12.7.2007 | 23:33
Ef bara ég gæti dólað mér á sundhring ævina á enda....
Ég er byrjuð að vinna. Úff, hvað það var erfitt að vakna í morgun. Lífið hjá mér einkennist ýmist af algjöru iðjuleysi eða massa vinnu. Núna er ég að leysa af á Rúv, var að vinna þar frá níu í morgun til hálf sjö, svo á morgun mæti ég á Skýlið og elda mat fyrir vistmenn, þar verð ég fram yfir hádegi og fer svo á Rúv. Vinna á Skýlinu um helgina og svo bæði þar og á Rúv næstu viku...... En veðrið heldur áfram að vera bara dásamlegt svo að mér finnst hálf fúlt að vera inni.
Ég hef komist að því að ég er hræðilegur fréttamaður. Mér finnst gaman að tala og þar er útvarp engin undantekning, en ég hef engan áhuga á fréttum sem slíkum. Skemmtilegt að taka viðtöl við skemmtilegt fólk sem er að gera skemmtilega hluti, jafnvel líka þá sem eiga í erfiðleikum, en þegar kemur að pólitík eða fundargerðum, tjah... þá finnst mér eins og ég sé að lesa sömu blaðsíðuna aftur og aftur án þess að ná innihaldinu. Ég er líka svo ferlega lengi alltaf að komast í gang. Ég er náttúrulega bara afleysingapíka svo að oft líður frekar langur tími á milli vinnu hjá mér og þá er ég hreinlega ekki með á nótunum. Mig vantar algjörlega þessa "fréttagreddu," og hef oftar en ekki samúð með fólki sem ég sé í sjónvarpsfréttum, reyna að berja af sér fréttamenn. Ömurlegast þykir mér þegar fólk er að upplifa persónulega erfiðleika sem á einhverra hluta vegna, að vera sjálfsagt að séu uppi á pallborði þjóðfélagsins. ´
En ég hef prýðisgóða útvarpsrödd og mér finnst vinnan skemmtileg. Aðallega vegna þess hversu mikið ég hitti af skemmtilegu fólki. En ég viðurkenni vanmátt minn fúslega þegar kemur að því að meta gæði mín sem fréttamaður. Dagskrárgerð er eitthvað sem ég gæti aftur á móti vel hugsað mér. En nóg um það.
Ég var farin að halda að sumargestirnir yrðu engir. En í gær hrundu hér inn skemmtilegir ættingjar sem að vísu gistu ekki en stöldruðu við fram á kvöld og borðuðu með okkur. Svo hringdi systir mín áðan og boðaði komu sinnar fjölskyldu um aðra helgi. Enda kominn tími til að hitta þau. Börnin mín muna eiginlega ekkert eftir henni né börnunum hennar. Það er alveg ferlegt en minnir mann á hvað tíminn er afstæður hjá litlum krökkum og hvað þau eru fljót að gleyma. (Yrsa systir ætlar að koma með tvo kanínuunga handa okkur og ég sagði henni að við miðum slefandi með saxið. Kanínur eru afbragsðmatur.) Tengdapabbi kom í skotferð um daginn og ætlar eitthvað að kíkja meira í sumar svo að einhver reytingur verður nú af fólki.
Halli er búinn að sækja um vinnu hjá Háskólasetrinu á Ísafirði við Tækni...sviðs...something. Ég vona að hann fái það. Auðvitað er fínt að hafa hann heima að taka til og elda á meðan ég vinn. Held bara að bankinn yrði frekar fúll yfir því hversu lélegar heimtur yrðu á afborgunum okkar!
Og fyrst ég er farin að tala um peninga þá erum við á svona heldur blönku tímabili núna. Óvænt fjárútlát, s.s ísskápur, klósett og fleira settu svolítið strik í reikninginn svo ekki sé talað um þriggja vikna utanlandferð. Því höfum við ákveðið að gera ekkert sérstakt meira í sumar enda ég að vinna flesta daga sem eftir eru af því. Við vorum þó búin að ákveða að fara á Hesteyri í Jökulfjörðum um Verslunnarmannahelgina og gista í tjaldi. Þar er alltaf haldin heilmikil kjötsúpuveisla við varðeld þar sem aragrúi af fólki syngur saman og skemmtir sér. Til að vera nú nógu flott á því ákvað ég að bjóða nú vini Björgúlfs með, sem er fluttur úr bænum og býr nú í Reykjanesbæ. Svo pantaði ferð með áætlunarbátnum íí dag. Verðið var litlar ÞRJÁTÍU OG FJÖGURÞÚSUND OG TVÖHUNDRUÐ KRÓNUR!!!!
Við förum nú bara í Skálavík og tjöldum þar, takk fyrir pent!
FríðaBirna!! Ég veit þú lest alltaf bloggið mitt. Kíktu um helgina svo við getum skipulagt eitthvað skemmtilegt..... og ódýrt!
Athugasemdir
mikið tekurðu þig vel á þessum baðkút !
má ég ekki vera með, vildi óska að svona væri sumarfríið mitt
steina!
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.7.2007 kl. 06:16
Já, ég er sammála þessu með fréttirnar. Hef unnið á nokkrum fréttastofum og fíla það engan veginn. Mig dreymir hins vegar um þáttagerð fyrir Rás 1 í fjarlægu framtíðinni. Helst um eitthvað alvarlega nördó sem enginn hefur áhuga á.
Siggalára (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 09:08
hva, ætlar þú ekki að koma á fiskidaginn, ég sem var búin að boða þig og þína á hina ýmsu staði í fiskisúpu kvöldið fyrir fiskidaginn. Mér fannst upplagt að ganga með þér um bæinn og bjóða þér í misgóðar fiskisúpur þar sem ég og mínir voru meira og minna í mat hjá þér í danaveldi.
Kveðja
GB
Gunnhildur (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 19:51
Ég er búinn að svara klukkinu þínu mín kæra.
Júlíus Freyr Theodórsson (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 23:30
hæ ég var að finna þig hélt að þú værir algjörlega týnd í tyrkjunum en hefði mátt vit að þú gast ekki haldið kjafti lengi! Ýmislegt búið að gerast síðan síðast þú næstum flutt til útlanda og við búin að eignast heila Elísabetu! Allavega gaman að finna þig aftur mín kæra bið að heilsa í víkina.
p.s las allt ísfólkið á sængur og óléttulegunni tja hvað get ég sagt vandað er það ekki en skemmtanagildið ennþá mjög gott
Lufsan (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 14:13
Jú Steina mín kær! Komdu bara! Hér er blíða dag eftir dag og við getum alveg dólað á sundhring!!
Júlli, ég er búin að sjá, hvenær hættir þú að vera sjálfstæðismaður og karlrema og snérist til betri vegar?? :o)
Gunnhildur: Ég er svo hrædd um að ef mér verði boðið í súpur á Dalvík þá endi með því að ég þurfi að elda!
Bjarnveig: Til HAMINGJU!!!! Elísabet er afbragðs nafn! Þú hefðir nú líka getað fundið eitthvað úr ísfólkinu... td. Yrja eða Sunna..... Annars kemur reyndar nafnið Elísabet þar fyrir ef ég man rétt... fékkstu hugljómun??
Ylfa Mist Helgadóttir, 15.7.2007 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.