7.6.2009 | 20:30
Ég er í fýlu
Þrátt fyrir að "tognunin" hafi nú bara reynst einhver minniháttar meiðsli hjá Spiderljóninu og að lungnabólgusjúklingurinn sé óðum að hressast og harðneiti að vera í lopapeysu útivið, garðurinn sé orðinn fínn og veðrið orðið gott og allt það..... þá er ég í fýlu.
Ég er í fýlu af því að Dóra Splóra vinkona mín þarf að flytja burtu í ágúst. Það er með ólíkindum að eftir allt röflið og rausið um að snúa landsbyggðaflóttanum við, það þurfi að halda menntafólki innan fjórðungsins og allt það, færi læknir með sérmenntun í heimilislækningum ekki vinnu við sitt hæfi hérna. Og tökum eftir því, að hún actually vill búa hérna! Líður bara vel með börnin í litla bænum og finnst gott að vera laus úr borgarstreitunni. Enda alin upp á Auðkúlu í Arnarfirði og því Vestfirðingur í nef og nögl!
Ég er auðvitað eins og margoft hefur komið fram, bara einföld húsmóðir og hef takmarkað vit á flóknum hlutum. Enda reyni ég eftir fremsta megni að þreyta ekki mitt litla sæta höfuð á því að grufla í því sem t.d. karlmenn eru mér færari í. Ég samt vissi ekki betur en að einn læknir hafi verið að segja upp á Heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði af því að honum líkaði ekki það sem honum var boðið. Því spyr ég; var bara verið að bjóða honum það, prívat og persónulega? Átti ekkert að fá einhvern annan í djobbið ef hann segði nei? Æi, eins og ég segi.. það er svo margt sem minn takmarkaði skilningur nær hreinlega ekki utan um. Enda einföld kona. Afsakið mig. Ef mig skyldi yfirhöfuð kalla!
Auðvitað þætti mér óskaplega gott að vita af heimilislækni á Ísafirði. Held að það sé enginn heimilislæknir þar. Ég er jú ötull þiggjandi þjónustunnar sem þar er í boði með mína seinheppnu fjölskyldu og svo vil ég bara hafa hana Dóru mína á svæðinu. Er það eitthvað einkennilegt? Ég nenni ekki að missa hana í burtu svona rétt þegar ég er búin að finna hana eftir einmannalegu árin án Valrúnar. Hún er mjúk og góð með dásamlega þétta og holduga handleggi sem ég elska að strjúka.... Alveg eins og Valla mín! Og hún er unaðslegur félagsskapur á gönguferðum okkar Urtu, í sundlauginni og ég tala nú ekki um þegar ég er að læra fyrir próf! Ég meina... hvers á ég að gjalda að missa hana svona frá mér? Dæs og snökkt... Ég myndi ráða hana sem hirðlækni Familien av Ringsted, á staðnum ef ég hefði einhvern aðgang að Ringsted auðæfunum!
jæja, koma tímar koma ráð, segir máltækið..... Það hlýtur eitthvað að reka á fjörurnar, ég bíð bara átekta. (sorrý elsku Dóra að ég skuli skrifa svona lofræðu um handleggina þína, ég veit að þú sérð ekki sömu fegurðina í þeim og dýrð, og ég geri....)
Athugasemdir
Dúllan mín það þíðir ekkert að vera í fýlu. ;)
Aprílrós, 7.6.2009 kl. 20:37
Dóra splóra sem þú kallar var nú bara ráðin í afleysingar...reyndar er Héraðslæknirinn ekki með eins þétta handleggi en hefuru prófað að hnusa hana?? Kannski lyktar hún bara ágætlega:)
Katrín, 7.6.2009 kl. 21:27
Hún lyktar dásamlega. Það vantar ekki. Það bara vantar holdið Kata mín, holdið!
Ylfa Mist Helgadóttir, 7.6.2009 kl. 21:47
hehe gefðu henni súkkulaðirúnsínur með rjóma:)
Katrín, 8.6.2009 kl. 09:26
koma tímar koma ráð elsku frænka, eitthvað rekur á fjörur þínar með þykka handleggi og lykt.
ég kem allavega í viku í júlí illa lyktandi og með svera upphandleggi, þú mátt lána þá í viku tíma á með ég hengi upp sýninguna !
knús í bæ
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 8.6.2009 kl. 13:45
Já afhverju fékk hún ekki djobbið hans Lýðs ? Nú hljótum við að spyrja Þorstein yfirmann lækninga að þessu. Við viljum fá konu lækni þarna á stofnunina. Hvaða sýndarmennska er þetta. Eða var ætlunin kannski að ráða ekki Lýð? Skrifa með glöðu geði undir áskorunarlista til handa alvöru heimilislækninum ! Áfram Ylfa !!!
ísafjarðarkona (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 18:50
Tek undir það sem heilbrigðisstarfsmaður, hálfgildings Vestfirðingur og fullgildur þjóðfélagsþegn, að það er algjörlega óforsvaranlegt að missa af Vestfjörðunum heimilislækni sem vill glaður búa þar. Alveg burtséð frá því hvort handleggir hennar eru holdugir eður ei . Verð ég ekki að fara að hitta þessa konu? Kem kannski í skottúr vestur um helgina, skora á þig að hóa saman í heilbrigðisstarfsmannatesopa ef svo fer!
Berglind (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 18:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.