Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Fríhelgin

Það er að verða hjá mér viðtekin venja að fríhelgarnar mínar líta út svipað og þessi: næturvakt í nótt sem leið, kom heim uppúr átta í morgun, mætti á kvöldvakt kl: hálf fjögur í dag, heim klukkan tólf og svo aftur í vinnu í fyrramálið klukkan átta. Eins á sunnudagsmorguninn. Á mánudag hefst svo bara venjuleg vinnuvika.....Smile

Sem betur fer líkar mér vinnan mín alveg hreint með ágætum svo að það er allt í góðu lagi. Synirnir litlu "droppa" hér inn þegar þeim sýnist, fá kex eða annað í gogginn hjá konunum og klapp á kollinn frá vistmönnunum. Ósköp heimilislegt. Björgúlfur er aftur á móti farinn til Spánar. Flaug út í nótt með pabba sínum og hans slekti og mér skilst að ströndin, sólin og sjórinn hafi tekið vel á móti þeim. Ég er að reyna að vera ekki afbrýðissöm, hugga mig við að vera bráðum að fara til Dalvíkur og Akureyrar í sólina og hitann þar !!

Á Dalvík er stödd núna æskuvinkona mín, Snjólaug. Sem ég lék mér við á hverjum degi því að mamma hennar var fóstran mín. Þá var ekki fyrir leikskólunum að fara. Ég fór aldrei í leikskóla, bara til Ingu. Sem var miklu betra. Og Inga átti Snjólaugu sem er ári eldri en ég. Og við Snjólaug áttum dásamlega daga saman.                                                                                                                Veiddum hornsíli og geymdum í krukkum, týndum kuðunga í brimgarðsgrjótinu, suðum þá og plokkuðum innan úr þeim með nál til að hirða fallegan kuðunginn, hófum skelfiskútgerð í sandkassanum hjá henni sem fólst aðallega í einni sláturtíð sem lyktar enn viðbjóðslega í minningunni, brugguðum eplavín í bílskúrnum heima hjá mér, átum rabarbara með sykri og vorum með bú rétt hjá Móholti sem var rifið fyrir löngu og seinna var leikskólinn stækkaður yfir búið.         Við bjuggum til steypu þegar verið var að byggja heilsugæslustöðina á Dalvík, úr stolnu sementi og jörðuðum þresti til þess eins að grafa þá upp aftur og sjá maðkaveituna!                                    

Tíndum kríuegg í Höfðanum, óðum grútinn frá lifrarvinnslunni upp að hnjám austur á Sandi,  Tókum upp ógleymanlega útvarpsþætti og frumsamda tónlist á kassettutæki, fórum með nesti í kirkjubrekkuna og drukkum djús úr glerflösku undan Vals-tómatsósu með. Þar sátum við í háu grasi í felum fyrir umheiminum og skeggræddum. Við vorum óaðskiljanlegar.

Svo komu unglingsárin, Snjólaug fór í íþróttir og ég fór að reykja! Við eignuðumst sitthvorn vinahópinn. En ég lít alltaf á hana eins og systur mína. Og við erum perluvinkonur. Mamma hennar, fóstran mín hún Inga var ströng kona en ákaflega réttlát. Og henni þótti vænt um mig eins og dóttur sína. Það fann ég alltaf. Og ég elska hana eiginlega á sama hátt og maður elskar móður sína. Nú ætlum við þrjár, ég, Snjólaug og Inga að hittast aftur eftir laaaaangan tíma. Við höfum ekki komið saman allar þrjár í mörg mörg ár. Og ég hlakka til. Við Snjólaug munum eflaust afhjúpa einhver ósögð prakkarastrik. Það er nóg af þeim í pokahorninu enn. Og Inga hlær að þeim. Þó hún hefði líklega ekki hlegið þá. Smile

Snjólaug hefur sérkennileg og afar falleg augu. Einu sinni tók ég mynd af þeim.

Augun í Snjólaugu


Já, nú er gott að búa í Víkinni

Komið bara til mín, skjálftafólk. Nóg pláss og tilvalið að skella sér bara í snemmbúið sumarfrí vestur á meðan þetta gengur yfir Smile

Hér er sól, komið að öðrum slætti í garðinum (man ekki eftir að hafa slegið tvisvar í maí! ), allir í stuði og grillilmurinn allsráðandi. Ætla með drengina mína í sund og skola af þeim skítinn eftir drullumall dagsins. En fyrst aðeins á pallinn að fá mér kaffi í sólinni.


I stuði með múkkanum

Tekið af BB.is

 

Grjóthrun í Hólshreppi

bb.is | 28.05.2008 | 16:57Góður hljómburður á Óshlíðinni

Grímur Atlason, fyrrum bæjarstjóri í Bolungarvík, og þúsundþjala-læknirinn Lýður Árnason héldu örtónleika á Óshlíð í dag ásamt Haraldi Ringsted. Var það gert í tilefni af útgáfu fyrstu hljómsveitar kappanna, Grjóthruns í Hólshreppi. „Þetta gekk mjög vel. Það komu tveir til fjórir áhorfendur en fjöldi bíla keyrðu framhjá og múkkinn var mjög hress og greinilega að fíla þetta. Við gátum þröngvað tveimur geisladiskum á orkubússtjórann og formann stjórnar OV. Við ætluðum að gefa fleiri en náðum ekki að stoppa fleiri bíla“, segir Grímur sem er hæstánægður með hvernig til tókst. „Við töpuðum engu á þessu þar sem við gáfum bara tvo diska og svo þurfti ekki að setja upp hljóðkerfi.“ Aðspurður um hljómburðinn segir Grímur hann vera mjög góðan. „Og það var ekkert grjóthrun, nema þá auðvitað í okkur. Það var mikið hrun í okkur.“

Hljómdiskurinn er kominn út en er væntanlegur í verslanir á föstudag.

Endurnýjun Vilbergs

I gær átti afi VilliValli 78 ára afmæli. Hann fæddist á afmælisdegi Vilbergs föður síns. Og í gær fæddist enn einn merkilegur drengurinn inn í ættina. Hann er sonur Guðnýjar Rúnarsdóttur, Vilbergssonar, sumsé hálfsystur minnar. Já, og faðirinn heitir Markús :)

Eg semsagt varð móðursystir í gær. Alltaf gaman að bæta í flóruna. Þetta var myndarstrákur, 17 merkur og 51 cm. Líkur þeim bolvísku fændum sínum B, B og B sem voru allir tröll að burðum við fæðingu. Drengurinn gengur undir vinnuheitinu "Afmælisgjöfin hans afa" hér á heimilinu. Eg vonast til að sjá hann í júní þegar ég fer suður.

En gospeltónleikarnir gengu vel og svei mér ef ég hálf-frelsaðist ekki bara við allt hallellújað! Fleiri komust að en vildu, eins og stundum er sagt, þó sat slatti og hlýddi á tónleikana. Gaman að sjá hvað fólk dillaði sér í sætunum og klappaði. Allir í stuði semsagt. Eg ætla að setja niður fræ og kartöflur í dag. Matjurtagarðurinn minn er loks tilbúinn, ég get ekki beðið eftir uppskerunni!

 


Bless the Lord´o´my soul!

Það eru tónleikar í kvöld. Vortónleikar Gospelkórs Vestfjarða. Þeir hefjast klukkan hálf níu í Isafjarðarkirkju og það kostar 1000 kall inn. Frítt fyrir tólf ára og yngri. Við syngjum skemmtileg gospellög og það verður áræðnilega rífandi stemning!

Vonast til að sjá sem flesta!


Hefndarþorsti húsfreyjunnar.

Prýðilega skemmtileg helgi að baki. Sambland af áti, menningu, hreyfingu og kósíheitum. Og skyndilega er skólinn að verða búinn hjá drengjunum, garðurinn kominn í blóma, nóttin orðin björt, hitastigið dásamlegt og gangagerðin hafin. Og allt skall þetta á, algjörlega óforvarendis! Mætti mér beint í andlitið.

Hugtakið hefnd, hefur verið mér svo hugleikið undanfarna daga. Ég er að analísera með sjálfri mér þessa fornu hvöt og reyna að skilja hana. Hvað veldur því að manneskjan finnur hjá sér hefndarfýsn? Hefur hún minnkað síðan fornkapparnir á síðbrókunum hjuggu hvern annan í herðar niður í hefndarskyni fyrir hin daglegu morð og aftökur sem í þá daga tíðkuðust ef marka má æsiskáldsögur frá Stútungaöld? Eða erum við bara orðin "civilíseraðri" í hefndargjörðum?

Til að finna við þessu svörin sem mig æskir hef ég sett í gang prójektið "hefndarþorsti húsfreyjunnar,"sem er einskonar leikritasmíð.....eða ekki. ....  Þar sem venjuleg húsfreyja vinnur markvisst að því að koma fram hefndum á þeim sem hafa sært hana. Það sem mest spennandi verður við þessa smíði, er að komast að því hvort hefndin er í raun og sannleika sæt? Kannski er það bara mýta? Eins og svo margt annað sem við temjum okkur að klifa á í sífellu en reynist svo jafnvel vera marklaus þvættingur. En hversu stór þarf hefnd að vera? Erum við að tala um hárfínar örvar eða blóðugan hefndar-splatter með limlestingum og afhausunum? Eða lævísa hefnd? Sem er þannig beitt að smátt og smátt er grafið undan "fórnarlambinu" án þess að það fái rönd við reist? Líf þess smám saman eyðilagt, partað niður og fórnarlambið stendur eitt eftir í eymd og vesöld? -Er það ekki svona dæmigerð kven-hefnd?

Sjómannadagurinn á næsta leiti. Á maður þá ekki að vera extra góður við sjómenn?

Ég mun gera mitt besta! Tounge


Flotti hringitonninn minn!


Kona, láttu slag standa!

....hljómaði í eyrum mér í nótt þegar ég var að reyna að sofna. Og það hreif. Slagur verður látinn standa. Er annað hægt? Hitti hjónin sem búa í "Húsi andanna" í gærkvöldi, reyndar í allt öðru húsi, og á þeim skildist mér að ekkert annað væri í stöðunni. Þvílík hjón sem þau eru, Lilja og Arnar. dásamlegt fólk. Segja ekkert nema fallega og uppbyggjandi hluti við aðra. Svo ég hefi heyrt, í það minnsta. Enda eru þau skyld Önnsku vinkonu minni svo að það er ekkert skrítið við það. Eintómar gæðasálir í þeirri ætt, líklega.

Mér finnst þetta hinn furðulegasti dagur. Eg vaknaði klukkan SJÖ! En ég er venjulega að skríða heim klukkan átta á morgnana. Vann bara til tólf og á eftir að gera fullt af hlutum. Leita að vegabréfum, skipuleggja suðurferð og allt mögulegt. Svo ég tali nú ekki um: finna út hvað ég á að gera í næstu viku þegar barnapían mín Björgúlfur fer í sína spánarreisu!!!

En nú er mér ekki til setunnar boðið, slagur skal látinn standa, spilin hafa verið gefin og ég er með tóma ása á hendi :) Eg ætla inná Isafjörð að fá mér yfirbreiðslu yfir matjurtagarðinn svo að ég fái góða uppskeru í haust. Og þá er best að sá vel ........ Miðast ekki uppskeran við það??? Hversu vel maður sáir?

Eg er í pilsi, sólin skín, og forkeppni Júróvísíjón er í kvöld. Partý hjá mér og drengjunum. Og svo ætla ég ekkert að blogga aftur fyrr en eftir helginaTounge

Það þarf að gefa kálfunum mjólk líka...


Þriðjudagur

Það er agalegt að sofa af sér heiðskýra sumardagana sem þennan. En þannig er það þegar maður vinnur næturvinnu. Og til huggunnar þá eru sumarnæturnar björtu hér vestra eiginlega enn fegurri en sumardagarnir. I morgun klukkan átta, þegar ég gekk heim var ég glaðvakandi. Og tveimur tímum síðar lá ég ennþá glaðvakandi í rúminu og hlustaði á fuglasöng. Eg hef líklega sofnað um ellefu leytið. Það er erfitt að sofna þegar allir aðrir vaka. Og þetta þýddi það að ég var að skríða á fætur um hálf fjögurleytið. Agalegt. En samt svooooo gott að sofa.

Eg er að reyna að leggja einhver drög að smá ferðalagi með drengina mína litlu tvo. Eg fer í frí 10 júní og mig langar að fara norður og kíkja til Dalvíkur og heimsækja Ingu mínaog Snjólaugu, Gunnsu frænku, Dísu og Birni og þau. Hef ekki farið til Dalvíkur í óratíma. Eitthvað að stoppa á Akureyri líka og eyða svo einhverjum dögum í RVK með Lindu minni. Við höfum verið vinkonur við Linda síðan í gamla, gamla daga, þegar við vorum litlar blómarósir á Dalvík. Það hefur sko á ýmsu dunið í okkar sambandi í gegnum tíðina en vináttan hefur alltaf haldist. Samt erum við ferlega ólíkar. Sem er eiginlega kostur. Og nú er kominn tími til að vera með Lindu. Rifja upp gamla tíma, spjalla um nýja tíma og knúsast og kúldrast eins og við erum vanar.

Jæja, það er líklega best að koma sér að einhverju verki. Hér er verið að myndast við að koma matjurtargarðinum í gagnið. Búið að moka í hann fleiri kílóum af skít, kalki, fosfór og Guð má vita hvað. Hann er nú ekki sérlega næringarríkur, bolvíski jarðvegurinn. En mér skal takast að koma upp einhverju brakandi fersku fyrir haustið. Káli og rófum í það minnsta!


Mánudagur

Það er ennþá einhver lægð yfir mér svo ég læt bara nægja að þruma inn nokkrum myndum frá helginni. Sveitarómantíkin var allsráðandi.

Baldur að kviðslíta hvolpinnAllir spreyta sig   í mjólkurhúsinuBríet höndlar sinn mjúklega

Konan sem ber balann!með skítugt nef!

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband