21.10.2008 | 17:38
Jólasnjókoman, feita fósturbarnið og kreppufæði.
Birnir og Ísak vinur hans komu rétt í þessu inn með eplakinnar og báðu um heitt kakó og ristað brauð. Og það var græjað samstundis. Enda er þannig dagur í dag. Ég var á næturvakt í nótt sem var hreint út sagt ansi fjörug, kom heim og lagði mig frá níu til hálf tvö. Þá kom fósturbarnið sem ætlar að vera hjá okkur í smá tíma á meðan mamma þess fer til Reykjavíkur. Þetta fósturbarn er hlutfallslega feitasta veran á heimilinu og leysir mig þar með af hólmi! Og það er þakklátur starfi! Og er hann enda loðnastur líka, leysir því Halla og Urtu af hólmi! Hann heitir Patti og er risastór blendingur af Golden, Border collie, íslenskum og einhverju trölli! Gulur og spiiiiikfeitur! En fallegur er hann!
Þar sem allt feitt hér á heimilinu er í hægri bráðnun, var tekið til óspilltra málanna að bræða mörinn af Patta. Við snöruðum okkur því þrjú út í góða veðrið, ég, hann og Urta. Við fórum stóóóran hring, byrjuðum við sjóinn þar sem ég dáðist að öldunum, risastórum, sólinni sem skein á mjallahvíta Jökulfirðina, bátunum sem voru að sigla inn Víkina og hauststillunni. Svo fór aðeins að snjóa. Og aðeins meira. Og loks þegar við Urta drógum þann feita upp að húsinu vorum við öll komin með álímda, hvíta hulsu. Og áfram snjóaði. Hvítar, límkenndar kornflygsur sem prýða nú tré og runna í fullkominni jólastemmningu. Og það er hætt að snjóa. Og aftur komið logn. Og sól. En hún kúrir bak við fjöllin.
Við elduðum kjötsúpu í gær. Getur einhver sagt mér að kjötsúpa sé ekki það dásamlegasta sem til er? Sá hinn sami hefur ekki smakkað mína kjötsúpu! Afganginn tökum við með okkur til Auðar og Rúnars í kvöld þar sem tillagðir verða afgangar af kjúklingi! Það er því kreppumatseðill á boðstólum. Og það er best. Við bættum í frystinn á sunnudaginn heljarinnar býsn af kindakæfu sem á eftir að smakkast dásamlega með heimabökuðu rúgbrauði í allan vetur! Það er gaman að gera kæfu en mikið djöfull verð ég illa haldin af brjóstsviða í kjölfarið maður...... obbobbobb...!
Framundan er löng helgi í skólunum mínum og strákanna en vinnuhelgi hjá mér. Svo ætlar líka Finnbogi fallega fósturbarn að vera hjá okkur. Og það verður nú gaman!
Athugasemdir
Hahahaha ég hélt að þú ættir við son minn þegar ég las fyrirsögnina á blogginu. Kom mér ekkert á óvart miðað við hversu hraustlega drengurinn tekur til matar síns hahaha.
Takk fyrir matinn, luv,Auður
Auður Finnboga mamma (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 00:05
Dísa mín það er alveg sjálfsagt! Ég geri svona núna einhverntíma fyrir jól og þá skal ég láta þig vita!
Ylfa Mist Helgadóttir, 22.10.2008 kl. 09:45
Sem snöggvast hélt ég einnig að þú ættir við barnið hennar Auðar - og fór upp úr því að velta fyrir mér hvort hann hefði fitnað svona síðan ég sá hann síðast hehehe.
Mér finnst nú merkilegt að þú skulir telja Halla svipað loðinn og hundana!
Hjördís Þráinsdóttir, 24.10.2008 kl. 14:44
Hm!!! Gulur feitur og loðinn. Mjög sérstök lýsing. Er þetta tilvonandi tengdasonur eða??? Hvenær varð Halli loðinn eins og hundur? Ég held ég verði að setja upp gleraugun þegar þið komið næst, það er ljóst að eitthvað er að farið að fara fram hjá mér. Og hvað er að því að vera í heibrigðum holdum og hafa af einhverju að taka, ekki veitir af í þessari krepputíð. Bestu kveðjur úr Dýrafirðinum Alla
Alla (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 16:38
Bloggið titt gefur mér alltaf svona heimilislega tilfinningu ( yndislegt að detta hér inn og lesa tað ) núna langar mig bara að hitta tig og spjalla og eiga von á tví að fá kryddaða eplasultu eða kjötsúpu a la Ylfa Mist.... Thú ert mjúk og tað skín svo í gegnum bloggið titt, takk fyrir að deila tessu með okkur hinum...ja Halli loðinn kannski bara gott, tá getur hann yljað tér á köldum vetrarnóttum ;O)
Harpa Hall (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 12:55
Jesús minn hvað mig langar vestur - ég fyllist brjálæðislegum söknuði þegar ég sé myndir af útsýninu niður Vitastíginn
Helga Valan (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 09:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.