Haustannir.

Það er búið að fara í smalamennsku, taka upp kartöflur, tína alltof lítið af berjum en alltof mikið af fjallagrösum á þessu heimili. Sláturgerð verður ekki framin að þessu sinni enda getur undirrituð ómögulega komið slíkri fæðu niður á þessum síðustu og verstu. Sem leiðir til almennrar holdrýrnunar og myndu nú einhverjar horgrindurnar líklega segja; tjah, ekki veitti nú af! En þeim horgrindum vil ég benda á að mér er t.a.m. ALDREI kalt. Og ber fyrst að þakka mínu þykka lagi af náttúrulegri einangrun. Að auki er mér sárt um hluta af þessu varmalagi mínu þar sem mér þykir það gera mig að konu með "hefðbundið vaxtarlag," svo vitnað sé í hina afrísku Mma Ramotswe! Og allir vita að holdugar konur löðra bókstaflega af kynþokka og mýkt! Það er gott að kúra hjá þeim og gott að strjúka þeim.....

En öllu má nú ofgera og það drepur mig nú varla að sjá eftir 10-20 kílóum af þessum verndarhjúp sem hefur skipað mér undanfarin ár í flokk landgengina sjávarspendýra..... Þó mér þætti auðvitað enn betra að vera bara feit og sæl, megandi éta mína kjetsúpu, slátur og svið! Ég hef jú alltaf verið þeirrar skoðunnar að megi maður ekki láta ofan í sig það sem manni þyki gott, sé jafngott að drepast bara. En það vill mér til happs að mér þykir allt sem að kjafti kemur fremur gott svo að ég þrífst ágætlega á megurðar-dögurðinni og þeim rýra kosti sem ég þarf orðið að velja ofaní mig.

En nóg um mat og matarinntekt.

Hvolparnir bláeygðu dafna, búið er að lofa tíkinni svörtu en sá guli er ennþá að leita að heimili. Ekki þar fyrir, að finni hann ekki heimili verður hann bara hér hjá móður sinni. Dýralæknirinn kom í kaffi til mín ásamt börnum sínum á liðinni helgi og eftir að hún var búin að hvá og segja að hún hefði ALDREI, á sínum ferli sem dýralæknir séð svona feita hvolpa, (þeir liggja ósjálfbjarga á bakinu) bauð ég henni í kaffi útí sundlaug þar sem við tókum gott slúður í heita pottinum á meðan börnin gerðu heiðarlegar tilraunir til að drekkja sér.

Það er bilað að gera, skóli, vinna og viðbjóðslegur fjöldi af nemavöktum fram að áramótum. Einhvern vegin hlýt ég þó að geta klofað yfir þetta á mínum stuttu, digru staurum (sem þó fara ört rýrnandi) og haldið jólin í drasli og fjöllum af óhreinum þvotti.....´

Ég er búnað taka eina nemavakt á FSÍ og það var ferlega skemmtilegt. Enda er leiðbeinandi minn skonnorta mikil sem siglir á við fjóra, fullum seglum og lætur mig bara "vaða" í það sem "vaða" þarf í! Enda er það besta leiðin til að læra. Svo stefnum við Dórasplóra á suðurferð um miðjan mánuð hvar ég þarf að fara í einhverjar höfuðsóttarrannsóknir. Fyrirmælin voru einkennileg. "vaktu í sólarhring og komdu svo klukkan átta um morguninn og sofnaðu í tuttugu mínútur." Sérkennilegar óskir. En hafa eflaust tilgang........

eins og allt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aprílrós

Aprílrós, 8.9.2009 kl. 00:07

2 identicon

Úhúhúhú, ég fæ krútthroll við tilhugsunina um litla feita hvolpa. Vala

Vala (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 07:53

3 identicon

Þú ert óborganleg. Ef ég hefði skrifað þessa færslu væri hún svona: Er í megrun. Hvolpunum veitti ekki af að slást í hópinn. Brjálað að gera. (Búið)

Hlakka til að sjá þig þótt það verði varla sjón að sjá þig ef þú ert búin að rýrna mikið. Það er gott að einhverjir sjá um það - ég tilheyri þeim sem eru að hefast.

Tóta (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 10:54

4 Smámynd: Laufey B Waage

Holdarfar þitt hefur alltaf farið þér ótrúlega vel (það er reyndar orðið allt of langt síðan ég hef séð þig með eigin augum). Það er ekki málið. En það kemur alltaf að því að vér matgæðingar (eða matgráðungar) verðum að velja á milli þess að gúffa endalaust í okkur mishollu fóðri, eða lifa í heilbrigði og vellíðan. Það verður ekki á allt kosið. En maður hefur alltaf val.

Laufey B Waage, 8.9.2009 kl. 12:22

5 identicon

Svooo bregðast krosstré sem önnur....ætlaði einmitt að falast eftir sláturkeppum hjá þer í haust....er alveg viss um að mig vanti slátur. Er i einhverjum haustham...þrátt fyrir 25 stiga hita. Frábært að minnka aðeins ummálið..best að ég sleppi líka slátrinu Tíni bara fleiri brómber...ekki mikil fita þar....go girl. Loveju

Valrun (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband