Rúgkökur, tilkynningar og meira skólagrobb

Enn hef ég ekkert heyrt  um framhald frá the all mighty doctors of Reykjavík. Enda er ég bara alþýðukona og heilinn í mér ekki ýkja merkilegur. En mikið samgleðst ég samt fólki sem er í þesslags stöðu að því nægir að detta í gólfið til að fá greiningu og aðgerð í sömu vikunni. Það hlýtur að vera góð tilfinning að vera svo mikilvæg persóna! Auðvitað segir það sig sjálft að eitt heilabú í Bolungarvík er kannski ekki mikilvægt fyrir aðra en nánustu fjölskyldu þess!                                  Það mætti jafnvel bara segja að það gæti verið hverri alþýðukonu hollt, að skella (brátt flötu) trýninu vel og rækilega í jörðina af og til, svona þó ekki nema til að sýna tilhlýðilega auðmýkt í smæðinni!? Æi já. Það er gott að búa í velferðarþjóðfélagi og geta alltaf treyst því að öllum sé jafnhátt undir höfði gert.

 Mér finnst heilinn minn samt alveg skila sínu því að ég var að fá að vita úr mið-annar-matinu í skólanum (sem er eitthvað nýuppfundið, hlýtur að vera. Ég hafði allavega ekki hugmynd um hvað var verið að tala um!) og ég fékk eitt "gott" og restin var "ágætt." Ég er alsæl með það. Er reyndar aðeins að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ofsækja kennarann sem gaf mér bara gott,en æi..... býtterinn, eins og maður sagði hér í den..... Metnaðargirndin er ágæt upp að vissu marki.......

Híramía mín, fornafn: Guðmunda, kemur heim á morgun svo að ég verð ekki eins og vængbrotið villifygli án hennar meira. Og svei mér ef ég steiki ekki rúgkökur handa okkur í bílskúrnum um helgina svo að hægt sé að maula þær í frímínútum! Já, flatbrauð er gott, rúgbrauð líka. En brauð er orðið svo dýrt að það er varla kaupandi lengur! Sérstaklega ekki þar sem heilt brauð er étið í mál, eins og þessu fjögurra karla heimili! Svo að ég fékk afbragðs uppskrift af flatbrauði hjá henni Matthildi í leikfiminni á meðan við gerðum "sundur, saman, sundur, saman" æfingarnar. og svei mér ef ég hnoða ekki úr eins og einni skeppu af rúgmjöli á morgun!

Hann pabbi gamli hefur verið veikur síðan á föstudag. Fékk blæðingu við heilann og hefur legið á spítala. Hann fékk þó að koma heim í gær og fær líklega afbragðs hjúkrun hjá henni Tótu sinni. Ég hef alltaf verið pabbastelpa. Þegar foreldrar mínir skildu varð ég eftir hjá pabba. Mörgum fannst það skrýtið, skildu ef til vill ekki af hverju? Hjá mér kom ekkert annað til greina. Pabba lán var að kynnast Tótu sinni. Og þegar hún veiktist í fyrra og það leit ekki vel út, var hann eyðilagður. En með undraverðum hætti sagði hún krabbanum stríð á hendur og bar sigur úr býtum! Guði sé lof fyrir það! Því að ég veit að hann pabbi gamli lifir fyrir Tótu sína og það skiptir máli að hafa eitthvað dýrmætt að lifa fyrir þegar maður þarf að berjast við erfiða sjúkdóma. Guð blessi þau bæði, hjónakornin. Það er erfitt að vera svona langt í burtu frá ástvinum þegar sjúkdómar og erfiðleikar banka uppá. Og ég veit að þeim hefur þótt erfitt að vera svona langt frá mér í mínum veikindum. En sem betur fer hefur maður netið og símann, annars væri þetta óþolandi.

Tvær tilkynningar að lokum: Hjördís! Ég er sko meira en lítið til í að taka með þér slátur. Hér sé ég frammá að allt verði búið í byrjun desember, svo rækilega gengur á birgðir, svo að segðu bara til!

og Halla Signý! það verður boðað til fyrsta fundar bókaklúbbsins "Mæting" á sunnudagskvöldið klukkan níu! Hér hjá mér. Kreppukaffi og rúgkökur verða á boðstólum. Bókin Hilda á Hóli verður krufin til mergjar! Police

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Íha!

Hjördís Þráinsdóttir, 17.10.2008 kl. 15:08

2 identicon

Ylfa!

Hvað merkir gott og ágætt í þínum skóla?

Svo er ég að hugsa um andlitið á þér. Prófíllinn verður e-ð svo flatur ef þú ert alltaf að  fá gólfið framan í þig. Það er miklu smekklegra að vera með smá línur í andlitinu, séð frá hlið. Finnsterþaðekki?

Yrsa Hörn Helgadóttir (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 17:44

3 identicon

Aldrei slappað af í húsmæðrahlutverkinu...sem  er auðvitað eitt það mikilvægasta það er ekki það. UMMM rúgkökur hljómar vel, ligg einmitt með uppskrift sem ég er búin að vera hugsa lengi um að prufa hér í danaveldi þar sem rúgbrauð tröllríður öllum nestispökkum og hillum verslana og mæður eru litnar hornauga af kennurum og leikskólakennurum ef innihald nestispakkans ekki er rúgbrauð með allskonar einkennileg áleggi.. t.d.spægipylsu með remúlaði og steiktum lauk 

Það var ekki ofsögum sagt þetta með einkunnirnar, nú hlýtur þú að fara lagast í höfðinu þegar allar gáfurnar fá að sleppa út í MÍ.

Þú ert frábær og skilaðu krútt kveðjum til krúttsins hans pabba þíns frá mér og Ingibjörgu   Loveju all.

valrun (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 17:47

4 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Yrsa mín, þú veist að alla ævi hef ég þjáðst af minnimáttarkennd vegna míns gríðarlega nefs! ´Gott þýðir bara gott, ágætt þýðir framúrskarandi!

Ylfa Mist Helgadóttir, 20.10.2008 kl. 08:15

5 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

Darling! ég las þetta ekki fyrr en seint í gærkveldi, þá var ég svo uppfull eftir léttmessuna að ég bara rambaði í rúmið, kem í rúgkökur og bókelsi seinna.

kv hsk

Halla Signý Kristjánsdóttir, 20.10.2008 kl. 17:39

6 identicon

hlakka til að smakka þetta hjá þér

Guðmunda (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 20:24

7 identicon

Gaman að sjá hvað gengur vel hjá þér Ylfa mín, ég sé að þú hefur engu gleymt úr Hússtjórnarskólanum sem að við fórum í um árið , ég held að ég hafi ekki gert kæfu og slátur síðan ég var þar. Ekki var mikið lagt upp úr því að gera þessa hluti í mínu kokkanámi við MK og hefði nú mátt kenna þetta þar til að bregðast við kreppunni eins og nú.

Kveðja ofurmamma úr Keflavík.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband