7.11.2007 | 18:10
Hætti ekki fyrr en ég fæ seðil.
Til að halda uppá það að ég mætti ekkert í vinnuna alla síðustu viku, ákvað ég að vera í fríi þessa viku líka og fylgja syni mínum yngsta og manni til Reykjavíkur þar sem sá yngri átti að fara í smá aðgerð. Gjóska mín varð eftir heima að passa börn og tík og uppsker í staðinn pössun fyrir sína dóttur seinna meir. Það er verkaskipting í lagi.
Undanfarið hef ég mikið einmitt hugsað um verkaskiptingu. Af því að ég hætti, ekkert fyrir svo löngu, á geðlyfjunum mínum sem héldu mér mjúkri og flatri, þá hefur ýmislegt breyst. Allskonar hlutir fara í taugarnar á mér. Allt mögulegt veldur mér hugarangri, allt mögulegt, sem áður flaut bara hjá án þess að ég léti það nokkuð í ljós né yrði við það vör. Mér finnst rosalega gaman að gera eitthvað fyrir aðra. Ég hef mikið til þrifist á því megnið af ævinni. Og með því hefur mér fundist sem ég væri að borga, á einhvern hátt, fyrir alla þá gæfu sem mér hefur hlotnast í lífinu.
En svo hef ég verið svo mikið hugsi undanfarið. Og ég er að hugsa um greiðasemina. Hverjum gerir maður greiða og hverjum ekki? Er maður að "redda" hlutum fyrir fólk sem kannski vil alls ekkert láta vera að "redda" sér? Er maður að kóa með þeim sem hafa á engan hátt gott af því að maður kói með þeim? Eða er maður í því hlutverki að vera boðinn og búinn öllum stundum (nánast) þegar maður er beðinn um alls konar viðvik? Og ég átta mig á því skyndilega að við hjónin erum töluvert föst í því hlutverki. Halli er t.d. rafeindavirki og er ávallt með hrúgur af einhverju, tækjum og tólum til athugunar fyrir vini og vandamenn. Jafnvel fyrir fólk sem er ekkert svo náið. Honum er nær, hann kann ekki að segja nei. Ófá kvöldin fara í að laga fartölvur eða forrit, tengja og fixa. Sem er athyglisvert. Nú eigum við hjónin engan vin í tannlæknageiranum en slíkt gæti komið sér vel. Við gætum til dæmis beðið hann að kippa einhverju barnanna með sér heim eina kvöldstund eða svo til að flúorlakka og skorufylla......? Gæti sparað okkur tugi þúsunda á ári.
Nú fæ ég gjarna fría klippingu hjá afa fyrir börnin og Halli gerir við allskonar dót fyrir hann í staðinn. Ég fæ gjarna klippingu hjá vinkonu sem fær eitthvað frá mér í staðin sem henni þykir gott. Það er verkaskipting og hún er góð. Við tökum dálítið að okkur að passa börn þar sem við erum alltaf með börn hvort eð er, og fáum þá oftast eitthvað mótframlag í staðinn. Og allt viðheldur sínu góða jafnvægi. En svo slæðist inn eitt og eitt verkefni sem fylgir ekki jafnvæginu. Og manni finnst svo óendanlega erfitt að segja nei. Afhverju? Frekar svíkur maður sjálfan sig, makann og börnin um dýrmætan frítíma til að brölta við hluti sem jafnvel koma manni ekkert við.
Ég ákvað fyrir skemmstu að héðan í frá ætlaði ég að svara öllum sem í mig hringdu með einhverja bón með : ég geri ekkert nema fá greitt fyrir það! Og helst svolítið hranalega svo að það færi nú ekki á milli mála að mér væri fyllsta alvara. Auðvitað koma svo undantekningarnar. Ég meina... ég þarf nú að gera ýmislegt fyrir manninn minn sem ekki er hægt að rukka fyrir án þess að þá sé það farið að flokkast sem ....tjah... glæpur... tíhíhí....
En aftur að alvöru málsins. Þessu fylgir ótrúlegt frelsi!! Það er beinlínis frelsandi að heyra sjálfan sig segja: Nei, því miður. Ég hef bara ekki tíma sem ég vil eyða í þetta!
En nú ætla ég að fara að knúsa litla drenginn minn sem er dálítið rykaður ennþá eftir svæfinguna. Enda er þetta farið að bera keim af vissri tegund auglýsinga: Kona óskar eftir að kynnast fjárhagslega sjálfstæðum manni........
Heyrumst þegar heim er komið.
Athugasemdir
"Það er beinlínis frelsandi að heyra sjálfan sig segja: Nei, því miður. Ég hef bara ekki tíma sem ég vil eyða í þetta!" stórkostleg setning Ylfa, ég hef bara ekki tíma sem ég VIL eyða í þetta!
Harpa Oddbjörnsdóttir, 7.11.2007 kl. 20:51
Já það er fínt að segja nei af og til.
Ég geri sérstaklega ekki neitt fyrir þá sem gera ekki neitt fyrir neinn.
Annars er ég frekar þolinmóður í því að gera ýmislegt fyrir hina og þessa.
Ég væri einmitt til í að þekkja einhvern náið sem væri tannlæknir, klippari og kannski pípari, ekki verra ef það væri sami maðurinn. Annars á ég frekar handlaginn föður, sem tekur allt að sér.
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 7.11.2007 kl. 21:02
Ég sem ætlaði einmitt að biðja þig að gera mér greiða......nú þori ég því ekki.
Annars er þetta góð og þörf ábending hjá þér, ég hef verið ógreiðvikin í mörg ár og líkar það bara vel. Velkomin í hópin.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 7.11.2007 kl. 22:40
þetta finnst mér gott hjá þér. ég er ansi góð að segja nei við hinu og þessu. og að passa börn segi ég yfirleitt alltaf nei, það er of erfitt að passa annarra manna börn.
en velkomin í þann heim, auðveldur !
AlheimsLjós til þín kæra frænka.
bið að heilsa syni þínum
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 7.11.2007 kl. 22:44
Ég vissi ekki að Halli væri svona handlaginn . Fæ ég hann lánaðan einhvern tíma ? Ýmislegt að gera á mínu heimili.. Það sem ég gæti gert á móti væri til dæmis að .....ekki að elda ofan í hann.
.....Ekki að baka ofan í hann.
....það er bara ekki neitt sem ég gæti gert fyrir hann.
jú kannski syngja fyrir hann..
Gangi ykkur vel í borginni knús
guðrún (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 23:40
Einu sinn var sá tími þar sem ég gerði hvað sem er fyrir hvern sem er.
En núna geri ég bara það sem er skemmtilegt fyrir þá sem eru skemmtilegir.
Gló Magnaða, 8.11.2007 kl. 09:10
ERTU Í BÆNUM??
Ég sem væri alveg til í að gera þér greiða og leika við börnin þín í smá stund. En það er bara af því að mig langar það og vil bara gera það sem mér finnst skemmtilegt.
Þú veist númerið mitt.
ÞE
Þórdís Einarsdóttir, 8.11.2007 kl. 09:15
Fjúff, ég ætla að sleppa því að hafa samviskubit vegna barnanna enda óþarfi sökum forstjóralaunanna sem ríkið greiðir þér fyrir að hafa þau -NOT
Vonandi gekk vel með Baldur tengdason minn.
kv. Auður
Auður (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 09:39
en Helga mætti ekki græða á þessu vændi hjá Halla og Ylfu,,,,ekki satt?
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 8.11.2007 kl. 15:52
Til hamingju með þennan áfanga í lífinu og þroskanum sem þessu fylgir.
Datt annars í hug að Guðrún, sem vantar handlaginn mann til ýmissa verka, gæti tekið að sér að þjónusta Halla ... þá hefðir þú líka meiri tíma fyrir sjálfa þig.... .lesa, sofa, lakka táneglur og fleira sem alltaf er látið bíða betri tíma...... Ástarkveðjur til mútudrengsins hávaxna.
valrún (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 18:15
,,Gæt að hverjum þú gerir gott, þá munt þú hljóta þakkir fyrir góðverk"
Katrín, 12.11.2007 kl. 14:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.