29.6.2009 | 13:15
Kúkur í fjörunni....
Ég var að vinna í gærmorgun og dreif svo nesti og fjölskyldu í bílinn og við brunuðum í Skálavíkina. Veðrið var eins og best verður á kosið og við rifum okkur úr skóm og sokkum á sandinum og lékum okkur við árósinn. Hundarnir, þ.e. hundurinn minn og raðgrðeiðslurottan hennar mömmu, léku sér í sandinum alsæl, þá sérstaklega raðgreiðslurottan sem fer sjaldan út fyrir garðinn. Mamma gamla sat á torfhnausi og vakt athygli nærstaddra á hvað hann Hrói litli væri að njóta sín. Hún var himinlifandi yfir því hvað hann naut sín vel, veltandi sér uppúr grænu grasinu við árósinn og hlaupandi um.
Við dáðumst að æðarkollunum með ungana sína, börnunum sem óðu út í sjó og á, sólinni sem bakaði okkur, margbreyttri, íslenskri jurtaflórunni og lífinu. Björgúlfur kvartaði sáran yfir skítafýlunni sem óneitanlega magnaðist töluvert þegar þarna var komið við sögu og ég hélt langa ræðu yfir hausamótunum á unglingnum um það að náttúran þyrfti sjálf að melta sinn úrgang, og fræddi hann á rotnun þarans í fjörunni honum til lítillar skemmtunnar. Allt í einu sagði hann; mamma, það er í alvörunni SKÍTALYKT hérna! Og um það var ekki að villast.
Lyktin var eiginlega óbærileg. Og þá meina ég í alvörunni óbærileg! Og þegar hundsrottan Hrói þeyttist framhjá okkur, frekar nærri, þá áttuðum við okkur á því hvaðan lyktin kom. Hann var handsamaður og færður til eigandans sem var skipað að þrífa kvikindið uppúr ánni! Skepnan var löðrandi í drullu. Við unglingurinn fórum að leita að upptökum fnyksins, héldum kannski að rotnandi þari væri skýringin eða einhver skítaklessa. Og komumst einmitt að raun um að það var skítaklessa. MANNAKSKÍTSKLESSA! Einhver hafði gert sér lítið fyrir og drullað svona líka myndarlega á árbakkann! Að því sögðu að mér hefði nú þótt artarlegt að þeim sem hrúguna átti að ýta henni frammaf árbakkanum, hótaði ég því að ekki einasta að rottan fengi að labba til Bolungarvíkur, heldur líka mamma. Hún var jú búin að vera að þvo skepnunni við lítinn árangur og var jafn útbíuð og hann!
Það varð þó úr að ákveðið var að leita á náðir húsbóndans í Minni-Hlíð, Hafþórs pípara sem blessurnarlega var staddur þarna í bústað sínum, og fá hjá honum heitt vatn og sápu. Ég er nú ekki klígjugjörn, enda sjúkraliðanemi. En þegar ég var farin að tína maísbaunir út feldinum á honum Hróa, langaði mig langmest að henda honum undir sláttutraktorinn hans Bærings bróður Hafþórs, sem var að slá túnið í Minni Hlíð.
Að endingu var hægt að skúra það mesta af hundinum og mömmu, við fórum og borðuðum nestið af hjartans lyst uppí lítilli laut framar í dalnum, fórum svo og tíndum okkur blóðberg og enduðum svo í Tjöruhúsinu á Ísafirði í smjörsteiktum kola. Svo fór ég aftur að vinna.
Eftir á að hyggja finnst mér þetta skítaatvik fyndið. Drepfyndið!
Athugasemdir
Bwahhaa... alltaf átt þú bestustu kúkasögurnar!
Skil ekkert í þér að hafa ekki látið rottukvikindið fjúka í traktorinn!
Skál í botn.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 29.6.2009 kl. 14:03
Segðu! Bíð eftir að Beis lesi þetta! :)
Ylfa Mist Helgadóttir, 29.6.2009 kl. 14:05
shit...maísbaunir og alles.
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 29.6.2009 kl. 14:22
Shit... í orðsins fyllstu...
Sæunn (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 18:59
Oj bara ;) En gott að ferðin endaði vel ;)
Aprílrós, 29.6.2009 kl. 19:54
ooojjj
Laufey B Waage, 29.6.2009 kl. 21:07
Ha, ha, ha!! Mér finnst það best að eftir allan kúkaþrifnaðinn, með maísbaunum og alles, hafið þið farið og gætti ykkur á nestinu AF HJARTANS LYST! Og svo bara koli á eftir! Ég er ekki viss um að ég borði aftur fyrr en á fimmtudaginn, og ég var bara að lesa söguna!! En það er kannski munurinn á mér og þér, mín mjúkholda vinkona
Berglind (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 21:38
Berglind. Við erum ekki þekkt fyrir að vera neinar pempíur!
Ylfa Mist Helgadóttir, 30.6.2009 kl. 00:02
Ylfa þú ert frábær "penni" - lýsingarnar hjá þér eru óborganlegar - takk fyrir ánægjulegar lesstundir
Hanna Gerður (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.