15.4.2008 | 17:26
Þriðjudagur
Mér var lofað af einhverjum fjölmiðlinum að vorið kæmi í dag, þriðjudag. Og það stóð heima. Það kom!! Veðrið er yndislegt, snjórinn bráðnar í óvertæm og flest allt er eins og það á að vera. Ég heyrði í fólkinu mínu fyrir norðan þar sem óþverra krabbaklóin hefur tekið sér bólfestu og þeim líður eins og best verður á kosið í þessu ástandi. Allir frískir og sprækir á mínu heimili þannig að allflest er eins og það á að vera. Vona að eins sé ástatt fyrir lesendum.
Hvað síðustu færslu varðar þá eru upphafsorðin fengin að láni úr Óperuþykkninu "Bíbí og Blakan" sem er síðasta stykkið hvar ég steig á fjalir. Minnir í Kaffileikhúsinu. Eða Rússlandi. Jah... annaðhvort. Man ekkert lengur í hvaða röð atburðir gerast. Þetta dásamlega verk flakkaði um allar jarðir. Við fórum til Þýskalands, Rússlands og Litháen svo dæmi séu tekin, auk sýninga í Reykjavík. Fer að verða kominn tími á að fara hringinn finnst mér. Og vísunin "Vampýra" er að sjálfsögðu í það hvernig sólarhring mínum er háttað. Ég sef á daginn og vaki um nætur. Og þegar ég er í fríi, þá tekur sig eiginlega ekki að snúa ferlinu við. Það sem skilur mig frá hefðbundinni vampýru er í megindráttum eftirtalið: ég sýg ekki blóð og ég sef ekki í líkkistu. Ennþá.
Brátt koma Bormenn Íslands hingað til Bolungarvíkur og hefja gangagerðina. Þær lausu og liðugu kætast yfir því aukna úrvali sem það hefur með sér í för og við hinar.... tjah... það hefur nú engan drepið að horfa??? Er það? Svo er bara spurning um það hvort að Bolvíkingum fjölgi í kjölfarið? Það væri nú aukreitis bónus og eins og frægt er orðið: auka tekjur bæjarstjórans dulítið!! Að gamni slepptu þá á þetta eftir að verða mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið. Og það verður frábært að geta ekið í næsta sveitarfélag þokkalega óhultur óháð veðri og færð. Sem samt fær mann til að staldra við og hugsa hvort það hafi ekki verið óskynsamlegt að láta göngin koma út í Hnífsdal þar sem vegurinn þaðan og til Ísafjarðar hefur alveg átt það til að lokast vegna flóðahættu. Þetta var mikið rætt á sínum tíma og sjálf hefði ég viljað hafa göngin alla leið til Ísafjarðar, kannski vegna þess hversu sjaldan ég á erindi í Hnífsdal....... En hverju ræð ég?
Annars er ég svo einkennilega innréttuð að mér þykir fátt dásamlegra að aka Óshlíðina í góðu skyggni og finnst óvíða fegurra en einmitt þar. Hamrarnir sem eru ýmist huldir klakadröngum eða alsettir grænum grastoppum og sjófuglshreiðrum, svo ekki sé minnst á undursamlegt útsýnið yfir í Jökulfirði og Djúp. Stigahlíð og Grænahlíð, Snæfjallaströndin, sólsetrið á sumarnóttum.... Maður á eftir að sakna þessa alls. En allt fyrir öryggið!
Best er nú að fara að huga að kveldmat því að svo er Tupperwarekynning hjá henni Grétu Skúla á Ísafirði í kvöld. Ég veit að þar verða nokkrar af mínum uppáhalds konum, þar á meðal eftirlætis feministinn minn svo að ég býst við miklu stuði.
Athugasemdir
Elsku elsku hjartans stúmburúllan mín. Það er svo gaman að lesa pistlana þína og mér finnst ég bara vera kominn með þér á næturvakt. Vann nú lengi á næturvöktum í gamladaga, með hollenzku kokhljóði. Er með blendnar tilfinningar í dag.
En gleðin lyftir manni hæst í hæðir hjartalóa litla. Fékk fasta stöðu sem docent í söngkennslu við Tónlistarháskólann í Utrecht hérna í Hollandi á dögunum. Mun halda áfram gestadocentstöðunni við Konunglega Tónlistarháskólann í Den Haag allavega næsta ár. Svo sé ég bara til. Eyjólfur mun koma í heimsókn og tíma í byrjun maí. Hlakka til að sjá hann og sýningarnar ganga vel. Ég hlakka svo til að hitta þig og liðið þitt elsku Ylfan mín litla Mist. Hvenær var ætlunin að við hittumst? Eyjólfur var að tala um endaðan júní. Ég er bara ekki búinn fyrr en upp úr mánaðamótum júní júlí skilurðu. Nóg með það þá kem ég bara einn.
Vona að allt gangi vel með pabba og Tótu. Hjartans kveðjur frá mér til allra sem við henni vilja taka. Með beztu kveðju.
Bumba, 15.4.2008 kl. 17:39
Ég sem hélt að vampírustarfsheitið væri þannig til komið, að þeir í Bolungarvíkinni hefðu ekki tök á meinatækni og létu þig um að sjúga blóð úr liðinu.
Ég hef nú aldrei skilið það fólk sem hefur taugar í að keyra Óshlíðina daglega allan veturinn. Aldrei að vita nema hálkuhræddir komi nú til með að flytja til ykkar í hrönnum.
Vorið er líka loksins komið hjá mér. 7.4 segir mælirinn og það á að hlýna meira á morgunn.
Laufey B Waage, 15.4.2008 kl. 19:06
Gat ekki annað verið en lundin færi að léttast, með hækkandi sól og hækkandi hitastigi
Hafðu það gott, mín kæra
Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, 15.4.2008 kl. 23:59
Er einmitt að garfa í öllu sem nokkurn tíma hefur verið skrifað um Hugleik í fjölmiðla, þessa dagana, og rak einmitt augun í að þið voruð að sýna Bíbí fram eftir öllu hausti 2000 í Kaffileikhúsinu, eftir allt flakkið. (Eða kannski á milli flakka, ég veit það ekki.)
En það er skemmtilegt að þvælast um leiklistarhátíðar. Ætla einmitt að skreppa í 5 daga á NEATA-hátíð til Lettlands í sumar, þó ég geti ekki einu sinni gert mig leikhópnum nytsamlega að neinu leyti, eða gert mér upp erindi, þó ég reyni. Borga bara fyrir mig og verð klappstýra. Það verður mitt fyrsta húsmæðraorlof síðan ég eignaðist börnin og buruna.
Sigga Lára (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 10:07
Ég fór til Bolungarvíkur svona einu sinni á tveggja ára fresti áður en ég kynntist þér. Eitthvað hefur ferðunum nú fjölgað og eflaust á þeim eftir að fjölga enn meira. Þegar þessi blessuðu göng verða komin verður það ekki síst fagnaðarefni þeirra sem lent hafa í því að aka á eftir mér til Bolungarvíkur, en ég er ein af þessum hálkuhræddu á 35 km. hraða á beinu köflunum, stíf upp í höfuð svo vöðvabólgan blossar upp í hverri ferð. Eða svoleiðis...
Hjördís Þráinsdóttir, 16.4.2008 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.