7.1.2008 | 03:17
2007 im memorium
Skrifa ekki allir heilvita bloggarar nýjárspistil?
Hvað vann ég mér til frægðar á liðnu ári?
Ekkert.
Ætti ég þá kannski að sleppa pistlinum? Nei.... skoðum þetta "grannt."
Mér tókst að bæta á mig heilum átta kílóum. Megnið kom algjörlega áreynslulaust í kjölfar þess að hætta að reykja í sumar. Svo sprakk ég á limminu í nokkra daga, hætti aftur, sprakk aftur...bara smá...., hætti aftur...... Kannast einhver við þennan söng? En! Ég gekk reyklaus inn í nýtt ár og er hætt að "stelast." Sem er reyndar furðu auðvelt enda finn ég aldrei betur fyrir því hversu illa mér líður af reykingunum, og þegar ég hætti! Og nú er ég endanlega hætt.. með Guðs hjálp og góðra manna.
Á árinu ákváðum við að flytja til Danmerkur. Búslóðinni, þ.e.a.s. því litla sem ekki var selt, var pakkað saman, húsinu fenginn leigjandi og lagt af stað í könnunarferð. Á Þremur vikum var ljóst að í Danmörku biði fátt annað en meira strit og illa borguð vinna. Það, auk þess að fara með mállausan krakkaskarann, setti óneitanlega strik í reikninginn. Það var alveg augljóst að fyrst að laun heimilisins væru að fara að dragast saman á annað borð, væri betra að drengirnir nytu þá a.m.k hins örugga og kunnuglega umhverfis á meðan foreldrarnir þræluðu sér út fyrir saltinu...... En þetta var umfram allt lærdómsríkt og það undarlegasta var að uppgötva skyndilega hversu dýrmæt við erum í augum okkar litla samfélags hérna í smábænum okkar. Fólk bókstaflega flaug upp um hálsinn á okkur í tómu hamingjurússi yfir því að við færum hvergi! Það kom á óvart og kenndi mér að meta þetta litla samfélag sem í huga mínum hafði sjúskast örlítið til, upp á nýtt. Mér fannst við uppskera mikil laun, í raun og veru, fyrir það eitt að fara ekki. Eins furðulega og það hljómar.
Við hjónin skiptum bæði um starfsvettvang. Ég fór að vinna á Langa Manga á Ísafirði og Halli í Netheimum. Líka á Ísafirði. Það leið hinsvegar ekki mjög langur tími þar til við áttuðum okkur á því að þetta fyrirkomulag hentaði okkur ekki. Þ.e.a.s. börnunum okkar. Ég ákvað því að skipta og færði mig á vangreiddan ríkisspenann og starfa nú, á nýju ári á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík sem "gangastúlka," og afleysing fyrir matráðskonurnar. (mér finnst orðið gangastúlka dásamlegt og verð brjáluð ef einhver kallar mig einhverju karllægu nafni, s.s. "aðstoðarmaður...") Einmitt núna sit ég á fjarskalega rólegri og kyrrlátri næturvakt og dútla mér við þetta áramótauppgjör. Launin eru lág. Það veit ég ósköp vel. Og hér kemst ég ekki til neinna metorða. En eins og ég sagði: þessi ákvörðun var tekin með hagsmuni drengjanna í forgrunni. Og af því að ég á nú frekar þöglan mann, þá er það þegjandi samkomulag okkar hjónanna að allar okkar ákvarðanir sem varða búsetu, lífshætti, atvinnu og gjörðir okkar almennt næstu árin, verða alfarið metnar út frá hagsmunum sonanna. Okkur langar vissulega bæði dálítið til að fara í nám og seinna meir langar okkur í dálitla ævintýramennsku, en við höfum þessi börn að láni eins og er og á meðan er það okkar first pirority, eins og maður segir á góðri íslensku. Ég nenni í það minnsta ekki að láta samviskubitið þjaka mig þegar það verður orðið of seint að byrja á uppeldinu og samverunni. Af nægu öðru er að taka til að vera með samviskubit útaf!
Eins og öll önnur ár kynnist maður nýju fólki, eignast nýja vini, kveður aðra og smámsaman "grisjast til" í þeim hópi fólks sem maður er í samskiptum við. Annars er það svo merkilegt við mig, að ég er svo ótrúlega heppin að kynnast nánast bara dásamlegu öndvegisfólki. Þannig að þó ég þurfi að horfa á eftir vinkonum og vinum þá virðist aldrei hörgull á fallegu fólki sem hægt er að stofna vináttusamband við. En auðvitað slæðist alltaf einn og einn með sem fljótlega má sjá að ekki er efni í framtíðarsamband. Þá hristir maður sig bara eins og gæs sem kastar af sér vatni... eða hvernig var þetta nú aftur.....?
Fjárhagurinn á árinu var afleitur enda spilaði bæði atvinnuleysi og síðan tekjulækkun um rúman helming inní. Útgjöldin lækkuðu þó ekkert en nú erum við alltaf að verða flinkari og flinkari að sleppa hlutum sem áður þóttu sjálfsagðir en eru núna ekki mögulegir. Við t.d. förum orðið aldrei suður enda slíkar ferðir oftast nær tóm eyðsla og bruðl! Það er helst ef einhver verður að fara til læknis eða eitthvað slíkt sem að við splæsum í stutta ferð.
En ég held að eitt af því merkilegra sem mér tókst að hamra inn í minn slælega haus á árinu, var að hætta að "kóa." Ég hef alltaf verið mikill kóari. Meðvirknin hefur verið fylginautur alveg síðan ég var lítið barn á heimili sem var sýkt af földum alkóhólisma. Flest börn alkóhólista verða snillingar í meðvirkninni. Sennilega vegna skammarinnar sem dyndi yfir heimilið, þau sjálf og alkana sjálfa ef upp kæmist um hið raunverulega líf innan veggja heimilisins. En eftir áralanga baráttu hefur mér tekist að komast frá því að vera sífellt "ábyrg" fyrir öllum skammarstrikum fólksins í kringum mig. Ég skammast mín ekki lengur fyrir að eiga áfengissjúkt foreldri. Ég skammast mín ekki lengur fyrir hegðun minna nánustu, sé hún að mínu mati ekki til fyrirmyndar. Ég tek það ekki lengur inná mig þó að kallinn minn hringi aldrei í vini sína eða ættingja á afmælum eða vegna annarra tilefna. Ég ber ekki ábyrgð á gerðum fullorðinna einstaklinga í kringum mig. Ég lenti einmitt nýlega í smá "prófi." Í mig var hringt og mér var sagt frá "einkennilegri hegðun" manneskju sem mér er vensluð. Í stað þess að fyllast óöryggi og vanlíðan vegna atburðar sem ég kom hvergi nærri, sagði ég: jahérna! Já, svona er þetta! -Manneskjan sem ég var að tala við varð dálítið klumsa því að auðvitað fannst henni að mér ætti að falla það miður að einhver mér náinn væri að "haga sér rangt." En þetta er einmitt það sem mér ekki veitti af að losna við!! Og viti menn: það er skítlétt. Það er líka skítlétt að segja NEI, þegar maður er beðinn um eitthvað. Og núna á þessum síðustu og verstu tímum blankheita og tímaskorts, geri ég EKKERT nema fólk taki upp veskið! Og hana nú!
Geðveikin hefur lagast á árinu. Ég hætti á geðlyfjunum mínum í haust og það gekk þokkalega nema hvað ég hætti að reykja um leið. Haustið fór því í alltöluverð fráhvörf og þegar skammdegið helltist hvað harðast yfir neyddist ég til að biðja lækninn um smá "fix" til að gera lífið bærilegra ... Aðallega til að geta komist í gegnum heilan dag án þess að bresta í grát yfir öllum sköpuðum hlutum. Ég er nefnilega þeirri ónáttúru gædd að þegar sálartetur mitt tekur dýfur þá get ég ekki horft á fréttir, lesið blöðin eða bækur sem fjalla um eitthvað annað en matreiðslu án þess að verða eyðilögð yfir grimmd og tilgangsleysi mannkynsins! Og það er náttúrulega bara BILUN! Ég á það til að vaka heilu og hálfu næturnar yfir flóðum í Asíu eða veikum einstaklingi á sjúkrahúsi, kjörum aldraðra eða munaðarlausum börnum í Úganda. Svo græt ég út í eitt yfir öllum þessum hörmungum! Þá er nú þörf, eða ekki nauðsyn að bryðja nokkrar gleðipillur frá Delta eða Pharmaceutical og bíða eftir að þetta brái af kellingunni....
En það er vonandi bara tímabundið og svei mér ef hækkandi sól og tilhugsunin um albjartar sumarnætur er ekki þegar farin að gera sitt geðbætandi gagn.
Nýja vinnan mín er bara yndisleg. Fólkið sem býr hérna á stofnuninni er hvert öðru dásamlegra og hver karakter þyngdar sinnar virði í gulli! Það eru forréttindi að fá að starfa við það að gera ævikvöld vinnulúinna vestfirðinga eins gott og þægilegt og hugsast getur. (og þess vegna eru launin svona lág í ummönnunnargeiranum... þetta eru nefnilega forréttindi ;o) )
Nýja árið, 2008 verður spennandi, ég er auðvitað með kvíðahnút í maganum yfir öllu sem úrskeiðis getur farið á jarðkringlunni á þessu ári en það er bara mín eðlislæga geðveila og partur af því hver ég er.
Ég þarf bara að fara að reyna að umbera það.
Gleðilegt ár kæru vinir hvar sem þið eruð staddir í heiminum!
Athugasemdir
elsku frænkan mín ! frábær pistill!!!!
þú er dæmi um þá hversdagshetju sem heldur lífinu gangandi.
ÁstarAlheimsLjós til þín
steina frænka
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 7.1.2008 kl. 07:04
Gleðilegt ár, gæskan. Já, þær geta verið erfiðar viðureignar, systurnar meðvirknin og geðveikin. Ég er einmitt alltaf á leiðinni að skrifa dáldið um þær, en á síðasta ári tók ég svo hraðskreiðum framförum í þeim baráttum að það liggur við að ég viti ekki af þeim þessa dagana. (En hvurveit hvað gerist eftir burð...) En málefnisins vegna ætti maður nú síst að sleppa því að segja frá sigrunum. Þó ekki sé nema til að segja frá því að hægt sé að yfirstíga skepnurnar, þó ekki sé nema kannski í smástund í einu.
Og framhaldsnám erlendis má sem best stunda eftir fimmtugt. Það er allavega á stefnuskránni hjá okkur. Prinsippið er að minni vinna sé betri en meiri, og lífsgæðin verði aldrei metin í neinum péning. (Ég fæ reyndar annað slagið svona löngun-út-á-land, en ég er búin að ákveða að sá elsti skuli ekki þurfa að skipta oftar um skóla á þessu skólastigi og þar við situr og hananú.)
Og krakkaormarnir ganga fyrir, í þennan stutta tíma sem maður hefur þau hjá sér. Mikið svakalega stækka þau hratt. Dóttir mín, sem mér finnst ég hafa fætt með harmkvælum í síðustu viku, er farin að tala (!) og ég skildi hana eftir á leikskólanum áðan í hrókasamræðum um kindur og kisur.
Sorrí, ætlaði ekki að fá ritræpu í kommentakerfið þitt. Greinilegt að ég þarf að fara að hringja í þig. ;-)
Sigga Lára (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 10:15
Meira fárið, þarna um árið! Gleðilegt splunkunýtt ár!
