Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
11.5.2007 | 17:33
Föstudagur
Það er að verða árviss viðburður að eyða undankeppni Eurovision með Sörufrænku. Gísli, maðurinn hennar, grillaði æðislegt kjöt og Sarafrænka bjó til ferlega gott salat með. Rauðvín og hvítvín með og ég fékk að auki rosalega huggulegan borðherra. Ekki einasta sýndi hann mér fyllstu kurteisi og hló að öllum mínum bröndurum, hann var farinn að dansa hressilega við mig undir lokin. Síðan fór hann heim að sofa og heimtaði ekki einu sinni koss á munninn. Ég fékk bara að kyssa hann á handarbakið!
Hann var orðinn stjarfur af þreytu um það leyti, enda búið að vera mikið fjör í sófanum hjá okkur. Það er best að deita þá undir tveggja ára. Þessi sjarmur heitir Snorri og er frændi Gísla.
Áður hafði ég krúsast með litlabróður á Sólvallagötunni hjá R.Vilbergssyni og Tamilu, fengið rammáfengan drykk sem kúbanir blanda í byrjun meðgöngu og er látinn lagast fram yfir fæðingu, svo að ég var bara nokkuð góð!
Ók upp í Mosó og snapaði mér leikhúsferð með afasystur Björgúlfs. Við ætlum að sjá Leg í kvöld í Þjóðleikhúsinu.
Litlibróðir er bara í því að vera dásamlegur en nú þarf ég að kveðja hann og fara heim í fyrramálið því að ég mundi víst skyndilega eftir því að ég á sjálf börn sem eru í Bolungarvík. Svei mér ekki bara ef þar leynist eins og einn eiginmaður líka! Sá verður nú glaður þegar hann sér hvað konan keypti handa honum í Gallerý Kjöti áðan: Tvær heljarinnar T-bone steikur og fjórar þumlungsþykkar Prime ribbur. Allt jafn vel hangið og Halli minn sjálfur er.....
Í dag hefur verið sól og blíða í Reykjavík. Risessan heljarstóra búin að þramma um strætin og Sarafrænka fylgt henni fast á eftir ásamt stórum hópi fólks. Ég hef aftur látið minna á mér bera..? og verið úti í sólinni með vinkonu, kíkt aðeins í búðir og bölsótast í umferðarteppunum. Freknurnar framan í mér eru orðnar tröllauknar og svarbrúnar, vorið springur út og ilmurinn af nýjum blöðum trjánna loðir við fingurna ef maður snertir þau. Svo er bara að aka inn í síðveturinn vestra snemma í fyrramálið og ná heim til að kjósa rétt. Aumingja Halli þarf að fara á lögguvakt klukkan níu annað kvöld svo að ég og strákarnir verðum að sjá um kosningavökuna með Urtu. Reikna með að ölvun verði lítt áberandi á heimilinu.
Góða helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.5.2007 | 11:42
Miðvikudagur
Þá er ég búin að hvíla mig eftir átökin. Litli bróðir dafnar vel og ég ætla að fara að sjá hann í dag. Færa mömmunni nýbökuðu eitthvað gott, enda þjáðist hún af meðgöngusykursýki þessi elska svo að nú er lag að fara að raða í sig kruðeríinu. Það er nú alveg nauðsyn að fá einhver hold á þessar mæður!! Hún á svo skilið að fá smá kaloríuverðlaun eftir erfiðið. Það er svo ótrúleg, ný tilfinning að bærast í mér. Þessi fallega kúbanska kona sem R. Vilbergsson faðir minn kynntist fyrir 6 árum í fimtugsafmælisferðinni sinni til Kúbu, hefur verið mér frekar ókunnug. Auðvitað má kenna fjarlægðinni um. Ég bý þar og hún hér. En kannski má líka segja að ég hafi ekkert lagt mig sérstaklega fram. En ég er henni svo eilíflega þakklát fyrir að leyfa mér að upplifa þetta undur með þeim hjónum og það merkilega hefur gerst að ég finn okkur tengdar eilífðarböndum eftir þessa reynslu.
Ég finn fyrir svo mikilli væntumþykju í garð þessarar fallegu manneskju sem hefur sagt skilið við allt kunnuglegt, flutt sitt hafurtask á hjara veraldar til að vera hjá manninum sem hún elskar, og hefur svona stórt hjarta.
Það að vera með konu þegar hún fer í gegn um þessa miklu en velverðlaunuðu þolraun, er það næsta sem maður kemst henni. Og það hljóta að vera bönd sem ekki bresta. Að upplifa allan tilfinningaskalann með henni, horfa upp á sársaukann og kvölina í langdregnum hríðunum, sjá vonleysið í augunum þegar hún missir trúna á að sársaukinn taki enda, horfa á eftir henni inn í heim sem fæðingin kastar henni inn í, heim frumöskursins, sem engin önnur manneskja getur fylgt henni inn í. Heim þar sem konan hættir að vera manneskja, en verður aftur að dýri. Þar sem náttúran yfirtekur hið huglæga tak hennar á líkama sínum og frumeðli hennar og fornt villidýrseðlið brýst fram.
Horfa svo á hana meðtaka verðlaun sín. Fá lítinn einstakling upp að nöktu brjósti og skynja, að hjá þessari konu verður aldrei neitt samt aftur. Líf hennar hefur nú algjörlega nýjan tilgang og ást hennar var aldrei fyrr jafn sterk.
Þetta er upplifunin sem ég gleymi aldrei. Og þakklætið fyrir að hafa fengið að lifa þetta undur hverfur aldrei.
En nú ætla ég að hitta kærar vinkonur í dag. Sumar gamlar, aðrar nýrri, en allar jafn kærar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.5.2007 | 10:52
Kominn í heiminn!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.5.2007 | 17:52
Sjöveðradagur í Reykjavík.
Það er ekkert á veðrið hér að stóla. Eftir hitabylgjuna sem hefur legið yfir Vestfjörðum undanfarna viku lentum við Valrún hér í rigningu og skítakulda. Það er aldrei eins veður frá klukustund til klukkustundar. Rigning, sól og vindur. Mest rigning samt. Ég fékk að sjá segulómunartæki að innan í dag. Í einn og hálfan tíma. Það var fremur leiðinlegt. Maður má ekkert hreyfa sig. En það hefur nú aldrei verið mín sterkasta þörf að hreyfa mig hvort eð er svo að þetta var allt í lagi.
(framhald á bloggfærslu sem ég byrjaði á sl fimmtudag) Ég fékk líka að sjá vinnustofuna hennar Söru frænku. Og ég fékk líka að sjá bumbuna á "stjúpu" minni. En eins og vitað er mun ég fljótt eignast lítin bróður. Ég fæ að vera viðstödd fæðinguna svo að ég þarf líklega að bruna suður mjög fljótlega aftur.
En ég er semsagt komin heim aftur. Við Valrún gistum á Hólmavík í nótt hjá Jóa sæta frænda hennar. Við höfum gist þar áður og fáum svo mikla þjónustu hjá þessum yndislega manni að maður er hreinlega tilneyddur til að kúra hjá honum nótt eða svo á ferðum sínum um strandir.
Nú ætlum við að fara til Mömmufalrúnar og grilla nauta ribeye með bernaise og tilbehör. Aldrei að vita nema ég grípi rauðvínið með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.5.2007 | 10:26
Sjá roðann í austri....
Til hamingju með daginn!
Hér er búið að flagga, og fyrir liggur að fara í fyrsta maíkaffi í Víkurbæ í dag.
Annars er það helst af okkur hér að frétta (svo ég fari nú að fylla inn í eyðurnar síðan Tyrkinn rændi mér) að Halli er nú atvinnulaus og hamast við að klára kjallarann svo að hann verði tilbúinn í sumar. En þá ætlum við að leigja út húsið og flytja til Danmerkur. Við erum hvorki komin með húsnæði þar né vinnu en treystum á Guð og lukkuna í því sambandi. Einnig treystum við á að forsjónin sjái okkur fyrir leigjendum í húsið okkar fallega. En ... ég auglýsi það hér með laust til leigu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)