Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
30.10.2008 | 00:13
Saltkjöt og bjúgur
eða öllu heldur saltkjöt og baunir og bjúgur í eftirrétt!
Ég rakst á svo dásamlegt tilboð á söltuðum lambarifjum í´Bónus á dögunum að því varð ekki hafnað! Rifin eru nefnilega það albesta! Feit og væn og á beini! Salkjöt eins og það gerist best! Og þar sem ég elda bara saltkjöt um það bil tvisvar á ári, hef ég baunasúpu með. Og ét yfir mig í bæði skiptin! Og fæ góða viðbót á fætur, háls og hendur! Ég er líklega búnað drekka tvo lítra af vökva í kvöld án þess að fara svo mikið sem einu sinni á klósettið að pissa! Nei, -allur þessi vökvi hleðst samviskusamlega á sköflunga, ökkla, varir og fingur! Það má pota vísifingri á kaf í fótlegg og liggur við að maður þurfi að vera nokkuð rammur að afli til að toga fingurinn úr holunni!!!
Ég ELSKA saltkjöt! Ég veit vel að ef ég borða það, þá fæ ég hroðalegan bjúg, ég GET bara ekki hamið mig! Lái mér hver sem vill, en vel feitt saltkjöt, rófur, gulrætur og passlega sölt baunasúpa er bara mitt hlið að himnaríki! Nema ef vera skyldu vel slegin og söltuð svið! Mmmmmmmm...
Að hugsa sér! Hér sit ég, rórillandi í umframholdum og bjúg, beinlínis búin að éta á mig óþrif, og hvað hugsa ég um?? MAT!!!!
Svona fólki er hvorki vorkun né björgun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.10.2008 | 11:41
Saga af Frú Heppin
Frú Heppin fór út að ganga í fyrrakvöld ásamt tíkinni sinni. Frú Heppin fór í langa, langa göngu og kom við hjá vinkonu á leiðinni heim. Frú Heppin var ánægð með sjálfa sig, veðrið og allt saman. Því næst datt Frú Heppin kylliflöt, aftur fyrir sig, beint á bakið! Frú Heppin lagðist í rúmið og bruddi verkjartöflur. En síðan fór Frú Heppin í sund í gærkvöldi, lá í pottinum og gerði æfingar í lauginni. Frú Heppin er því miklu skárri í dag. Frú Heppin er því eftir allt saman afar heppin.
Móðir Frú Heppin er flutt inn tímabundið. Móðirin bíður eftir dvalarheimilisplássi og ætlar að vera hjá dóttur sinni, Frú Heppin, þangað til. Frú Heppin og Herra Heppinn verða því að klára kjallaraherbergi elsta sonarins snarlega svo hann geti flutt niður og látið ömmu sinni eftir hornherbergið. Heppni að amma skyldi koma, þá fær unglingurinn loksins kjallaraherbergið sitt. Frú Heppin og fjölskylda hennar eru því heppin eftir allt saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.10.2008 | 22:48
Ill veður, Ármann fertugur og þar frammeftir götum
Hér hefur verið bylur síðan á fimmtudag. Og sko... ég meina BYLUR! Með tilheyrandi bílafestingum, mokstri og almennri smábæjar-óveðurs-ófærðarstemmningu! Og þá tekur maður eftir einu: pólverjar eru hjálpsamastir allra! Tja.. fyrir utan auðvitað Fal Þorkelsson og frænda hans Sigmund sem björguðu okkur í dag og brugðust við beiðni eins og sannir herramenn! Enda ekki ósjaldan sem dýrðin hann Falur og hans frú hafa verið manni bóngóð! En merkilegt með þetta pólska fólk! Það er svo vant samfélagshugsuninni að það setur sig úr leið til að ýta á fastan bíl, moka nokkrar skóflur fyrir mann, eða einfaldlega bjóða "Godan daginn," brosmilt og fallegt!
Við höfum verið í afmæli í tvo daga í röð. Og það í bæði skiptin hjá Bríeti Finnbogasystur sem hélt tveggja daga langt afmæli ásamt Eddu Borg vinkonu sinni. Og á þessu hefur maður grætt óhemju súkkulaðivelgju! Pylsur og súkkulaðikaka er ekki góð blanda fyrir fólk sem fær auðveldlega brjóstsviða! Sem þekkt fyrir að vera "konan sem hótar óþekkum börnum flengingu" hélt ég auðvitað uppi járnaga í barnaafmælinu sem var í dag. Öll leikskóladeild Bríetar og Baldurs var samankomin og ekki veitti af vendinum! Rosaleg læti geta verið í tuttugu börnum sem eru fjögurra ára gömul! Úff!! Ég vona að guttarnir mínir vilji framvegis bara hafa "fámenn" afmæli.......... En þrátt fyrir lætin þá sér maður svo ótrúlega vel í svona afmælum hvað börn eru ótrúlega stillt án foreldra sinna! Það að hafa svona marga krakka í einu herbergi gengur aðeins upp ef spillandi foreldraáhrifa gætir EKKI!!
Annars á fyrrum sambýlingur minn og einn besti "karlvinur" fertugsafmæli í dag. Ármann Guðmundsson, Húsvíkingur og ljóti hálfviti heldur upp á afmælið sitt með tónleikum í Rósenberg í kvöld. Leitt að komast ekki! Ég get bara yljað mér við minninguna um þrítugsafmælið hans sem hann hélt ásamt Togga, -einnig Húsvíkingur og hálfviti, í Hugleiksbækistöðvunum gömlu við Aðalstræti eitt í Reykjavík. Nú stendur þar held ég eitthvað hótel. En í den var þar gamall og reisulegur timburhjallur sem ekki hélt vatni né vindum en við héldum mörg partýin og leiksýningarnar í.
Og í þrítugsafmæli félaganna tók ég að mér að elda súpu og búa til bollu. Frómt frá sagt var bollan gerð úr einhverju heimabruggi og var rosalega áfeng. Svo áfeng að ég dó afar snemma inni í reykingarherberginu! Svei mér ef ég tróð ekki sama kvöld upp með karlakór sem ég hélt fyrir einhvern misskilning að væri blandaður kór! Fullkomlega óumbeðin! Það er ekki skrýtið að ég drekki sjaldnast áfengi í dag! Það klæddi mig lítt betur en aðra!
Hér er ein mynd af hálfvitum, sem ég stal af moggasíðunni, þar sem allar myndirnar af Ármanni eru í annarri tölvu. Til hamingju með afmælið gamli!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.10.2008 | 17:38
Jólasnjókoman, feita fósturbarnið og kreppufæði.
Birnir og Ísak vinur hans komu rétt í þessu inn með eplakinnar og báðu um heitt kakó og ristað brauð. Og það var græjað samstundis. Enda er þannig dagur í dag. Ég var á næturvakt í nótt sem var hreint út sagt ansi fjörug, kom heim og lagði mig frá níu til hálf tvö. Þá kom fósturbarnið sem ætlar að vera hjá okkur í smá tíma á meðan mamma þess fer til Reykjavíkur. Þetta fósturbarn er hlutfallslega feitasta veran á heimilinu og leysir mig þar með af hólmi! Og það er þakklátur starfi! Og er hann enda loðnastur líka, leysir því Halla og Urtu af hólmi! Hann heitir Patti og er risastór blendingur af Golden, Border collie, íslenskum og einhverju trölli! Gulur og spiiiiikfeitur! En fallegur er hann!
Þar sem allt feitt hér á heimilinu er í hægri bráðnun, var tekið til óspilltra málanna að bræða mörinn af Patta. Við snöruðum okkur því þrjú út í góða veðrið, ég, hann og Urta. Við fórum stóóóran hring, byrjuðum við sjóinn þar sem ég dáðist að öldunum, risastórum, sólinni sem skein á mjallahvíta Jökulfirðina, bátunum sem voru að sigla inn Víkina og hauststillunni. Svo fór aðeins að snjóa. Og aðeins meira. Og loks þegar við Urta drógum þann feita upp að húsinu vorum við öll komin með álímda, hvíta hulsu. Og áfram snjóaði. Hvítar, límkenndar kornflygsur sem prýða nú tré og runna í fullkominni jólastemmningu. Og það er hætt að snjóa. Og aftur komið logn. Og sól. En hún kúrir bak við fjöllin.
Við elduðum kjötsúpu í gær. Getur einhver sagt mér að kjötsúpa sé ekki það dásamlegasta sem til er? Sá hinn sami hefur ekki smakkað mína kjötsúpu! Afganginn tökum við með okkur til Auðar og Rúnars í kvöld þar sem tillagðir verða afgangar af kjúklingi! Það er því kreppumatseðill á boðstólum. Og það er best. Við bættum í frystinn á sunnudaginn heljarinnar býsn af kindakæfu sem á eftir að smakkast dásamlega með heimabökuðu rúgbrauði í allan vetur! Það er gaman að gera kæfu en mikið djöfull verð ég illa haldin af brjóstsviða í kjölfarið maður...... obbobbobb...!
Framundan er löng helgi í skólunum mínum og strákanna en vinnuhelgi hjá mér. Svo ætlar líka Finnbogi fallega fósturbarn að vera hjá okkur. Og það verður nú gaman!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.10.2008 | 14:59
Rúgkökur, tilkynningar og meira skólagrobb
Enn hef ég ekkert heyrt um framhald frá the all mighty doctors of Reykjavík. Enda er ég bara alþýðukona og heilinn í mér ekki ýkja merkilegur. En mikið samgleðst ég samt fólki sem er í þesslags stöðu að því nægir að detta í gólfið til að fá greiningu og aðgerð í sömu vikunni. Það hlýtur að vera góð tilfinning að vera svo mikilvæg persóna! Auðvitað segir það sig sjálft að eitt heilabú í Bolungarvík er kannski ekki mikilvægt fyrir aðra en nánustu fjölskyldu þess! Það mætti jafnvel bara segja að það gæti verið hverri alþýðukonu hollt, að skella (brátt flötu) trýninu vel og rækilega í jörðina af og til, svona þó ekki nema til að sýna tilhlýðilega auðmýkt í smæðinni!? Æi já. Það er gott að búa í velferðarþjóðfélagi og geta alltaf treyst því að öllum sé jafnhátt undir höfði gert.
Mér finnst heilinn minn samt alveg skila sínu því að ég var að fá að vita úr mið-annar-matinu í skólanum (sem er eitthvað nýuppfundið, hlýtur að vera. Ég hafði allavega ekki hugmynd um hvað var verið að tala um!) og ég fékk eitt "gott" og restin var "ágætt." Ég er alsæl með það. Er reyndar aðeins að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ofsækja kennarann sem gaf mér bara gott,en æi..... býtterinn, eins og maður sagði hér í den..... Metnaðargirndin er ágæt upp að vissu marki.......
Híramía mín, fornafn: Guðmunda, kemur heim á morgun svo að ég verð ekki eins og vængbrotið villifygli án hennar meira. Og svei mér ef ég steiki ekki rúgkökur handa okkur í bílskúrnum um helgina svo að hægt sé að maula þær í frímínútum! Já, flatbrauð er gott, rúgbrauð líka. En brauð er orðið svo dýrt að það er varla kaupandi lengur! Sérstaklega ekki þar sem heilt brauð er étið í mál, eins og þessu fjögurra karla heimili! Svo að ég fékk afbragðs uppskrift af flatbrauði hjá henni Matthildi í leikfiminni á meðan við gerðum "sundur, saman, sundur, saman" æfingarnar. og svei mér ef ég hnoða ekki úr eins og einni skeppu af rúgmjöli á morgun!
Hann pabbi gamli hefur verið veikur síðan á föstudag. Fékk blæðingu við heilann og hefur legið á spítala. Hann fékk þó að koma heim í gær og fær líklega afbragðs hjúkrun hjá henni Tótu sinni. Ég hef alltaf verið pabbastelpa. Þegar foreldrar mínir skildu varð ég eftir hjá pabba. Mörgum fannst það skrýtið, skildu ef til vill ekki af hverju? Hjá mér kom ekkert annað til greina. Pabba lán var að kynnast Tótu sinni. Og þegar hún veiktist í fyrra og það leit ekki vel út, var hann eyðilagður. En með undraverðum hætti sagði hún krabbanum stríð á hendur og bar sigur úr býtum! Guði sé lof fyrir það! Því að ég veit að hann pabbi gamli lifir fyrir Tótu sína og það skiptir máli að hafa eitthvað dýrmætt að lifa fyrir þegar maður þarf að berjast við erfiða sjúkdóma. Guð blessi þau bæði, hjónakornin. Það er erfitt að vera svona langt í burtu frá ástvinum þegar sjúkdómar og erfiðleikar banka uppá. Og ég veit að þeim hefur þótt erfitt að vera svona langt frá mér í mínum veikindum. En sem betur fer hefur maður netið og símann, annars væri þetta óþolandi.
Tvær tilkynningar að lokum: Hjördís! Ég er sko meira en lítið til í að taka með þér slátur. Hér sé ég frammá að allt verði búið í byrjun desember, svo rækilega gengur á birgðir, svo að segðu bara til!
og Halla Signý! það verður boðað til fyrsta fundar bókaklúbbsins "Mæting" á sunnudagskvöldið klukkan níu! Hér hjá mér. Kreppukaffi og rúgkökur verða á boðstólum. Bókin Hilda á Hóli verður krufin til mergjar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.10.2008 | 23:27
annasamur dagur í borginni
Yndislegu kvöldi að ljúka í íbúðinni hennar Tótu minnar við kertaljós, prýðilegasta lasagna, ís og nærveru góðra vina.
Morguninn var tekinn snemma eftir svefnlitla nótt. Ekki það að hún Tóta eftirláti mér ekki bærilegt legupláss! Öðru nær. Hún gengur úr sínu rafdrifna heilsurúmi fyrir gesti og holar sér sjálf í sófann. Eitthvað varð mér þó lítið svefnsamt í þessu ofurtæknilega rúmi, mér var heitt og ég var stressuð að sofa yfir mig. En upprisnar vorum við þó fyrir allar aldir og ég tók mér gott sturtubað í tvöföldu sturtunni hennar Tótu (það dugar ekkert minna orðið fyrir mann!) og í þann mund sem ég skrúfaði fyrir og opnaði augun áttaði ég mig á því að ég stóð í vatni upp fyrir ökkla! Ég kallaði fram til Þórunnar og spurði hvort svelgurinn væri kannski stíflaður? -Nei, nei! Það lekur bara hægt niðrum hann! -svaraði hún. Sem var mesta vitleysa því að það lak yfir í eldhús! Ég þurfti að bjarga mér á hundasundi fram á gang! Við ákváðum að þetta væri seinni tíma vandamál, þurrkuðum upp mesta blotann og höskuðum okkur uppá Borgarspítala.
Á biðstofunni skemmtum við okkur við að lesa upphátt úr Fréttablaðinu fyrir viðstadda og ræða um gífurlegt framboð sleipiefna á innanlandsmarkaði. Fljótlega tæmdist biðstofan og röðin var komin að mér. Ég var látin liggja á bekk með tæplega þrjátíu víra festa við hausinn og horfa í blikkljós og mása eins og hundur!! Ekki veit ég nú hvað hefur komið úr þeirri rannsókn! Við fórum svo aftur heim og Linda mín yndislegust kom og hélt mér selskap þangað til ég mætti í Domus til að láta segulóma í mér heilabúið. Það gekk ágætlega eftir því ég best veit, svo vel meira að segja að ég sofnaði í segulómunartækinu sem er eins og geimskip sem manni er troðið inní með skorðaðan og rígbundinn hausinn á meðan tækið beljar í eyru manns eins og sjálfur andskotinn sé um borð! Þrátt fyrir hávaðann blundaði ég og var alveg steinhissa þegar ég var dregin úr hylkinu! Þetta sögðust hjúkkurnar nú ekki sjá á hverjum degi og svarðaði ég þeim því til að þriggja barna móðir í námi og vinnu lifði nú sjaldan annan eins lúxus og að vera einangruð frá umheiminum góða stund, ein með sjálfri sér! :)
Eftir skóleiðangur síðla dags lagðist ég uppí sjúkrarúmið hennar Tótu, eftir að vera búnað moka upp hálfum mannslíkama úr niðurfallinu, tók mér bók í hönd og harðneitaði að hreyfa mig hið minnsta fyrr en kallað væri í mat! Ég væri nú einu sinni gestur eftir allt saman! Eyfi kom og eldaði Lasagna á meðan Tóta skrapp að vinna og ég drattaðist fyrst frammúr á brókinni þegar hún kom heim ásamt Jóni stórtenór Þorsteinssyni sem ætlaði að borða með okkur. Þau fengu sér rauðvín og líkjör, við hlustuðum á Hyden og Sjostókóvítsj, sátum við kertaljós og borðuðum og borðuðum. Rifjuðum upp dásamlega tímann sem þau voru hjá okkur fyrir vestan í sumar og höfðum það bara yndislegt!
Og á morgun fer ég heim. Þegar ég verð búnað kaupa 65 cm langan, bleikan rennilás í nýju lopapeysuna sem Björgúlfsamma, sá himneski engill er búnað prjóna handa mér!
Bloggar | Breytt 14.10.2008 kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.10.2008 | 21:17
Stórholt
Ég steig þungt til jarðar höfuðborgarinnar eftir órólegt flug í dag. Lá svo í sófanum hjá Tótu vinkonu og gerði ekki neitt þangað til Björgúlfspabbi og stjúpmóðir buðu okkur í ammrískar pönnukökur með sýrópi og smjöri. Þar voru fjármálin rædd. Aðallega fjárhagsvandræði...... og hversu dýrar tannréttingar væru! Nú sit ég ein í tótuíbúðinni á meðan hún æfir sig í að syngja útí bílskúr og á meðan ætla ég að horfa á einhverja Jane Austin mynd frá BBC. Hún á slíkt í hrönnum.
Ég ætla í engar heimsóknir í Reykjavík. Morgundagurinn fer í læknastúss, næsti dagur í heimferð. Stutt og laggott að þessu sinni.
Gesturinn í Stórholtinu kveður í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.10.2008 | 09:54
Einnkunnadagur í dag.
Fékk úr tveimur prófum í dag. Og ég er bara drulluglöð! Ég var svo sannfærð um að ég næði ekki fimm fyrir sálfræðiprófið sem ég mætti ólesin í (þurfti auðvitað að bjarga verðmætum þegar ég átti að vera að undirbúa prófið og taka slátur.....) en viti menn! ég fékk 7.1! sem segir mér að ég geti brillerað í þessu fagi ef ég fer að taka mig á í lærdómnum! Rétt áðan fékk ég svo úr bóklegri hjúkrun og sá þá hina fjarskalega notalegu tölu TÍU!!!! Húrra! Verst að ég á ekki bót fyrir boruna frekar en aðrir þessa dagana svo að ég held bara uppá þetta með því að fá mér....... GÓÐAN göngutúr!
Annars finnst mér lífið yndislegt. Ég er svo glöð með dásamlegu fjölskylduna mína. Aumingja kallinn minn fékk í bakið og hefur verið heima í tvo daga, held hann ætli í vinnu í dag. Það er ótrúlegt með hann Harald, öfugt við aðra karlmenn, ....flesta a.m.k, að hann verður eins og óþekkur krakki ef hann veikist. Ég þarf nánast að setjast ofan á hann til að láta hann leggjast í rúmið. (hljómar mjöööög tvírætt en það er nú einu sinni þannig að setjist ég ofan á einhvern,.. tja.. þá stendur hann ekki upp fyrr en ég stend upp!! ) Ibufen hef ég skammtað honum og tryggt að hann gleypi töflurnar, borið á hann bólgueyðandi gel og skipað honum í heita pottinn og að hafa sig hægan á milli. En sama hvað, hann kvartar aldrei!
Unglingurinn er farinn að setja á sig rakspíra.. óumbeðinn, og hann er að fara á Íþróttahátíðina í skólanum í dag. Unglingastigið hefur verið að undirbúa þetta alla vikuna, skreyta salinn fyrir ballið með seríum og huggulegheitum. Merkilegt með þessa unglinga. Nú er ég með leiklistarnámskeið fyrir unglingastigið í skólanum og það er svoooo gaman! Þau eru svo frábær og áhugasöm. Mér þykja unglingar nefnilega oftast eitthvað svo ískyggilegur hópur. En svo bara eru þau frábær!
Og ferðinni er heitið suður á bóginn á sunnudaginn, rannsóknir á mánudaginn og svo aftur heim á þriðjudag. Ég nenni nú ekki að eyða of löngum tíma þarna syðra þar sem fólk fer og mokar út peningum til að troða í bankahólf, æðir í búðir til að byrgja sig upp af innfluttri vöru og ég veit ekki hvað og hvað. Skil ekki af hverju aumingja fólkið borðar ekki bara slátur??? :)
Ég held að við hér finnum ekkert svo mikið fyrir þessari kreppu. Vestfirðir hafa verið í áratugalangri kreppu hvort eð er, utan einstaka lukkunar pamfíls sem var úthlutað sneið af þjóðarkökunni og gat selt hana. Þeir eiga margir hverjir enn heimili hér hjá okkur. A.m.k sumarheimili.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.10.2008 | 22:47
Við étum bara slátur!
Einhvern tíma sagði mætur maður (hlýtur að hafa verið Sjálfstæðisflokksbundinn.... gæti mögulega heitað Pétur Blöndal!) að það mætti vel lifa af 100 þúsund kalli á mánuði. Maður æti bara slátur.
Nú, ég ruddist ásamt góðri konu í sláturgerð, enda fátt annað í stöðunni í krepputíð. Og við kláruðum þetta með glans, heimasaumaðar alvöru vambir og allur pakkinn. Og nú er ég að baka. Enda eru peningar mánaðarmótanna búnir og ekki nema..... sjöundi.. eða eitthvað. Allavega laaaaangt til næstu mánaðarmóta. En nóg er til í kistunni af sviðum og slátri, grænkálið vex eins og vindurinn í matjurtagarðinum og kartöflurnar óuppteknar, mjölbirgðir í búrinu og þá er engum hér neitt að vanbúnaði. Lett ðe físt bíginn!!!!!
Ætla að taka kúmenbrauðið úr ofninum og troða haframjölskryddbrauðinu inn. Ef ég hætti að blogga í náinni framtíð.... nú, þá er það bara af því að rafmagnið hefur verið tekið af! :)
(Elsku Guðmunda mín, ef þú lest þetta þá verð ég með þér í huganum á morgun. Guð blessi minningu bróður þíns og ykkur fjölskyldu þína. Og ég hlakka til að fá þig heim og láta þig fá slátrið þitt! Það bragðast unaðslega!)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.10.2008 | 18:25
Frk. "Best í öllu"
Er það ekki ótrúlegt hversu mikil ítök heimtufrekjan getur haft í einni manneskju? Ég er bókstaflega að rifna úr frekju og tilætlunarsemi! Ég fékk svo fínar einkunnir fyrir þrjú síðustu verkefnin í Líffæra og lífeðlisfræði, (10 fyrir þau öll) að ég bjóst ekki við neinu undir níu fyrir hlutaprófið sem ég tók á mánudaginn. Þegar ég fékk einkunnina, 8.8 varð ég í alvörunni drullufúl! Einhvern tíma hefði mér nú þótt allt yfir fimm ágætt en nú er það orðið þannig að allt undir níu er bara engan vegin ásættanlegt. Ég vil vera BEST!! Ég stóð mig meira segja að því að fara að argast við kennarann, greina spurningarnar sem ég fékk vitlaust fyrir og reyna að kenna henni um að ég hafi svarað vitlaust! Spurningarnar væru ekki rétt fram bornar! Allt í einu áttaði ég mig og dauðskammaðist mín! En um leið finnst mér þetta svo fyndið því að þetta er ekkert líkt mér.
Ég hef aldrei verið neitt sérlega dugleg að leggja mig fram við eitt né neitt. Ég meina ekki að ég sé algjör slugsi, heldur bara að ég hef ekkert verið að reyna meira á mig við hlutina en nauðsynlegt er! En nú er það orðið þannig að meira segja í gítartímanum áðan var ég að farast úr pirringi yfir því að geta ekki spilað alveg eftir bókinni! Þangað til Halli gítarkennari benti mér á það, á sinn yfirmáta hægláta og hógværa hátt, að þetta væri nú annar tíminn og mér óhætt að slaka á!!!
Kannski er ég bara að "missaða!" -það er nú varla það versta!
Próf í hjúkrun á morgun og á morgun fer mamma. Hún er búnað vera hér í tvær vikur, tæpar. Sláturgerð um helgina og svo próf í Sálfræði í mánudag. Og þá er nú farið að styttast í rannsóknina stóru. Ég krossa bara fingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)