1.6.2009 | 22:28
Gunna í Ártúni.
Auðvitað finnst mér eins og við, gömlu bekkjarsystkinin í árgangi ´74 í Dalvíkurskóla séum rétt nýskriðin úr níunda bekk og séum um það bil að hefja ævina. En það er víst langur vegur frá því. Og það sést best á börnunum okkar sem sum hver eru að verða hálf fullorðin!
En það er fleira sem gefur það til kynna að við séum engin börn lengur. Foreldrar okkar ganga á vit feðra sinna. Gangur lífsins. Ég veit. En þegar manni finnst maður vera ungur þá kemur það á óvart. Sum okkar misstu foreldra sína fyrir aldur fram. En sum okkar erum að kveðja þau "snemma" á fullorðinsárum.
Og nú er ein góð kona gengin. Gunna Ben. Hún var mamma Örnu, vinkonu minnar úr skóla. "Örnu í Ártúni," eins og hún er alltaf kölluð. Mamma hennar, Gunna í Ártúni, var orðin ekkja. Stefán, pabbi Örnu dó fyrir nokkru. Þetta voru sæmdarhjón sem bjuggu í litla Ártúni, beint á móti Afa í Mörk og þau voru held ég það umburðarlyndasta fólk sem ég þekki! Ég man aldrei eftir að hafa fengið skammir í Ártúni, þrátt fyrir að þar hafi gefist kjöraðstæður til prakkarastrika! Við Arna og stelpurnar framkvæmdum nú ýmsa misjafna gjörðina þar en ég minnist þess ekki að Gunna hafi nokkrun tíma æst sig eða skammað okkur þó hún kannski tæki okkur á tal!
Einu sinni, eftir að ég var orðin hálf fullorðin, sátum við Gunna einhverra hluta vegna bara tvær í eldhúsinu hjá henni og lentum á trúnó. Þetta samtal man ég bókstaflega orðrétt. Kannski af því að þetta var í fyrsta skipti sem ég fór á "trúnó" við eitthvað foreldrið, kannski bara af því að við töluðum svo hispurslaust um lífið. Líf okkar beggja. Og hún sagði við mig hluti sem ég hef alltaf geymt í hjartanu.
Gunna og Stebbi voru gott fólk og það er alltaf missir af góðu fólki. Ég sendi Örnu, Benna, Jóku, Stebba og Sigtrygg mínar samúðarkveðjur.
Athugasemdir
Sæl Ylfa
Takk fyrir skeytið og þessi orð.
Arna
Arna (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.