Ásgeir Kristinn Lárusson, 7.1.2008 kl. 11:12
Árið Ylfa mín
Gló Magnaða, 7.1.2008 kl. 11:16
Þú ert alveg æðisleg Ylfa frænka. (má ég ekki segja Ylfa frænka?) þó að við Steina hafi verið hundfúl yfir því að Danir gátu ekki bóið ykkur gull og græna skóga þá er gott að vita af því hversu vel var tekið á móti ykkur þegar þið komuð aftur á klakann. Gunni Palli kokkur.
Gunnar Páll Gunnarsson, 7.1.2008 kl. 15:12
Gleðilegt ár mín kæra og takk fyrir mig værirðu til í að kenna honum Gumma að gera hummus okkur stelpurnar langar stundum í svoleiðis.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 7.1.2008 kl. 15:29
Nei Ylfa ekki gera það...... Þá verðum við alltaf með einhverjar pestir.
Ekki hlusta á Möttu hún er ekki með réttu ráði. Hún er mað kattafár.
Sjá bloggið hennar.
Gló Magnaða, 7.1.2008 kl. 16:00
;0)
Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 18:52
Hvaða hvaða.... Er nú verið að grisja vinina?.
Þeir sem koma út í Vík í kaffi (inni )
Þeir sem nenna ekki út í Vík, ( úti )
Þeir sem borða hummus ( inni )
Þeir sem borða ekki hummus ( úti eða bara aftast )
Elsku vinkona.
Lít nú á mig sem gamla vinkonu og nýja, og vona að ég lendi ekki í ruslatunnunni,í þessari þó ég hafi ekki sent þér jólakort.
Og það besta sem gerðist hjá mér á síðasta ári var þegar ein vinkonan, sem flutti til Danmerkur með börn , karl og bú til - kom heim aftur eftir mánuð. !! Svona á lífið að vera.
Hef ákveðið að árið 2008 verði mér og öllum sem ég þekki betra en árið í fyrra. Og bannað að flytja úr landi. Gleðilegt ár kæra vinkona.
Guðrún (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 19:24
Ég er rétt að vona að ég grisjist ekki burt eins og hvert annað kusk nú þegar þú ert hætt að venja komur þínar æ svo reglulega í fjörð skutlanna (s.s. mín og fleiri ;o)
Mér finnst þú æði
Annska (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 23:14
Ég óska þér innilega til hamingju með afrek nýliðins árs. Að hætta að reykja og gleypa geðlyf, auk þess að hemja meðvirknipúkann, - eru frábær afrek. Þú átt alla æfina framundan - og það væri lítið spennandi ef þú gætir ekki hlakkað til seinni ára afreka, eins og t.d. að fækka aukakílóum, en auka fjármagn og menntun. Maður verður alltaf að eiga eitthvað eftir. Njóttu nýja ársins og þeirra tækifæra sem það ber í skauti sér.
Laufey B Waage, 8.1.2008 kl. 08:56
Gleðilegt ár elsku Ylfa mín.
Það er fátt skemmtilegra en að kíkja hingað á bloggið þitt.
Þú ert svo frábær; einlæg. heiðarleg, sjúklega fyndin, sæt og ég veit ekki hvað og hvað.......gæti haldið áfram forever.
Haltu áfram að kenna okkur kjellingum að vera til.
Guð blessi þér nýja árið og sendi þér átta milljón engla.
Helga B. Jones (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 15:19
Gledilegt ar
Sigyn Huld, 9.1.2008 kl. 10:20
Gleðilegt ár mín kæra, nú stefnum við fjölskyldan ótrauð á heimsókn á heimaslóðir í sumar, sjáumst þá !!
Bjarnveig (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 12:40
Snilld...Þú ert flottust...
Júlíus Garðar Júlíusson, 9.1.2008 kl. 14:30
varð að kommenta líka þar sem einhver nafna mín kommentaði hjá þér. Hafðu það alltaf sem best Ylfa mín mér finnst yndislegt að lesa bloggið þitt.
Bjarnveig sem átti heima í Hólavegi 3 (systir Þóru)
bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 18:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.