13.10.2008 | 23:27
annasamur dagur í borginni
Yndislegu kvöldi að ljúka í íbúðinni hennar Tótu minnar við kertaljós, prýðilegasta lasagna, ís og nærveru góðra vina.
Morguninn var tekinn snemma eftir svefnlitla nótt. Ekki það að hún Tóta eftirláti mér ekki bærilegt legupláss! Öðru nær. Hún gengur úr sínu rafdrifna heilsurúmi fyrir gesti og holar sér sjálf í sófann. Eitthvað varð mér þó lítið svefnsamt í þessu ofurtæknilega rúmi, mér var heitt og ég var stressuð að sofa yfir mig. En upprisnar vorum við þó fyrir allar aldir og ég tók mér gott sturtubað í tvöföldu sturtunni hennar Tótu (það dugar ekkert minna orðið fyrir mann!) og í þann mund sem ég skrúfaði fyrir og opnaði augun áttaði ég mig á því að ég stóð í vatni upp fyrir ökkla! Ég kallaði fram til Þórunnar og spurði hvort svelgurinn væri kannski stíflaður? -Nei, nei! Það lekur bara hægt niðrum hann! -svaraði hún. Sem var mesta vitleysa því að það lak yfir í eldhús! Ég þurfti að bjarga mér á hundasundi fram á gang! Við ákváðum að þetta væri seinni tíma vandamál, þurrkuðum upp mesta blotann og höskuðum okkur uppá Borgarspítala.
Á biðstofunni skemmtum við okkur við að lesa upphátt úr Fréttablaðinu fyrir viðstadda og ræða um gífurlegt framboð sleipiefna á innanlandsmarkaði. Fljótlega tæmdist biðstofan og röðin var komin að mér. Ég var látin liggja á bekk með tæplega þrjátíu víra festa við hausinn og horfa í blikkljós og mása eins og hundur!! Ekki veit ég nú hvað hefur komið úr þeirri rannsókn! Við fórum svo aftur heim og Linda mín yndislegust kom og hélt mér selskap þangað til ég mætti í Domus til að láta segulóma í mér heilabúið. Það gekk ágætlega eftir því ég best veit, svo vel meira að segja að ég sofnaði í segulómunartækinu sem er eins og geimskip sem manni er troðið inní með skorðaðan og rígbundinn hausinn á meðan tækið beljar í eyru manns eins og sjálfur andskotinn sé um borð! Þrátt fyrir hávaðann blundaði ég og var alveg steinhissa þegar ég var dregin úr hylkinu! Þetta sögðust hjúkkurnar nú ekki sjá á hverjum degi og svarðaði ég þeim því til að þriggja barna móðir í námi og vinnu lifði nú sjaldan annan eins lúxus og að vera einangruð frá umheiminum góða stund, ein með sjálfri sér! :)
Eftir skóleiðangur síðla dags lagðist ég uppí sjúkrarúmið hennar Tótu, eftir að vera búnað moka upp hálfum mannslíkama úr niðurfallinu, tók mér bók í hönd og harðneitaði að hreyfa mig hið minnsta fyrr en kallað væri í mat! Ég væri nú einu sinni gestur eftir allt saman! Eyfi kom og eldaði Lasagna á meðan Tóta skrapp að vinna og ég drattaðist fyrst frammúr á brókinni þegar hún kom heim ásamt Jóni stórtenór Þorsteinssyni sem ætlaði að borða með okkur. Þau fengu sér rauðvín og líkjör, við hlustuðum á Hyden og Sjostókóvítsj, sátum við kertaljós og borðuðum og borðuðum. Rifjuðum upp dásamlega tímann sem þau voru hjá okkur fyrir vestan í sumar og höfðum það bara yndislegt!
Og á morgun fer ég heim. Þegar ég verð búnað kaupa 65 cm langan, bleikan rennilás í nýju lopapeysuna sem Björgúlfsamma, sá himneski engill er búnað prjóna handa mér!
Athugasemdir
alltaf gaman að lesa færsæurnar þínar elsku frænka, svo lifandi og myndrænar. upplifi það að lesa, eins og að vera með.
knús
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 14.10.2008 kl. 05:51
"Tvöföld sturta, dugar ekkert minna. Bjargaði mér fram á hundasundi". - Þú ert yndisleg.
En fékkstu öngvar rannsóknarniðurstöður samdægurs?
Laufey B Waage, 14.10.2008 kl. 09:39
Er hún búin að prjóna AÐRA lopapeysu á þig??
Mér finnst ég útundan, heyrirðu það mamma!
Vonandi kemur eitthvað af viti úr þessum rannsóknum.
Kv. Þ
Þórdís Einarsdóttir, 14.10.2008 kl. 12:53
Hljómar alltsaman ynnnndislega. Og frekar vel af sér vikið að sofna í hávaðamaskínunni! Mér fannst ekki þægilegt að fara í svona á sínum tíma... en það var nú reyndar, rétt nokk, fyrir tíma barneigna.
Vona að út úr þessu komi bara allt hið besta og að Tóta sé laus við stíflurnar og lekann.
Sigga Lára (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 13:57
Yndislegt hvað þú átt góða að, mig langaði ekki bara í sturtuna góðu heldur líka í heilsurúmið kannski hefur þetta e-h með öfund að gera eða stækkandi Hörpu, ja mér finnst amk ég þurfa aðstoð við að þvo belginn framan á mér með Kútnum í .....
Vona að þú fáir fljótt útkomu úr rannsóknunum....
Harpa Hall (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 18:41
Þú ert frábær ;)
Aprílrós, 14.10.2008 kl. 19:14
Ha, ha, er einmitt ein af örfáum sem hef sofnað í þessari hávaðamaskínu dauðans sem segulómtæki eru. Og segi eins og þú, að sjálfsögðu notar nútímamóðirin hvert tækifæri til að njóta einverunnar og taka sér smá kríu.
Hvernig er það Þórdís, eigum við að leggja inn beiðni um lopapeysur? Mér segir svo hugur að tengdamóðir mín tæki afar vel í slíkar umleitanir, en dytti líklega ekki í hug að fara að eyða tíma og lopa í slíkt óbeðin. Enda skynsöm kona.
Berglind (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 22:17
Skrýtið að heyra lýsingarnar. Allt alveg eins 12 árum seinna :o) Desjavú dauðans!
Góskin þín (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 15:17
Ég náði líka að dotta í svona maskínu hér um árið, við höfum sennilega svona gríðarlega aðlögunarhæfileika ;)
Hulda (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 17:49
Vonandi færðu einhvern botn í þessi veikindi þín eftir þessar rannsóknir.
Hálfur mannslíkami í niðurfallinu? Jösús minn...
Hjördís Þráinsdóttir, 16.10.2008 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.