Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
31.12.2007 | 00:32
af jólaáti og hassreykingum með frægu fólki
Hér er síðbúin jóladanskveðja til allra vina og ættingja: Smellið hér til að sjá!
Ég var að borða jólahangikjötið. Í dag. Enda eru enn jól, ekki satt? Brjóstsviðinn er yfirþyrmandi og ég dauðsé eftir að hafa aldrei tekið skrefið og gerst grænmetisæta!!! En.... hvað væru jól án hangikjöts? Ekki svo að skilja að ég hef nýlega tekið það þroskaskref að sætta mig við jól án "hins og þessa", "með einu og öðru," og fundið að það er jafnvel gefandi að finna að maður er ekki jafn flæktur í viðjur vanans og maður hélt! Svo að það er aldrei að vita nema ég sleppi hangiketinu á næsta ári og éti bara kjúklingabaunakássu í staðinn!
Við ætlum að vera með Ellu og Einari, ömmu og afa Björgúlfs á gamlárskvöld og látum það nú ekkert slá okkur út af laginu þó að Björgúlfur sjálfur verði hjá pabba sínum í Reykjavík :) Auðvitað söknum við hans en við höfum jú ömmu hans og afa í staðinn, frænkur hans og frændur! Það á að elda nautalundir með minni rómuðu bernaisesósu, strengjabaunum og steiktum kartöflum. Og þá man ég að ég á eftir að gera ísinn!! Hér sit ég og hamra á tölvuna á meðan ég á að vera að gera allt annað! Almáttugur minn. Við verðum þá líklega bara hungurmorða á morgun fyrst enginn er tilbúinn ísinn..... Eða þannig.
Ég ætla að hætta að borða á næsta ári. Ég held, að síðasta mánuð hafi ég étið fyrir heilt ár! Kannski ég fari bara á einhvern djúskúrinn og sleppi fastri fæðu. Annars heldur Halli því fram að besta leiðin til megrunar sé að borða eina hráa kjúklingabringu á dag í einn mánuð. Salmónellan eða camphylobacterinn skola af manni öllum mör!
Þessi jól hafa verið yndisleg. Mikið sofið, étið og hvílst. Jólatréð okkar er svo undurfallegt að maður getur setið fyrir framan það endalaust og bara horft á dýrðina. Við fengum fallegar jólagjafir. Bækur, jólaskraut, kertastjaka og svona allskonar dót bara sem mann vantar ekkert en er samt svo æðislega gaman að fá. Börnin fengu mestmegnis föt. Þeir voru nú ekkert voðalega sprækir þegar hver pakkinn á fætur öðrum reyndist mjúkur en þess glaðari voru foreldrarnir sem sáu í fyrsta skipti fram á að þurfa ekki að henda út helmingnum af leikföngunum þeirra til að búa til pláss fyrir nýjar!!!
Ég er að vinna að nýjárspistli. Hann verður áræðanlega langur og tyrfinn. Lofa þó engu. Hann birtist von bráðar.
Eitt að lokum: Hvað táknar það að dreyma að maður sé að reykja stuð með Claire Huxteble úr Bill Cosby show?? Svör óskast.
Eigið undursamleg áramót kæru vinir nær og fjær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.12.2007 | 19:29
Lífæðin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.12.2007 | 00:05
dramað drepið
Jæja. Ekki tjóir að liggja, grenja og þunglyndisblogga. Skárra væri það nú ef ekki færi maður að druslast í jólastemninguna! Það snjóar fallegum kornflögusnjó úti og allt er orðið hvítt og fallegt. Ég var í fríi í gær og í dag og hef notað tímann til að hvíla mig og vera með drengjunum mínum. Halli þurfti að vinna í gær, fyrst í Netheimum og síðan í Löggunni í nótt. Dreif sig nú samt á fætur klukkan tíu til að drösla upp jólatrénu og koma með okkur í skötu til hennar Binnu í hádeginu. Halli fékk æðislega gjöf frá vinnuveitendunum sínum. Tvo miða á Dúndurfréttatónleika sem haldnir verða milli jóla og nýjárs í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, jólabónus í peningum, auk þess sem boðið var upp á smörrebrauð af Hótel Ísafirði eftir vinnu í gær. Við vorum búin að ákveða að gefa okkur þessa tónleika í jólagjöf og því var æðislegt að fá þá bara svona upp í hendurnar.
Finnbogi var hjá okkur um helgina og í gær á meðan Halli var í vinnunni fórum ég og fjórir strákar í sundlaugina. Við vorum komin oní klukkan tólf og heim um fjögurleytið! Mest allan tíman vorum við alein í lauginni og fórum í rennibrautina, lágum í pottunum og svömluðum í lauginni. Það var æðislegt og í fyrramálið, aðfangadagsmorgun, verður farið í sundlaugina þar sem allir fá sér jólabaðið og slaka á fyrir öll herlegheitin. Ég elska sundlaugina hérna í Bolungarvík. Þetta eru algjör forréttindi að ganga að svona lúxus og þekkist ekki víða um heim eins og hér á Íslandi.
Jólatréð okkar er komið upp og þurftum við að fá aðstoð bæjarstjórans sem er yfir tveir metrar á hæð, til að setja engilinn á toppinn! það er svo stórt og fallegt! Við þurftum fjórar seríur til að lýsa það allt upp!!
Nú er best að fara að slökkva undir hangiketinu og leyfa því að kólna í soðinu í nótt, svo bý ég um það í köldu geymslunni í fyrramálið svo að hægt sé að borða það á jóladag. Annað kvöld verður Hamborgarhryggur og í forrétt, rækjukokteill. Ég auglýsi hér með eftir uppskrift af slíkum kokkteil!
Elsku vinir og vandamenn, Gleðileg jól til ykkar allra og munum eftir að njóta þess að vera með okkar nánustu, séum við svo heppin að geta það. Bestu kveðjur héðan úr Hraunbergshúsinu þetta þorláksmessukvöld, frúin ætlar að fara að hátta. Guð blessi ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.12.2007 | 19:28
Og þau koma...
.... það er ljóst. Við bökum lítið, þrífum minna, verslum hóflega og skreytum eftir bestu nennu. En jólin munu bresta á okkur þrátt fyrir litla fyrirhöfn. Við erum öll þokkalega brött og heilsufarið alveg ágætt, það er nóg fyrir okkur þessi jólin. Ella og Einar, amma og afi Björgúlfs ætla að borða með okkur á aðfangadagskvöld, Binna Hjaltalín hefur boðið okkur í skötu á Láka, (þurfti ekki miklar fortölur) jóladagur fer í að spila, lesa, sofa og éta hangið két, annar í jólum fer fram í sveitinni í Dýrafirði og enginn verður með æsing eða stress.
Á tímum blogga og netfrétta fylgist maður með fólki heyja allskonar baráttur. Ung móðir, einstæð, liggur fárveik á sjúkrahúsi og mun líklega ekki fara heim þessi jólin, lítil telpa háir sína baráttu og foreldrarnir vanmáttugir reyna að gera hvern dag eftirminnilegan og njóta allra stunda sem í boði eru, foreldrar takast á við sorgina sem mergsýgur þau í kjölfar þess að sonur þeirra tapaði baráttunni við illvígan sjúkdóm, láglaunafólk veit ekki hvernig það á að kljúfa það að gera sér og börnum sínum dagamun. Úti í hinum stóra heimi eru hörmungarnar ennþá heiftúðugri. Heilu þjóðirnar svelta, stríðshrjáðar, kúgaðar. Auðlæknanlegir sjúkdómar leggja lítil börn að velli, sjúkdómar sem hægt er að forðast leggja heili þjóðflokkana að velli og heimurinn virðist eintóm hörmung.
Allt þetta gerir mig svo óendanlega dapra. Og eftir því sem ég eldist, fær böl heimsins æ greiðari aðgang að sálu minni og mér verður alltaf erfiðara að sporna við. "Hugsum jákvætt," stendur á ískápsseglinum. Ég reyni og reyni en finnst sorgin, hörmungarnar og erfiðleikarnir hjá fólki sem ég þekki, nú, eða þekki ekki, stöðugt læðast nær og nær vitundinni uns ég verð heltekin af vanmáttugum trega og djúpri sorg.
Þessi tilfinning heitir þunglyndi og hefur verið félagi minn undanfarin ár. Ólíkt mörgum beinist þunglyndi mitt ekki að mér sjálfri og því hversu ömurleg mín litla tilvera er, heldur að því hve heimurinn er grimmur og líf allra tilgangslaust.
En ég þekki kauða. Ég finn þegar hann byrjar að læsa klónum ísmeygilega í sálartetrið og fikrar sig dýpra og dýpra inn í hugann. Nú orðið tekst mér jafnvel að reka hann út fyrir garðhornið, þar sem hann bíður eftir að glufa myndist og honum takist að læða sér inn fyrir þröskuldinn og hremma mig. Lengi vel tók ég lyf til að bægja honum frá. Það var skynsamlegt en ekki varanleg lausn. Núna stunda ég þekktar sjálfshjálparaðgerðir, s.s. reglulega hreyfingu, (sem virðist nú samt ekki tálga neitt af skrokknum af mér) reglulegan fótaferðatíma, dagsbirtulampa, samtöl við fólk sem þekkir sjálft á eigin skinni hvernig hægt er að togast átakalaust inn í hið dapra holrúm ótta og vanmáttar, uppbyggilegar hugsanir og þar fram eftir götum.
Allskonar meðul hef ég reynt. Orkulækningar, hefðbundnar lækningar, miðlalækningar, fetalækningar, lækningar með breyttu mataræði, cranio, hugræna atferlismeðferð, blómadropa, geðlyf, ilmolíur...... Ég hef meira að segja reynt að koma mér í hin æsilegustu endorfínrús með alls konar asnalegum uppátækjum sem hafa bara dregið mig enn meira niður og lent svo hvað harðast á þeim sem ég hef þó alltaf til að reiða mig á. Allt! Allt hef ég verið tilbúin að reyna og marg með sæmilegum árangri en þó bara tímabundið. Þetta er augljóslega langhlaup. Og ég er ekkert sérlega þolgóð né spretthörð. Ég verð því að ganga mig í gegn um þetta. Og þessi jólin ætla ég að byrja á að hvíla mig. Fyrir næstu lotu. Af því að ég held að með því að halda ótrauð áfram komist ég á endanum í mark. Kannski ekki fyrr en lífsgöngunni lýkur, kannski er þetta hreinlega þessi frægi "lífsins gangur?" Ég hef ekki hugmynd um það. Og líklega hefur enginn nein svör við því. Nema sá sem allt veit. Og hann hitti ég ekki fyrr en í fyllingu tímans. Vonandi í hárri elli, södd lífdaga. Og það gengur líklega eftir. Því að þrátt fyrir þetta allt saman þá hef ég í lífinu verði í flestu svo heppin. Og allar mínar óskir, sjálfri mér til handa hafa ræst. Það er bara þetta með óskir mínar öðrum til handa sem ekki gengur eins vel með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.12.2007 | 00:14
Föst inni
Jæja. Það hlaut að koma að því að einhver hlíðanna lokaðist. Ekki Óshlíðin þó núna, aldrei þessu vant, heldur Eyrarhlíðin á milli Hnífsdals og Ísafjarðar. Veðráttan hefur nú ekkert verið björguleg undanfarið og núna í augnablikinu er grenjandi rigning hérna og hífandi rok. Húsið nötrar af og til og ég flýti mér sem mest ég má að pikka inn svo að ég missi ekki allt niður þegar rafmagnið fer. Já ég segi ÞEGAR! Þannig er það bara hérna fyrir vestan. Rafmagnið fer af í vondu veðri. Og ekkert athugavert við það. Bara ósköp notalegt í rauninni.
Annars er það helst í fréttum að ég hef tekið afar stóra ákvörðun. Ég ætla að hætta á Langa Manga um áramótin og fara að vinna á Skýlinu hérna í Víkinni í staðin. Ég veit, ég veit, launin eru ekkert svimandi há en á móti kemur að ég get sparað mötuneytiskostnað, heilsdagsvistun, disilolíu og leikskólagjöld fyrir tugi þúsunda á mánuði. Þannig að ... köllum þetta hagræðingu. Það er ekkert vit að við séum bæði að vinna á Ísafirði. Það hefur maður fundið undanfarið í lægðaganginum. Mér finnst tilhugsunin um að við bæði festumst á Ísafirði og börnin hérna heima, hræðileg. Svo að þetta verður þægilegra. Það verður líka gott að hafa meiri tíma með strákunum. Þetta er fjárfesting í framtíðinni. Og allrabesta fjárfestingin er sem mest samvera með drengjunum mínum. Finnst mér.
-------ooOOOooo--------
Skelli inn einni sumarmynd svona í lokin. Til að létta mér.. og ykkur kannski líka, lundina.
Hnífsdalsvegur lokaður vegna aurskriða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.12.2007 | 14:01
Florence Nightingale
Uppsölu og niðurfallapestin hefur stungið sér niður á heimilið óvenju snemma þetta árið en eins og frægt er orðið, hefur fjölskyldan legið í slíkri pest sl. þrenn jól, ef ekki fern. Sem betur fer er minnið gloppótt orðið, annars færi allt í hönk og ég væri farin að bryðja Valíumið um miðjan september.
Nú spúa yngsti og elsti (þá meina ég þennan þrjátíuogeitthvað) eldi og brennisteini. Eldinum upp, við vitum öll hvert brennisteinninn fer.... og ég er Florence Nightingale í dag. Sem er ágætt. Ég á þá inni ákveðna þjónustu, herji óáranin á mig næst.
Sá yngsti hefur verið veikur í allan vetur. Meira og minna. Stundum koma 3-5 dagar án teljandi vandkvæða en svo læðist hitinn aftur um litla kroppinn og lungu, bronkur, nef og augu fyllast af óhroða. Farið var með hann til HNE á laugardaginn og kvað sá upp þann úrskurð að hlussustórir kirtlar væru að eitra litla kroppinn og þá þyrfti að uppræta hið fyrsta. Þá, segja mér lærðari menn, verða straumhvörf í heilsu litla drengsins.
Ég vildi óska að svo lítið þyrfti til að hjálpa henni Þuríði Örnu litlu sem berst við sinn erfiða sjúkdóm. Ég vildi ekkert heitar en að lítil börn sem eru undirlögð af ljótum, ólæknandi sjúkdómum, gætu fengið bata með jafn einfaldri lausn og kirtlatöku!
Ég kvarta og kveina, finnst ég alltaf vera með lasin börn, skammdegisdrunginn að drepa mig, fortíðin að kvelja mig, nútíðin að hrella mig og framtíðin að hræða mig.
En allt hef ég þó til alls og börnin mín hrjáir ekkert sem ekki jafnar sig með tíð og tíma. Manninn minn á ég bestan og yndislegastan, heimilið mitt draslaralega er hálfkarað en samt griðarstaður, fallegt og fullt af ást, kærleika og meira að segja, loðnu hundskotti, sem okkur öllum þykir vænt um.
Ég þjáist af óþakklætissjúkdómi nútímans, ætlast til að allir hlutir gangi mér í hag, annað er óréttlæti sem beinist beinlínis gegn mér og mínum. Verst er að engin sérstakur á sök. Kannski þyrfti ég að upplifa einhverjar hörmungar til að snúa þessari hugsanavillu við. Til að læra að lifa í núinu án þess að systurnar fortíð og framtíð, þó aðallega framtíð, dragi úr mætti augnablikshamingjunnar.
En búkhljóð gefa til kynna að mín sé þörf, 10 mínútna, lögbundinni pásu hjúkkunnar er lokið. Aftur í sloppinn, upp með höfuðkappann og Florence stormar af stað til bjargar heiminum.
Bloggar | Breytt 13.12.2007 kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.12.2007 | 00:59
Draumfarir ófagrar..
Ég fór á tónleika í Einarshúsi áðan með ungri konu sem heitir Marta. Hún spilar á gítar sitt eigið efni og syngur með. Falleg og skemmtilega lágstemmd tónlist, því miður þó flutt á ensku. Ég veit ekki af hverju ungt og hæfileikaríkt listafólk kýs að semja textana sína á ensku. Sumir segja að það sé auðveldara, auðvitað er það auðveldara. Enda er enska afskaplega einföld, bragfræðilega séð. En hitt er þá bara þeim mun meiri áskorun. En að þessu nöldri slepptu þá voru tónleikarnir fínir og þið eigið örugglega eftir að heyra frá þessari ungu konu síðar. Heilmikið í hana spunnið.
Annars er ég farin að örvænta. Mig dreymir sömu draumana aftur og aftur. Annar stafar held ég af tímaskorti. Mig dreymir alltaf að jólin séu komin og ég hafi gleymt að undirbúa þau. Börnin séu grátandi, enginn matur til, ekkert skraut, bara dimmt og leiðinlegt.
Hinn draumurinn er gamall og stafar líklega af samviskubiti sem hefur þjáð mig síðan í æsku. Þannig var að ég átti tvo hamstra í þvottabala niðrí kjallara heima á Ásvegi tvö. Einhverntíma þegar ég fór suður að heimsækja mömmu fyrirfórst að gefa þeim að borða. Einhver misskilningur átti sér stað og þegar ég kom heim, var hálfur hamstur í balanum. Hinn var á bak og burt með blóðuga skoltana. Síðan þá, fæ ég oft og iðulega martraðir um mýs, fugla og önnur smádýr sem ég "man" skyndilega eftir að eiga og eru svelt og illa farin. Oftar en ekki gegnur draumurinn þannig fyrir sig að ég fer í bílskúrinn á Ásvegi Tvö og finn hamstrabúr, fugla og músabúr útum allan skúr með hálfdauðum dýrum í. Í draumnum var ég búin að gleyma því að ég ætti öll þessi dýr og stundum eru allir veggirnir fullir af holum með músum og nagdýrum sem hafa fjölgað sér árum saman og lifað á líkum hvors annars. Þetta eru mínar hryllilegu draumfarir! Ég veit ekki alveg hvernig ég á að losna út úr þessum vítahring, samviskan er líklega að vinna sitt verk en ég meina: KOMMON!!!! Ég þarf að fara að fá minn svefn, hvað sem hömstrum og músum líður... :o)
Sagan endurtekur sig. Fyrir einu-tveim árum lenti Björgúlfur sonur minn í því að drepa óvart páfagaukana sína. Hann gleymdi að gefa þeim vatn í tvo þrjá daga og þeir lágu á botni búrsins einn daginn. Minnug þess hvað hamstramorðin mín hafa ásótt minn næturfrið gegnum tíðina, ákvað ég að létta samvisku hans eins framarlega og mér var unnt. Sagði að fuglunum liði mun betur svona en lokuðum í búri og svo framvegis. Honum leið illa og samviskan kvaldi hann. Mig líka því að mér finnst að ég hefði átt að fylgjast betur með. En páfagaukana átti hann og það var hans að hugsa um þá. Samt, .... kannski ef ég hefði litið betur til með þeim þá hefði þetta ekki þurft að gerast. Kannski mun drenginn minn dreyma sömu drauma og mömmu hans eftir tuttugu ár. Full búr af fuglum sem gleymdust dögum saman.........
Kannski ég fari bara og fái svefntöflur...........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Aðventu-átak.
Þórdís Tinna Moggabloggari númer eitt, er engin venjuleg kona.
Hún er skemmtileg, alltaf að hjálpa öðrum og sér það jákvæða við nánast allar kringumstæður.
Eins og flestir vita, á hún við alvarleg veikindi að stríða.
Það þarf ekkert að kynna Þórdísi Tinnu, svo þekkt er hún orðin fyrir að vera hún sjálf.
Nú er rétti tíminn til að sýna Þórdísi Tinnu stuðning í verki.
Sýnum samstöðu og styðjum við hana og dóttur hennar, Kolbrúnu Ragnheiði, svo þær geti notið hátíðanna, lausar við fjárhagsáhyggjur. Fimmhundruðkall, Þúsundkall eða Fimmþúsundkall..... allt hjálpar.
Bankareikningur
0140-05- 015735. Kt.101268-4039
Ég skora á aðra bloggara að taka þátt og birta samskonar færslu á sinni síðu.
(ég tók þetta af síðu Önnu Einarsdóttur en hún og fleiri bloggvinir Þórdísar Tinnu hafa tekið sig saman og ákveðið að þegar kerfið klikkar, þá tökumst við í hendur!)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)