður gott að vita af hjálpinni þegar til kemur. Við eigum sko eftir að nota öll sambönd :)
Nú ætla ég út í blíðuna og njóta þess að vera með skyldfólkinu þennan stutta tíma sem eftir er.
Athugasemdir
Fjarlægðin gerir... o.s.frv. Hafaði gaman að að lesa færsluna þína. Það eru þá fleiri en ég sem hugsa til heimahaganna.
Þrátt fyrir 8 ár í Noregi er hugurinn oft á Austfjörðunum, Héraðinu, Grindavík og Hafnarfirði, um borð í Seleynni og Krossanesinu, loðnumiðunum, netadræsunum, sé fyrir mér brosandi skötuseli, verslunarmannahelgi í Atlavík með Austmenn og Hljóma á sviðinu svo maður gleymi nú ekki Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og söngkonunni Þuríði Sigurðardóttur.
Það er margt skrítð í kýrhausnum og mannshausnum líka.
Vona að allt gangi vel hjá ykkur
Dunni
Dunni, 24.6.2007 kl. 11:42
elsku frænka, já svona er nú það, við finnum einhver ráð þegar þar að kemur. þú liggur uppi í sófanum mínum og hvílir þig með vonandi góða bók, ætla að knúsa þig á eftir
ljós til þín
steina frænka
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 24.6.2007 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.