Þriðjudagur... dagur til ferðalaga.

Þegar maður eignast börn veit maður alls ekki hverju maður á von. Ég til dæmis eignaðist Björgúlf sem var barna prúðastur og rólegastur og þannig hélt ég að börn væru. Tækju lífinu með stóískri ró og létu fátt koma sér úr jafnvægi. Hann var aldrei vælinn og harkaði hvaðeina af sér, laus við drama og vesen. Góður við aðra og heilsteyptur. Rauðhærður og fámáll víkingur. Nú er hann gelgja og er dálítið að breytast sem eðlilegt er. Hann er samt áfram heilsteyptur og góður drengur, mikil barnagæla og má ekkert aumt sjá.

Svo kom Birnir blómálfur. Fiðrildi með magakveisu og bláustu, stærstu og fegurstu augu veraldar. Ofurlítið strá sem fær hjartað til að bráðna við það eitt að sjá hann. Hann lét heyra vel í sér fram til þriggja ára aldurs. Þá varð hann fremur yfirvegaður en alltöluverð dramadrottning. Ekki má mikið útaf bera til að allt verði ómögulegt og hann vill hafa hlutina í dálítið fastari skorðum en bróðir hans, sá eldri, sem synti meira í gegnum alla hluti. Birnir er fatafrík og er sérlega umhugað um að vera smart. En hann er kelirófan mín og kossar og knús er aldrei til sparað.

Baldur Hrafn er karlmaður í húð og hár. Í honum er ekki ein kvenlæg fruma. Það er á hreinu. Hann er skaphundur hinn mesti og hefur verið allt frá fæðingu. Hlutirnir eiga að vera nákvæmlega honum til þóknunnar og minnsta hliðrun fær mann til að iðrast sárlega að hafa gert honum á móti skapi. En hann er hvíthærður með rauðar, dúandi bollukinnar og blá augu. Ólundarsvipurinn hans er krúttlegasti ólundarsvipur sem sést hefur og hann á það til að lauma útúr sér gullkornum á borð við: ég hata stelpur... og tjellindar lída! Já, og kellingar líka! Áðan uppástóð hann að vilja fá kanarífugla í kvöldmat. En hann borðar ekkert núna þessi ræfill enda sárlasinn.

Þannig að Dalvíkurferðin mín sem átti að vera farin í dag er komin á hóld. Ég á ekki von á þvi að komast af stað fyrr en á fimmtudag nema að straumhvörf verði á heilsufari drengsins í kvöld. En það lítur nú ekki út fyrir það! Hann er eins og glóðarkerti og geðvonskan hefur náð áður óþekktum hæðum! En ég trúi því að hann jarði pestina fljótt og vel og grafi hana niður í bakgarðinum með þvílíku offorsi að bollukinnarnar nötri.

Og uppí rúmi hef ég mátt liggja í allan dag, utan aðstoðarferða með sjúklinginn á klósett og til að sækja fyrir hann kók. Hann heimtaði að fá Ellu, ömmu sína hingað og Ella amma hlýddi og kom með ís og svala en fékk þá kaldar kveðjur frá úrilla sjúklingnum sem rak hana harðorður á burt! Allt leyfist manni þegar maður er veikur. Og krúttlegur. Kannski ég ætti að fara að elda eitthvað dásamlegt, eins og td. núðlur eða annað fljótlegt sem ekki krefst langrar fjarveru frá bælinu. Annars á ég ekki von á góðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir

Vona að "kjúklingurinn" fari að ná sér og þú komist í langþráða Dalvíkurferð...

Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, 10.6.2008 kl. 21:01

2 Smámynd: Haraldur Davíðsson

góða ferð og ég bið að heilsa öllum í Dalvík city.

Haraldur Davíðsson, 10.6.2008 kl. 21:09

3 identicon

Þetta hljómar nú svolítið eins og hann Baldur hafi fengið skapið hennar mömmu sinnar, sem  n.b. er með freknóttar bollukinnar og laumar út úr sér hverjum gullmolanum á eftir öðrum

Hann verður snöggur að hrista þetta af sér, og þið komist í langþráða ferð.

´Hér er líka að kólna ..þó ekki  húfu og dúnúlpu kólna...............meira svona síðermabol og sokka í sandölunum..........

Ástarkveðjur, from Valrún sprinklergirl of the month , juni issue 2008 .............

valrun (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 21:14

4 Smámynd: Laufey B Waage

Verst að þú getur ekki notið afmælisdagsins með systur þinni. Til hamingju með hana samt sem áður.

Laufey B Waage, 11.6.2008 kl. 10:47

5 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég er nú sammála henni valrúnu. þegar ég las færsluna, datt með í hug að ef þú baldur væri karlútgáfan af þér

ekki er skapofsanum fyrir að fara hjá honum halla rólega.

knús á þig elsku frænkan mín

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 11.6.2008 kl. 11:43

6 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Skilaðu kveðjum til litla sjúklingsins og þín. Farðu nú vel með þig og kærar kveðjur á Dallas DC.

Gunni Palli kokkur 

Gunnar Páll Gunnarsson, 11.6.2008 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband