Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Kveðja.

Ég fel í forsjá þína.

Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dre
yma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.


Svo bregðast krosstré sem önnur...

ég er lögst í flensu. Hiti, höfuðverkur og ógeð. hef ekkert farið á sjúkrahúsið í dag, af þessum sökum. Það er nú hámark eymingjaskaparins að veikjast þegar maður á að vera að vaka yfir öðrum veikum! En svona er það nú samt. Ég verð orðin hress á morgun, ætla ég! Það var fundur í gær með lækninum hans pabba og hann fór yfir stöðu mála á hreinskilinn og nákvæman hátt. Það var fínt að fá svona greinagóðar upplýsingar þó þær væru auðvitað kannski erfiðar að melta. Ég ákvað að fara ekki heim á mánudag-þriðjudag eins og ég hafði verið að hugsa um, heldur vera bara hér þar til yfir lýkur. Halli og drengirnir mínir koma svo bara hingað þegar þar að kemur og ég fer með þeim heim. Ég þarf nú eitthvað að hafa samband við skólann minn og athuga hvernig er með prófin mín og þessháttar.

Ég er farin að sakna fjölskyldunnar minnar ferlega mikið en get nú huggað mig við það að Snjólaug, æskuvinkona mín er komin frá Þýskalandi og verður í tvær vikur hjá mömmu sinni, henni Ingu minni! það verður æðislegt að hitta þær.

Knús á línuna.


Jólasnjór á Akureyri

veðrið hefur ekki verið neitt sérstakt síðan ég kom norður. En núna eftir hádegið hefur verið afskaplega fallegt og jólalegt úti hérna á Akureyri. Snjónum kyngir niður í logni. Ég sit í eldhúsinu hennar Yrsu og var að enda við að skila af mér verkefnum fyrir skólann minn. Það er ágætt að einbeita sér að einhverju svo hversdagslegu. Ég var hjá Pabba í nótt og fyrrinótt. Starfsfólkið á spítalanum er indælt og ég fékk rúm í nótt til að sofa í. Þar gat ég legið og lesið Dalalíf Guðrúnar frá Lundi og dottað af og til. Dalalíf er ansi hreint merkileg bók. Hún er eiginlega merkilegust finnst mér, fyrir öll þau ógrynni af slúðursamtölum sem hægt er að klístra á hverja eina og einustu blaðsíðu! Þvílík snilld! Ég ætla að skreppa á eftir í Hagkaup eða Toys´r´us til að sækja jólagjafir handa drengjunum mínum áður en ég fer aftur upp á sjúkrahús.

Góðar stundir.


Farin norður

Elsku Auður mín ætlar að keyra mig. Ég þarf að fara til að kveðja. Við keyrum í nótt.

Guð blessi ykkur, og þangað til næst:

Adjö


Próf í verklegri hjúkrun.

Prófið var í dag. (sunnudag) Æfingadagurinn í gær. Ég var svo stressuð í prófinu að ég bókstaflega var SVEITT í framan! Einkuninn kom á námsskjáinn rétt í þessu: OG ÉG FÉKK NÍU!!!!!

Það þýðir að ég hef afbragðs hæfileika til að gera m.a. eftirfarandi:

Gefa stólpípu

Skipta um þvagpoka sem og önnur umgengni við þvaglegg, þurfir þú á honum að halda...

Mæla blóðþrýsting og önnur lífsmörk

taka hin ýmsu lífssýni, s.s. hráka-þvag og saursýni, stixa þau og leita að td. blóði í téðum sýnum.

Annast ýmsar almennar innhellingar í endaþarm.

Mata sjúkling

Skipta um stómapoka

Gefa neðanþvott

Og fleiri og fleiri skemmtilega hluti. Að sjálfsögðu vantar mig góða sjálfboðaliða til æfinga.

Verið ekki hrædd við að bjóða ykkur fram, ég meina... ég fékk NÍU! Grin

 

 

 


Besta Bond mynd sem ég hef séð!!!

Ég hef eiginlega aldrei verið mikill Bond aðdáandi en þessi hér er tvímælalaust sú allra besta!!!!

Annars er ég skrítin. Ég er ekki Bond manneskja, mér fannst Mamma mia ekkert sérlega merkileg mynd og nenni ekki að sjá hana aftur, og haldið ykkur fast; ég er meira að segja lítill aðdáandi Laxness. Þetta fer maður auðvitað með eins og mannsmorð, enda kemst það næst landráði að fíla ekki Laxness. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að reyna, í hroka sínum, að telja mér trú um að ef maður fíli ekki Laxness, þá skiljimaður hann ekki! Það er ekki málið. Hann er bara ekki minn tebolli. Mér finnst stafsetningin og málfarið tilgerðarlegt, alveg eins og mér finnst asnalegt hjá ungum íslendingum að nota Zetu í skrifum sínum. Ég meina, við ólumst ekki upp við setu. Til hvers að nota hana? Og ég fæ alltaf oggulítinn kjánahroll að sjá fólk tildæmis troða X-i í stað -ks-, og -gs.- (loxins og loxuða og þar fram eftir götum.)

Ég er almennt lítið fyrir tilgerð. Sama á hvaða plani hún er.

Það er próf í verklegri hjúkrun um helgina svo að það verður bara rólegt. Næsta vika fer svo líklegast í að vera með undarlega og óútskýrða sjúkdóminn. Sem ég hef orðið megnustu óbeit á. Það er nefnilega fullt starf að vera sjúklingur. Ég held að kenningarnar um alla þá sem svindla á kerfinu til að kreista út nokkrar krónur í "skjóli" þess að vera öryrkjar eða hvað annað, séu skítfallnar í mínum huga. Það nennir enginn að standa í þessari djöfuls pappírsvinnu, vottorðaveseni, símtölum og öllu því sem þessu fylgir. Það er miklu minna mál að mæta bara í vinnu.  - Geti maður það á annað borð. Plús hversu miklu betur það er launað! (þá er ég reyndar ekki að tala um störf sem fela í sér ábyrgð á börnum eða gamalmennum. Bara störf sem fela í sér ábyrgð á peningum ;Tounge ) )

Góða helgi.


Og þangað var förinni heitið....

Uss...  og við sem ætluðum að flytja til Danmerkur!!

Ég spyr nú bara; getur þetta verið satt?

Hefur þetta ekki einhver eftirköst ef satt er?

Er svona framkoma við fólk í sjávarháska ekki hreinlega ÓLÖGLEG??

Hvað ætlar Valrún að gera í málinu? Eða Ellarósa?

ómægodd.....


mbl.is Danir vildu ekki bjarga Íslendingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ylfa óvinsæla

Ég fór í blóðprufu í morgun og henti inn þvagprufu í leiðinni. Bara svona til að gera bæði. Fór svo á Skýlið og sníkti kaffi og snúða. Hékk þar fram að hádegismat svo ég gæti líka sníkt steiktan fisk í raspi og mysuostasúpu með rjóma. Reyndi að sannfæra Hildi yfirmann minn um að ég væri hress og mætti alveg vinna. Og ég er ekkert að rugla, ég ER hress! En nei. Hún kærði sig lítið um mína starfskrafta! Eins og ég er dásamlegur starfsmaður!? Það er ekki nóg með að hún vilji mig ekki í vinnu, það vill enginn vinna með mér! Crying 

Ég vorkenni mér svo hræðilega mikið að ég er bara hreinlega með tárin í augunum daglangt! Ég er óvinsælasti starfsmaður Bolungarvíkur. Og ég sem hélt að ég væri ekki einasta vel liðin, heldur bara þó nokkuð vinsæl að vinna með....... En laun heimsins eru vanþakklæti!


Próf, afmælishjólið og sviðin hans Snorra sels.

Eftir frekar langt vortímabil í nóvember er farið að vetra aftur. Og ekki seinna vænna! Ég er að átta mig á því að jólaskrautið, -sem var sannast sagna aldrei búið að ganga fyllilega frá, er að fara aftur upp á veggi, borð og glugga! Baldur gat farið á sleðanum sínum í leikskólann á morgun í þessari aumingjalegu föl sem þó er úti og vonandi helst það þangað til hann er búinn í leikskólanum svo hægt sé að draga hann heim líka!

 Helgin var fín. Ég kom heim á laugardaginn og við undirbjuggum afmælið ásamt því að ég fór í laaaaanga gönguferð með Urtu sem var búnað sakan göngutúranna okkar. Á sunnudag átti svo frumburðurinn afmæli, heillra fjórtán ára afmæli! Við vorum nú ekki með merkilega veislu, bara svona smá vöfflukaffi. En það var samt gaman. Við slógum í hjól handa honum, við, pabbi hans og stjúpa, amma hans og afi og langamma og langafi. Hann var að vonum ánægður með gripinn sem er einhverskonar sérstyrkt útgáfa af torfæru... eitthvað. Pabbi hans Björgúlfs, Páll Einarsson sagði reyndar syni sínum að það væri bara sérstyrkt ef ske kynni að mamma hans stæli því eitthvað... og hann á náttúrlulega eftir að bíta úr nálinni með það. Alltsvo Páll Einarsson!

Sálfræðipróf í gærmorgun og mér gekk hræðilega! Fór bara heim og lagði mig í þunglyndi eftir skóla! Mundi þó að dagurinn var eiginlega gleðidagur, því að Einar afi Bjúlfs átti 69 ára afmæli og að auki áttu þau hjónin, hann og Ella fjörtíu ára brúðkaupsafmæli!!! Húrra fyrir þeim!

Í morgun var svo próf í líffæra og lífeðlisfræði, sem mér gekk nú öllu betur í heldur en í goddamn sálfræðinni..... og nú er ég að sjóða svið handa honum Snorra mínum sel. Hann Snorri minn selur er maðurinn hennar Guðmundu vinkonu minnar og við deilum sama matarsmekk, ég og hann. Guðmunda fær bara að éta rófur :)

 


Áfram niður Memory Lane....

Ég hef verið að kjafta við Ellurósu vinkonu mína á msn. Hún býr í Danmörku. Svo hitti ég Lindu í gær. Og í fyrrakvöld hitti ég gamla bekkjasystur og æskuvinkonu, hana Silju Gunnars. Þegar farið er að rifja upp gamla daga fer einhver skriða af stað. Þar á meðal þessi:

Sérlega hallærislegt lag og myndbandið er AGALEGT!  Enda er þetta sænsk Country-sveit, ekki við öðru að búast!

En... engu að síður, ..eitt af þessum lögum sem rifja upp einhvern sérstakan stemmara. Blöndu af angurværð, fortíðarþrá og ...einhverju sem ekki er hægt að útskýra.

Annars er ég að fara heim á morgun. Loksins! Björgúlfur minn á afmæli á sunnudaginn. Fjórtán ára! Hann hélt matarboð í kvöld fyrir vini sína. Þau fengu sér hamborgara og spiluðu. Eittvað annað en ég var að gera þegar ég hélt uppá fjórtán ára afmælið mitt! Það er á hreinu! Hann er góður drengur og fetar ekki í fótspor mömmu sinnar þegar kemur að unglingahegðun. Sem betur fer!

Á sunnudaginn verður vöfflukaffi fyrir alla sem vilja kíkja.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband