7.12.2007 | 00:59
Draumfarir ófagrar..
Ég fór á tónleika í Einarshúsi áðan með ungri konu sem heitir Marta. Hún spilar á gítar sitt eigið efni og syngur með. Falleg og skemmtilega lágstemmd tónlist, því miður þó flutt á ensku. Ég veit ekki af hverju ungt og hæfileikaríkt listafólk kýs að semja textana sína á ensku. Sumir segja að það sé auðveldara, auðvitað er það auðveldara. Enda er enska afskaplega einföld, bragfræðilega séð. En hitt er þá bara þeim mun meiri áskorun. En að þessu nöldri slepptu þá voru tónleikarnir fínir og þið eigið örugglega eftir að heyra frá þessari ungu konu síðar. Heilmikið í hana spunnið.
Annars er ég farin að örvænta. Mig dreymir sömu draumana aftur og aftur. Annar stafar held ég af tímaskorti. Mig dreymir alltaf að jólin séu komin og ég hafi gleymt að undirbúa þau. Börnin séu grátandi, enginn matur til, ekkert skraut, bara dimmt og leiðinlegt.
Hinn draumurinn er gamall og stafar líklega af samviskubiti sem hefur þjáð mig síðan í æsku. Þannig var að ég átti tvo hamstra í þvottabala niðrí kjallara heima á Ásvegi tvö. Einhverntíma þegar ég fór suður að heimsækja mömmu fyrirfórst að gefa þeim að borða. Einhver misskilningur átti sér stað og þegar ég kom heim, var hálfur hamstur í balanum. Hinn var á bak og burt með blóðuga skoltana. Síðan þá, fæ ég oft og iðulega martraðir um mýs, fugla og önnur smádýr sem ég "man" skyndilega eftir að eiga og eru svelt og illa farin. Oftar en ekki gegnur draumurinn þannig fyrir sig að ég fer í bílskúrinn á Ásvegi Tvö og finn hamstrabúr, fugla og músabúr útum allan skúr með hálfdauðum dýrum í. Í draumnum var ég búin að gleyma því að ég ætti öll þessi dýr og stundum eru allir veggirnir fullir af holum með músum og nagdýrum sem hafa fjölgað sér árum saman og lifað á líkum hvors annars. Þetta eru mínar hryllilegu draumfarir! Ég veit ekki alveg hvernig ég á að losna út úr þessum vítahring, samviskan er líklega að vinna sitt verk en ég meina: KOMMON!!!! Ég þarf að fara að fá minn svefn, hvað sem hömstrum og músum líður... :o)
Sagan endurtekur sig. Fyrir einu-tveim árum lenti Björgúlfur sonur minn í því að drepa óvart páfagaukana sína. Hann gleymdi að gefa þeim vatn í tvo þrjá daga og þeir lágu á botni búrsins einn daginn. Minnug þess hvað hamstramorðin mín hafa ásótt minn næturfrið gegnum tíðina, ákvað ég að létta samvisku hans eins framarlega og mér var unnt. Sagði að fuglunum liði mun betur svona en lokuðum í búri og svo framvegis. Honum leið illa og samviskan kvaldi hann. Mig líka því að mér finnst að ég hefði átt að fylgjast betur með. En páfagaukana átti hann og það var hans að hugsa um þá. Samt, .... kannski ef ég hefði litið betur til með þeim þá hefði þetta ekki þurft að gerast. Kannski mun drenginn minn dreyma sömu drauma og mömmu hans eftir tuttugu ár. Full búr af fuglum sem gleymdust dögum saman.........
Kannski ég fari bara og fái svefntöflur...........
Athugasemdir
UUU, mannstu ekki örugglega eftir að gefa börnunum að borða...heyrðu hvenær er annars næsta stuðningsforeldrahelgi....uuu á ég að senda Finnboga með nesti???
Auður
Auður (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 01:57
Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri af einhverjum öðrum, sem á sömu fastadrauma og ég. Ég er sem betur fer laus við dýradraumana, en ég á tvo típíska stressdrauma. Sá algengari er akkúrat þannig, að það eru allt í einu komin jól - og ég er ekki búin að gera neitt (jólakort, jólagjafir, bakstur, þrif, o.s.frv.), og algjörlega búin að missa af Aðventunni, sem mér finnst líka svo yndisleg.
Laufey B Waage, 7.12.2007 kl. 09:34
Svona stressdrauma fæ ég bara á æfingatímabilum. Þá er komin frumsýning og ég veit ekkert í hverju ég er að leika, eða hvað ég á að vera að gera yfirhöfuð. Enda er ég hætt að leika. ;-)
Sigga Lára (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 14:57
Oh... Siggalára, ég var búin að GLEYMA frumsýningadraumunum.!!!
Sara, ég tók þessa sjálf eða Halli, man ekki hvort okkar. Líklega þó hann, doing to my potition.. :)
Lagði ekki í að hafa sígarettumyndina.. Þ
Ylfa Mist Helgadóttir, 7.12.2007 kl. 17:43
Takk Ylfa fyrir að koma á tónleikana. :) Ég spilaði reyndar tvo lög á íslensku eftir að þú fórst. ;) En ég veit ekki hvað þetta er, þau bara einfaldlega koma stundum út á ensku og stundum íslensku, oftar á ensku í mínu tilfelli.
En já ég fæ líka svona frumsýningadrauma og vinnustressdrauma.. Það er þegar það er búið að vera mikið að gera í vinnunni, þá dreymir mig að ég sé að drukkna í afgreiðslu og mjög oft fatta ég í miðjum draumnum að ég sé berbrjósta!
Marta, 7.12.2007 kl. 19:33
Þetta eru klárir stressdraumar, og krónískir fylgifiskar hinnar útivinnandi húsmóður. Ég spái því þó að draumfarir muni skána á nýju ári :-)
Verandi frekar streitusækin þá hef ég frá unglingsárum tekið þessa stressdrauma á æðra stig, sem ég veit ekki hvort aðrir hafa komist á. Þegar ég er í sérlega miklu stressi dreymir mig sem sagt allar nætur það sem ég er að fást við á daginn, og það með opin augun! (held ég alla vega). Til dæmis sumarið sem ég var að vinna á Hótel Eddu Hallormsstað og vann meira og minna flestar vökustundir. Þá dreymdi mig allar nætur að ég lá í rúminu mínu og horfði niður eftir sænginni. Allt í kring voru staflar af óhreinum diskum og ofan á sænginni flaut vatn með óhreinum hnífapörum í. Svo ég nefni ekki veturinn í menntó þegar við vorum að æfa Sölku Völku á Herranótt og hverja einustu nótt voru haldnar æfingar í herberginu mínu, með sjónarhólinn frá koddanum mínum.
Þannig að ef einhver hefur efast um að ég sé undarleg, þá er það mál hér með snyrtilega afgreitt :-)
Berglind (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 20:42
Berglind, þú hefur alltaf verið undarleg!
Ég tek aftur vinnuna með mér heim, held sem sagt áfram að leysa málin þegar ég er sofnuð, oft með frekar skrautlegum árangri. Það kemur þó sjaldan fyrir að ég finni lausnina í svefni en það hefur samt gerst.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 7.12.2007 kl. 21:56
Mig dreymdi einu sinni að konan gengi fram af bjargi - og ég tek það fram - þetta var ekki Martröð !
Halldór Sigurðsson, 8.12.2007 kl. 23:28
skil vel draumana með blessuð dýrin, það hafa svo margir lent í þessu, við líka. held að best sé að senda þessum blessuðu sálum ljós. þegar ég fæ stress drauma, sit í í miðjum tröppum, þori ekki upp eða niður , ég er svo lofthrædd. að lokum er ég að skriða aðra hvora leiðina viti mínu fjær af skelfingu. mig dreymir líka oft að ég sé búinn að kaupa nýtt hús, og þetta er hús með alveg óendalegum herbergjum, en oftast þarf að gera hitt og þetta við húsið. alltaf í þessum draumum er hluti af húsinu fullt af vatni. eitt herbergi eða líka ein gluggahliðin er ofan í hafinu svo ég get séð niður í sjóinn. og mér finnst það +i draumnum bæði ógnvekjandi og flott.
knús og ljós til þín kæra ylfa
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 9.12.2007 kl. 07:18
Heil og sæl
ég var að rekast á síðuna þína, alltaf gaman að "hitta" einhvern úr fortíðinni. Með draumanna já það sagði mér einhver að allir draumar tákna eitthvað, maður þarf bara að fá afruglara á þá.
Sæunn Vigdís Sigvaldadóttir (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.