Besta heilbrigðiskerfi í heimi........

Mánudagur:Ylfa er með miklar hjartsláttartruflanir. Ylfa missir meðvitund, skellur í gólfið og rekur höfuðið í dyrastaf í leiðinni. Ylfa  rankar við sér þegar fjögurra ára sonur hennar öskrar: Mamma, mamma, vaknaðu!!! Sonurinn grætur af því að hann er hræddur. Mamma liggur í gólfinu og það blæðir úr enninu á henni. það er nóg til að barnið verði viti sínu fjær af hræðslu. Ylfa sest upp og tekur barnið í fangið og reynir að hugga það. Barnið grætur og Ylfa grætur líka. Þegar börn gráta þá grætir það gjarnan mæðurnar líka. Unglingssonurinn hennar Ylfu kemur og fer að reyna að hringja í lækni. Hann er hræddur og man ekki númerið hjá upplýsingum og veit ekkert hvað hann á að gera. Ylfa tekur símann, fer inná bað, lokar og hringir í lækninn. Hún býr í næsta húsi og kemur strax. Hún fer og skrifar bréf til læknanna á Landspítalanum og segir Ylfu að taka það með sér strax næsta morgun, hún vilji láta leggja hana inn á Bráðadeild.  Ylfa verður fjarskalega fegin að loksins sjái kannski fyrir endann á þessum köstum, en líka dálítið stressuð yfir því að þurfa að fara með svona stuttum fyrirvara. En hún gerir ráðstafanir með börnin, skólann, vinnuna og allt hitt sem mömmur gera, pakkar svo niður í tösku og fer að sofa.

Þriðjudagur: Palli barnsfaðir Ylfu sækir hana á flugvöllinn og keyrir hana heim til sín. Þar bíður Berglind konan hans, sem gegnir líka því hlutverki að vera vinkona Ylfu. Hún fer með Ylfu á bráðadeildina og bíður með henni þangað til að búið er að leggja Ylfu inn. Ylfa er tengd við mónitór og tekin er blóðprufa og hún má hvorki borða né drekka. Á bráðadeildinni er brjálað að gera og Ylfa heyrir sögu hvers sjúklingsins á fætur öðrum, heyrir nöfnin þeirra, hvað er að þeim, heyrir þegar þeir eru sónarskoðaðir í næsta rúmi, hvað kom út úr endaþarmsþreifingunum þeirra, hvernig þeir hlutu áverkana sína, hvenær verkurinn fyrir brjóstinu byrjaði...... og þar fram eftir götum. Ylfa undrar sig á því að ekki séu til fleiri sjúkrastofur í landi allsnægtanna, svo að fólk geti haft sína nekt, sínar líkamsathuganir og þvagblöðruskoðanir, sínar sjúkrasögur og sína prívatlíðan í friði fyrir öðrum. Ylfa biður vinkonu sína hana Berglindi að koma með eyrnatappa. Læknir kemur og segir Ylfu að hún eigi að liggja þarna til morguns því að gera eigi rannsóknir. Klukkan er að verða þrjú og Ylfa er orðin ofsalega þyrst. Hún á að fasta og má ekkert drekka.

Einhvernvegin tekst Ylfu að blunda. Líklega hafa eyrnatapparnir hjálpað. Hún er vakin af hjúkrunarkonu sem segir: Ylfa, þú mátt fara heim. Það er búið að útskrifa þig! Ylfa sest upp í rúminu og veit ekki alveg hvort hún er vöknuð. Önnur kona kemur og segir: þú mátt klæða þig og fara. Ylfa bendir á tækið sem hún er tengd við með allskonar snúrum og spyr: á ég að taka þetta með??  Konan snýr við og losar Ylfu. Það þykknar í Ylfu og hún spyr: á hvaða forsendum var ég lögð inn og á hvaða forsendum er ég útskrifuð? Hjúkkan segir að læknirinn sem hafi útskrifað hana sé farinn og hún geti ekki svarað. En hún skuli sækja einhvern. Aðstoðardeildarlæknirinn kemur. Það er ung stúlka sem segir Ylfu að það sé búið að hafa hana í mónitór í sex tíma og ekkert hafi gerst. Hún megi því fara heim. Ylfa verður reið. Segist nú ekki beint vera að koma úr næsta húsi, hún þurfi að fá að vita hvað eigi að gera næst. Aðstoðardeildarlæknirinn segist ekki geta svarað því. Hún voni bara að allt gangi vel.

Það sem sagt var í kjölfarið er ekki hafandi eftir. Ég læt nægja að skýra frá því, að þegar Berglind kom að sækja Ylfu varð hún að sækja trefilinn hennar. Ylfa getur aldrei látið sjá sig aftur á Bráðadeild. 

Miðvikudagur: Ylfa hefur það gott heima hjá Tótu vinkonu sinni. Hún er búin að hringja í Lækninn sinn og kvarta hástöfum undan þessari meðferð/meðferðarleysi. Læknirinn hennar reynir að hringja í hjartalækninn hennar Ylfu en hann er í fríi fram í næstu viku. Svo að Ylfa fer heim aftur og bíður þangað til hún dettur aftur í gólfið. Þá endurtekur sagan sig.

Kæra landstjórn: er það þetta sem þið eigið við þegar þið talið um besta heilbrigðiskerfi í heimi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku vinkona.

.....

Sumir læknar eru aular...

Vildi að ég gæti gert eitthvað fyrir þig ..

Farðu vel með þig.

vinkona á ísó (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 12:37

2 identicon

Ja hérna !!! Djöfuls....rugl er þetta, fólk sent fram og til baka af því bara ?

farðu vel með þig skvís....

Sjáumst kannski næst þegar þú kemur í 6 tíma mónitór...ja ef þú færð þá innlögn aftur á bráðadeildina.

Harpa Hall (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 16:12

3 identicon

Vita þeir þarna í R.vík ekki að það er kreppa og ekki hægt að þeytast svona endalaut fram og aftur um landið.   Gott að þú andaðir aðeins á þau.

Unnur María Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 18:19

4 Smámynd: Laufey B Waage

Þetta er náttúrulega alveg gjörsamlega út í hött.

Laufey B Waage, 5.11.2008 kl. 18:28

5 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

elsku frænka mín, voðalegt er að heyra þetta !!!

Sendi þér Ljós

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 5.11.2008 kl. 19:32

6 Smámynd: Katrín Dröfn Markúsdóttir

ussss #%$&$#%& rugl er þetta ... þú hefðir alveg eins getað komið til mín og ég haft þig undir eftirliti í sex tíma ... þetta heilbrigðiskerfi er skítt!! ... en kús á þig mín kæra, hlakka til að fá þig í kaffi þegar þú hefur heilsu og tíma til

Katrín Dröfn Markúsdóttir, 5.11.2008 kl. 22:03

7 identicon

En Ylfa mín, hvað kom út úr rannsóknunum um daginn, er í lagi með heilann skv. línuriti og alles???

Hulda (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 22:29

8 identicon

Hvaða djöfuls fokkíng kjaftæði!?!?!

Og bráðum fáum við örugglega að heyra eitthvað um "niðurskurð í heilbrigðiskerfinu." Og þá er ég FARIN! Eitthvert þar sem velferðarkerfið virkar þó ekki sé nema sæmilega.

Vona að það náist í einhvern hjartalækni sem kann að lesa. Hann getur þá bara lesið skýrsluna þína og sett sig inn í málið. Ég hef aldrei fattað þessa áherslu á að maður eigi að eiga "sinn" lækni og sérfræðing í öllu. Þeir eru aldrei annars staðar en í fríi þegar á þarf að halda. Þeir eiga bara allir að skrifa allt niður í sjúklingaskýrsluna og allir að vera jafnnothæfir.

En nú er ég alvarlega föj fyrir þína hönd og vona að starfsfólk bráðamóttöku hafi þurft áfallahjálp, allt sem eitt. Ef það er ekki hjartað sem er að þér þá er það eitthvað annað og það þarf að fokkíng finna það og laga það! Grrrr!

Sigga Lára (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 10:24

9 identicon

Þetta hljómar svo kunnuglega. Því miður. Ég hef einu sinni verið send alveg fárveik inn á þessa bráðadeild (af heimilislækni) og það var hlegið að mér. Bókstaflega. En sem betur fer er ég hjá virtum sérfræðingi og um leið og ég gat neytt aðstoðarlækninn til að hringja í hana kom annað hljóð í strokkinn.

Eina ráðið til að fá þjónustu á þessum spítala er að vera hjá sérfræðingi og láta hann/hana koma þér áfram. Það er lítið mark á heimilislæknum. Auðvitað er það fáránlegt - en kerfið er fáránlegt.

Harpa J (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 10:31

10 identicon

Hva!!! Er heilbrigðiskerfið í R.vík. hrunið líka. Hvað bull er eiginlega í gangi þarna fyrir sunnan? Varstu bara sett í þennan monitor og svo ekkert meir   

Nú hefði verið gott að hafa Sigr. Vald.  Lýsi hér með eftir nýrri S.V.í  "famelíunni" til að setja batteríið af stað. Hugsa til þín góða.

Alla (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 16:50

11 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Hún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hlýtur að vera sammála þér í því að íslenskt heilbrigðiskerfi er ónýtt - nóg tönglaðist hún á því hversu mikið lán í óláni það hefði verið að hún skyldi veikjast í Bandaríkjunum.

Prófaðu að senda henni þetta blogg og athuga hvort hún vill ekki leyfa þér að fá lánað ráðherraplaggið í svona viku svo þú getir fengið læknisþjónustu, því það skiptir greinilega máli hvort maður er ráðherra eða almennur borgari þegar maður fær aðsvif.

Ég er reið fyrir þína hönd Ylfa, og okkar hinna sem hugsanlega gætum lent í svona skussahætti sjálf.

Knús kæra vinkona =o)

Hjördís Þráinsdóttir, 7.11.2008 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband