21.12.2007 | 19:28
Og þau koma...
.... það er ljóst. Við bökum lítið, þrífum minna, verslum hóflega og skreytum eftir bestu nennu. En jólin munu bresta á okkur þrátt fyrir litla fyrirhöfn. Við erum öll þokkalega brött og heilsufarið alveg ágætt, það er nóg fyrir okkur þessi jólin. Ella og Einar, amma og afi Björgúlfs ætla að borða með okkur á aðfangadagskvöld, Binna Hjaltalín hefur boðið okkur í skötu á Láka, (þurfti ekki miklar fortölur) jóladagur fer í að spila, lesa, sofa og éta hangið két, annar í jólum fer fram í sveitinni í Dýrafirði og enginn verður með æsing eða stress.
Á tímum blogga og netfrétta fylgist maður með fólki heyja allskonar baráttur. Ung móðir, einstæð, liggur fárveik á sjúkrahúsi og mun líklega ekki fara heim þessi jólin, lítil telpa háir sína baráttu og foreldrarnir vanmáttugir reyna að gera hvern dag eftirminnilegan og njóta allra stunda sem í boði eru, foreldrar takast á við sorgina sem mergsýgur þau í kjölfar þess að sonur þeirra tapaði baráttunni við illvígan sjúkdóm, láglaunafólk veit ekki hvernig það á að kljúfa það að gera sér og börnum sínum dagamun. Úti í hinum stóra heimi eru hörmungarnar ennþá heiftúðugri. Heilu þjóðirnar svelta, stríðshrjáðar, kúgaðar. Auðlæknanlegir sjúkdómar leggja lítil börn að velli, sjúkdómar sem hægt er að forðast leggja heili þjóðflokkana að velli og heimurinn virðist eintóm hörmung.
Allt þetta gerir mig svo óendanlega dapra. Og eftir því sem ég eldist, fær böl heimsins æ greiðari aðgang að sálu minni og mér verður alltaf erfiðara að sporna við. "Hugsum jákvætt," stendur á ískápsseglinum. Ég reyni og reyni en finnst sorgin, hörmungarnar og erfiðleikarnir hjá fólki sem ég þekki, nú, eða þekki ekki, stöðugt læðast nær og nær vitundinni uns ég verð heltekin af vanmáttugum trega og djúpri sorg.
Þessi tilfinning heitir þunglyndi og hefur verið félagi minn undanfarin ár. Ólíkt mörgum beinist þunglyndi mitt ekki að mér sjálfri og því hversu ömurleg mín litla tilvera er, heldur að því hve heimurinn er grimmur og líf allra tilgangslaust.
En ég þekki kauða. Ég finn þegar hann byrjar að læsa klónum ísmeygilega í sálartetrið og fikrar sig dýpra og dýpra inn í hugann. Nú orðið tekst mér jafnvel að reka hann út fyrir garðhornið, þar sem hann bíður eftir að glufa myndist og honum takist að læða sér inn fyrir þröskuldinn og hremma mig. Lengi vel tók ég lyf til að bægja honum frá. Það var skynsamlegt en ekki varanleg lausn. Núna stunda ég þekktar sjálfshjálparaðgerðir, s.s. reglulega hreyfingu, (sem virðist nú samt ekki tálga neitt af skrokknum af mér) reglulegan fótaferðatíma, dagsbirtulampa, samtöl við fólk sem þekkir sjálft á eigin skinni hvernig hægt er að togast átakalaust inn í hið dapra holrúm ótta og vanmáttar, uppbyggilegar hugsanir og þar fram eftir götum.
Allskonar meðul hef ég reynt. Orkulækningar, hefðbundnar lækningar, miðlalækningar, fetalækningar, lækningar með breyttu mataræði, cranio, hugræna atferlismeðferð, blómadropa, geðlyf, ilmolíur...... Ég hef meira að segja reynt að koma mér í hin æsilegustu endorfínrús með alls konar asnalegum uppátækjum sem hafa bara dregið mig enn meira niður og lent svo hvað harðast á þeim sem ég hef þó alltaf til að reiða mig á. Allt! Allt hef ég verið tilbúin að reyna og marg með sæmilegum árangri en þó bara tímabundið. Þetta er augljóslega langhlaup. Og ég er ekkert sérlega þolgóð né spretthörð. Ég verð því að ganga mig í gegn um þetta. Og þessi jólin ætla ég að byrja á að hvíla mig. Fyrir næstu lotu. Af því að ég held að með því að halda ótrauð áfram komist ég á endanum í mark. Kannski ekki fyrr en lífsgöngunni lýkur, kannski er þetta hreinlega þessi frægi "lífsins gangur?" Ég hef ekki hugmynd um það. Og líklega hefur enginn nein svör við því. Nema sá sem allt veit. Og hann hitti ég ekki fyrr en í fyllingu tímans. Vonandi í hárri elli, södd lífdaga. Og það gengur líklega eftir. Því að þrátt fyrir þetta allt saman þá hef ég í lífinu verði í flestu svo heppin. Og allar mínar óskir, sjálfri mér til handa hafa ræst. Það er bara þetta með óskir mínar öðrum til handa sem ekki gengur eins vel með.
Athugasemdir
Eitt ráð, en ég held að þú hafir notað það örugglega mikið, það er að hlæja, ég var einmitt núna áðan að hlæja með konu sem er svo gott að hlæja með. Og það birti heilmikið til á eftir, ég þurfi bara að slökkva ljósið svo ég fengi ekki ofbirtu í augun.
en það er bara eitt ráð, það er nóg til af öllum ráðum en þau fjúka líka stundum með sunnanblænum undan manni eins og dúnfjöður, þegar það lendir og maður ætlar að ná þeim fýkur það enn lengra.
vúuu frekar skáldlegt, sé fyrir mér dömubindisauglýsingu.
VIð tækjum nú okkur vel út í svoleiðis, þú í rauðableika kjólnum og ég gæti verið í peysufötum
Halla Signý Kristjánsdóttir, 21.12.2007 kl. 20:13
Sæl Ylfa Mist... er nú búin að lesa oft bloggið þitt og oftar en ekki hlegið en stundum líka orðið rosalega djúpt þenkjandi....
Veit sko alveg hvað þú ert að meina með þunglyndi "út á við".... þekki hitt nú ekki sem betur fer...
Þú ert hér með orðin bookmörkuð og verður nú partur af daglega bloggrúntinum, hlakka til að lesa meira eftir þig og p.s. frábærir pistlarnir um"loðnu sköpin".... bloggaðir þessar Herdísi alveg í kaf....
Hrafnhildur Ýr (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 23:34
Gleðileg jól kæra bloggvinkona
Guðni Már Henningsson, 22.12.2007 kl. 00:42
Ég las reyndar: "Hugsum jákvætt" stendur á ísskápsspeglinum ...
og hélt að þú værir að nota gamalt (og gott?) ráð til að sporna við ofáti. Það er reyndar ekki sérlega vel til þess fallið að sporna við þungu geði, en það gæti þó hjálpað að hafa þetta jákvæða slagorð á speglinum - svolítið eins og How to look good naked.
Tóta (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 01:27
elsku frænka mín, Gleðileg jól til þín og fjölskyldunnar þinnar. Hugrenningar þínar eru margra. Sennilega ertu óvenju sensitív, og í raun er það gjöf sem hægt er að nota í þágu mannkyns, en að sjá það sem böl kemur sennilega þegar manni finnst ekkert hægt að gera. þú ert falleg manneskja sem tekur inn allar þær tilfinningar sem streymir frá þjáðu fólki heimsins og öðru því sem þjáist og það er víst nóg af því. en þegar þú ert svona sensetiv, þá áttu jafn auðvelt með að senda öllu því þjáða á jörðunni, Ljós og Kærleika, sem hjálpar því sem, á þarf að halda. þetta hugsa margir, en gera í raun ekki. því eitt er að láta hugsunina þjóta í gegnum hugann eða láta hugsunina vera í eigin tilfinningum, annað er að setjast niður og meðvitað og fókuseruð sjá Ljós og Kærleika streyma á þá staði sem tilfinningin segir að á þurfi að halda. þetta eru bara morgunhugleiðingar elsku frænka, með von um að einhverjir taki þetta upp sem daglegt ritual á nýju ári. Orka fylgir hugsun, svona einfalt er það.
Ást og Ljós til þín, og takk fyrir þann tíma sem við höfum átt saman á liðnu ári. Hlakka til samskipta í framtíðinni.
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 22.12.2007 kl. 08:17
Mig langar líka til að minna þig á þá potttþéttu staðreynd, að dagurinn í dag verður bjartari en í gær og svoleiðis verður það þar til 21 júní ,,, en það er nú ekki fyrr en á næsa ári.
Halla Signý (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 09:54
Smá lokaorð á þessu ári kæra ylfa, frá Nelson Mandela sem setur sig yfir eigin þarfir og hugsar sig sem heildina. Boðskapur inn í hið nýja ár sem á erindi til okkar allra.
Steina
Okkar dýpsti ótti er ekki að við séum vanmáttug.
Okkar dýpsti ótti er að við erum óendanlega máttug.
Það er ljósið innra með okkur ekki myrkrið sem við hræðumst mest.Við spyrjum sjálf okkur hvað á ég með að vera frábær, yndisfögur, hæfileikarík og mikilfengleg manneskja.
Enn í raun hvað átt þú með að vera það ekki?
Þú ert barn Guðs.
Það þjónar ekki heiminum að gera lítið úr sjálfum sér.
Það er ekkert uppljómað við það að gera lítið úr sjálfum sér til þess að annað fólk verði ekki óöruggt í kringum þig.
Við fæddumst til að staðfesta dýrð guðs innra með okkur, það er ekki bara í sumum okkar, heldur í hverju einasta mannsbarni.Og þegar við leyfum ljósinu okkar að skína, gefum við öðrum, ómeðvitað, leyfi til að gera slíkt hið sama.Um leið og við erum frjáls undan eigin ótta mun nærvera okkar ósjálfrátt frelsa aðra.
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 22.12.2007 kl. 12:26
Kannast ágætlega við þessa heimsmelankólíu og þann vanmátt, sem fylgir henni. En þá er bara um eitt að ræða. Leggðu aftur augun og staðsettu þig í huganum fyrir utan gufuhvolf Jarðar, nógu langt til að þér finnist þú geta tekið utanum „bláa hnöttinn“ og gerðu það með nokkrum góðum hugsunum, Jörðinni og íbúum hennar til handa. Muna svo að taka lýsið. Gleðijól!
Ásgeir Kristinn Lárusson, 23.12.2007 kl. 08:56
Knúsaðu bara stubbana þína og andaðu þeim að þér. Það er yndislegast af öllu. Knúsaðu þá svo frá mér líka. Og takk fyrir að passa upp á foreldra mína.
Þórdís
Þórdís Einarsdóttir, 23.12.2007 kl. 10:04
Við heimilismennirnir og Drakúla litli
sendum okkar hugljúfustu jólakveðju
til þín og þinna! Voff Voff!
Viðar Eggertsson, 26.12.2007 kl. 18:40
Elsku Ylfa mín, það er sárt að lesa að þú skulir þurfa að ströggla við þennan fjanda, verandi þó svona lánsöm í lífinu. En þessi andskoti spyr ekki um lán eða lánleysi - hann bara heldur þér niðri af öllum sínum mætti. Þú telur upp hinar ýmsu aðferðir sem þú hefur notað í gegnum tíðina - ég vona og bið til Guðs að þú vinnir, fyrr eða síðar.
Kannski ættirðu að skreppa til Rúanda eða Tógó eða einhvers annars þróunarlands og leggja þína mannúð að mörkum - ég er viss um að það myndi gera kraftaverk fyrir þína andlegu heilsu. Hver veit nema Jón Ásgeir vilji hjálpa til, hann sagði í dag að ferð hans til Rúanda hafi verið einn af hápunktum ársins hjá honum. Við vesturlandabúar gerum heilmikið í að senda peninga. En þeir sem fara sjálfir til að fylgjast með og leggja hönd á plóg segja allir sem einn að það breyti lífi þeirra til frambúðar.
Hefurðu ekki allt að vinna?
Vibba (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 01:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.