16.9.2007 | 21:36
Sunnudagsdrómi...
Ég fór á fætur um þrjúleytið í dag. Það er engin lygi. Ég var reyndar aðeins búin að rölta fram af og til en sannleikurinn er sá að við fjölskyldan lágum eins og hráviði í stóra rúminu vel fram eftir degi og gláptum á Jim Carrey myndir af nýja flakkaranum hans Halla. (sem hann stalst til að kaupa, en vegna blankheita á hann að vera í græjukaupabanni...hann hefur fengið sína refsingu) Síðan fórum við í sveitina og héldum upp á afmælið með henni Öllu í Dýrafirðinum, lékum við hundana fjóra og tókum upp síðasta grænmeti sumarsins þar. Semsagt, rólegur og aaaafar afslappaður dagur.
Ég var sumsé að vinna í gærkvöldi á LangaManga. Átti að vera frá sex til fjögur en þar sem ég stóð vart í fæturna vegna skurða neðan á þeim, fékk ég að stinga af klukkan tvö. Þá kom Halli og sótti mig. Hann aftur á móti var að spila með Grjóthruninu í Kjallaranum í Bolungarvík. Við fórum þangað til að sækja eitthvað af trommudótinu hans og þá rak mig í rogastans. Um staðinn flæddu formlausar, alkóhóllegnar AMÖBUR!!! Dísus kræst hvað fólkið þar var blindfullt. Og eiginlega bara sorglega .... eitthvað. Ég hef aldrei séð annað eins. Meira að segja vinkonur mínar hentu sér á mig eins og leikarar úr Ópal auglýsingunni og töluðu við mig eins og ég væri heyrnarlaus, með nákvæmlega fimm sentimetra á milli andlits míns og þeirra eigin. Frussugangurinn flóði yfir mig og ég varð hálf blaut í framan, þangað til ég tilkynnti þeim að þær væru of fullar til að hægt væri að tala við þær, kippti í Halla og dró hann heim. Jésús pétur! Fyrir utan var sama ástandið ef ekki verra. Sauðdrukknir einstaklingar rúlluðu upp og niður stigann og næsta nágrenni hússins. Ég hef aldrei sé svona mörg prómill saman komin á jafn litlu svæði. Óhuggulegt.
Kannski þarf ég bara að fara að æfa mig í að drekka aftur. Eins og mér finnst gaman að vinna á bar, þá finnst mér jafn ömurlegt að umgangast drukkið fólk í frítíma mínum. Eiginlega finnst mér það bara hræðilegt. Nema þegar Halli er fullur. Þá er gaman. Það stendur svo stutt yfir og það gerist svo margt skemmtilegt á meðan.
Ég ætla að skríða upp í rúm og horfa á meiri Jim Carrey. Góða nótt og gleðilega vinnuviku.
Athugasemdir
Ég gat ekki stillt mig um að lesa upphátt þessar unaðslegu lýsingar á alkóhóllegnu amöbunum. Þá gellur í manninum sem stendur við eldavélina mína og poppar: Það er bara að drekka frá sér leiðindin. Ég væri örugglega alltaf fullur, ef ég byggi í Bolungarvík.
Laufey B Waage, 16.9.2007 kl. 21:53
... vegna skurða neðan á þeim?
Hvað kom fyrir?
Tóta.
Tóta (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 23:37
Laufey: þetta hlýtur að hafa verið Hálfdán Bjarki. Annars hefur þú gifst mjög svipuðum manni :) Þetta eru fordómar. Maðurinn þarf að hafa prófað að BÚA í bolungarvík áður en hann getur sagt svona..... hmpfr....
Tóta mín. Það kom ekkert fyrir. Ekki missa legvatnið. Þetta eru bara svona skurðir sem myndast í siggleðrið neðan í fótunum á mér. Ekkert alvarlegt, Því síður hættulegt :)
Ylfa Mist Helgadóttir, 17.9.2007 kl. 08:20
Ef ég mætti mæla þér heilt þá legg ég til að þú skellir þér í fótsnyrtingu og sláir þannig tvær flugur í einni ferð, þú munt eiga eftir að svífa um á silkimjúkum skurðlausum iljunum og líkaminn allur verður í slökunaralgleymi. Það þarf ekki alltaf heilnudd til að allur líkaminn geti fundið sína leið til betra spennujafnvægis.
Og varðandi drykkjusiði bæjarbúa þá datt mét í hug kveðskapur Hjörleifs Hjartar um málefnið og sem kannski væri gott að ramma inn og henga upp sem barskraut:
Aldrei fer ég yfir strikið
ekki´ er mér það tamt
Aðeins fullur, ekki mikið
obbolítið samt.
Bestu kveðjur til ykkar
Hulda
Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 11:00
Ég mundi auðvitað vilja RÁÐA þér heilt - þó ég mæli alveg sérstaklega með fótsnyrtingu ;)
Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 11:04
ég þekki þetta með sprungurnar, er þetta ekki bara ættgengt !
ég er líka ansi erfitt með fullt fólk, enda hitti ég það aldrei orðið, held mig langt í burtu !
kær kveðja til ykkar allra elsku frænka
AlheimsLjós til þín
Steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 17.9.2007 kl. 16:54
Þetta var ekki HB, heldur ástkær eiginmaður minn. Hann er mikill húmoristi, og hefur líka - eins og ég - stundum gaman af því að segja eitthvað sem vekur kröftug viðbrögð og mótmæli. Þú ættir nú að kannast við það syndrom frá honum blóðföður þínum. Annars hefði þetta líka hæglega getað verið hann barnsfaðir þinn. - Á ég að telja upp fleiri ?
Laufey B Waage, 18.9.2007 kl. 09:59
Ha ha ha ha ha!!!! Lubba mín lovlí. allir, karlmennirnir í lífi mínu....nema Halli minn :) Björgúlfur er sko ekki undanskilinn!! Hálfdán Bjarki var í súpu hjá mér í hádeginu. Hann er geðþekkasti drengur. Og hann sagði mér að honum þætti afar leitt að hafa misst af þessu djammi í Bolungarvík. Svona djömm væru honum að skapi! Ekkert hálfkák. Bara heiðarlegt fyllerí! Þvílíkt krútt!
Ylfa Mist Helgadóttir, 18.9.2007 kl. 13:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.