Drukknanir

Ég er að drukkna!

Prófin voka yfir mér eins og óveðursský, verkefnin hlaðast upp sem þarf að skila og mér finnst ég vera í rassgati með þetta allt saman. Systursonur minn fermist næsta laugardag og ég kemst ekki til að vera við fermingu drengsins vegna vinnu og prófa. Það er agalegt! En ég verð með honum í anda og svo sendi ég líka erfingjann í minn stað svo að þetta verður svona "almost, but not quite!"

Kosningahelgin var eins og hjá öðrum... hún einkenndist af... kosningum. Ég er reyndar ekki alveg jafn sátt við úrslitin og vonir stóðu til, það er bara eins og það er og lífið heldur víst áfram. Við mæðgur höfum þráttað hressilega um stjórnmál undanfarið og haft gaman að. Ég var að uppgötva að mamma er búin að vera hjá mér í meira en hálft ár! Það er eiginlega ótrúlegt því að við erum nú ekki líkt skapi farnar en með tímanum hefur það slípast og mér er farið að þykja ósköp notalegt að hafa hana hérna hjá mér. Lífið er svo hverfult og tækifærin til að vera með okkar nánustu eru eiginlega of fá til að hafna þeim. Það hef ég fundið eftir að pabbi heitinn dó. Ég gæti svosem alveg lifað án hundkvikindisins hennar en hún getur það aftur á móti ekki svo að það verður víst að fylgja með í kaupunum!

Ég og héraðslæknirinn, Dóra Explóra, einsettum okkur að taka vorinu fagnandi með daglegum gönguferðum við þriðju tík, hana Urtu, og höfum nokkurn vegin staðið við það. Svei mér ef það hressir okkur ekki bara allar! Sundferðir eru nýttar ef ekki viðrar til göngu. Þriðja tíkin nýtur reyndar ekki góðs af því þar sem hundahald er bannað í lauginni. En við sjávarspendýrin, ég og héraðslæknirinn, svömlum með myndarlegum sporðaköstum og blæstri og drekkjum okkur svo smástund í bubblupottinn á eftir. Svo stöndum við upp og potturinn tæmist af vatni, þeim sem á eftir koma til mismikillar ánægju. Á góðum dögum gerum við svo okkar besta til að stífla rennibrautina!

En nú er mál að koma sér í háttinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

yndisleg lesning elsku frænka.

knus frá mér

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 27.4.2009 kl. 13:38

2 identicon

FrÁBÆRT AÐ ENN ERU AÐ BÆTAST VIÐ MEÐLIMIR Í FÉLAGIÐ : KEIKO OG HVALAVAÐAN. Erum við þá ekki orðnar 3...!!!!!!!

Skítt að þú komist ekki norður...hefur þú prófað að biðja guð um að sjá til þess að þú komist, ég hef reynslu af að það þrælvirkar Loveju

Valrun (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 11:22

3 identicon

Já, kosningarnar fóru vel þó þær hefðu mér að meinalausu mátt fara örlítið betur, kommúnisti sem ég nú er. Nota bene, ég nota orðið kommúnisti í hugmyndafræðinlegri merkingu, ekki sögulegri. Hef lítinn áhuga á kúgun og öðru þjóðfélagslegu ofbeldi, sem síðustu ár hefur að mínu mati meira tengst hægri vængnum en þeim vinstri.

Ég skal annars hjálpa þér upp ef þér finnst þú vera að drukkna, drukkna í öllu þessu í kringum þig. Gerum bara eitthvað gott, gerum það í snatri. Ég skal láta fara lítið fyrir mér

Berglind (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband