14.6.2009 | 15:47
Fjölgun í fjölskyldunni.
Það er ekki einleikið hvað mér tekst alltaf að hlaða í kringum mig af mannfólki og skepnum. Á heimilinu eru nú þegar átta sálir, sex mennskar og tvær ..hundskar? Getur maður sagt hundskar? Allavega, við hjónin, drengirnir þrír og svo auðvitað mamma. Hundspottin Urta og Hrói og nú síðast bættust við tvær angórukanínur sem eru af lionhead kyni. Þetta eru kall og kelling sem hafa hlotið nöfnin BG og Ingibjörg. Þær eiga heima í bílskúrnum og ég fékk stórt búr undir þær í gær sem ég ætlaði að nota undir þær saman. Ingibjörg er sumsé aðeins tveggja mánaða en BG er sjö mánaða og hélt ég því að hann færi nú ekki að eiga við kerlu strax en meiningin er að láta gelda hann strax eftir helgi. Nei, það þurfti nú heldur betur að bjarga blessuðum unganum því að hann svoleiðis riðlaðist á henni og hún náði ekki að anda, hvað þá meira. Börnin urðu miður sín og héldu að hann væri að drepa hana! ( skyndilega kann ég ekki við að nota nöfnin þeirra.... alltsvo kanínanna!)
Forsaga þessa kanínumáls er sú að ég "bjargaði" kanínu sem þurfti nýtt heimili. Ég skráði mig á dýrahjálp.org og þá er haft samband við mig ef dýr eru heimilislaus. það eru nú oftast kettir sem ég get ekki tekið vegna ofnæmis Björgúlfs en svo stundum líka kanínur og þessháttar. Ég ákvað að taka þennan hnoðra að mér og fékk hann sendan með flugi í fyrradag. Mig vantaði svo auðvitað búr og hafði samband við konu á Ísafirði sem gat selt mér búr og eina kanínustelpu með. Þetta er kona sem á kanínur í tugavís og elskar þær útaf lífinu. Ég spurði hana hvar maður fengi svona holdakanínur, eða svona alikanínur sem hægt væri að rækta og éta svo bara en ég uppskar augnaráð sem sagði mér að ég væri ekki að spyrja rétta konu!
Helgin er annars búnað vera voðalega fín, þrátt fyrir að ég hafi verið að vinna. Í gær drifum við okkur í bíltúr, tróðum mömmu, hundunum og börnunum í bílinn og renndum í Súðavík og lékum okkur í Raggagarði í dýrindis veðri. Vorum með kaffi og meððí með okkur og Berglind, vonda stjúpan hans Björgúlfs kom með okkur með sín afkvæmi. Svo enduðum öll í murikkaveislu hjá Ellu og Einari Björgúlfsömmu og afa. Palli, pabbi Björgúlfs bættist í hópinn og fleiri ættingjar og við átum á okkur gat! Alla frænka Bjúlfs kom með heimaunninn rjóma úr sveitinni og ís sem hún hafði lagað úr þannig rjóma og heimaorpnum eggjum! Ég get svarið það að rjóminn hann hneig ekki! Hann var þykkri en málning og maður bara hellti vel útá ísinn! Þvílíkt himnaríki! Mig langar í belju! Og hænur! Hvað ætli nágrannarnir segðu þá?
Við enduðum svo hérna heima, Palli, Berglind, börnin, Ég og Halli, Mamma, BG og Ingibjörg og hundarnir tveir, fengum okkur te og röfluðum fram á kvöld. Æðislegur dagur!
Svo er það Leikhópurinn Lotta sem kemur til Ísafjarðar í kvöld eða á morgun og er með sýningar á barnaleikriti á Ísafirði annað kvöld klukkan sex og svo hérna í víkinni á þriðjudag klukkan sex. Þetta eru aðallega húsvíkingar, hugleikarar og "ljótir hálfvitar" og ég ætla að sjóða handa þeim slátur og gefa þeim að éta. Það verður gaman að sjá sýnignuna þeirra og gaman að hitta þau öll!´Nú, og svo er Dóra mín Splóra komin heim úr helgarferðinni sinni til Grundarfjarðar svo að ég get þreifað aðeins á mjúku bingóinu í kvöld!!! ;-þ
Lífið er gott! -og þetta blogg er langt!
Athugasemdir
til hamingju með öll dýrin elsku frænka !!!
knús til dýra og manna
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 14.6.2009 kl. 20:30
Stuð á þínum bæ ;) Njótið samvistanna hvors annars ;)
Aprílrós, 15.6.2009 kl. 19:01
Takk fyrir samveruuuuuna, takk fyrir samveruuuuuuna (syngist)
Vonda stjúpan (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 22:30
Mér lýst vel á nafn kanínunar! Er það í höfuðið á mér?
Ingibjörg Eva (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 18:47
Nei Ingibjörg mín. Það er reydar önnur Ingibjörg, sú sem söng með BG í den tid. En ég skal skíra næstu í höfuðið á þér :)
Sömuleiðis, kæra sonarstjúpmóðir.
Ylfa Mist Helgadóttir, 16.6.2009 kl. 22:04
Takk :)
Og já, þú átt þú koldskål og kammerjonkur, sem Þyrí og Systa komu með handa þér. Verði þér að góðu!!
Ingibjörg Eva (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.